Um daginn var maður handtekinn fyrir að hafa smitað konur af HIV veirunni. Fyrstu fréttir greindu frá því að maðurinn væri af erlendu bergi brotinn og svo kom í ljós að hann var hælisleitandi. Það fylgdi sögunni að ekki væri vitað hversu margar konur hefðu smitast, en fljótlega kom í ljós að konurnar voru tvær. Maðurinn segist ekki hafa vitað af því að hann væri smitaður. Það er athyglisvert að fyrir nokkrum arum var íslensk kona grunuð um að hafa átt náin kynni við töluvert marga, vitandi það að hún var smituð af HIV. Ekki þótti ástæða til að hneppa hana í gæsluvarðhald, og engum datt í hug að krefjast þess að hún yrði rekin úr landi.
Amnesty International samþykkti nýlega að styðja lögleiðingu vændis. Þessi ákvörðun hefur vakið miklar umræður bæði hér á landi og annars staðar og mjög skiptar skoðanir um þessa ráðstöfun. Þeir hópar sem styðja feminisma og kvenfrelsi gagnrýna mjög þessa ákvörðun á meðan aðrir fagna henni. Markmið beggja hópa sýnist mér samt vera að bæta aðstæður þeirra manneskja sem búa við það hlutskipti að þurfa að stunda vændi sér eða öðrum til framfæris. Aðalábending margra er að öll þessi umræða fer fram án aðkomu þeirra sem lifa í þessum raunveruleika, vændisfólksins sjálfs, þau eiga enga rödd, og engin nöfn.
Jesús er staddur í húsi. Gestgjafinn er mikilsmetinn, Farísei, og hann heitir Símon. Þetta er formlegt kvöldverðarboð, þar sem nokkrum framámönnum í samfélaginu er boðið að eiga borðsamfélag og eiga samræður um mikilvæg málefni, og sennilega hefur tilgangurinn verið að hlusta á og eiga samræður við, þennan nýja og spennandi rabbia sem allir voru að tala um. Svona matarboð voru ekkert einsdæmi, og fóru gjarnan fram í opnum garði hússins, þannig að fólk gat komið og hlustað á samræðurnar, þetta voru því hálfopinberar samkomur. En allt í einu birtist kona, sem lætur sér ekki nægja að standa álengdar og horfa á. Hún tranar sér fram, og hún gerist mjög nærgöngul við Jesú. Þetta hefur mjög líklega verið mjög vandræðalegt. Þarna er kona, sem allir í samfélaginu vita að er ,,bersyndug”. Við vitum ekki nákvæmlega hvað það þýðir, en það er hefð fyrir því að tala um að þetta hafi sennilega verið vændiskona, eða lauslát á einhvern hátt. Ef svo er, þá getum við alveg ímyndað okkur að einhverjir af þeim körlum sem voru viðstaddir, hafi haft af henni nánari kynni en þeir myndu vilja að væri á allra vitorði. Hvað vitum við?
Við vitum ekki hvað Jesús gerði fyrir þessa konu. Hann gefur í skyn að hún hafi upplifað fyrirgefningu, og þess vegna sé hún svona þakklát. En þessi yfirdrifnu viðbrögð hennar segja mér það að þessi kona hefur upplifað að hún hafi bjargast úr gríðarlegum háska. Við erum ekki að tala um að hún hafi fengið klapp á bakið frá Jesú og staðfestingu á að það væri í lagi að vera með smávegis sektarkennd yfir einhverju. Við erum að tala um konu sem hefur fengið líf sitt og reisn til baka. Og Jesús bendir Símoni á að í rauninni geti kannski aðeins þau sem hafa upplifað lífsháskann, staðið algjörlega ein, skilið hvers virði fyrirgefningin er.
Konan sem smurði fætur Jesú í húsi Símons Farísea, hafði ekkert nafn í sögunni. Enginn veit hver hún var í raun og veru og það gefur okkur færi á að láta ímyndunaraflið ráða ferðinni. Og tilhneiging okkar er sú sama og tilhneiging Símonar, við setjum hana í ákveðinn flokk. Hóra, vændiskona, lauslát kona. Kannski var einhver önnur ástæða fyrir því að samfélagið stimplaði hana bersynduga. En aðalmálið er að Símon sá þessa konu bara sem bersynduga konu, honum var sama hver hún var í raun og veru. Fyrir honum var hún nafnlaus. Og þetta hefur ekkert breyst. Enn þann dag í dag eru margir í okkar samfélagi nafnlausir. Hælisleitendur, sem fá aðra meðferð en heimamenn. Vændiskonur sem eiga enga rödd og aðrir keppast við að tala fyrir hönd þeirra.
Þegar ég er nafnlaus er ég sett í ákveðinn hóp. Ef ég er nafnlaus, eru það einkenni hópsins, ekki mín persónueinkenni, sem fólk ætlar mér. Ef ég er nafnlaus, þekkir fólk mig ekki. Ef ég er nafnlaus, má segja hvað sem er um mig. Ef ég er nafnlaus, má koma fram við mig eins og ég hafi engar tilfinningar. Ef ég er nafnlaus er fólki sama um örlög mín. Ef ég er nafnlaus, þarf ekki að syrgja mig. Og við könnumst væntanlega öll við það að bregðast við eins og Símon Farísei. Að sjá ekki manneskjur heldur aðeins nafnlausar verur, hvort heldur sem við tölum um hælisleitendur, vændisfólk, fíkniefnaneytendur, innflytjendur, eða hvaða aðra hópa sem við tölum um.
Jesús nefnir ekki nafn konunnar. Hann sér hana samt sem áður sem manneskju. Hann þekkir sögu hennar, og gefur henni leyfi til að tjá þakklæti sitt, því hann veit hversu mikilvægt það er fyrir þessa konu. Fyrir hana var þetta ekki eingöngu spurning um að njóta þeirra sjálfsögðu mannréttinda að vera viðurkennd af samfélaginu. Fyrir henni var þetta miklu frekar staðfesting á því að hún var einhvers virði í augum Guðs. Að hún naut náðar Guðs, þrátt fyrir það að vera nafnlaus í augum fjöldans. Jesús sýndi henni að Guð elskar og samþykkir, þrátt fyrir hatur og höfnun samfélagsins. Fyrir þessa konu var þetta spurning um líf eða dauða, endurlausn eða glötun.
Hefur þú upplifað slíkan lífsháska? Hefur þú upplifað höfnun, eða dómhörku samferðarfólks þíns? Sennilega erum við flest svo lánsöm að eiga meira sameiginlegt með Símoni Farísea en nafnlausu konunni. En þess þá heldur þurfum við að leggja okkur fram við að falla ekki í sömu gryfju og hann. En ef við upplifum lífsháskann, höfnunina og dómhörkuna sem við manneskjurnar erum svo færar um að sýna hver annarri, þá getum við hvílt í því að með augum Jesú sér Guð okkur eins og við erum, og Guð þekkir okkur með nafni.
Dýrð sé Guði sem kallar okkur með nafni og gleymir okkur aldrei. Amen.