Sálmabók

501. Þú komst að lokum

Nú dagar

1 Þú komst að lokum, langt að rekinn gestur,
og líktist mynd úr ævintýrabók
því margir höfðu málað þína drætti
en mig þín vera sjálf á vald sitt tók.
Þitt nafn menn hafa haft sem skraut, til sölu,
og hjúpað með því grimmd og vígafar,
mörg háreist smíð þig hefur átt að tigna
en hógværð þín á öðrum brautum var.

2 Þú ert það barn úr köldum fjárhúskofa
sem kólnar þegar snauður gleymdur er
en vermist þegar hönd þín fær að hjálpa
og hjarta mannsins opnast fyrir þér.
Þú ert í hverri gröf og sorg og sári
og sigrar eins og vorsins hljóði blær,
þitt bros ég sé sem bjarma dags á tindum,
þú bjargar þar sem engin leið er fær.

3 Þú ert það ljóð um lífið sem ég gleymdi,
það ljósið sanna er minn vilji brást.
Þá sveik ég mig en skuggsjá hjartans hefur
samt hulda mynd sem speglar þína ást.
Kom nær og vertu hjá mér, húmið kemur,
en hjá þér skín mér ljós sem aldrei fer.
Þitt líf er mitt, ég heyri sönginn hljóma
um heiðan dag og eilíft vor með þér.

T Ylva Eggehorn 1999 ̶ Sigurbjörn Einarsson 1999 – Vb. 2013
Så kom du då till sist / Innan gryningen
L Benny Andersson 1999 – Vb. 2013
Så kom du då till sist / Innan gryningen
Sálmar með sama lagi 694
Eldra númer 855
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is