Um barnastarf kirkjunnar fyrir 12 ára og yngri.
Í barnastarfi Þjóðkirkjunnar læra börn að þekkja Guð og upplifa samfélag við Guð í samræmi við þroska þeirra og aldur. 6 ára börn og yngri fara í sunnudagaskóla, þ.e. barnastarf sem er hluti almennrar guðsþjónustu safnaðarins eða sér fræðsla. Áhersla er lögð á upplifun og að kenna bænir, vers og barnasálma. 6-9 ára börn hafa aðgang að barnastarfi sem er hluti almennrar guðsþjónustu safnaðarins eða sér fræðslu. Áhersla er lögð á að fela börnunum hlutverk í starfinu. 10-12 ára börn geta tekið þátt í hópa- eða klúbbastarfi á vegum Þjóðkirkjunnar. Áhersla er á aukið hlutverk barnanna og á að starfið sé aðdragandi fermingarinnar. Einnig eru víðs vegar í boði barnakórar sem mikilvægur liður í barnastarfi Þjóðkirkjunnar.
Um unglingastarf og starf fyrir ungt fólk
Starf Þjóðkirkjunnar meðal unglinga og ungs fólks miðar að því að efla þau, styðja og stuðla þannig að jákvæðri lífssýn og sterkri sjálfsmynd í trú á Guð.
Jafnframt að ala upp framtíðarleiðtoga í kirkjulegu starfi og skapa raunhæfan valkost til þátttöku í kirkjulegu starfi eftir fermingu og búa til og viðhalda samfélagi fyrir unglinga í kirkjunni t.d með æskulýðsfélagi. Þjóðkirkjan vill vera vettvangur fyrir tilvistarspurningar og miðla kristnum lífsgildum og stuðla að trúariðkun og helgihaldi á forsendum unglinga. Hún leitast við að virkja og styðja við leiðtogafræðslu meðal ungmenna og eiga efni fyrir kirkjustarfsfólk til að bregðast við aðstæðum og væntingum nærsamfélags kirkjunnar.