Sálmabók

507. Af því hann kom

1 Af því hann kom og var sem morgunroðinn
og rauf Guðs þögn og ótta manns við dauðann,
af því hann bæði’ í orðum og í gjörðum
fékk opnað nýja leið til himnasala.
Af því hann var Guðs son og einn af okkur
og gekk um kring, um götur og um garða,
af því hann lét hinn síðsta verða fyrstan
og færði blindum sýn og hjörtum huggun.

Við getum haldið út á vondum tíðum
og vitum Guð er nærri er við líðum,
því má hin svikna von sem sólin rísa,
nú sjáum við að ríki Guðs mun lýsa.
Við getum haldið út á vondum tíðum
og vitum Guð er nærri er við líðum,
því má hin svikna von sem sólin rísa.
Sjá! Guð er hér!

2 Af því hann velti' um borðum víxlaranna
og við þeim tók sem aðrir höfðu hafnað,
af því hann brosti þegar börnin sungu
og breiddi' út líf sem margir ekki sáu.
Af því hann tæmdi bikarinn hinn beiska
sem barmafullur var af illskugalli
og bar sinn kross og allar okkar syndir
en dauði hans fær boðað lífið nýja.
Við getum haldið ...

3 Af því að gröf í garði sprengd var opin
og broddur dauðans brotinn var þann morgun,
af því þær fréttir megnar enginn stöðva,
þær flæða fram í söngvum, orði’ og dansi.
Af því hans andi lætur hjörtun bráðna
og lítill gustur alla múra falla,
af því með honum aldna dreymir drauma
og hina ungu langar til að lifa.
Við getum haldið ...

T Federico J. Pagura 1979 – Holger Lissner 2000 – Kristján Valur Ingólfsson 2006 – Vb. 2013
Tenemos Esperanza
L Homero R. Perera um 1980 – Vb. 2013
TENEMOS ESPERANZA
Eldra númer 856
Eldra númer útskýring T+L

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is