Fullorðinsfræðsla

Foreldrafræðsla

Þjóðkirkjan styður við foreldra í uppeldishlutverki sínu hvarvetna þar sem kirkjan er og foreldrar mætast. Skírnin er sett í öndvegi og foreldrum kynnt hvers vegna börn eru skírð, hvað það þýðir að skíra og hvernig skírn fer fram. Skírn er undirbúin með viðtölum við foreldra og því fylgt eftir í kirkjulegu starfi og með stuðningi við uppeldi á heimilum með fræðsluefni af ýmsum toga. Hluti af fullorðinsfræðslu þjóðkirkjunnar eru samverur í kirkjum eða safnaðarheimilum svo sem eins og foreldramorgnar, krílasálma og námskeið þar sem veitt er fræðsla um ýmsar aðstæður er tengjast uppeldi og aðstæðum fólks með börn á framfæri. Í tengslum við barna- og æskulýðsstarf er foreldrum boðið upp á fræðslu um uppeldi og trú og reynt að virkja þau í safnaðarstarfi.

Almenn fræðsla

Fræðsla fullorðinna er ætluð til þess að hjálpa fólki að iðka kristna trú á gefandi hátt, vaxa í tilbeiðslu og takast á við verkefni lífsins.

Dæmi um verkefni almenns fræðslustarfs eru námskeið um höfuðatriði kristindómsins, Biblíufræðsla, Kirkjufræðsla og fræðsla um helgihald, táknmyndir og siði kirkjunnar.

Einnig eru ýmis námskeið fyrir hjón í boði og hópastarf og sálgæsla. Auk námskeiða í sjálfstyrkingu, tólf spora vinnu, sorgarvinnu og ýmiss önnur námskeið.

Eldri borgarar eru sérstaklega boðnir velkomnir í umfjöllun um Biblíutexta bæði í fyrirlestrum og námskeiðum en kirkjan reynir ávallt að búa til umhverfi þar sem eldra fólk getur deilt vitneskju og lífsreynslu sinni með öðrum