670. Sólin blygðast að skína skær ♥
1 Sólin blygðast að skína skær
þá skapara sinn sá líða,
hún hafði’ ei skuld, það vitum vær,
þess voðameinsins stríða.
Ó, hvað skyldi þá skammast sín
skepnan sem Drottni jók þá pín
með hryggð og hjartans kvíða.
2 Yfirgefinn kvað son Guðs sig
þá særði hann kvölin megna,
yfirgefur því aldrei mig
eilífur Guð hans vegna.
Fyrir þá Herrans hryggðarraust
hæstur Drottinn mun efalaust
grátbeiðni minni gegna.
3 Þá sólarbirtunni´ eg sviptur er
sjón og heyrn tekur að dvína,
raust og málfæri minnkar mér,
myrkur dauðans sig sýna,
í minni þér, Drottinn sæll, þá sé
sonar þíns hróp á krossins tré.
Leið sál til ljóssins mína.
T Hallgrímur Pétursson Ps. 41
L Martin Luther 1524 – Gr. 1594
Aus tiefer Not schrei ich zu Dir
Sálmar með sama lagi
686