Hvað er skírn?
Í skírninni þökkum við Guði fyrir barnið og biðjum Guð að vera nálægt því í öllu lífi þess. Barnið er blessað og tekið í samfélag kristinna og söfnuð kirkjunnar. Í skírninni sameinast viðstaddir í bæn fyrir barninu og framtíð þess.
Jesús sjálfur mælti fyrir um skírnina eins og kemur fram í þessum texta sem oft er nefndur skírnarskipunin.
Síðustu orð Jesú til lærisveina sinna í Matteusarguðspjalli:
“Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá til nafns föður, sonar og hins heilaga anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hefi boðið yður. Og sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.”
(Matt. 28, 18-20).
Skírnin er trúarathöfn þar sem beðið er fyrir barninu og fjölskyldu þess.
Skírnin fer þannig fram að prestur leiðir stundina en gjarnan koma fjölskyldumeðlimir að henni á einn eða annan hátt. T.d. með því að fara með bæn, lesa ritningarlestur eða syngja. Oft setja fjölskyldur sitt mark á stundina í samráði við prestinn.