Kærleikurinn

Kærleikurinn

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Hefur þú nokkurn tíma heyrt fallegri fullyrðingu en þessa? Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Hún er í ljóði sem er kallað óðurinn til kærleikans og er í Nýja-testamentinu.

I.

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Hefur þú nokkurn tíma heyrt fallegri fullyrðingu en þessa? Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Hún er í ljóði sem er kallað óðurinn til kærleikans og er í Nýja-testamentinu.

Við heyrðum áðan lesna þrjá aðra texta úr biblíunni. Allir fjalla þeir um gildi kærleikans. Kærleika sem aldrei fellur úr gildi. Kærleikur, ást, umhyggja, virðing, réttlæti. Allt þetta felst í honum og miklu meira. Við eru allt lífið að læra um kærleikann en samt verðum við aldrei fullnuma. Hann er til í svo mörgum myndum og flest okkar þrá meiri kærleika ef ekki í eigin lífi þá í lífinu í kringum okkur hvort sem það er þar sem við búum eða í heiminum almennt. Boðskapurinn til okkar í dag er að skoða okkur sjálf og sjá hvernig við getum tileinkað okkur lífsviðhorf kærleikans eða það að sýna hann í orði og verki. Kirkjan sem slík þarf líka að fara í sjálfsskoðun og spyrja hvort hún starfi á trúverðugan hátt og láti kærleikann ráða ferðinni.

II.

Það er eiginlega hálf kaldhæðnislegt að fyrsti textinn sem var lesinn áðan úr Biblíunni var um það þegar Kain drap Abel. Bræðurnir gáfu Guði gjafir sem þeir fórnuðu honum en af einhverjum ástæðum var gjöf Abels Guði velþóknanleg en ekki gjöf Kains. Það verður að viðurkennast að það í sjálfu sér er ill skiljanlegt því gjafirnar virðast báðar vera góðar og gefnar af góðum hug. Þessi frásaga segir okkur hins vegar hvað öfund og samanburður sé slæmur fyrir mannleg samskipti. Þegar öfund grefur um sig skapar hún hatur. Hatrið í huga Kains gerðir hann slóttugan og hann bað bróður sinn að koma í göngutúr með sér. Í stað þess að geta gert upp málin eins og menn þá ræðst Kain á Abel og drepur hann. Þá byrjar hin mikla ógæfa Kains því hann ber þá óbærilegu birgði að vera bróðurmorðingi. Mín tilfinning er sú að Kain hafi upplifað óréttlæti og ekki getað séð neinn flöt á að ná sáttum en að það hafi Abel ekki heldur gert. Bræðurnir urðu því andstæðingar og hatrið óx þeirra í milli þar til að ofbeldið tók yfirhöndina. Atburður eins og morð er óafturkræft, hinn myrti er dáinn og því verður ekki breytt.

Óréttlætið, ósættið og kærleiksleysið nær yfirhöndinni. Sættir og fyrirgefning eru víðsfjarri.

III.

Lífið er fullt af andstæðum og þannig birtist það einnig í Biblíunni. Það er byrjað að tala um sköpunina og kærleika guðs til alls þess sem er skapað en svo er illskan alsráðandi á næstu blaðsíðum. En það er samt satt að kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. Illskan mun ekki sigra heldur kærleikurinn. EN... og það með stórum stöfum.. en hún er samt sterk og keppir við kærleikann á hverju augnabliki. Illskan og allt sem henni tengist kallar Biblían synd. Hvort sem við trúum á guð, sköpunarsöguna og syndafallið eða ekki þá getur enginn neitað því að hið illa sé til.

Illskan er oft svo yfirþyrmandi og ógnar lífinu á svo marga vegu að stundum sér maður hvergi votta fyrir kærleika. Samt fellur hann aldrei úr gildi.

Sagan um Kain og Abel minnir okkur á að kærleiksleysið býr meðal manna og það þarf að berjast gegn því en fyrir hinu góða.

IV.

Sagan um miskunnsama Samverjann er mun meira uppörvandi en sagan af Kain og Abel. Þar segir frá því þegar mannslífi er bjargað. Samverjar voru ekki álitnir sérlega gott fólk en Jesús lætur þann sem ekki var í miklu áliti vera þann sem sýnir miskunnsemi. þetta er dæmisaga svo Jesús réði hvernig sagan varð. Hann gagnrýnir þá sem voru taldir góðir - t.d. presta - kannski þurfum við einmitt á slíkri gagnrýni að halda í dag. Við sem störfum í kirkjunni gleymum e.t.v. að sýna kærleika á meðan aðrir eru til fyrirmyndar - þó þeir fari ekki í kirkju. Hjálpsemin virðist einmitt oft koma úr óvæntri átt.

Á tímum Jesús ríktu greinilegar fordómar gagnvart Samverjum og það vakti undrun að þeir skyldu fá hlutverk hins góða í því samhengi sem Jesús talaði í. Hann þorði að stilla fólki upp við vegg og sýna því hversu fordómafullt það var og sýna þeim hversu mikill hroki var meðal þess. Jesús segir líttu í eigin barm og skoðaðu sjálfa þig. Dæmdu ekki aðra heldur vertu miskunnsöm/miskunnsamur. Hvað er það sem ég segi en geri ekki? hvernig get ég fetað i fótspor Krists og átt þá hugsjón að kærleikurinn falli aldrei úr gildi og að hún sé þess virði að berjast fyrir henni?

Ég held að flestir vilji sýna öðrum virðingu og líta á aðra menn sem sköpun Guðs sem ber að mæta með virðingu. Það er erfitt en það er einmitt það sem við vitum. Við sjáum vanmátt okkar og getum stunið yfir því hvað það sé erfitt. Hér kemur einmitt trúin og bænin inn. Það að viðurkenna vanmátt sinn er fyrsta skrefið til að læra að þekkja sjálfa sig og viðbrögð sín.

það er gott að gera það í bæn og ræða við Guð um þennan vanmátt og biðja um kraft til að vera sú manneskja sem Guð ætlar okkur.

V.

Guð ætlar okkur það góða og það að Jesús kom til okkar er náð. Náð er mikilvægt orð í Kristinni trú. Að fá eitthvað af náð er að fá gjöf. Við þurfum ekki að vinna fyrir því að fá gjafir - þær eru gefnar og við borgum ekki fyrir þær. Þannig er náðin. Náð guðs er að Jesús Kristur kom til að taka öll mistök okkar og vanmátt, syndina, á sig. Náðin tekur burt illskuna og þess vegna erum við frjáls. Guð fyrirgefur og dæmir ekki, Hann er miskunnsamur en veit að við erum breysk. Lögmálið eða hin ströngu boðorð eru í gamla testamentinu en í nýja testamentinu kemur Jesús inn með alveg nýtt viðhorf, nýja opinberun frá Guði. Jesús boðar okkur fyrirgefningu á því að geta ekki uppfyllt öll þessi erfiðu boð og bönn. En hann segir samt að boðorðin séu enn í gildi. Hann greinir hins vegar aðalatriði frá aukaatriðum. Hann segir að mikilvægasta boðorðið sé að elska guð og síðan að elska náungann og reyndar einnig okkur sjálf. Það er leiðarljós okkar.

VI.

Í guðsþjónustunni sýnum við elsku okkar til Guðs, hlustum á það sem hann segir og lofum hann bæði með söngvum og bænum. Það að elska guð er alls ekki aukaatriði því ef við eigum að geta gefið náunganum kærleika þurfum við fyrst að upplifa kærleika. Í trúarlífi okkar - bæði heima og í kirkju- fáum við næringu eða erum nestuð. Við gefum svo af nestinu til annarra sem við umgöngumst. Við þiggjum af Guði til að geta gefið öðrum. Annars höfum við ekkert að gefa. Þegar guðsþjónustunni lýkur á hún að halda áfram út í daglega lífið, út til að gera það sem við höfum verið hvött til í messunni. Guðsþjónustunni er ekki lokið þegar við förum úr kirkju. Hún heldur áfram út í daglega lífið. Hún verður guðsþjónusta hversdagsins þar sem við deilum því með okkur sem við fengum í helgihaldinu.

VII.

En hvað heldurðu að þú hafir heyrt söguna um Samverjann oft?

Kannski erum við öll löngu hætt að heyra boðskap hennar og orðin leið á henni. Hvað kemur okkur eitthvað við um einhvern sem var rændur fyrir margt löngu og hjálp barst úr óvæntri átt. Stundum segjum við "Sjaldan er góð vísa of oft kveðin" -- en það má líka fullyrða að fjölbreytni skaði ekki.

Þess vegna þurfum við að setja sögur Jesús í nýtt samhengi. Í aðstæður okkar daglega lífs. Hvar vorum við síðast þegar við vorum að aðstoða einhvern bágstaddan? Ekki á leiðinni milli Jerúsalem og Jeríkó býst ég við.

Frekar á leiðinni milli Egilstaða og Hafnar í Hornafirði eða bara á öðrum hvorum Laugaveginum. Við getum alveg stoppað þar sem okkur sýnist vera vandræði og spurt get ég aðstoðað? Oft erum við svo hrædd um að við séum að troða einhverju upp á fólk en Biblían segir: Ótti er ekki í elskunni (v. 18-1. Jóh).

Hvaða neyð ætli hrjái okkur mest í dag? Ég segi okkur því við erum ýmist í hlutverki þess sem hjálpar eða þess sem þarf á hjálp að halda.

Gæti það verið að það sé kærleiksleysi sem hrjáir okkur mest? Að sá sem liggur slasaður við veginn sé fyrst og fremst þjáður af því að vera afskiptur. Alla vega held ég að það sé algengara að neyðin sé andlegs og félagslegs eðlis frekar en að efnisleg gæði séu ekki til staðar. Neyðin hefur mörg andlit og stundum freistast maður til að halda að við höfum sett andleg verðmæti sem hvorki er hægt að kaupa né selja neðst í forgangsröðina. Því getum við breytt ef við viljum. Margir sem hafa skyndilega fengið niðurstöðu um að þau hafi alvarlegan sjúkdóm segja að gildismatið breytist því þá fyrst sjái þau hvað gefur lífinu raunverulega gildi og hvað það er sem er náungakærleikur. .. Því sjúkur var ég og þér vitjuðu mín... verða dýrmætustu orðin sem hægt er að segja í þeirri aðstöðu.

VIII.

Kirkjan veit að orð eru ekki nóg til að góðir hlutir komist í framkvæmd.

Þess vegna hefur kirkjan í stefnumótun sinn helgað þennan vetur kærleiksþjónustu og hjálparstarfi. Það felur í sér að móta stefnu og taka ákvarðanir um áherslur. Sum verkefni eru ný en önnur ekki en öll snúa þau að náunga okkar bæði hér heima og erlendis. Þannig að Hjálparstarf kirkjunnar og Kristniboðið verða ofarlega á baugi. Þá er ætlunin að efla vinaheimsóknir eða heimsóknarþjónustu safnaðanna til að mæta þörfum þess fólks sem á erfitt með að komast af heimilum sínum t.d. vegna fötlunar eða öldrunar.

Við höfum öll slæma samvisku yfir því að meðal okkar hefur fólk legið lengi látið á heimilum sínum án þess að nokkur hafi orðið þess var. Það viljum við hindra. Við viljum rjúfa einangrun, efla samfélag, veita umhyggju og von. Margir söfnuðir hafa sinnt slíku starfi lengi og það hefur gefið góða raun. Sjálfboðaliðar starfa að þessu verkefni og þannig er hægt að taka þátt í sameiginlegu starfi sem felur í sér að gefa og þiggja. Velkomin með.

Margir hafa notið stuðnings þjóna kirkjunnar í erfiðum aðstæðum en oft virðist fólk vera hissa á því fjölbreytta starfi sem er unnið í kirkjunni.

Á eftir fáum við að heyra um starf þriggja djákna sem vinna hér í Laugarnessókn og ég vona að þau störf geti verið fyrirmynd fyrir aðra söfnuði til að efla kærleiksþjónustu sína.

IX.

Á þessum sunnudagsmorgni erum við saman - ýmist hér í Laugarneskirkju eða heima að hlusta - saman til að uppbyggjast svo að það góða geti verið okkur fyrirmynd.

Ljúkum guðsþjónustunni með þeim ásetningi að gera daglega lífið að betra lífi vegna þess kærleika sem aldrei fellur úr gildi og hefur birst okkur i Jesú Kristi.