Skjálftar á Völlunum
Það var óvenjulegt upphaf á guðsþjónustu að presturinn skyldi geta þess við söfnuðinn að honum væri frjálst að hlaupa út hvenær sem honum biði svo við að horfa.
Einhvern tíma hefðu það þótt tíðindi.
En tilefnið var að sjálfsögðu sú skjálftahrina sem gengur yfir og margur er orðinn býsna þreyttur á.
Jörð hefur skolfið á suðvesturhorninu en þó einkum á Reykjanesskaga. Og Ástjarnarkirkja er ekki svo langt frá skjálftaupptökum – Vellirnir í Hafnarfirði sléttir og jarðhræringar bylgja yfirborð jarðar og taka óþyrmilega í húsin. Það fannst greinilega. Stundum var sem kirkjugólfið titraði stöðugt og lævíslega sem undir væri búðingshlaup. Svo kom einn skjálfti sem tók horna í milli og sumum varð bilt við. Sjálfsagt að segja fólki það strax að það geti hlaupið út ef því verður hverft við skjálfta og svo ekki sé talað um ef eitthvað alvarlegra en skjálfti gengur yfir. Margt fólk er kvíðið og hrætt. Vonar innilega að þessu fari nú að ljúka – og biður þess. Enginn þarf að fyrirverða sig fyrir það að spretta úr sæti sínu og fara út ef skjálfti ríður yfir og fyllir viðkomandi ótta. Það er mannlegt. Þetta kom fram í stuttu kaffispjalli eftir messu við prest og kirkjuvörð.
Ástjarnarkirkja boðaði guðsþjónustu kl. 17.00, síðasta sunnudag febrúarmánaðar. Sr. Arnór Bjarki Blomsterberg var sá er þjónaði. Davíð Sigurgeirsson lék á gítarinn og söfnuðurinn tók undir sönginn. Kirkjuvörðurinn Inga Rut Hlöðversdóttir fylgdist grannt með öllu og við útgöngudyr stimplaði hún í bókina Kirkjulykillinn sem fermingarbörn afhentu henni. Guðsþjónustan var vel sótt.
Sr. Arnór Bjarki sagði í upphafi guðsþjónustunnar að þetta væri í fyrsta skipti síðan 1. mars 2020 sem hann sæi einn um hefðbundna guðsþjónustu í Ástjarnarkirkju.
Þegar kirkjan.is spurði hann nánar út í þetta eftir guðsþjónustuna svaraði hann:
„Eftir messuna í mars í fyrra skall á kórónuveirufaraldurinn sem truflaði starfið. En um sumarið vorum við í Ástjarnarkirkju í samstarfi með kirkjunum í Hafnarfirði og Garðabæ um Sumarmessur í Garðakirkju.“ Þessar guðsþjónustur voru allt sumarið frá júní til loka ágústmánaðar og prestarnir skiptumst á að sjá um þær. Kirkjan.is sótti eina þeirra sem var hálfgerð hjólamessa og tókst vel. „Fyrstu tvo sunnudagana í september síðastliðnum vorum við sr. Kjartan, sóknarpresturinn, saman með fjórar fermingarmessur og eftir það var ein hefðbundin messa þar sem við þjónuðum saman,“ segir sr. Arnór Bjarki. „En svo var öllu skellt í lás vegna aukinna kórónuveirusmita í samfélaginu.“
Sr. Arnór Bjarki segir að þetta hafi verið þriðja guðsþjónustan í Ástjarnarkirkju eftir að opnað var fyrir messuhald á ný. Sr. Kjartan sá um þær tvær fyrstu og nú var komið að sr. Arnóri Bjarka. „Rétt áður en messan hófst áttaði ég mig á því að þetta var fyrsta hefðbundna sunnudagsmessan sem ég stjórna einn í Ástjarnarkirkju frá því 1. mars í fyrra. Virkilega ánægjulegt að geta loksins sett allt í gang!“ segir hann glaður í bragði og með bros á vör. Og eflaust geta fleiri prestar sagt svipaða sögu og glaðst í hjarta sínu.
Enda þótt formlegt guðsþjónustuhald hafi ekki verið í kirkjunum þá hafa prestar sinnt ýmsum prestsverkum, skírt, gefið fólk saman, og jarðsungið svo nokkuð sé nefnt. Auk þess hafa margir þeirra verið fyrir framan myndavélarnar og flutt hugleiðingar sem streymt hefur verið. Fermingarfræðsla hefur einnig farið fram í gegnum fjarnám. Fermingarbörnin í Tjarnaprestakalli eru nú 51 að tölu.
En nú er allt að þokast í rétta hátt og fólk er fullt eftirvæntingar og tilhlökkunar þegar horft er fram til vors og sumars.
Sr. Arnór Bjarki flutti messutexta sem er að finna í nýútkominni ljóðabók eftir sr. Davíð Þór Jónsson, sóknarprest í Laugarneskirkju, sem heitir Allt uns festing brestur. Kirkjan.is fjallaði um bókina á sínum tíma. Það var athyglisvert að heyra þessi dróttkvæðu ljóð bera fram messuliðina og forvitnilegt verður að kanna það síðar hver verða viðbrögð fólksins á bekkjunum við þessum texta sem er fallegur en með fornlegu yfirbragði.
Það var óneitanlega sérstök tilfinning sem áður sagði að sitja í kirkjunni og finna jörð nötra.
Kirkjan.is spyr sr. Arnór Bjarka hvort að skjálftavirknin sé ofarlega í huga sóknarfólks, já og fermingarbarna.
„Já, við hittum bænahópinn okkar síðasta fimmtudag og talsvert var rætt um skjálftana og mikið beðið fyrir fólki sem er að upplifa ótta og kvíða vegna þessara atburða,“ segir sr. Arnór Bjarki. Fermingarbörnin hafi reyndar lítið tjáð sig enn sem komið er segir hann en þau munu eftir helgina koma á fundi í æskulýðsstarfinu og sækja fermingarfræðsluna. „Mögulega hvílir þetta á einhverjum ungum herðum,“ segir hann og verður þeim liðsinnt eftir því sem við á.
Starfið í Tjarnaprestakalli er fjölbreytt og öflugt eins og í mörgum öðrum prestaköllum.
Á sunnudögum eru hefðbundnar messur klukkan 17. 00.
Á mánudögum er 10-12 ára starf (5. – 7. bekkur) og unglingastarf (8.- 10.bekkur).
Á þriðjudögum er fermingarfræðsla.
Á miðvikudögum fer fram starf eldri borgara og barnakór kirkjunnar æfir.
Á fimmtudögum klukkan 11.00 eru bænastundir fyrir öll sem vilja.
Seinni part fimmtudags fer fram fermingarfræðslu fyrir fermingarbörn Kálfatjarnarkirkju
- og heimsóttir eru eldri borgara sem búa í Álfagerði, í sveitarfélaginu Vogum.
Sr. Arnór Bjarki segir að allt starf kirkjunnar sé komið af stað á ný eftir síðustu kórónuveiruhrinu nema starf eldri borgara í prestakallinu. „Starf þeirra fer aftur í fullan gang um leið og þátttakendur í starfinu hafa fengið bólusetningu gegn veirunni,“ segir sr. Arnór Bjarki að lokum.
Sem sagt: Allt að fara aftur af stað hægt og bítandi og af varúð og með aðgætni.
Heimasíðan Ástjarnarsóknar.
hsh
Altari Ástjarnarkirkju - sálmum og öðrum textum var brugðið upp á tjald
Sr. Arnór Bjarki blessar söfnuðinn með blessun úr bókinni: Allt uns festing brestur
Samstarfsfólk: Sr. Arnór Bjarki Blomsterberg og Inga Rut Hlöðversdóttir, kirkjuvörður
Kirkjan er stílhrein og hljómburður góður