601. Vér fetum brautu bjarta ♥
1 Vér fetum brautu bjarta
með bæn og söng í hjarta
til þín sem Herra heitir
og hjálp og styrk oss veitir.
2 En þangað leiðin liggur
svo ljós en margur hyggur
þar tóm þótt takmark eygi
og týnist af þeim vegi.
3 Því kom í krafti sendur
með kærleiks líknarhendur,
Guðs son, að græða, líkna,
að gefa líf og sýkna.
4 Vort líf og lán þú gefur,
oss líknarörmum vefur.
Þér látum lofgjörð óma
sem leystir oss úr dróma.
5 Nú forða fári illu
og fyrirgef oss villu
við loka lúðurhljóminn
að lausnar fáum dóminn.
T Kristján Valur Ingólfsson 1974 – Vb. 1991
L Selnecker 1587 – Sb. 1751
Nun lasst uns Gott dem Herren