Sjálfboðaliðar

Sjálfboðastarf

Það starfa margir sjálfboðaliðar í kirkjunni við ýmis verkefni. Má þar nefna vinaheimsóknir til fólks sem á erfitt að komast út af heimilum sínum, í hópastarfi meðal aldraðra og við helgihald. Þá er starf sóknarnefnda almennt unnið í sjálfboðastarfi.
Þjóðkirkjan er vettvangur öflugrar sjálfboðaþjónustu á mörgum sviðum. Sjálfboðaliðar í kirkjunni gera þjóðkirkjuna að lifandi grasrótarhreyfingu sem er vettvangur tækifæra til að leggja sitt af mörkum í þjónustu við Guð og náungann og fá um leið tækifæri til vaxtar og reynslu sem nýtist í viðfangsefnum lífsins.
Sjálfboðaliðar taka þátt í öllu starfi kirkjunnar, í stjórnun, fræðslu, boðun, tónlist og kærleiksþjónustu. Sjálfboðaliðar starfa í sóknarnefndum, sem bera meðal annars ábyrgð á rekstri og umsýslu sóknanna og kirkjuhússins. Sjálfboðaliðar taka þátt í heimsóknarþjónustu, samtölum, barna- og æskulýðsstarfi, og aðstoða við kirkjustarfið á margvíslegan hátt.
Margir koma að sjálfboðastarfi kirkjunnar í ákveðinn tíma, t.d. með því að vera virk sem foreldri fermingarbarns, messuþjónar eða syngja í kirkjukór. Hafðu samband við kirkjuna þína ef þú vilt vita meira um hvernig þú tekur þátt sem sjálfboðaliði.
Þjóðkirkjan er þátttökukirkja þar sem gjafir og framlag hvers og eins er eftirsótt og metið. Þátttökukirkjan snýst um að efla leikfólkið í kirkjunni og gera framlag þess sýnilegt.