Guð gefi mér æðruleysi til þess að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt.
Hvað er æðruleysi? Það er óttaleysi, hugarró. Með öðrum orðum: Trú, traust á að það er fast undir fótum, hlý og styrk hönd við hlið, hughreystandi rödd, og birta framundan, þrátt fyrir allt.
Jesús segir: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?
Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. - Matt 6.25-34
Drottinn, Guð, mikil raun hefur komið yfir mig, áhyggjur eru að yfirbuga mig, ég veit ekki, hvert ég á að snúa mér. Guð, ver mér náðugur og hjálpa mér. Gef mér styrk til að standast þá erfiðleika, sem þú leiðir mig í, og lát ekki óttann ná tökum á mér. Annast þá, sem mér eru kærir, eins og faðir annst börn sín. Miskunnsami faðir, fyrirgef mér allar mínar syndir gegn þér og gegn mönnunum. Ég treysti á náð þína og fel líf mitt í hendur þér. Gjör við mig, hvað sem þú vilt og það, sem er gott fyrir mig. Hvort sem ég lifi eða dey, þá er ég hjá þér og þú hjá mér, Guð minn. Drottinn, ég vænti komu ríkis þíns og frelsunar þinnar. Amen. - Dietrich Bonhoeffer
Guð, gef þeim vonbrotnu von.
Gjör alla sem vona á þig að boðberum vonar. Lát þeim sem misstu vonina skína augu og viðmót sem vekur von og kjark. Gef öllum börnum þínum gleði í voninni, þolinmæði í þreningum og staðfestu í bæninni. Amen.
Heilagur andi, gef skilningi mínum ljós, vilja mínum kraft og hjarta mínu frið þinn og kærleika. Amen. - Arnold Willer
Lít ekki um öxl og lát þig ekki dreyma um framtíðina. Hún getur ekki gefið þér hið liðna aftur né fullnægt lukkudraumum. Skylda þín og laun – örlög þín – eru hér og nú. – Dag Hammerskjöld
Jesús segir: Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. - Matt. 7.7-8
Æðruleysi er ekki að bíða með hendur í skauti. Fyrirmælin eru skýr: Biðjið, leitið, knýið á! Gerðu óskir þínar kunnar! Við erum hvött til þess að orða óskir okkar, vonir, þarfir og þrár opinskátt við Guð. Og Guð heitir því að hlusta, heyra og gefa langt fram yfir það sem við kunnum að óska og biðja.
Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur. – Pét. 5.7
Óendanlega smátt er sandkornið á ströndinni. Óendanlega stór er kærleikur þinn. Ég er sandkorn á ströndinni, kærleikur þinn hafið. – Matthías Johannessen
Gleði sem maður á með öðrum er tvöföld gleði, og sorg með öðrum er hálf sorg. – Francis Bacon
Oft þurfum við á annarra styrk að halda, annarra von, annarra friði meðan okkar eigin styrkur, von og friður er víðs fjarri. Þrek, von, trú og friður, og jafnvel vit og skynsemi… það kemur og fer. Leyfðu þér að þiggja frá öðrum, réttu út hönd þína og þiggðu. Það er fólk í nánd sem hefur þetta allt að gefa, - og sá ósýnilegi, góði Guð sem þekkir og skilur þig.
Drottinn minn og Guð minn.
Nú finnst mér að öllu sé lokið, að öll von sé úti og að lífið sé einskis vert lengur. Örvænting nær tökum á mér.
Minntu mig á fyrirheit þín, og hjálpa mér að treysta þeim. Hjálpa mér að minnast þess að þú gengur ekki á bak orða þinna. Að ég er barn þitt, sem þú sleppir ekki hvað sem á dynur, þó mér virðist sem þú hafir daufheyrst við öllum bænunum, og lokað á mig öllum dyrum, þá hefur þú ekki sleppt af mér hendi þinni. Þú munt hugga mig. Kenn mér að treysta þér, biðja og vona. Senn mun aftur morgna.
Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn, Jesú Krist. – 1 Kor. 15.57
Fyrir allt sem var – Takk
Við öllu sem verður – Já!
- Dag Hammerskjöld
Svo segir Drottinn: Óttast þú ekki því að ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn. – Jes. 43.1
… svara mér, Drottinn …
Drottinn, hjálpa mér að efast ekki um að þú ert Guð, að Jesús er frelsari minn, að þú ert hjá mér með heilögum anda þínum. Drottinn, ég er oft svo veikur að trúa. Lærisveinar þínir voru líka efagjarnir og áttu erfitt með að trúa á ósýnilega návist þína. Þótt ég sjái þig ekki, þá ertu hjá mér. Hjálpa mér að efast ekki um það. Amen. - Úr sænsku
Trúin og vonin eru ekki deyfilyf sem gera okkur sljó fyrir sársauka og sorgum. Nei, öðru nær. Vonin gerir okkur kleift að horfast í augu við raunveruleikann sem við blasir hér og nú, hversu sár og örðugur sem hann er. Vonin veitir okkur að sjá með nýjum augum, sjá það sem gæti orðið í stað þess að sjá aðeins það sem er og við blasir. Trúin er að grípa í þá styrku og hlýju hönd sem vill leiða gegnum það allt sem lífið sviptir og gefur, höndina sem leiða vill “út og inn,” þerrar tárin, læknar meinin, huggar, styrkir.
Eins og regnið hylur stjörnurnar
og haustþokan felur fjallshlíðarnar
og eins og skýin dylja himinblámann
eins hylur myrkur sorgarinnar
auglit þitt sjónum mínum.
Og þó veit ég að hönd þín
heldur mér fast í myrkrinu
og það nægir mér. Því þótt ég hrasi og detti
þá sleppir þú mér aldrei. Amen. – Gelísk bæn
Ákalla mig á degi neyðarinnar og ég mun frelsa þig og þú skalt vegsama mig. – Sálm. 50.15
En þetta vil ég hugfesta
Og þess vegna vona ég:
Náð Drottins er ekki þrotin,
miskunn hans ekki á enda,
hún er ný á hverjum morgni,
mikil er trúfesti þín!
Drottinn er hlutdeild mín, segir sál mín,
þess vegna vona ég á hann.
Góður er Drottinn þeim er á hann vona
Og þeim manni er til hans leitar.
Gott er að bíða hljóður eftir hjálp Drottins. – Harm. 3.21-26
Því þótt fjöllin bifist og hæðirnar haggist mun kærleikur minn til þín ekki bifast og friðarsáttmáli minn ekki haggast, segir Drottinn sem miskunnar þér. – Jes 54.10
Jesús segir: Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér, mun ekki ganga í myrkri heldur hafa ljós lífsins. – Jóh 8.12
Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. – Jóh 14.27
Æðruleysi er að taka dag í senn
Ímyndaðu þér banka sem á hverjum morgni leggur inn 86.400 krónur á reikninginn þinn og sem tekur til baka á hverju kvöldi það sem þú hefur ekki eytt af þeim. Hvað myndirðu gera við peningana? Nota þá, auðvitað.
Þú átt slíkan banka. Hann kallast tíminn. Á hverjum nýjum morgni færðu 86.400 sekúndur til að nýta á þann hátt sem þú vilt. Á hverju kvöldi er ónotuð stund horfin fyrir fullt og allt. Það eru engir lánamöguleikar eða yfirdráttur, engin leið að leggja fyrir til framtíðar.
Nota því tíma þinn eins skynsamlega og þú getur. Njóttu sólarlagsins með ástvini, lærðu eitthvað nýtt, hjálpa einhverjum sem á erfitt… Ger hvern dag minnisstæðan.
Til að skilja gildi eins mánaðar, spurðu þá móðurina sem eignast barn sem fæddist fjórum vikum fyrir tímann.
Til að skynja gildi eins dags, spurðu fangann sem verður látinn laus á morgun.
Til að skilja gildi einnar stundar, spurðu þá unga manneskju sem bíður í ofvæni eftir að hitta ástina sína sem væntanleg er eftir eina klukkustund.
Til að skilja gildi einnar mínútu, spurðu þá þann sem var að missa af lestinni.
Til að skilja gildi einnar sekúndu, spurðu þá þann sem naumlega var forðað frá slysi.
Til að skilja gildi millisekúndu, spurðu hundraðmetra hlauparann sem hreppti silfrið. Gættu sérhvers augnabliks! – Det år aldrig kørt
Afinn var að spjalla við barnabarnið: Það eru tveir úlfar að takast á innra með þér, óttinn og trúin, vonin og kærleikurinn. Óttinn er reiður, bitur og tortrygginn. Trúin, vonin og kærleikurinn er mildur, hugrakkur og örlátur.
Hvor vinnur? Spurði barnið.
Sá sem þú fóðrar, svaraði afi.
- Watkins
Hið góða þarf iðulega að letra í minni manns, hið slæma límist gjarnan við það.
– Stauderman
Vertu, Guð faðir, faðir minn,
í frelsarans Jesú nafni,
hönd þín leiði mig út og inn,
svo allri synd ég hafni. Amen.
– Hallgrímur Pétursson
Guð æðruleysisbænarinnar er máttur kærleikans, mátturinn sem Jesús Kristur birtir og boðar. Mátturinn sem krossinn sýnir og upprisan sannar. Mátturinn, sem berst með okkur og fyrir okkur þegar við megnum ekki meir. Það er máttur sem aldrei gefst upp á okkur, aldrei missir trú á okkur, jafnvel ekki þegar við getum ekki horft framan í okkur sjálf í speglinum. Hann er þín megin, gengur með þér og gætir þín og vill reisa á fætur leiða heim.
Einu sinni stóð vakningapredikari niðri á torgi og predikaði af miklum móð.
Og drukkinn maður kallaði til hans: “Þetta er tómt bull! Þið hafið verið að predika þetta í tvö þúsund ár og heimurinn er ekkert betri!”
En predikarinn lét ekki slá sig út af laginu heldur galaði á móti: “Sápa hefur verið til í fimm þúsund ár, - og sjá útganginn á þér!”
Betra er að eiga lítið og óttast Drottinn
En mikinn fjársjóð með áhyggjum.
Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika
En alinaut með hatri. – Orðskviðir 15.16-17
Ef þú vilt gefa það besta
Gefðu þá vini þínum fyrirgefningu
Gefðu þá andstæðingi þínum umburðarlyndi
Vini þínum hjarta þitt
Föður þínum hollustu
Móður þinni breytni sem gerir hana stolta af þér
Sjálfum þínum virðingu
Öllum kærleika. – Stauderman: Let me Illustrate
Það voru yfirleitt þau sem villtust sem uppgötvuðu nýju leiðirnar.
Í raun og veru eru öll mannleg bæn bergmál í jarðnesku brjósti af bæninni eilífu, sem yfir oss vakir í himninum. Þegar þú þráir að biðja, þá er það vegna þess að Drottinn hefur náð að vekja þér hugboð um sig, hugboð um það hvert er að leita um allt sem þú þarft, smátt og stórt, um allt sem til heilla horfir um tíma og eilífð. Þegar þú ákallar Drottin, Guð þinn, t.d. í aðsteðjandi vanda eða háska, þá gerist það að ytra atvik hefur loksins vakið þig til vitundar um ákall hans. Þú ákallar hans nafn, hversu oft hefur hann kallað þitt!
Þegar þú biður þá ertu að stilla hug og vitund inn á bylgjulengd þess hugar, sem hjálp þín og blessun er fólgin í. – Sigurbjörn Einarsson
Þakklætið er bestu augndroparnir. Þakklætið lýkur upp augunum fyrir því góða sem lífið gefur þrátt fyrir allt. Þakklætið ummyndar og læknar, það sefar sorgmætt geð, hýrgar þreytt augu, svalar særðri sál.
Ef eina bænin þín á ævinni væri “þakka þér!” þá nægði það. – Eckhart
Hamingja er heilbrigt viðhorf
Þakklátur andi
Hrein samviska og hjarta fullt af kærleika.
Ráð til að verða vansæll
Væntu þess að aðrir geri þig hamingjusaman
Kenndu öðrum um ófarir þínar
Notaðu orðin “bara ef” eins oft og þú getur þegar um tíma,
Peninga eða vini er að ræða
Berðu það sem þú átt saman við aðra
Vertu alltaf alvarlegur
Reyndu ávallt að gera öðrum til geðs
Segðu aldrei nei
Hjálpaðu öðrum en leyfðu aldrei öðrum að hjálpa þér
Met eigin þarfir sem minnst
Ef einhver hrósar þér hristu það þá strax af þér
Gagnrýni einhver þig miklaðu það þá fyrir þér
Haltu öllum tilfinningum þínum innra með þér
Leyfðu þér aldrei að breytast
Vertu aldrei ánægður með minna en það sem er fullkomið
Dveldu bara annað hvort í því liðna eða ókomna – Det år aldrig kørt
Þrautseigjan
Einu sinni var bóndi sem átti asna. Dag nokkurn vildi svo illa til að asninn datt í gamla brunninn. Bóndinn gat ekki hugsað sér að missa asnann sinn, en honum skildist fljótt að hann gæti með engu móti náð asnanum á lífi upp úr þessum djúpa brunni þar sem asninn var fastur í botnleðjunni. Hann ímyndaði sér að asninn væri brotinn og myndi drepast brátt. Þó að honum væri það þvert um geð taldi hann best úr því sem komið var að grafa asnann þarna á staðnum. Hann ákvað því að fylla brunninn af mold. Það tæki fljótt af.
Hann bað granna sína um hjálp og saman fóru þeir að moka mold ofan í brunninn.
Þegar asninn varð fyrir fyrstu moldarskóflunni varð hann bálreiður: “Hvers vegna þarf ég alltaf að lenda í svona? Fyrst dett ég ofan í þennan bannsetta brunn og enginn kemur að hjálpa mér. Og svo dynja moldarkögglarnir á mér. Þeir ætla að gleyma mér með því að grafa mig hér lifandi. Ég hefði mátt vita að líf mitt tæki svona ömurlegan endi. Svona hefur þetta alltaf verið hjá mér og minni fjölskyldu. Pabbi asni var ábyrgðarlaus asni sem aldrei var neitt að marka. Mamma asna gekk fyrir róandi. Asni bróðir var sá ljótasti og leiðinlegasti. Og ég er óheillaasni alla tíð. Hvers vegna endar þetta svona?”
En meðan asninn rakti raunir sínar í botnleðjunni og moldin dundi á baki hans, þá fékk hann allt í einu hugmynd. Í stað þess að láta bara grafa sig þarna lifandi þá ákvað hann að reyna að berjast til hins ítrasta, hann fór að hrista moldarkögglana af sér og traðka þá undir fótum. Og það gerði hann. Hristi moldina af sér, tróð hana undir fótum og kraflaði sig upp. Dauðþreyttur var hann, sár og barinn af fallinu og moldaraustrinum, en áfram hristi hann sig og skók, og tróð og kraflaði, hærra og hærra. Hann neitaði að gefast upp.
Þremur tímum síðar náði asninn að klifra sigri hrósandi yfir brunnbrúnina. Sama moldin og átti að grafa hann varð honum til bjargar. Allt vegna þess hvernig hann brást við erfiðleikunum. – Det år aldrig kørt 4
Hindranir eru þessir ógnvekjandi hlutir sem þú sérð þegar þú lítur af markinu. – Hannah More
Þegar raunir þjaka mig
þróttur andans dvínar,
þegar ég á aðeins þig,
einn með sorgir mínar,
gef mér kærleik, gef mér trú,
gef mér skilning hér og nú.
Ljúfi Drottinn, lýstu mér
svo lífsins veg ég finni.
láttu ætíð ljós frá þér
ljóma í sálu minni. – Gísli á Uppsölum
Þegar áhyggjurnar virðast óyfirstíganlegar, gefumst þá ekki upp, bítum á jaxlinn og biðjum æ meir. “Vinn eins og allt sé undir þér komið. Bið eins og allt sé undir Guði komið.”
Guð er góður
Þegar áföllin verða, hvar er þá Guð og verndin hans? Sefur hann, eða lætur sér fátt um finnast? Móðir nokkur, sjómannsekkja, sagði eitt sinn við harmi lostinn son sinn: “Guð er góður, drengurinn minn, þótt hann komist stundum ekki hjá því að hryggja börnin sín. Reyndu aðeins að lifa svo sjálfur að hið góða fylgi þér, láttu það finnast að Guð hafi gefið þér góða hönd og gott hjarta og þá mun samviska þín aldrei efast um gæsku Guðs og hugur þinn aldrei missa hans og þá er öllu borgið, hvað svo sem annað kann að gerast.”
Þetta eru holl heilræði, sprottin úr reynslubrunni trúarinnar, sem fyrri kynslóðir í þessu landi nutu og iðluðu, og standa í fullu gildi.
Öruggasti mælikvarðinn á mannkosti er hvernig viðkomandi kemur fram við manneskju sem hann getur ekkert gagn haft af, eða sem ekki getur varið sig. – Van Buren
Heilræði
Gef fólki meir en það væntir sér og gerðu það vegna þess að þér þyki vænt um það.
Trúðu ekki öllu sem þú heyrir, eyð ekki öllu sem þú færð og sofðu ekki eins mikið og þig langar.
Þegar þú segir: “Ég elska þig,” láttu hug fylgja máli.
Þegar þú segir við einhvern: “Mér þykir það leitt,” horfðu þá í augun á viðkomandi.
Trúðu á ást við fyrstu sýn.
Leik þér aldrei að draumum annarra.
Mundu að stóra ástin og stóru sigrarnir krefjast mestu áhættu.
Dæmdu engan vegna ættingja hans.
Tala hægt en hugsa hratt.
Ef einhver spyr þig einhvers sem þú vilt ekki svara, brostu þá og spurðu: “Hvers vegna viltu vita það?”
Láttu aldrei misskilning spilla vináttu.
Þegar þér verður ljóst að þú hefur gert mistök, leiðrétt það þá þegar.
Brostu þegar þú svarar í síma, sá sem hringir heyrir að þú brosir.
Vertu opin/n fyrir breytingum og umskiptum, en slepptu aldrei eigin gildum.
Treystu Guði, en læstu bílnum.
Bið, það er ólýsanlegur kraftur í bæninni.
Stöðva engan sem vill sýna þér trúnað.
Einu sinni á ári skaltu vitja staðar sem þú hefur ekki áður séð.
Lærðu allar reglur, brjóttu þær sumar.
Ef fólk talar illa um þig, lifðu þá þannig að enginn trúi því.
Mundu að besta sambandið er þegar ást tveggja einstaklinga er meiri en þörf annars fyrir hinn.
Dæmdu velgengni þína í hlutfalli við það sem þú verður að láta móti þér til að öðlast hana.
Götusóparinn Beppo sagði: “Oft sér maður langa götu framundan og hugsar með sér, þetta er skelfilega langt. Ég verð aldrei búinn með þetta!
En það má aldrei hugsa um alla götuna í einu, bara hugsa um næsta skref, næsta átak með sópnum. Og um leið uppgötvar maður að skref fyrir skref er maður kominn á götuna á enda. Maður tók bara ekkert eftir því hvernig, og er einhvern veginn alveg óþreyttur.”
– Michael Ende
Guð gefi mér kjark til að breyta því sem ég get breytt
Við erum hvött til að hafa stjórn á öllu. Við erum hvött til að tryggja alla hluti og hafa allt öruggt og poppþétt. Hið heilaga æðruleysi er andstæða þessa. Æðruleysi er að voga að lifa í núinu. Að taka dag í senn, skref í senn. Hjá Guði er aðeins “í dag! Nú.”
“Dag í senn, eitt andartak í einu, eilíf náð þín, faðir, gefur mér.”
“Verið ekki áhyggjufull. Yðar himneski faðir veit!” segir Jesús.
Þessu treysti ég. Og þess vegna get ég horft æðrulaus fram á veginn. Guð getur notað allt og snúið öllu til góðs. Hann getur jafnvel snúið því versta til góðs og blessunar. Á það minnir krossinn okkur, það öfluga tákn sem signdi þig í heilagri skírn, ósjálfbjarga óvitann, og signir þig enn, þig með öll þín ráð og ráðleysi, með þitt vit og vitleysur. Og krossinn segir: Guð getur jafnvel notað hið meiningarlausasta og ægilegasta alls, því að hann er sterkari. Hann er mátturinn æðsti, og hann er þín megin. Ef þú trúir, vonar og elskar.
Slíkur er máttur hins alvalda að hann getur tekið bölið í greip sína og kreist það svo að úr henni drjúpi blessun. – Kaj Munk
Eitt af því sem við höfum lært er að engar aðstæður í veröldinni geta nokkurn tíma kallast ómögulegar og ekkert vandamál til sem ekki er unnt að leysa. – Desmond Tutu
Trúin gefur kjark
Trú er ekki endilega að vita, þekkja, skilja, kunna, heldur að hlusta og treysta á Guð. Þekkt indverskt skáld sagði: “Trúin er fugl sem syngur í náttmyrkrinu.” Það náttmyrkur getur verið býsna svart. Margur situr fastur í sektarkenndinni og sorginni. Oft erum við hvött til þess að fyrirgefa okkur sjálfum. Getum við það? Jú, víst getum við það. En erfiðara er að biðja þau fyrirgefningar sem við höfum brotið gegn. Það þurfum við líka að gera. Að nefna og leggja það svo frá sér. Að nefna það sem miður fór við sjálfan sig og Guð, og þann sem það bitnaði á, og leggja það svo til hliðar. Guð minnist ekki lengur synda okkar. Að fyrirgefa er að gleyma, varpa að baki sér, leggja frá sér. “Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum,” kennir Jesús okkur að biðja. Og gefur þeim sem honum treystir kjark til að stíga það skref.
Kjarkur er ótti sem hefur farið með bænirnar sínar. – Dorothy Bernard
Bænheyrslan
Maður nokkur villtist í óbyggðum. Seinna, þegar hann sagði frá því sem gerðist, þá sagðist hann hafa verið orðinn svo örvæntingarfullur að hann kraup á kné og bað Guð að hjálpa sér. “Og hjálpaði Guð í raun og veru?” spurði vinur hans.
“Nei, nei, alls ekki. Skömmu síðar kom hirðingi þar og sýndi mér leiðina.”
Flestir eru speglar, sem spegla hugarástand og tilfinningar tímana. Sumt fólk er gluggar sem hleypa inn ljósi sem lýsir upp dimmu hornin þar sem erfiðleikarnir eitra. Meginverkefni uppeldis er að breyta speglum í glugga. – Sydney J. Harris
Ef þú vilt vera hamingjusamur í klukkustund fáðu þér dúr.
Ef þú vilt vera hamingjusamur í heilan dag farðu í veiðitúr.
Ef þú vilt vera hamingjusamur í heilt ár þarftu að vinna í happdrættinu.
Ef þú vilt vera hamingjusamur alla ævi hjálpaðu þá annarri manneskju. – Kínverskt
Maður einn æddi út um allan heim til þess að finna hamingjuna. Eftir langa leit og árangurslausa kom hann aftur heim til sín og sá, að hamingja sat sofandi við dyrnar þar.
– Jean de Fontaine
Hamingjan er ferð en ekki áfangi. – Roy Goodman
Ungi presturinn átti að predika í fangelsinu. Sárkvíðinn leitaði hann að réttu orðunum og ritningargreinunum til að flytja föngunum í predikun sinni. Þegar hann gekk í fangelsiskapelluna mættu honum hörð og hæðin andlit fanganna. Hræddur steig hann í stólinn. En þá vildi ekki betur til en svo að hann hrasaði í efstu tröppunni og datt ofan stigann. Kapellan undirtók af hlátri fanganna. Presturinn brölti á fætur, eldrauður af blygðun yfir þessari niðurlægingu. En svo stökk hann upp í predikunarstólinn og sagði hlæjandi við söfnuðinn: Þetta er einmitt það sem ég ætlaði mér að gera hér! Ég ætlaði að sýna ykkur að maður getur alltaf risið á fætur aftur þótt maður detti. – Orð í gleði
Hvað er kjarkur?
Að mæta drekunum
Yfirvinna hindranir
Skilja áhættuna
Lifa lífinu
Fara alla leið
Og vænta ætíð hins besta.
Lífið er tækifæri, gríptu það
Lífið er fegurð, dáðu hana
Lífið er gæfa, njóttu hennar
Lífið er draumur, láttu hann verða að veruleika
Lífið er áskorun, taktu henni
Lífið er skylda, gerðu hana
Lífið er leikur, leiktu hana
Lífið er dýrmætt, varðveittu hana
Lífið er kærleikur, gef þig honum á vald
Lífið er loforð, láttu það rætast
Lífið er sorg, sigraðu hana
Lífið er söngur, syngdu hann! – Móðir Teresa
Ég veit ekki hvort þú hefur
huga þinn við það fest
að fegursta gjöf sem þú gefur
er gjöfin sem ekki sést.
Ástúð í andartaki,
Augað sem glaðlega hlær,
Hlýja í handartaki,
Hjarta sem örara slær. – Úlfur Ragnarsson
Veit ég, minn Guð, þú manst til mín
þá mótgangstíminn stendur.
Feginn í allri freistni og pín
fel ég mig þér á hendur.
Nafn mitt vel þekkir þú,
þess sem ég fullviss nú.
Það er og skrifað inn
í handarlófann þinn.
Sigur er mér því sendur. – Hallgrímur Pétursson
Kjarkur og styrkur
Það þarf styrk til að vera öruggur
Það þarf kjark til að vera umhyggjusamur
Það þarf styrk til að halda uppi vörnum
Það þarf kjark til að láta vopnin síga
Það þarf styrk til að sigra
Það þarf kjark til að vægja
Það þarf styrk til að vera viss
Það þarf kjark til að voga að efast
Það þarf styrk til að falla inn í hópinn
Það þarf kjark til að vera öðruvísi
Það þarf styrk til að finna sársauka vinar síns
Það þarf kjark til að kannast við eigin sársauka
Það þarf styrk til að dylja tilfinningar sínar
Það þarf kjark til að sýna þær
Það þarf styrk til að þola árásir
Það þarf kjark til að koma í veg fyrir þær
Það þarf styrk til að standa einn
Það þarf kjark til að halla sér að öðrum
Það þarf styrk til að elska
Það þarf kjark til að læra að vera elskaður
Það þarf styrk til að lifa af
Það þarf kjark til að lifa
Bið ekki um auðvelt líf
Bið ekki um verkefni í samræmi við styrk þinn.
Bið um styrk í samræmi við verkefnin þín. – Philips Brooks
Vertu sú umbreyting sem þú vildir sjá í heiminum. – Gandhi
Ung kona, sem slasaðist illa, skrifaði á þessa leið:
Að vera sterk er ekki það að detta aldrei, ekki það að vita alltaf og geta alltaf. Að vera sterk er ekki það að geta hlegið, hoppað hæst eða sýnt mest æðruleysi eða mestan viljastyrk. Að vera sterk er að sjá lífið eins og það er, að viðurkenna kraft þess og nýta hann. Að vera sterk er að detta og meiða sig, en rísa upp aftur. Að voga að vona, jafnvel þegar trúin er veikust. Að vera sterk er að sjá ljós í myrkrinu og berjast alltaf fyrir því að ná þangað.
Um einn lærimeistara Hasidea var sagt að á hverjum morgni, áður en hann gengi til morgunbæna, stigi hann upp til himins. Nágranni hans einn, andstæðingur Hasidea, hló að þessu og ákvað að afhjúpa þessa blekkingu. Hann vaknaði snemma og fylgdist með rabbíanum. Hann sá hann yfirgefa hús sitt og ganga út í skóg.
Nágranninn laumaðist í humátt eftir honum. Hann sá hann höggva eldivið, binda í bagga og lyfta á bak sér. Síðan gekk hann heim í fátæklegan kofa þar sem gömul, veikburða ekkja bjó.
Nágranninn sá gegnum gluggann að rabbíinn kraup á gólfið og lagði eldivið í ofninn og kveikti upp...
Þegar fólk spurði síðar nágrannann: “Nú? Steig hann virkilega upp til himna?” Hann svaraði lágri röddu: “Miklu hærra!” – Salcia Landmann
Um daginn heyrði ég um fjölskyldu sem hafði ekkert haft að borða um margra daga skeið. Þetta var Hindúafjölskylda. Ég fór með hrísgrjón og eitthvað fleira matarkyns til þeirra.
Áður en ég hafði við litið hafði móðirin skipt hrísgrjónunum í tvennt og hún hljóp yfir í næsta hús þar sem múslimafjölskylda bjó. Þegar hún kom aftur spurði ég hana: “Hvað verður eftir handa ykkur? Þessi ögn dugar ekki fyrir ykkur öll?” Móðirin leit á mig og sagði: “Þau höfðu ekki heldur neitt að borða.” – Móðir Teresa
Guð minn og Drottinn. Minnstu mín og miskunna mér.
Tak frá mér kvíða og ótta og veit mér kraft til að stríða. Hjálpa öllum sem líða. Þeir eru svo margir sem þjást eins og ég og meira en ég. Hjálpa mér til þess að bera mínar þrautir svo, að það verði öðrum til uppörvunar og styrktar. Hjálpa mér til þess að vera glaður í voninni, þolinmóður í þjáningunni, staðfastur í bæninni.
Þú veist, hvað mér er fyrir bestu. Þú vilt mér það eitt, sem verður mér til góðs.
Hjálpa þú þeim sem vilja hjálpa mér. Ég fel þér, Drottinn minn og Guð minn, allt sem mér liggur á hjarta. Þú yfirgefur mig eigi, Guð hjálpræðis míns. Lofað og vegsamað sé þitt heilaga nafn að eilífu. Amen. – Sigurbjörn Einarsson
Ákalla mig á degi neyðarinnar og ég mun frelsa þig og þú skalt vegsama mig. – Sálm 50.15
Vit til að greina þar á milli
Drottinn, hvað ég þrái, það veit ég.
Hvers ég þarfnast, það veist þú einn. Amen. – Geil
Treystu Drottni af öllu hjarta
en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.
Minnstu hans á öllum vegum þínum,
þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.
Þú skalt ekki þykjast vitur
en óttast Drottin og forðist illt,
það er heilnæmt líkama þínum
og hressing beinum þínum. – Orðskviður 3.5-8
Ég bað Guð um auðæfi, svo að ég yrði hamingjusamur,
ég varð fátækur svo ég yrði vitur.
Ég bað um vald, svo ég hlyti lofstír manna
ég öðlaðist veikleika svo ég þarfnaðist Guðs.
Ég bað um allt svo ég gæti notið lífsins.
Hann gaf mér lífið svo ég gæti notið alls.
Ég öðlaðist ekkert af því sem ég bað um
- en allt sem ég hafði þráð.
Næstum gegn vilja mínum voru bænir mínar sem engum orðum var að komið svarað.
Ég er gæfusamastur allra manna. – Martin Luther King
Andspænis illsku og ranglæti
Vil ég ekki missa móðinn,
Heldur vil ég rísa upp og standa með því
Sem er rétt og satt,
Og ég vil horfast í augu við framtíðina
Með hugrekki, friði og gleði. – Martin Lönnebo
Sjáðu mistök þín sem kennara, en ekki sem útfararstjóra.
Mistök eru seinkanir en ekki sigrar – tilfallandi bakslag, ekki óafturkræft.
Mistök er nokkuð sem sá einn kemst hjá sem segir ekkert, gerir ekkert og er ekkert.
– Argument
Gafstu öðrum góðan dag? Greiddirðu af pundi þínu?
Svo mig spyr hvert sólarlag og svarið les í brjósti mínu. – Gamalt
Heilræði
Vertu vingjarnlegri en nauðsyn krefur,
vegna þess að hver sá sem á vegi verður á í einhvers konar stríði
Hvöss tunga getur skorið þinn eigin háls
Viljirðu að draumar þínir rætist máttu ekki sofa yfir þig
Af öllu því sem þú klæðir þig er mikilvægast hvernig þú tjáir þig
Hamingja lífs þíns byggir á gæðum hugsana þinna
Þyngsta byrðin sem þú getur borið er gremjan
Það eina sem þú getur gefið og haldið í senn er loforð þitt
Þú lýgur mest þegar þú lýgur að sjálfum þér
Ef þig skortir kjark til að byrja ertu þegar búinn
Hið eina sem ekki er hægt að endurvinna er tíminn
Hugur þinn er eins og fallhlíf. Hún er gagnslaus nema hún sé opin
Það er aldrei of seint að verða það sem þú gætir hafa orðið
Þolgæði þitt er mælikvarði þess hve þú trúir á sjálfan þig
Þó að lífsins lán og gæði
Leiki ei öll í höndum mér,
þó að ekkert góss ég græði
glöð og ánægð samt ég er,
ég hef heilsu, föt og fóður
og fæ að lifa vinum hjá,
skyldi ég ekki, Guð minn góður,
glöð og ánægð vera þá.
Ekki sá fyrir gullið grætur
sem gefinn var ei auðurinn
en nóg á sá sér nægja lætur
náðina þína, Drottinn minn. – Gamall húsgangur
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt. Matt 11.28-30
Ekkert í heiminum er máttugra en mildin – Ágústínus
Kraftaverkið er þetta: því meir sem við gefum þeim mun meira eigum við.
Við sjáum ekki hlutina eins og þeir eru, við sjáum þá eins og VIÐ erum. - Anais Niin
Drottinn, gef oss það sem vér höfum ekki,
Drottinn kenn oss það sem vér vitum ekki,
Drottinn ger oss það sem vér erum ekki.
Fyrirgef það sem vér erum ekki.
Fyrirgef það sem vér höfum verið.
Helga það sem vér erum.
Ráð því hvernig vér verðum
Sakir miskunnar þinnar.
Afreksfólk
Hvaða fólk er það?
Svaraðu þessum spurningum:
Nefndu fimm auðugustu einstaklingana í heiminum.
Nefndu fimm síðustu sigurvegara í fegurðarsamkeppni Evrópu.
Nefndu tíu einstaklinga, sem hafa unnið Nóbelsverðlaunin.
Nefndu sex leikara og leikkonur, sem unnu Óskarsverðlaunin á síðasta ári.
Nefndu tíu knattspyrnumenn sem hafa fengið titilinn Heimsins besti knattspyrnumaður.
Hvernig gekk þér?
Niðurstaðan er, að engin man fyrirsagnir gærdagsins. Þetta er samt ekki annars flokks afreksfólk heldur best á sínu sviði. En klappið deyr út. Verðlaunin missa ljómann. Afrekin eru gleymd. Viðurkenningarnar og skírteinin eru grafin með eigendum sínum.
Hér eru nokkrar aðrar spurningar. Sjáðu hvernig þér gengur með þær:
Skrifaðu nöfnin á fimm kennurum sem hjálpuðu þér á skólagöngu þinni.
Nefndu þrjá vini, sem hafa hjálpað þér á erfiðum stundum.
Nefndu fimm einstaklinga, sem hafa kennt þér eitthvað mikilvægt.
Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem kunnu að meta þig að verðleikum.
Hugsaðu um fimm einstaklinga, sem þér þykir gott að umgangast.
Auðveldara?
Lexían:
Fólkið sem skiptir þig mestu máli í lífinu er ekki það, sem hefur bestu meðmælabréfin, mesta peningana eða flest verðlaunin. Heldur það, sem reynist þér best. – Argument
Hvers virði ertu?
Fyrirlesarinn hóf kennslustund sína með því að lyfta upp fimmþúsundkrónaseðli. “Vill einhver eiga hann þennan?”
Nokkrir litu hikandi hver á annan og hugsuðu: Ætlar maðurinn í alvöru að fara að deila út peningum hér? Aðrir lyftu upp hönd, það var líka engu að tapa.
“Gott og vel,” sagði fyrirlesarinn, “margir vilja eiga seðilinn. En ef ég geri svona:”
og svo kuðlaði hann saman seðlinum í litla kúlu. “Vill nokkur eiga hann nú?” Jú, enn lyftist upp skógur af höndum í salnum. “Síðasta spurning,” sagði fyrirlesarinn. “Mynduð þið vilja seðilinn ef ég gerði þetta?” og svo henti hann seðlinum á gólfið, stappaði á hann og tók hann síðan upp, nú var hann skítugur, jaskaður, jafnvel rifinn. Enn var höndum lyft upp. “Þið hafið lært lexíu dagsins” sagði fyrirlesarinn. “Óháð því sem ég gerði við seðilinn þá vilduð þið hann samt. Hvers vegna? Vegna þess að hann tapaði ekki gildi sínu við meðferð mína á honum. Þið eruð eins og peningaseðill. Þið munuð krypplast og óhreinkast af umhverfi og aðstæðum, og jafnvel verða veik, jöskuð og rifin. En þið haldið samt gildi ykkar. Fólk í námunda við ykkur álítur ykkur ómetanleg. Manngildi ykkar er ekki háð því sem þið gerið eða getið, heldur aðeins því sem þið eruð.” – Det år aldrig kørt 4 2003
Mikilvægasta hlutverk sem við munum nokkurn tíma inna af hendi bíður innan fjögurra veggja okkar eigin heimila. – Harold B. Lee
Þú leitar gulls, en gull ei fundið getur,
Um gull er þig á hverri nótt að dreyma,
En lát þér hægt og líttu að því betur,
Það liggur undir fótum þínum heima. – Þorskabítur
Reiðin er gusturinn sem slekkur á lampa hugans.
Faðirinn og dóttir hans föðmuðust innilega á flugvellinum.
Bæði vissu að þetta væru þeirra síðustu samfundir – hann var háaldraður og veikburða, hún bjó í fjarlægu landi. Loks urðu þau að skilja þar sem síðustu farþegarnir voru kallaðir um borð.
– Ég elska þig. Ég óska þér þess sem nægir, sagði faðirinn við dóttur sína.
– Ég elska þig, líka, pabbi. Ég óska þér þess sem nægir, sagði dóttirin.
Farþegi sem stóð þar hjá stóðst ekki mátið að spyrja við hvað þau ættu með þessari ósk.
– Þetta er ósk sem hefur gengið frá kynslóð til kynslóðar, í fjölskyldu okkar, sagði gamli maðurinn. Hún merkir:
Ég óska þér nægilegs sólskins til að líf þitt verði bjart.
Ég óska þér nægilegs regns til að þú kunnir að meta sólskinið.
Ég óska þér nægrar hamingju til að þú varðveitir lífsgleðina.
Ég óska þér nægilegrar sorgar til að þú gleðjist yfir litlu.
Ég óska þér nógu mikils ávinnings að þú fáir það sem þú þarfnast.
Ég óska þér nógu margra ósigra til að þú metir það sem þú átt.
Ég óska þér að þú finnir þig nógu velkomna til að geta afborið hinstu kveðjustundina.
- Det år aldrig kørt
Auk mér trú
Drottinn, auk mér trú
að ég þiggi allt sem er vilji þinn.
Drottinn, auk mér trú
að fjöll erfiðleikanna færist úr stað.
Drottinn, auk mér trú,
að mig skorti aldrei hugmyndir eða áræði til að vinna verk þitt.
Drottinn, auk mér trú,
að ég verði aldrei óþolinmóður eða pirraður.
Drottinn,auk mér trú,
að ég snúi ætíð til þín í hverju því sem að höndum ber.
Drottinn, auk mér trú,
að ég treysti þér í ósigrum og vonbrigðum.
Drottinn, auk mér trú,
að ég sjái þig sem aðeins sést með augum trúarinnar.
Drottinn, auk mér trú, von og kærleika
í dag og allar stundir. – George Appleton
Guð, sem átt og elskar mig
Alltaf skal ég muna þig.
Hverja stund og hvað sem mætir
hjálpar þú og að mér gætir.
Lánið valt og lífið mitt
legg ég allt á valdið þitt. – Sigurbjörn Einarsson
Blessun englanna
Englar fegurðar blessi þig og beini til þín straumum blessunarinnar.
Vökuengillinn veki hjarta þitt til að ljúka upp fyrir öllu því góða sem umhverfis þig er.
Engill lækningarinnar ummyndi sár þín í svalandi lindir þér og öðrum til heilla.
Engill innsæisins gerir þér fært að standa á þröskuldi óvissunnar og koma auga á möguleika og tækifæri til góðs.
Engill samúðarinnar opni augu þín fyrir þeim ósýnilegu þjáningum sem aðrir bera.
Engill ævintýranna trufli einhæfni og rjúfi fjötra vanans, leiði þig á óvæntar slóðir þar sem allt sem ónáðar þig fellur í ljúfa löð.
Engill ástarinnar ljúki upp fyrir þér fegurð tilfinninga þinna og fagni arfleifð þinni sem musteri heilags anda.
Engill réttlætisins trufli þig og knýi til að taka málstað hinna snauðu og kúguðu.
Engill uppörvunarinnar staðfesti í þér sjálfsvirðingu þína og heila sjálfsmynd svo þú megir lifa með þeirri reisn sem sál þín býr yfir.
Engill dauðans vitji þín þá fyrst þegar líf þitt er fullnað og þú hefur borið hverja góða gjöf að fótskör eilífðar.
Allir góðir englar verndi þig og gleðji.
– John O´Donohue
Bókin Æðruleysi - Kjarkur - Vit - Orð til uppörvunar á erfiðum tímum er gefin út af Skálholtsútgáfunni og Fræðslusviði Biskupsstofu.
Æðruleysisbænin á erindi til allra í atvikum daganna. hún hefur reynst hughreysting og haldreipi þegar tekist er á við ósigra og erfiðleika. en hún er líka styrkur og leiðsögn á daglegri för í margbreytilegum aðstæðum.
Bæn er að beina huganum til Guðs og þiggja návist hans, við megum treysta því að Guð heyrir og skilur, vakir yfir og elskar.
Guð geymi þig og blessi.
Karl Sigurbjörnsson.