Ég negli og saga og smíða...

No image selected

Nú reynir á! Það er gaman að spreyta sig á nýjum hlutum

Kærar þakkir fyrir að koma í sunnudagaskólann með barnið.
Stundirnar í sunnudagaskólanum eru gæðastundir, fjarri símum, skjáum  og öðrum snjalltækjum.

Hér kemur lítil hugmynd að gæðastund heima:

Efni og áhöld:
Spýta, hamar og naglar.

Aðferð:
Kennið barninu að negla nagla í spýtu. Hér þarf að huga að aldri og þroska barnsins.
Gott er að vera búin að festa naglann í spýtuna og leyfa barninu svo að spreyta sig á því.
Það þarf að passa að slá ekki puttana og gæta þess að hamarinn sveiflist ekki í neinn.
Viðvörun: Skiljið barnið aldrei eitt eftir með hamar og nagla.
Barnið getur haldið áfram að negla eins lengi og naglar og úthald endist.

Þroskaþættir:
Það er þroskandi að spreyta sig á hlutum sem eru óvenjulegir.
Hér fer saman hugur og hönd og það að læra að gæta sín á hættum og fara varlega með hluti sem geta meitt.
Hrósið barninu fyrir að fara varlega og þegar það hittir á naglann.
Kannski beyglast einhver nagli. Það er allt í lagi því barnið er að æfa sig og eins og við vitum öll þá skapar æfingin meistarann.

Til minnis:
Leikskólabörn: Hámarksskjátími 60 mínútur á dag.
1.-4. bekkur: Hámarksskjátími 90 mínútur á dag.
Spörum skjátímann, hjálpum börnunum að finna eitthvað annað að gera.

https://kirkjan.is/thjonusta/fraedsla/bras-og-brall/eg-negli-og-saga-og-smida/