803. Davíðssálmur 91 (1-9) ♥
Andstef (Sálm. 55.17)
Ég hrópa til Guðs
og Drottinn mun hjálpa mér.
Sá er situr í skjóli Hins hæsta
og dvelst í skugga Hins almáttka
segir við Drottin:
„Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á.“
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt eyðingarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og vígi.
Eigi þarft þú að óttast ógnir næturinnar
eða örina sem flýgur um daga,
drepsóttina sem læðist um í dimmunni
eða sýkina sem geisar um hádegið.
Þótt þúsund falli þér við hlið
og tíu þúsund þér til hægri handar
þá nær það ekki til þín.
Þú munt sjá með eigin augum,
horfa á hvernig óguðlegum er endurgoldið.
Þitt hæli er Drottinn,
þú hefur gert Hinn hæsta að athvarfi þínu.
Ég hrópa til Guðs
og Drottinn mun hjálpa mér.
Dýrð sé Guði, föður og syni
og heilögum anda
svo sem var í upphafi
er og verður um aldir alda. Amen.
Ég hrópa til Guðs
og Drottinn mun hjálpa mér.