Jólasveinadagatal
Hér framkvæma jólasveinarnir bras og brall hugmyndir
Sjá nánari útfærslu á hugmyndum í texta svæði á síðunni.
Hér koma sjö hugmyndir, ein fyrir hvern dag þessarar viku.
12. desember: Stekkjastaur:
Stekkjastaur kom fyrstur stinnur eins og tré... greyið hafði staurfætur, það gekk nú ekki vel.
Stekkjastaur er svo stirður, hann þarf að liðka sig. Takið mottu eða jógadýnu ef hún er til á heimilinu. Gerið nokkrar teygjuæfingar með barninu. Leyfið því svo að sýna ykkur listir sínar með frjálsum leikfimisæfingum. Kollhnís, standa á höndum, rúlla sér...
Þroskaþættir:
Barnið æfir grófhreyfingar og fær útrás fyrir hreyfiþörf og nýtur um leið mikilvægrar aðdáunar foreldra sinna eða þeirra sem annast það.
13. desember: Giljagaur:
Giljagaur var annar... hann skreið ofan úr gili... hann faldi sig í básnum...
Giljagaur er flinkur að skríða og fela sig. Nú er tilvalið að búa til þrautabraut. Raðið stólum, púðum og öðru sem hentað getur í þrautabrautina. Barnið getur skriðið undir stóla, stigið upp á þá, gengið á púðunum o.s.frv. Brautin má enda á teppahúsi þar sem barnið getur falið sig. Getur pabbi eða mamma kannski líka spreytt sig á þrautabrautinni?
Þroskaþættir:
Barnið æfir grófhreyfingar og fær auk þess útrás fyrir ímyndunaraflinu. Barnið upplifir áhuga og væntumþykju foreldris eða þess fullorðna sem tekur þátt í leiknum.
14.desember: Stúfur:
Stúfur hét sá þriðji stubburinn sá. Hann krækti sér í pönnu þegar kostur var á. Hann hljóp með hana í burtu og hirti agnirnar...
Ristið brauð og setjið á það smjör og ost eða annað álegg sem hentar. Skerið brauðið niður í litla músabita. Bitarnir eru eins og agnirnar sem Stúfur borðaði. Setjið brauðmolana á pönnu og leyfið barninu að borða brauðið af pönnunni á einhverjum óvenjulegum stað í húsinu. Einmitt eins og Stúfur myndi gera. (Að sjálfsögðu má nota eitthvað annað en brauð, t.d. morgunkorn).
Þroskaþættir:
Barnið æfir fínhreyfingarnar með því að pilla upp í sig smáa bitana. Um leið ýtir þessi máltíð undir ímyndunaraflið og getur gert það meira aðlaðandi að borða (en það getur verið hjálplegt þar sem sum börn eiga það til að lifa á loftinu). Barnið upplifir sveigjanleika hins fullorðna sem kennir því að það þarf ekki alltaf að nuða og tuða til þess að fá það til þess að borða.
15.desember: Þvörusleikir:
Sá fjórði, Þvörusleikir, var fjarskalega mjór...þá þaut hann eins og elding og þvöruna greip. Og hélt með báðum höndum ...
Barnið fær að prófa að borða grjónagraut með trésleif, í stað þess að borða það með skeið. Þannig setur það sig í spor Þvörusleikis sem var svo svangur greyið að hann varð að stela mat. Það má ræða um það við barnið að til er fólk sem á engan mat og fær ekkert að borða. Það má tengja þá umræðu við það að gefa pening í Hjálparstarf kirkjunnar, þannig að hæg væri að kaupa mat fyrir svöng og fátæk börn.
Þroskaþættir:
Barnið veltir lífsgæðum fyrir sér. Það hafa það ekki allir jafn gott. Kannski getur barnið lagt eitthvað að mörkum. Margt smátt gerir eitt stórt.
16.desember: Pottaskefill:
Sá fimmti, Pottaskefill, var skrýtið kuldastrá...Þá flýtti hann sér að pottinum og fékk sér góðan verð.
Aumingja Pottaskefill var bæði kaldur og svangur. Það eiga ekki allir hlý og góð föt og eins og með Þvörusleiki, þá fá ekki allir nægan mat. Hér má halda áfram með umræðuna um fátækt. Getur verið að það séu til dósir og flöskur sem má telja og skila í Sorpu? Getum við kannski gefið þá peninga sem koma af því í söfnun Hjálparstarfs Kirkjunnar? Eða til Rauða krossins?
Til að gera eitthvað skemmtilegt, má leyfa barninu að prófa að borða matinn sinn úr potti.
Þroskaþættir:
Með því að borða upp úr potti fær barnið tækifæri til að setja sig í spor þeirra sem minna eiga og búa við fátækt. Það fær líka að taka þátt í að hjálpa þeim með því að telja flöskur og dósir og taka þátt í því ferli að gefa peninginn áfram til hjálparstarfs.
Einnig væri nú í miðjum jólainnkaupunum er tilvalið að fara og velja eitthvað sem hægt er að setja undir tréð í Kringlunni. Jólagjafir sem eiga að fara til fátækra barna.
17.desember: Askasleikir:
Sá sjötti, Askasleikir, var alveg dæmalaus... þegar fólkið setti askana fyrir kött og hund, hann slunginn var að ná þeim og sleikja á ýmsa lund.
Hér er enn og aftur fjallað um hungur og fátækt. Hins vegar gefur Askasleikir okkur tækifæri til að tala um borðsiði.
Barnið getur sett sig í spor Askasleikis með því að prófa að borða matinn sinn án gaffals eða skeiðar. Setjið lítinn mat á disk og leyfið barninu að sleikja matinn af disknum.
Þegar barnið hefur borðað með þessum ætti má ræða um borðsiði. Þetta var nefnilega kannski svolítið ógeðslegt eða hvað? Gerið góðlátlegt grín að þessu og ræðið svo um eftirfarandi þætti:
Hvernig er kurteislegt að bera sig til við að borða?
Hvernig er ókurteislegt og kannski jafnvel ógeðslegt að haga sér við matarborðið?
Hvernig væri það eiginlega ef allir væru að sleikja diskana sína?
Það þarf að muna eftir að segja takk fyrir mig...viltu gjöra svo vel að rétta mér... já hvað svo fleira?
Þroskaþættir:
Nú er tilvalið að æfa borðsiðina fyrir jólin.Það þurfa allir að kunna að haga sér fallega við matarborðið. Það er hluti af mikilvægri félagsfærni. Munið að Róm var ekki reist á einum degi. Borðsiðir æfast og venjast smátt og smátt.
Til minnis:
Spörum skjátímann- aukum gæðastundir.
Leikskólabörn: Hámarksskjátími 60 mínútur.
1.-4.bekkur: Hámarksskjátími 90 mínútur.
18.desember: Hurðaskellir.
Sá sjöundi var Hurðaskellir.. hann var ekki sérlega hnugginn yfir því, þó harkalega marraði hjörunum í.
Hurðaskellir vill skella hurðum. Það er alveg bannað að gera svoleiðis. Slík hegðun getur bæði verið óþægileg fyrir aðra og virkað ógnandi. Svo getur einhver klemmt sig.
Nú mætti skreyta hurð á heimilinu. Það má til dæmis búa til jólasvein eins og þennan á myndinni.
Teiknið eftir hendi barnsins. Látið barnið lita eða mála jólasvein í líkingu við þennan. Hengið á hurðarhúninn. Fleiri hugmyndir má t.d. finna hér: Smellið hér
Þroskaþættir:
Barnið æfir fínhreyfingar með föndrinu og fær að leggja sitt af mörkum við skreytingu heimilisins fyrir jólin.