Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: "Grát þú eigi!" Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: "Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!" Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans.En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Spámaður mikill er risinn upp meðal vor," og "Guð hefur vitjað lýðs síns."
Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið. (Lúk.7.11-17)
Gleðilega hátíð, kæri söfnuður, tíu ára vígsluafmæli Digraneskirkju. Hjartans þakkir fyrir dýrindis veislu sem hér er boðið til, þökk öllum sem hafið lagt ykkar góðu krafta að í undursamlegum söng, hljóðfæraleik og þeim margvíslegu góðgerðum sem við njótum hér. Þetta er fagnaðarhátíð. Hér er svo margt að gleðjast yfir, margs að minnast og margt að þakka. Hér inni eru margir sem minnast þeirrar torsóttu brautar sem þessi söfnuður mátti feta á löngu árabili. Ótrúlegir erfiðleikar og átök eru nú svo langt að baki, er við gleðjumst hér í þessum fagra og velbúna helgidómi. Við þökkum það sem hér hefur verið byggt upp í þjónustu og vitnisburði biðjandi, boðandi og þjónandi kirkju. Guð blessi minningu þeirra sem ruddu brautina og héldu uppi merkinu, Guð blessi þau öll sem nú leggja hönd á Herrans plóg á akri kristninnar hans hér í sókn og bæ. Guð launi og blessi það allt.
Guðspjall dagsins segir frá því er Jesús kom að borgarhliðum Nain og reisti ungan mann upp frá dauðum. Hvað á það að þýða að vera að rifja upp svona forna kraftaverkasögu, sem er svo fjarlæg og farmandi sem mest má vera, og okkur um megn að samræma lífsreynslu og heimsmynd okkar. Hvað á það að þýða? Hvaða innlegg er hún inn í það sem fyllir hugi okkar spurn og sorg í dag, harmi yfir neyð heimsins, ofbeldi stríðsins, erfiðleikunum sem hér steðja að þjóðfélaginu vegna kennaraverkfallsins sem snertir fjölmörg heimili. Jú, frásögn guðspjallsins bendir á það sem máli skiptir.
Sagan segir frá ferð frelsarans. Og það segir Digraneskirkja og öll iðkun og athöfn kirkjunnar: frelsarinn er enn á ferð. Fagnaðarópið í hliðum Nain forðum: Guð hefur vitjað lýðs síns! er enn í fullu gildi, Guð er að vitja þín, þar sem þú ert á lífsgöngu þinni.
Líf okkar allra er ferð. Fararsnið og fararefni eru með margvíslegu móti vissulega, fas og framganga sömuleiðis, og leiðir lagðar á ýmsa vegu (– eins og hið landsfræga gatnakerfi Kópavogs minnir á! og fornbílarnir sem hér er stillt upp framan við kirkjuna) En eitt er víst og aðeins eitt um vegu manns. Eitt og sama takmark er öllum sett. Náttúran öll vitnar um það þessa dagana, þegar laufið visnar og blómin fölna og „haustsins gráa garn grösin jarðar felur.“ Út um borgarhliðin í Nain fetaði líkfylgd. Og eins og sagt var við gröf eina fyrir austan: „hér lendum við víst allir um síðir, -ef við lifum! “
Sagt er að eitt sinn hafi hirðpresti við hirð sólkonungsins, Lúðvíks 14, orðið á í messunni. Í predikun varð honum á að segj: „Allir menn deyja!“ Og konungurinn hvessti á hann augum, svo presturinn flýtti sér að segja:„Næstum allir, yðar hátign.“
Þetta er auðvitað hlálegt, og hlegið er að íburði og glysi, valdadýrkun og prjáli Versala og því haldið fram að það hafi verið tilraun til að dylja staðreynd dauðans og forgengileikans. Ætli svipað sé nú ekki upp á tengingnum í okkar samtíð? Hún hefur verið sögð mótuð af því sem kallað hefur verið menning dauðans, „A Culture of Death“. Lífsflótti og lífsafneitun, ótti við dauðann, daður við dauðann, afneitun dauðans, allt gegnsýrir þetta samtíðina. Ofbeldisdýrkun og áhættufíkn eru greinar af sama meiði. Menning dauðans.
En nú segir guðspjall dagsins, og sá boðskapur ómar í öllu því sem hér er sagt og sungið, já og allri veru kirkjunnar: Einn er sterkari en dauðinn! Og lífsleið manns er lögð gegnum það borgarhlið þar sem hann stendur með orð lífsins og huggunarinnar, frelsarinn krossfesti og upprisni, Kristur.
En hvað er guðspjallið að segja okkur? Líkfylgd varð á vegi Jesú við borgarhliðin í Naín. Dauðinn hafði sótt heim hús eitt þar í borg, og ekki fyrsta sinn sem hann hafði verið þar. Það er ein sárasta ráðgáta þjáningarinnar, þetta hve sjaldan er ein báran stök. Harmandi gengur móðirin eftir líkbörum einkasonar síns. Og þá segir Lúkas, guðspjallamaðurinn, þessi orð: „Þegar Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: Grát þú eigi.“ Og þessi blátt áfram orð eru eitt hið mikilvægasta sem sett hefur verið á blað í gjörvallri sögu manns og heims. Hversvegna fullyrði ég það?
Vegna þess að þetta er vitnisburður um Almættið sjálft. Þessi frásögn er vitnisburður um hinn æðsta mátt. Við dýrkum og dáum valdið og kraftinn, víst er það. Þið eruð með sterkasta prest í heimi hér í Digraneskirkju. Hann hefur reyndar keppt að þeim titli til að minna á starf í þágu hrjáðra í heimi hér. Auðvitað finnst okkur að Guð hljóti að vera sá sterkasti og allt hljóti að lúta vilja hans. En þó er okkur ennþá mikilvægara að vita, að Guð finnur til með þeim sem harmar og halloka fer. Hann heyrir og skilur andvörp þín öll, að hann finnur til með, grætur, og veikum vægir. Og það þurfum við líka að muna um lífið, að mildi er ekki veikleiki, og valdbeiting er ekki styrkur.
Dauðinn birtist í margvíslegum myndum. Sonur ekkjunnar í Nain var burt kallaður til þess fjarlæga lands sem öll reynsla Adams niðja staðfestir að þaðan verði ekki aftur snúið. Í frægri dæmisögu sagði Jesús frá öðrum syni, sá krafðist arfshluta síns og ferðaðist burt í fjarlægt land – lifandi, en þó dauður ástvinum sínum – og það er gömul saga og ný. Grafirnar eru svo margvíslegar. Það eru vonbrigði og svik, brostnar vonir og dauðir draumar og kulnuð ást og brotið traust, syndin og sektin sem brjóta niður og fjötra og deyða. Týndi sonurinn sneri heim, í trausti til kærleika og miskunnsemi föður síns og fann sig umvafinn hlýjum faðmi fyrirgefningar. Sonur ekkjunnar frá Nain var kallaður aftur til lífsins með því orði sem er sterkari en dauðinn. Fagnaðarerindið segir okkur að ástin er sterkari en hatrið, fyrirgefningin er máttugri en firringin, frelsið er öflugra en helsið, lífið sigrar dauðann. Og ef það er eitthvað sem heimurinn okkar þarfnast þá er það að endurheimta trú á þann lífsins mátt.
Þessi staður og stund vitnar um hann. Þetta hús, Digraneskirkja, og sérhver kristinn helgidómur er helgað og frátekið til vitnisburðar um þennan lífgandi mátt himinsins sem er að verki í lífinu og mætir þér á veginum, og við borgarhliðið hinsta, um mátt fyrirgefningar syndanna, mátt upprisu og eilífs lífs.
Trúin getur visnað, dáið. Kirkjuna getur dagað uppi, orðið eins og fjörunnar flak eða opin rúst, þegar orðið og trúin snertir ekki lífið, er aðeins tilfinning, minning, hughrif, í stað þess að vera lífsmótandi afl. Hvaða vitnisburð fáum við, kirkjan í samtíðinni? Einu sinni var sagt við söfnuð: „ég þekki verkin þín, að þú lifir að nafninu en ert dauður. Vakna þú og styrk það sem eftir er og að dauða komið!“ Digraneskirkja er reist utan um samfélag lifandi fólks, samfélag í trú og gleði, samfélag sem nærir trú og eflir von og glæðir kærleika til heilla fyrir líf og heim.
Hún er góð sagan af vinunum þremur sem voru spurðir: „Þegar þú deyrð og ættingjar og vinir koma til að kveðja hinstu kveðju, hvað vildirðu þá fá að heyra sagt um þig?“
Sá fyrsti segir: „Ég vildi heyra þau segja að ég hafi verið mikill læknir sem bjargaði mörgum mannslífum, góður maður.“
Næsti segir: „Ég vildi heyra að ég hafi verið frábær kennari og faðir sem markaði djúp spor í líf margra barna, göfugur maður.“
Sá síðasti segir: „Ég vildi heyra þau segja: Sjá´iði, hann andar! Hann er lifandi!“
Í samfélagi við Krist erum við kölluð til að vaka og lifa, finna til eins og hann, vera á bandi lífsins eins og hann. Snúa menning dauðans upp í lofsöng lífsins og vonarinnar. Að segja eins og hann við þann sem harmar: „Grát þú eigi" og rétta út hlýja hönd og styrka til kraftaverka kærleikans sem fyrirgefur, reisir upp, vekur von, tendrar trú í Jesú náðar nafni. Amen
Flutt í Digraneskirkju á 16. sunnudegi e. trinitatis.