Kirkja og tölur
Gott yfirlit yfir starf kirkna getur komið fram í tölum sem sýna hve margir notfæra sér þjónustu kirkjunnar. Hve mörg voru skírð til dæmis á síðasta ári? Hvað voru kirkjulegar útfarir margar? Fermingar? Og hjónavígslur? Voru athafnir fleiri þetta árið en í fyrra? Og hve margir sækja guðsþjónustur?
Nýverið birti Kaupmannahafnarbiskupsdæmi (það nær yfir Kaupamannahöfn og Borgunarhólm) á vef sínum tölur fyrir árið 2019.
Allir vita að lesa þarf úr tölum. Sá lestur getur verið misjafn eins og annað og stundum vakið deilur. Danska heimasíðan kirke.dk sem er netfréttaveita Kristeligt Dagblad fyrir kirkjufólk (og þau sem eru áhugasöm um kirkju og kristni) fjallaði um þetta fyrir nokkrum dögum. Tveir háskólakennarar í kennimannlegum fræðum voru fengnir til liðs við að skoða tölurnar og lesa úr þeim.
Fram kemur að viðburðum (svo sem: krílasálmar, leikstundir, kórastarf, leshringir, næturkirkja, húsaskjól, kirkjukaffi o.fl.) í dönskum kirkjum sem um ræðir hefur fjölgað en heimsóknum í kirkjurnar hefur fækkað. Kirkjulegum athöfnum hefur fækkað og er sérstaklega áberandi að útfarir hafa dregist saman um 15% frá því árinu áður.
„Ég les hreyfingu í tölunum sem segir ekki bara að það séu færri sem telja sig hafa not fyrir kirkjulega þjónustu heldur má líka lesa úr þeim ákveðna fjölgun þeirra sem ekki hafa tamið sér áður að koma í kirkju,“ segir Kirstine Helboe Johansen sem kennir við Árósarháskóla. En hún bætir: „Það er þó ekki hægt að fullyrða það með vissu út frá tölunum.“
Hans Raun Iversen fyrrum kennari við guðfræðideild Kaupmannahafnarháskóla segist sjá út úr tölunum að fólk segi vissulega áfram skilið við þjóðkirkjuna en brotthvarfið sé að renna sitt skeið á enda.
„Virk og skapandi kirkja og þá ekki síst hvað snertir fjölbreyttari samsetningu hópsins í borginni hefur hjálpað Kaupmannahafnarkirkjunni til að rétta sig af og ná jafnvægi - að minnsta kosti um tíma en það er ekki auðvelt að segja hvað síðar verði í því efni,“ segir hann.
Kirstine Helboe Johansen segir að nokkurt jafnvægi sé á fjölda skírna og ferminga milli ára. Hún segir að með fjölgum kirkjulegra margvíslegra viðburða opni kirkjan faðm sinn móti fleirum en áður. Önnur biskupsdæmi í Danmörku geti dregið lærdóma af þróun mála í Kaupmannahöfn til að stemma stigu við brotthvarfi úr kirkjunni. Hún nefnir sérstaklega þá nýlundu að bjóða upp á „Drop-in-skírnir“ (skyndiskírnir).
Kirkjan.is bendir lesendum á ofangreindan vef Kaupmannahafnarbiskupsdæmis þar sem sjá má tölurnar og velta þeim fyrir sér.
Fróðlegt væri ef slíkt talnayfirlit væri tiltækt hér á Íslandi.
hsh