Sálmabók

799. Davíðssálmur 1

Andstef (Sálm. 52.10)
Ég treysti á náð Guðs um aldur og æfi.

Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur götur syndara
og eigi situr meðal háðgjarnra
    heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins
    og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt sem hann gerir, lánast honum.
    Óguðlegum farnast á annan veg,
    þeir hrekjast sem hismi í stormi.
Því hvorki standast óguðlegir fyrir dómi
né syndarar í söfnuði réttlátra.
    Drottinn vakir yfir vegi réttlátra
    en vegur óguðlegra endar í vegleysu.
Ég treysti á náð Guðs um aldur og æfi.
Dýrð sé Guði, föður og syni
og heilögum anda
    svo sem var í upphafi
    er og verður um aldir alda. Amen.
Ég treysti á náð Guðs um aldur og æfi.

Deila sálmi

Ábendingar til sálmabókarnefndar má senda á salmabok@kirkjan.is