Kyrrðarstund á kyndilmessu

Kyrrðarstund á kyndilmessu

Hvar erum við stödd einmitt núna, á kyndilmessu 2021? Hvernig er vetrarforðinn okkar? Höfum við gengið á birgðirnar innra með okkur?

Kyrrðarstund í Grensáskirkju 2.2.21

Kyndilmessa er í dag, 2. febrúar. Upphaflegt tilefni hennar byggir á Móselögum um hreinsunardaga konu 40 daga eftir barnsburð.

Með kyndilmessunni 40 dögum eftir jól lýkur hinum eiginlega jólatíma og föstutími hefst. Á latínu heitir þessi hátíð Missa Candelarum. Nafnið er dregið af kertum sem vígð voru þennan dag til notkunar bæði í kirkju og heima. Kertin – eða kyndlar - voru borin í skrúðgöngu eða helgigöngu með fögrum söng.

Þessi logandi ljós eru táknmynd Krists, líkt og páskakertið sem borið er inn þegar páskahátíðin rennur upp, það eru tákn um hið sanna og lifandi ljós sem kom í heiminn á jólum. Þetta heilaga ljós bar María á armi sínum í musterið þar sem Simeon, snortinn af heilögum anda lofaði ljós heimsins til endurlausnar hans. Kyndilmessan og ljós hennar hvetja til þess að við mætum Jesú Kristi með ljósi hinnar góðu breytni – í musteri hans og um síðir í dýrð eilífðarinnar.
        Kristján Valur Ingólfsson á kirkjan.is

Í Sögu Daganna segir að veðrabrigði þyki oft verða um þetta leyti á meginlandi Evrópu. Á sólskin þennan dag að vita á snjóa síðar og hefur sú speki verið umort á íslensku eftir erlendum vísubrotum eða spakmælum:

Ef í heiði sólin sést (eða sest)
á sjálfa kyndilmessu
snjóa vænta máttu mest
maður upp frá þessu.

 

Dagurinn er því tengdur birtu og ljósi. Var talið að veturinn væri hálfnaður um þetta leyti og því eins gott að vera ekki búinn með meira en helming vetrarforðans.

Við heyrum í dag guðspjall sem greinir frá því þegar María mætti öldunginum Símeon í musterinu (Lúk 2.25-32):

Þá var í Jerúsalem maður er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti þess að Guð frelsaði Ísrael. Heilagur andi var yfir honum og hafði hann vitrað honum að hann skyldi ekki deyja fyrr en hann hefði séð Krist Drottins. Að leiðsögn andans kom hann í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:
Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara
eins og þú hefur heitið mér
því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,
sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,
ljós til opinberunar heiðingjum
og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.

Síðustu versins, lofsöngur Símeons, eru oft flutt við útfarir á undan bænagjörð. Öldungurinn Símeon hafði beðið þessarar stundar og tók glaður barnið í fangið, ljós í heiminn komið.

Hvar erum við stödd einmitt núna, á kyndilmessu 2021? Veturinn hálfnaður, birtan sýnilega meiri en vorið þó ekki alveg innan seilingar. Hvernig er vetrarforðinn okkar? Höfum við gengið á birgðirnar innra með okkur?

Leyfum heilögum anda að leiða okkur til uppsprettur ljóssins, tökum ljós Krists að hjartastað og leyfum því að lýsa upp lífið, bregða birtu á dimmu skotin innra með okkur og færa líf okkar út í dagsljósið.

Hversu dýrmæt er miskunn þín, ó Guð,
mannanna börn leita hælis í skugga vængja þinna.
Þau seðjast af nægtum húss þíns
og þú lætur þau drekka úr lækjum unaðssemda þinna
því að hjá þér er uppspretta lífsins,
í þínu ljósi sjáum vér ljós.
                        Sálm 36