Fermingarfræðsla hefst

20. ágúst 2020

Fermingarfræðsla hefst

Neskirkja í morgun - Steingrímur Þórhallsson, organisti, kynnir orgelið fyrir fermingarbörnum í Nessókn og Dómkirkjusókn

Lífið heldur sínum dampi þrátt fyrir kórónuveirufaraldur og margvísleg viðbrögð við honum.

Fjöldatakmörkun er virt og sömuleiðis nálægðarreglan. Þetta tvennt er orðið að höfuðdygðum ásamt öðrum gömlum og góðum.

Fermingar og upphaf fermingarfræðslu verða nú sums staðar á vegi hvors annars, heilsast og kveðjast. Í mörgum sóknum er verið að ferma börn sem fengu fræðslu síðasta vetur og samtímis má lesa auglýsingar um að fermingarfræðslan sé að fara af stað í sömu sóknum.

Óvenjulegir tímar, já, svo sannarlega. En fermingarbörnin eru ekki óvenjuleg. Þau eru ósköp venjuleg, kannski sem betur fer. Það er nóg að tímarnir séu óvenjulegir, margir eiga fullt í fangi með það.

Börnin munu ganga víðast hvar til spurninga á næstu viku í sóknarkirkjum sínum um nær allt land.

Fermingarfræðslan hefur breyst mjög víða á umliðnum árum. Hér áður tíðkaðist það að fermingarfræðslutímar voru um það bil einu sinni í viku allan veturinn. Nú er öldin önnur.

Það er margvíslegur háttur hafður á fræðslunni. Viss námskeiðsbragur er kominn yfir hana. Sums staðar fer fræðslan fram í lotum og er ekki stöðug allan veturinn - annars staðar eru reglulegir viðburðir allan veturinn með börnum og foreldrum. Þá þurfa börnin að sækja ákveðinn messufjölda og er það skráð. Fermingarfræðslan hefst hjá mörgum fermingarbörnum á ferð í Vatnaskóg. Markmiðið er að hrista hópinn saman og ná betur til hans á kyrrlátum og helgum stað sem býður upp á svo marga útvistarmöguleika. Sumir ljúka fermingarfræðslunni með Vatnaskógarferð.

En hvaða námsefni er verið að nota?

Kirkjan.is kannaði lauslega námsefnið sem prestar nota á komandi fermingarönn.

Námsefnið er fjölbreytilegt Í svörum prestanna kom fram rík viðleitni til að hafa námsefnið sem fjölbreytilegast. Flestir notast við Con Dios námsefnið (lesbók og verkefnabók) sem gefið var út 2013 af Skálholtsútgáfunni. En þeir nota líka annað efni meðfram eins og myndbönd og Alfa-efni fyrir ungmenni. Nokkrir prestar nota aðeins efni sem þeir hafa sjálfir samið. Þá nota þeir efnisveitu kirkjunnar eftir atvikum. Litla bókin Kirkjulykillinn (kom út 2006 - leysti af hólmi Litlu messubókina) er vinsæl og víða notuð sem ítarefni. Sumir sakna fermingarkversins Líf með Jesú (kom fyrst út 1976 og endurbætt 1997) – og nota það enn í einhverjum mæli (það er reyndar hætt að gefa út bókina). Nýja testamentið er líka notað sem kennsluefni hjá nokkrum prestum og einnig Sálmabókin. Nokkrir prestar halda sig eingöngu við Con Dios eða AHA. Bókin um Jesú, sem Skálholtsútgáfan gaf út 2005 – hún er reyndar ekki samin sem fermingarkver - er notuð af fáeinum prestum. Einn prestur vísaði á sitt  eigið fermingarkver á netinu. Langflestir prestanna leggja áherslu á biblíusögurnar í ljósi þess að kristinfræðikennsla hefur skroppið saman í grunnskólanum. Sumir tiltóku söngtexta, ljóð og sálma, og ræddu um mikilvægi sjálfsstyrkingar í því sambandi. Svo er það bara hugmyndaflugið, sumir nefndu það sem aukafarkost í fræðslunni og er það vel. Einn prestur tiltók sérstaklega Lúkasarguðspjall sem gott fræðsluefni og sá hinn sami sagðist og nota loðmyndirnar gömlu góðu. Þá sagðist einn prestur nota Í stuttu máli sagt, sem grunn, Skálholtsútgáfan gaf út 2008. Og enn annar prestur sagði að hann væri löngu búinn að gefast upp á því að láta börnin kaupa fermingarkver því það týndist eða gleymdist. Í vetur ætlar hann og samstarfsfólk hans að sýna þeim kvikmyndir með senum úr Biblíunni, spjalla um þær og vinna verkefni út frá þeim. Að lokun nefndi einn prestur það að Biblían sjálf væri mikilvægasta kennslugagnið. Hann bætti því við að það væri líka mikilvægt að fermingarfræðslan snerist ekki bara um það að miðla þekkingu heldur og að skapa upplifun en með því móti væri hægt að miðla orði Guðs og kærleika án nokkurra orða með leikjum og að taka á móti fermingarbörnunum á þeirra eigin forsendum.

Á fermingarnámskeiðin eru líka kallaðir til ýmsir gestir til að ræða við börnin um lífsreynslu sína og sérfræði; sálfræði, sögu og list - og margt fleira. Fjölbreytnin er augljóslega mikil og hún er jafnframt reist á sterkum kristnum fræðslugrunni þar sem beitt er ýmsum aðferðum, gömlum sem og nútímalegum. 

Sums staðar taka fermingarbörnin virkan þátt í sunnudagaskólanum sem og í æskulýðsstarfi kirkjunnar með ýmsum hætti.

Ekki var að sjá á svörum prestanna sem kirkjan.is fékk að einhver sérstakur munur væri á þéttbýli og dreifbýli í vali á námsefni í fermingarfræðslunni.

Að vísa veginn - Námskrá fyrir fræðslu þjóðkirkjunnar -III. kafli fjallar um fermingarstörfin - gott að rifja upp.

hsh

 


Í Neskirkju - gott skipulag á fermingarstarfi 


Fermingarbörn fá í sumum kirkjum Biblíur lánaðar


  • Fræðsla

  • Frétt

  • Safnaðarstarf

  • Samfélag

  • Trúin

  • Æskulýðsmál

hateigskirkja.jpg - mynd

Samverustund syrgjenda á aðventunni

13. nóv. 2024
Árleg samverustund syrgjenda fer fram 28. nóvember n.k. kl 20:00 í Háteigskirkju.
kirkjanisaugl.jpg - mynd

Biskup Íslands með skrifstofu og opna viðtalstíma á Suðurlandi

12. nóv. 2024
Guðrún Karls Helgudóttir, biskup Íslands, ásamt biskupsritara verða með skrifstofu á Suðurlandi í lok vikunnar og komandi helgi. Boðið verður upp á viðtalstíma og opna fundi.
Heimspekinemar í Grensáskirkju ásamt presti og kennara

Nemendur sóttu messu í tengslum við heimspekiáfanga

08. nóv. 2024
...samstarf Verslunarskólans og Fossvogsprestakalls