Fermingarfræðsla hefst
Lífið heldur sínum dampi þrátt fyrir kórónuveirufaraldur og margvísleg viðbrögð við honum.
Fjöldatakmörkun er virt og sömuleiðis nálægðarreglan. Þetta tvennt er orðið að höfuðdygðum ásamt öðrum gömlum og góðum.
Fermingar og upphaf fermingarfræðslu verða nú sums staðar á vegi hvors annars, heilsast og kveðjast. Í mörgum sóknum er verið að ferma börn sem fengu fræðslu síðasta vetur og samtímis má lesa auglýsingar um að fermingarfræðslan sé að fara af stað í sömu sóknum.
Óvenjulegir tímar, já, svo sannarlega. En fermingarbörnin eru ekki óvenjuleg. Þau eru ósköp venjuleg, kannski sem betur fer. Það er nóg að tímarnir séu óvenjulegir, margir eiga fullt í fangi með það.
Börnin munu ganga víðast hvar til spurninga á næstu viku í sóknarkirkjum sínum um nær allt land.
Fermingarfræðslan hefur breyst mjög víða á umliðnum árum. Hér áður tíðkaðist það að fermingarfræðslutímar voru um það bil einu sinni í viku allan veturinn. Nú er öldin önnur.
Það er margvíslegur háttur hafður á fræðslunni. Viss námskeiðsbragur er kominn yfir hana. Sums staðar fer fræðslan fram í lotum og er ekki stöðug allan veturinn - annars staðar eru reglulegir viðburðir allan veturinn með börnum og foreldrum. Þá þurfa börnin að sækja ákveðinn messufjölda og er það skráð. Fermingarfræðslan hefst hjá mörgum fermingarbörnum á ferð í Vatnaskóg. Markmiðið er að hrista hópinn saman og ná betur til hans á kyrrlátum og helgum stað sem býður upp á svo marga útvistarmöguleika. Sumir ljúka fermingarfræðslunni með Vatnaskógarferð.
En hvaða námsefni er verið að nota?
Kirkjan.is kannaði lauslega námsefnið sem prestar nota á komandi fermingarönn.
Á fermingarnámskeiðin eru líka kallaðir til ýmsir gestir til að ræða við börnin um lífsreynslu sína og sérfræði; sálfræði, sögu og list - og margt fleira. Fjölbreytnin er augljóslega mikil og hún er jafnframt reist á sterkum kristnum fræðslugrunni þar sem beitt er ýmsum aðferðum, gömlum sem og nútímalegum.
Sums staðar taka fermingarbörnin virkan þátt í sunnudagaskólanum sem og í æskulýðsstarfi kirkjunnar með ýmsum hætti.
Ekki var að sjá á svörum prestanna sem kirkjan.is fékk að einhver sérstakur munur væri á þéttbýli og dreifbýli í vali á námsefni í fermingarfræðslunni.
Að vísa veginn - Námskrá fyrir fræðslu þjóðkirkjunnar -III. kafli fjallar um fermingarstörfin - gott að rifja upp.
hsh
Í Neskirkju - gott skipulag á fermingarstarfi
Fermingarbörn fá í sumum kirkjum Biblíur lánaðar