Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Texti sá sem ég hef valið til að tala út af hér í dag er úr guðspjalli dagsins í dag sem er 11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.
Farísei nokkur bauð Jesú til máltíðar og hann fór inn í hús faríseans og settist til borðs. En kona ein í bænum, sem var bersyndug, varð þess vís að hann sat að borði í húsi faríseans. Kom hún þá með alabastursbuðk með smyrslum, nam staðar að baki Jesú til fóta hans grátandi, tók að væta fætur hans með tárum sínum, þerraði þá með höfuðhári sínu, kyssti þá og smurði með smyrslunum. Þegar faríseinn, sem hafði boðið honum, sá þetta sagði hann með sjálfum sér: „Væri þetta spámaður mundi hann vita hver og hvílík sú kona er sem snertir hann, að hún er bersyndug.“ Jesús sagði þá við hann: „Símon, ég hef nokkuð að segja þér.“ Hann svaraði: „Seg þú það, meistari.“
„Tveir menn voru skuldugir lánveitanda nokkrum. Annar skuldaði honum fimm hundruð denara en hinn fimmtíu. Nú gátu þeir ekkert borgað og þá gaf hann báðum upp skuldina. Hvor þeirra skyldi nú elska hann meira?“ Símon svaraði: „Sá hygg ég sem hann gaf meira upp.“ Jesús sagði við hann: „Þú ályktaðir rétt.“ Síðan sneri hann sér að konunni og sagði við Símon: „Sér þú konu þessa? Ég kom í hús þitt og þú gafst mér ekki vatn á fætur mína en hún vætti fætur mína tárum sínum og þerraði með hári sínu. Ekki gafst þú mér koss en hún hefur ekki látið af að kyssa fætur mína allt frá því ég kom. Ekki smurðir þú höfuð mitt olíu en hún hefur smurt fætur mína með smyrslum. Þess vegna segi ég þér: Hinar mörgu syndir hennar eru fyrirgefnar enda elskar hún mikið en sá elskar lítið sem lítið er fyrirgefið.“ Síðan sagði hann við hana: „Syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Þá tóku þeir sem til borðs voru með honum að segja með sjálfum sér: „Hver er sá er fyrirgefur syndir?“
En Jesús sagði við konuna: „Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði.“ Þessi saga er með fegurstu frásögum guðspjallanna. Áherslan er á kærleiksverkið sem konan sýnir Jesú, en athyglin er líka á viðbrögðum Jesú og annarra sem vitni verða að þessum fallega atburði. Jesús notar líkingu af skuld þegar talað er um synd og þá skilst það svo vel. Konan kemur til Jesú af því að hún þurfti á honum að halda. Hún þráði kærleika og umhyggju og því sýndi hún kærleika og umhyggju. Það er umhugsunarvert hvernig hún sýnir einmitt það sem hún þráir mest og þá fær hún það margfalt tilbaka með orðunum sem eru svo áhrifarík: Syndir þínar eru fyrirgefnar og ekki síður það sem Jesús segir í lokin: Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði. Í dag segir Jesús þessi orð við okkur: Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði. Í dag er mikil hátíð hér heima á Hólum, Hólahátíð, sem er árlegur viðburður, en sérstaklega mikil gleði fylgir þessari hátíð í dag af því að nú verður vígð til þjónustu sóknarprests hér á Hólum, Hofsósi og víðar ung kona, Halla Rut Stefánsdóttir.
Við berum í huga og hjarta miklar væntingar til þín Halla Rut. Við höfum fylgst með áhuga þínum og gleði yfir því að takast þessa þjónustu á hendur. Prestsþjónusta er þjónusta og því tölum við ekki eins oft um prestsstarf því þau sem taka að sér þessa þjónustu eru ekki að ganga inn í venjulegt starf. Þjóðkirkjan okkar er með þéttriðið net þjóna um allt land. Öllu landinu er þjónað af prestum kirkjunnar og allir geta leitað til presta alveg sama hvaða trúfélagi þau tilheyra eða jafnvel þó þau tilheyri öðrum trúarbrögðum. Prestar landsins eru alltaf til taks og á þeim er mikið álag eins og þú munt kynnast fljótlega, Halla Rut. Já, nú er hátíð á Hólum og mikil gleði ríkir yfir því að fá nýja liðskonu til starfa. Það ríkir gleði í söfnuðunum hér í nágrenni Hóla og það ríkir gleði í kirkjunni í heild. Kirkjan er eins og lið í íþróttum, hvort sem það er nú fótboltalið, handboltalið eða körfuboltalið. Liðið þarf að spila saman og allir þurfa að spila með bæði leikmenn og prestar, bæði þau sem vinna fyrir kirkjuna í sjálfboðnu starfi og þau sem eru kölluð til sérstakra verkefna eins og prestar.
Þegar nýtt blóð kemur í liðið þarf ákveðna áðlögun bæði hjá hinum nýja liðsmanni og hjá liðinu sem fyrir spilar með. En um hvað snýst leikurinn? Hvert er nú markmið þessa liðs sem við köllum kirkju? Við getum haldið áfram að nota líkinguna um íþróttaliðin. Leikurinn snýst um það að koma boltanum í mark eða koma boltanum ofan í körfuna. Boðun fagnaðarerindins um Jesú Krist er það mikilvægasta sem presturinn þarf að vefa inn í allt sitt starf, allan þann mikla vef, sem prestsþjónustan er. Störfin eru mörg og misjöfn, en það er trúin sem alltaf þarf að hafa að leiðarljósi í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Við erum kölluð til að sýna kærleika, skilning og huggun í hverju sem við tökum okkur fyrir hendur. Ég hef leyft mér að halda því fram að barna- og æskulýðsstarf kirkjunnar sé langmikilvægasti þátturinn í starfi prestsins.
Á síðustu árum hafa börn því miður fengið minni undirstöðu í kristinni trú á heimilum sínum og lítil kristinfræðikennsla hefur verið í skólum undanfarin ár og því hefur kirkjan aldrei borið eins mikla ábyrgð og nú að koma boðskapnum um Jesú Krist áfram til næstu kynslóðar. Ef við kennum ekki börnunum okkar biblíusögur og ef við kennum þeim ekki að biðja, þá hættir þessi þjóð að vera kristin. Þá þekkjum við ekki lengur grundvöll kærleikans, eins og hann birtist hjá Jesú Kristi. Biblían er leiðarljós okkar á vegi hins kristna lífs og því er svo mikilvægt að við kennum börnum og fullorðnu fólki að lesa hana. Í ár höldum við upp á 200 ára afmæli Hins íslenska biblíufélags og því hefur Biblían verið í öndvegi á þessari Hólahátíð og þar ber hæst biblíusýningin sem nú er í Auðunarstofu hér heima á Hólum og verður opin daglega út allan ágústmánuð. Biblían er mikill fjársjóður bæði menningarleg og trúarlega. Þess vegna verðum við að kenna biblíusögur, þess vegna verðum við að kenna fólki að biðja og þess vegna verðum við að miðla trú okkar.
Við allar kirkjulegar athafnir er miðlun trúar það sterkasta sem við gerum. Við öll verk presta er miðlun trúar svo óendanlega mikilvæg og við megum aldrei gleyma því sem er mikilvægast. Við eigum að boða upprisuna við útfarir, boða samfélgið við Krist við skírnina, við eigum minna á bænina við hjónavígslur og hvetja fermingarbörn til þátttöku í kirkjulegu starfi. Jesús Kristur var alltaf að boða í orði og verki. Sagan af konunni sem smurði fætur Jesú er saga sem sýnir að við getum alltaf verið að boða. Sagan sýnir líka að við getum alltaf komið til Jesú og það þurfum við sem vinnum á akri hans alltaf að gera. Við þurfum að rækta okkar eigin trú til að geta boðað hana, stunda íhugun og endurnæra okkar eigin trú reglulega. Það er sama hver bakgrunnur okkar er, við þurfum öll á Jesú að halda. Það er sama hver lífsreynsla okkar er, við þurfum öll á Jesú að halda. Það er sama hver menntun okkar er, við þurfum öll á Jesú að halda.
Jesús Kristur tekur við okkur öllum, réttir okkur hönd og gefur okkur styrk til að halda áfram þegar okkur finnst við vera orðin vanmáttug og þreytt. Halla Rut! Ég ávarpa þig sérstaklega hér í lokin: Innan skamms verða lagðar yfir þig hendur með bæn fyrir þér. Hugsaðu um þá bæn, þegar erfitt verður í starfinu og þá mun Guð gefa þér kraft og styrk. Þú munt aldrei verða ein í starfi þínu. Guð og gott fólk mun styðja þig. Vertu alltaf sönn og trú eigin sannfæringu og um fram allt, vertu alltaf þú sjálf og ræktaðu þær náðargáfur sem Guð hefur gefið þér einni. Mundu alltaf orð Jesú Krists til þín á vígsludegi þínum: Trú þín hefur frelsað þig. Far þú í friði. Guð blessi þig, Guð blessi söfnuðina sem þú munt þjóna og Guð blessi kirkjuna sem tekur með gleði á móti þér sem vígðum þjóni hennar. Í Jesú nafni. Amen.