Sálmabók

467a. Smávinir fagrir

Úr Hulduljóðum

1 Smávinir fagrir, foldarskart,
fífill í haga, rauð og blá
brekkusóley! Við mættum margt
muna hvert öðru´ að segja frá.
Prýðið þið lengi landið það
sem lifandi Guð hefur fundið stað
ástarsælan, því ástin hans
alls staðar fyllir þarfir manns.

2 Vissi ég áður voruð þér,
vallarstjörnur um breiða grund,
fegurstu leiðarljósin mér,
lék ég að yður marga stund.
Nú hef ég sjóinn séð um hríð
og sílalætin smá og tíð,
munurinn raunar enginn er,
því allt um lífið vitni ber.

3 Faðir og vinur alls sem er!
Annastu þennan græna reit,
blessaðu, faðir, blómin hér,
blessaðu þau í hverri sveit.
Vesalings sóley! Sérðu mig?
Sofðu nú vært og byrgðu þig.
Hægur er dúr á daggarnótt,
dreymi þig ljósið, sofðu rótt.

T Jónas Hallgrímsson um 1840
L Atli Heimir Sveinsson 1996

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is