Textar: Sálmur 91.1-4, Fyrra Korintubréf. 3.6-9, Jóhannes 4. 34-38
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Síðasta sunnudag var opnuð hér í Grafarvogskirkju sýning á trúarlegum verkum Magnúsar heitins Kjartanssonar, myndlistarmanns. Þessi stórkostlegu listaverk birta meðal annars myndlist dulhyggjunnar, þar sem byggt er á píslarsögu Krists, upprisunni og uppstigningunni. Ein þessara mynda blasir við sjónum ykkar og er hún hér á veggnum við kórinn. Hún heitir „Noli me tangere,“ sem er latína og þýðir: „snertu mig ekki“. Jesús horfist í augu við okkur með ugg og ótta, hinn krossfesti og upprisni. Þarna er verið að vitna til orða Jesú við Maríu Magdalenu þegar hún kom til grafarinnar á páskadagsmorgun og hitti Jesú fyrir upprisinn. Hún fékk ekki að snerta hann á þeirri stundu. Tími hennar var ekki runninn upp, hin rétta stund í lífi Maríu var ekki komin. Hún kom síðar.
Og sama má segja um Martein Lúther, tími hans rann ekki upp fyrr en seinna – rúmlega fimmtán öldum síðar – í bænum Wittenberg í Þýskalandi – fyrir hádegi þann 31. október árið 1517. Sá dagar markar upphaf siðbótarinnar, eða „reformasjónarinnar“ eins og þetta tímabil er kallað á erlendum málum. Og í dag er siðbótardagurinn í Þjóðkirkjunni, sem ávallt er síðasti sunnudagur októbermánaðar. Við höfum þennan sunnudag sem er sérstaklega tileinkaður þessum merka atburði er gerðst fyrir 490 árum. En þennan ósköp venjulega morgun árið 1517 var teningnum kastað í sögu kristninnar. Marteinn Lúther, munkurinn, presturinn, doktorinn og fræðimaðurinn, gekk þungum skrefum að dyrum Hallarkirkjunnar með blað í hendi, sem hann hafði látið prenta á mótmæli sín, er birtust í 95 liðum eða greinum. Hann festi þessi mótmæli sín á kirkjuhurðina – þau voru á latínu – máli menntamanna þess tíma. Hann hugsaði þær fyrst og fremst fyrir fræðimenn til að skoða og ræða um. En þetta var staðurinn – kirkjuhurðin og plássið í kringum hana. Þangað komu allir sem voru læsir til að fá fréttir – til að fylgjast með því sem var að gerast frá degi til dags. En engin voru dagblöð eða aðrir fjölmiðlar á þessum tíma. Fljótlega voru þessi mótmæli hans þýdd á þýsku og urðu fyrr en varði á allra vitorði.
Mótmæli Lúthers beindust mestmegnis að sölu aflátsbréfa páfa. En með sölu þeirra fjármagnaði hann m.a. byggingu Péturskirkjunnar í Rómaborg. Lúther gat ekki sætt sig við sölu aflátsbréfanna eða yfir höfuð tilvist þeirra. Og bygging Péturskirkjunnar fannst honum að kæmi Þjóðverjum lítið við. Hann sagði í því sambandi:
„Þessi óseðjandi dómkirkja gleypir tekjur allrar kristninnar. Þjóðverjar hlæja að því, að þetta skuli vera kallað sameign kristninnar. Áður en langt um líður verða allar kirkjur, hallir, múrar og brýr í Róm byggðar fyrir vort fé. Vér ættum fyrst og fremst að leggja rækt við hin lifandi musteri, því næst staðarkirkjurnar og allra síðast kirkju heilags Péturs, sem vér höfum enga þörf fyrir“. Lúther hafði ákveðna skoðun á þessu máli eins og öllum öðrum málum.
Sala á aflátsbréfum var sem sagt síðasta sort í huga Lúthers. Slík sala hafði engin biblíuleg rök og í raun og veru var hún algjör vitleysa. Hann sagði í þessum sambandi:
„Aflátsbréf eru stórháskaleg, þar eð þau leiða til sjálfsánægju og stofna þar með sálarheillinni í hættu. Þeir menn eru glataðir, sem halda, að aflátsbréf tryggi þeim hjálpræðið.“ Þessi stefna sýndi bara eitt: Hvað páfinn og prélátar hans voru komnir langt frá boðun Biblíunnar.
En á sunnudaginn síðasta gerðist líka annað merkilegt hér í kirkjunni og það á landsvísu. Ný Biblíuþýðing var þá tekin formlega í notkun í kirkjum landsins. Þessi nýja þýðing er sú sjötta í röðinni. Sú fyrsta kom út árið 1584. Ég ætla ekki að fara ræða um sérstaka ritningarstaði sem menn hafa verið deila um síðustu daga, en vil aðeins fá að benda á þá staðreynd, að yfirleitt þegar ný Biblíuþýðing hefur komið út hafa menn deilt um ákveðin hugtök.
Þessi útgáfa er mikið fagnaðarefni í mínum huga sem og hugum flestra hér á landi. Bækur Biblíunnar hafa verið fram undir þetta 66 alls, en eru nú í þessari þýðingu 77. Er það vegna 11 bóka sem heita Apókrýfar bækur Gamla testamentisins. Það eru m.a. bækur eins Tóbítsbók, Speki Salómóns og Síraksbók, sem sr. Sigvaldi í Manni og Konu vitnaði til, eins og einhverjir muna eftir. En sr. Sigvaldi var ógleymanlegur í túlkun Brynjólfs Jóhannessonar, er Sjónvarpið tók upp á sínum tíma. Það er mikið ánægjuefni að hafa aðgang að þessum gleymdu bókum Biblíunnar.
Guðspjall dagsins er tekið úr fjórða kafla Jóhannesarguðspjalls. Yfirskrift þess kafla er: „Jesús og samverska konan.“ En texti dagsins fjallar þó ekki um samskipti Jesú við þessa konu, heldur er það sá atburður er gerist eftir að þeirra samskiptum lýkur. Lærisveinarnir höfðu áhyggjur af því að hann hefði ekki fengið neitt að borða. Þá svarar hann þeim á spámannlegan hátt og segir:
„Minn matur er að gjöra vilja þess, sem sendi mig, og fullna verk hans.“
Þetta svar Jesú er í raun og veru dæmigert fyrir hann. Hann er svo einlægur, svo viss og öruggur um hlutverk sitt hér á jörð. Maturinn hans, næring hans og lífsviðurværi er aðeins þetta eitt: Vinna fyrir föðurinn, gera vilja hans, breiða út ríki hans – kærleika hans. Hann þekkir vilja föður síns og hann veit hvernig hann fullnar verk hans. Og þessi vilji föðurins kemur fram í litlu Biblíunni:
„Því að svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“
Jesús hvetur lærisveinana til þess að vakna til vitundar um þá þörf sem við blasir. Hann segir: „Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru“. Þeir eiga ekki að bíða í fjóra mánuði eftir uppskerunni, heldur þurfa þeir að bretta upp ermar núna – það þolir enga bið. „Horfið á akrana, þeir eru hvítir til uppskeru.“ Gróskan er mikil. Akrarnir eru hvítir – þeir blómstra – nú er tækifærið – guðsríkið blómstrar – vakningin er komin – Sendiboðinn frá Síon hrópar hátt úti á torgum – komið, fylgið Kristi!– gerist liðsmenn hans!
Þessir hvítu akrar minna okkur á Lúthersrósina sem er hvít – Lúthersrósin er tákn lútherismans. Hún var hönnuð fyrir Lúther samkvæmt fyrirmælum frá Friðriki vitra kjörfursta af Saxlandi árið 1530. Hann hét Lazarus Spengler er hannaði merkið eftir óskum frá Lúther. Lúthersrósin hefur margs konar skírskotun til siðbótarinnar og tákn fyrir guðfræði Lúthers. Og þessi rós er einmitt á bakhlið sálmabókarinnar.
Krossinn svarti inni í hjartanu á rósinni minnir okkur á að trúa á hinn krossfesta Krist er frelsar okkur. Krossinn svarti breytir ekki lit hjartans – deyðir ekki, heldur viðheldur lífi. „Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.” Hjartað á rósinni hvítu minnir á gleði trúarinnar, huggun og frið. Rósin er hvít en ekki rauð, þar sem hvíti liturinn er litur englanna. Og Rósin er á himinbláum grunni, sem minnir á gleði trúarinnar í andanum, og einnig á þá himnesku dýrð sem við eigum í vændum. Hinn gullni hringur umhverfis minnir á eilífðina sem er dýrmætari en allt annað.
Í fyrri ritningarlestri dagsins, Sálmi 91 segir:
„Sæll er sá, er situr í skjóli Hins hæsta, sá er gistir í skugga Hins almáttka, sá er segir við Drottin: Hæli mitt og háborg, Guð minn, er ég trúi á!
Og í síðari ritningarlestrinum segir Páll postuli:
„Því að samverkamenn Guðs erum við, Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þið.“
Þessi ritninigarvers minna okkur á mikilvægi þess að dvelja í skugga hins almáttka og vera samverkamen Guðs og Guðs akurlendi. Guðspjall dagsins minnir okkur á þetta sama: Við eigum að að gera vilja Guðs í þessu lífi, vera börnin hans – fólkið hans – reiðubúin að vinna fyrir hann vegna þess að akrarnir eru hvítir til uppskeru. Þetta hugarfar átti Marteinn Lúther og þetta var og er sístæður boðskapur siðbótarinnar, sem og kristinnar kirkju.