I Stundum vorkenni ég sjálfum mér. Besti tíminn sem ég finn ef mig langar að vorkenna mér eru morgnarnir. Þá er ég stundum voða þreyttur, eða jafnvel hálfpartinn bara eins og ég sé að verða veikur, eða ég horfi á óleyst verkefni dagsins eins og í þoku og líst ekkert á framhaldið. Og þegar ég vorkenni mér langar mig ekki að gera neitt sem er hollt eða gott fyrir mig. Þá viljum við vinirnir, ég og sjálfsvorkunnin, bara vera tvö saman í friði því það er skást. Það hefur ekki reynst okkur vel að vera neitt að hreyfa okkur of mikið, vegna þess að bara eftir c.a. tuttug mínútna gang nennir sjálfsvorkunnin ekki að ganga lengra og skilur við mig orðalaust ef ég hætti þessu ekki. Hún vill líka bara að við borðum eitthvað auðmelt og hefur hreina andstyggð á morgunkorni eða hafragrauti. Ristað brauð er best, með osti og sultu. Mikilli sultu.
Einn gráan morgun fórum við saman í sund. Hún vildi það náttúrulega ekki, en ég lofaði henni að við myndum bara hanga saman í pottinum svo að hún lét sig hafa það að koma með í bílinn. Og sem ég sat í bílnum búinn að neyða ofan í mig hollan morgunmat þrátt fyrir allt og vorkenndi mér hvað lífið mitt væri flókið og fáir sem skilja mig eða eitthvað svoleiðis og við ókum vestur Sundlaugaveginn þá sé ég útundan mér á gangstéttinni konu sem ég kannast við. Hún er dálítið hölt, við höfum oft spjallað saman í sundlauginni og erum málkunnug eins og sagt er. Þessi kona þarf að hafa miklu meira fyrir því að ganga heldur en ég, en þarna ók ég í bílnum mínum og hún gekk. Um það hugsaði ég náttúrulega ekki því ég var í svo góðum félagsskap þennan morgun. Ég lagði bílnum og fór inn í Laugar og þegar við sjálfsvorkunnin og ég brokkuðum saman ofan í pottinn vorum við sammála um að það væri ekkert orðið eftir af þessu sumri. Sjálfsvorkunnin í mér er dimmblá á litinn og leggst hérna ofanvert á brjóstið og hún er líka heit. Og þegar hún er hrein, þ.e.a.s. þegar sjálfsvorkunnin er ekki blönduð við neina sjálfsásökun eða kvíða, þá er hún bara mjög notaleg. Það getur einmitt verið gott að liggja í heitum potti með heitri sjálfsvorkunn og bara finna til í rólegheitum. En þennan morgun var ég ekki alveg í essinu mínu, eithvað á báðum áttum hvaða pól ég ætti að taka í hæðina og eftir dálítið þref á milli okkar vinanna ákvað ég að skilja hana eftir og taka metrana mína í lauginni. Ég stóð upp heldur þyngslalegur og sjálfsvorkunnin sendi mér tóninn og minnti mig á hverju ég hefði verið búinn að lofa. Það átti ekki að vera nein hreyfing þennan morgun, ég hefði verið búinn að segja það. En ég var bara býsna ákveðinn og gekk af stað einmitt mátulega til þess að rekast á konuna sem ég hafði séð á gangstéttinni fyrir mörgum mínútum síðan, þarna var hún loksins komin gangandi og búin að koma sér í sundfötin á meðan ég hafði bara legið í pottinum og vorkennt sjálfum mér. Þegar hún sá mig heilsaði hún hressilega að vanda og bætti við: „Veistu, við megum aldrei gleyma því hvað við höfum það gott!” Ég muldraði eitthvað viðeigandi en stóð svo bara eins og þvara og horfði á eftir konunni koma sér hiklaust ofan í laugina til þess að synda.
II Þekkir þú hvernig það er þegar Guð talar við mann og maður veit að það er hann? Spámenn Guðs ganga ekki í einkennisbúningum, stundum birtast þeir m.a.s. í baðfötum. Það er ekki lúðrablástur eða bjölluhljómur áður en þeir mæla. En orði Guðs fylgir ilmur þegar það er borið fram og því fylgir alltaf lausn. Allir sem þekkja rödd Guðs þrá að heyra hana oft og aftur og aftur. Sjálfsvorkunnin vill hins vegar enga lausn, bara óloft og móðu. Hún vill að við hugsum í hringi um okkur sjálf og teflir fram þægindum sem hinum æðstu gæðum. Þægindi! Það er lausnarorð sjálfsvorkunarinnar. Það er þægilegast að hugsa bara um sjálfan sig og gera ekkert.
Lexían í dag fjallar um þetta. Þar talar Guð fyrir munn spámannsins Jesaja og er að gagnrýna Gyðingaþjóðina fyrir það að gera sjálfa trúna að einskonar sjálfsvorkunnar-heitapotti og spyr:
„Er sú fasta sem mér líkar sá dagur er menn þjaka sig, láta höfuðið hanga eins og sef og leggjast í sekk og ösku?” (Jes 58.5)
Einmitt vegna þess að þægindi eru svo villandi hafa þau sem iðka andlegt líf á öllum öldum, fastað með einum eða öðrum hætti, í því skyni að vera í tengslum við eigið viljalíf og geta óhindrað snúið sér að Guði. En hér má sjá að fastan hafði snúist upp í andhverfu sína og var orðin að sjálfsþjökun. Í stað sjálfsaga var komin eymd. Ég hef heyrt gott og reynt AA fólk segja þessa gullvægu setningu: „Eymd er valkostur! “ Það er svo satt. Svo hræðilega satt.
„Er sú fasta sem mér líkar sá dagur er menn þjaka sig, láta höfuðið hanga eins og sef og leggjast í sekk og ösku?” Kallar þú slíkt föstu og dag sem Drottni geðjast? Nei, sú fasta sem mér líkar er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok, það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.”
Sérðu í hvaða átt er verið að benda hérna? Guðs Orð bendir okkur burt frá okkur sjálfum og út til annara með algerlega hagnýtum hætti. Hér er talað um grunnþarfir náungans fæði, klæði og húsnæði og hér er talað um réttlæti í samskiptum manna. Við megum aldrei gleyma því hvað við höfum það gott! sagði spámaðurinn í sundbolnum. Sá sem gleymir ekki því góða sem hann á og kann að þakka það er fær um að heyra bæði í Guði og náunga sínum.
Taktu mark á því sem þú sérð og heyrir, segir Guðs Orð við okkur í dag. Taktu mark á þörfum þeirra sem þú umgengst og gerðu einfaldlega það sem í þínu valdi stendur. Sættu þig ekki við ranglæti og vertu rausnarlegur við fólk.
Þegar fréttir bárust af því að til væru fjölskyldur á meðal okkar sem ekki gætu keypt bækur og ritföng fyrir börnin sín í haust þá rigndi inn tilboðum í kirkjur og inn á Hjálparstarf Kirkjunnar frá fólki sem vildi bregðast við og gefa af sínu. Eða söfnunin í þágu krabbameinsveikra barna á Skjá einum um daginn! Þar var þjóðin einfaldlega að iðka venjulegan kristindóm og það var unun að fylgjast með þessari dagskrá ekki síst fyrir það að allir gáfu af sínu og ekkert pláss var fyrir annað en þakklæti og aftur þakklæti. Sjálfsvorkunninni var vorkunn þetta kvöld.
III Þakklætið er andstæða sjálfsvorkunnarinnar. Þú veist hvað það er gott að vera nálægt þakklátu fólki. Það er svo hvílandi að umgangast þannig fólk vegna þess að það hugsar ekki í vandamálum heldur í lausnum og maður fer ósjálfrátt að bera virðingu fyrir því. Í Lexíu dagsins er spámaðurinn að ávarpa alla þjóðina og hvatningu hans fylgja fyrirheit frá Guði og lýsing á þeim gæðum sem þjóðin mun njóta ef hún snýr sér að réttlæti:
„Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði og sár þín gróa skjótt, [...] Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal, hættir hæðnisbendingum og rógi, réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í og seður þann sem bágt á, þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.” (Jes 58.5-12)
Kanski ættum við Íslendingar ekkert að vorkenna okkur lengur. Hugsanlega myndum við gera best í því að muna hvað við eigum gott og einbeita okkur að því að gera bara það sem rétt er að gera.
Gæti verið að þjóð sem hafnaði eymdinni sem valkosti en kysi sjálfsaga öðlaðist virðingu? Gæti það gerst að þjóð sem ræktaði með sér þakklátt hugarfar í stað sjálfsvorkunnar fengi traust? Gæti hugsast að þjóð sem gæfi sveltandi fólki af auði sínum í stað þess að draga úr allri þátttöku í neyðar- og þróunaraðstoð eins og við höfum gert í tilefni af kreppunni, eignaðist verðmæti sem væru meiri en þau sem hún lætur af hendi rakna?
Amen.