Málverkið er málað u.þ.b. 1830 af þýska myndlistarmanninum Johann Moritz Rugendas og sýnir aðstæður neðan þilja á þrælaskipi
Prédikun í Langholtskirkju 14. júní 2020
Ritningarlestur (Narrative-textaröðin): Job 3:1-10; 4:1-9 / guðspjall: Lúk 10.25-37
Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með ykkur og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
„Einhver hlaut að hafa rægt Jósef K. því að morgun einn var hann handtekinn án þess að hafa gert nokkuð af sér.“ Þannig hefst hin fræga skáldsaga Réttarhöldin eftir Franz Kafka um Jósef K. sem sóttur er til saka fyrir glæp sem hann fær aldrei að vita hver er og fyrir hvern hann er að lokum tekinn af lífi. Um þetta rit Kafka hefur mikið verið fjallað og fræðingar á sviðum hinna ýmsu fræðagreina sett fram ýmsar hugmyndir um þá túlkunarlykla sem kynnu að ljúka upp merkingu óræðs textans en ólíklegt er að menn verði nokkurn tíma á eitt sáttir um túlkunina. Ástæðu þess, hins vegar, af hverju Kafka höfðar svo sterkt til nútímafólks sem raun ber vitni, má að áliti þýðendanna, þeirra feðga Eysteins Þorvaldssonar og Ástráðs Eysteinssonar, líklega finna í þeirri staðreynd að verk hans fjalli „á sérstæðan hátt … um áleitin vandamál nútímans“ og að í verkum hans búi „tilfinning eða grunur um varasamt vald eða kerfisbákn sem ógnar tilveru og sálarheill einstaklingsins,“ nokkuð sem nútímafólki finnist það kannast við. Þetta er „ekki einungis veraldlegt eða félagslegt ógnarkerfi heldur einnig hugarfarslegt“ og veldur „tilfinningu sektar og angistar eða kvíða.“
Líkt og Jósef K. vissi George Floyd ekki hvaðan á hann stóð veðrið mánudaginn 25. maí sl. þegar hann var handtekinn af fjórum lögreglumönnum vegna gruns um að hafa greitt með fölsuðum 20 dollara seðli í verslun í Minneapolis – gruns sem, vel að merkja, reyndist ekki á rökum reistur. Eftirmál þessarar handtöku þekkja allir en ekki sér fyrir endann á þeim. Örlög George Floyd voru því miður ekki einsdæmi eða dapurleg undantekning frá reglunni. Það er daglegur veruleiki þeldökkra Bandaríkjamanna að mega búast við því að lögreglan, hinn opinberi handhafi valdsins, geri atlögu að frelsi þeirra og öryggi fyrir litlar eða engar sakir.
Líkt og Jósef K. og eins og George Floyd veit Job ekki hvaðan á hann stendur veðrið þegar ógæfan dynur yfir hann. Ekkert er auðveldara en að skilja reiði hans og biturð yfir ógæfu sinni og – ekki síst – ásakanir hans í garð Guðs. Jobsbók sýnir að vangaveltur um tilvist hins illa og stöðu manns og Guðs í því sambandi hafa fylgt manninum frá ómunatíð en sjálf er Jobsbók aðeins ein grein á stofni fornrar hefðar spekirita sem var útbreidd víða um lönd í miðausturlöndum til forna. Job er kynntur til sögu sem „maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ Síðan er barnaláni hans og ríkidæmi lýst og hvernig allt gengur honum í hag. Lýsingin á mannkostum Jobs í upphafi bókarinnar kemur fullkomlega heim og saman við sjálfsskilning Jobs sjálfs í ræðuköflum hans í bókinni. Hann kannast hvorki við að hafa hugsað né gert nokkuð það sem túlka mætti sem svo að hann hefði syndgað gegn Guði. það er meira að segja svo að á hverjum degi fórnar hann brennifórn fyrir sérhvert barna sinna ef vera skyldi að þau hefðu syndgað og formælt Guði í hjarta sínu. En ekki eru allir í hinni himnesku hirð vissir um að Job sé eins guðhræddur og grandvar og hann virðist vera. Ákærandinn, Satan, telur Guð á að leyfa sér að reyna Job, leggja á hann ýmsar raunir í þeim tilgangi að sjá hvort hann reynist eins guðhræddur þegar á bjátar. Í goðsögulegri heimssýn Jobsbókar gegnir Satan því hlutverki að draga menn til ábyrgðar fyrir gerðir sínar, þ.e. í raun að vera nokkurskonar saksóknari. Hann hefur enga trú á manninum og treystir honum til einskis nema ills – en það skyldi þó ekki vera að þar gilti orðtakið: Margur heldur mig sig.
Að baki því athæfi Jobs að færa daglega brennifórn fyrir hönd barna sinna liggur sú hugmynd að gæfa eða ógæfa sé að miklu leyti undir utanaðkomandi öflum komin. Vísindaleg nútímahugsun myndi segja sem svo, að allt væri tilviljun háð. Almennt séð í hinum forna heimi var heimsmyndin hins vegar sú að tilveran öll væri gegnsýrð dulmögnum af ýmsu tagi sem haft gátu áhrif á afkomu fólks og því var nauðsynlegt að reyna að hafa jákvæð áhrif á þau öfl, svo sem með fórnum ýmiss konar, en það er vitanlega markmið Jobs.
Fyrir okkur nútímafólk er þetta auðvitað mjög framandi hugsun við fyrstu sýn en hún er langt í frá órökrétt ef þekkingargrunnur fornmannsins er hafður í huga, svo sem varðandi eðli sjúkdóma, og ekki furða að litið hafi verið á þá sem utanaðkomandi inngrip dulinna afla eða jafnvel sem afleiðingu eigin breytni.
Það er einmitt kenningin um makleg málagjöld sem liggur að baki orðum Elífasar frá Teman í ritningarlestri dagsins þegar hann gefur í skyn að Job hafi kallað ógæfu sína yfir sig. En niðurlag bókarinnar tekur hins vegar af öll tvímæli um það að Job er saklaus og hefur ekki unnið til þeirrar meðferðar sem hann þarf að þola. Þar lætur höfundurinn Guð sjálfan kveða upp úr um, að það sem Job sagði um hann hafi verið sannleikanum samkvæmt. Þar með viðurkennir höfundur Jobsbókar að harmkvæli, guðsásökun og jafnvel efasemdir um gæsku Guðs eigi rétt á sér í aðstæðum þjáningarinnar. Elífas og félagar hans tveir fá hins vegar snuprur frá almættinu og um leið er öllum kenningum þeirra varðandi orsök eða tilgang þjáningarinnar hafnað. Því jafnvel þótt að þær guðfræðilegu kenningar, sem þeir halda á lofti, endurspegli og séu í fullu samræmi við viðtekna guðfræðilega hugsun í Gamla testamentinu, þá er það niðurstaða höfundar Jobsbókar að þeir hafi fallið á prófinu; í stað þess að tala yfir hausamótunum á Job um Guð hefðu þeir átt að sameinast Job í ákalli hans til Guðs og þannig sýna honum samstöðu og meðlíðan. En tilraunir þeirra til að réttlæta og útskýra og finna ástæður fyrir þjáningu Jobs verða í raun að kaldranalegu tómlæti gagnvart aðstæðum hans, ekki ósvipað tómlæti prestsins og levítans í guðspjallinu sem eru, vel að merkja, handhafar valdsins og telja sig réttmæta fulltrúa guðdómsins á jörðu en heykjast í hroka sínum á því að uppfylla hið æðsta boðorð, að elska náunga sinn eins og sjálfan sig, og vitna þar með um þá staðreynd að í raun elska þeir ekki Guð heldur fyrst og fremst vald sitt og eigin þjóðfélagslegu stöðu.
Í Réttarhöldum Kafka vaknar Jósef K. einn morgun í greipum fjandsamlegs kerfisbákns gagnvart hverju hann upplifir sig fullkomlega vanmáttugan. Á svipaðan hátt upplifir Job sig í greipum fjandsamlegra afla, valdakerfis, sem sviptir hann öllu sem honum er kært og gefur hann þjáningunni á vald. Og það er átakanleg og óþolandi staðreynd að stór hluti mannkyns er fórnarlömb kerfisbundinnar kúgunar og kerfislægrar mannfyrirlitningar, mannfyrirlitningar sem hefur, að breyttu breytanda, svipaða grundvallarafstöðu til fólks og Satan í Jobsbók, sem sé þá að það eigi ekkert gott skilið, einfaldlega vegna þess að það tilheyrir jaðarsettum samfélagshópum, hvort sem er vegna uppruna, húðlitar, trúar, eða efnahags.
Í þessum mannfjandsamlega hugmyndaheimi er nóg að vera dökkur á hörund til þess að vera stimplaður glæpamaður og meðhöndlaður skv. því. Í hartnær þrjár vikur hafa nú geisað mótmæli í Bandaríkjunum og reyndar um veröld víða vegna morðsins á George Floyd. Þetta atvik virðist ætla að reynast dropinn sem fyllir barmafullan mæli þrælahalds, ofbeldis og kynþáttahyggju sem einkennir bandaríska sögu og raunar sögu evrópskra nýlenduvelda einnig ef út í það er farið. Ekkert vestrænt samfélag einkennist þó á viðlíka hátt af kerfislægu kynþáttamisrétti og raunin er um Bandaríkin. Mótmælaaldan vegna dauða George Floyd sendir nú þau skilaboð að það sé nóg komið.
Styttur af svo kölluðum merkis- og mikilmennum sem voru í lifanda lífi mikilvirkir gerendur í hryllingssögu þrælaverslunar og nýlendukúgunar hafa verið felldar af stalli sínum. Manni getur fundist að skotið sé yfir markið þegar höggmyndir af Winston Churchill eru orðnar skotspónn mótmælenda en þá verðum við að minna okkur á ástæðu þess að mótmælendur hófu að beina athygli sinni að hinum ýmsu minnismerkjum. Það sem í raun misbýður fólki er sú staðreynd að með því að heiðra viðkomandi einstaklinga með glæsilegum minnismerkjum er um leið verið að breiða þagnarhulu yfir hryllinginn og óhæfuverkin sem þeir stóðu fyrir og þá um leið þá staðreynd að það kúgunarkerfi sem gerði þeim það kleift, er undirstaða vestrænnar velmegunar og sér enn stað – ekki síst í Bandaríkjunum. Í suðurríkjum Bandaríkjanna hefur reiði mótmælenda m.a. beinst að styttum af hershöfðingjanum Robert E. Lee, sem leiddi heri Suðurríkjanna í borgarastyrjöldinni þar sem í raun var barist um réttinn til þrælahalds. Sögutúlkun suðursins hefur hins vegar verið á þá leið að í borgarastyrjöldinni hafi Suðurríkin barist fyrir sjálfsstjórn sinni og verið að verjast yfirgangi Norðurríkjanna og alríkisstjórnarinnar í Washington. Á þrælahald og kerfisbundna kúgun, pyntingar og morð á þeldökkum íbúum Suðurríkjanna allt fram á okkar daga er ekki minnst í þessari söguskoðun. Í þessari sögu eru hvítir íbúar Suðurríkjanna fórnarlömb, ekki gerendur. Mótmælendur eru nú að senda þau skýru skilaboð að þeir samþykki ekki þá söguskoðun af hverri slík minnismerki eru aðeins ein birtingarmyndin; þeir eru að segja að það sé kominn tími til að segja sannleikann, að horfast í augu við sannleikann um kynþáttamisrétti og fordóma sem gegnsýrir samfélög okkar.
Við getum ekki annað en vonað að mótmælin, sem nú geisa í kjölfar dauða George Floyd, verði til þess að bandarískt samfélag horfist í augu við hryllinginn sem hið kerfislæga kynþáttamisrétti er – en ekki bara bandarískt samfélag. Samfélag þar sem átta mánaða hörundsdökkt barn og móðir þess verður fyrir kynþáttaníði í heita pottinum í Vesturbæjarlauginni þarf augljóslega einnig að líta í eigin barm. Og þar þurfum við öll að axla ábyrgð og koma meðbræðrum og okkar og -systrum til varnar – í nafni siðferðis og kærleika fyrst og fremst en ekki síst ef við ætlum að rísa undir þeirri ábyrgð sem við erum kölluð til sem fylgjendur Jesú Krists.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.