Leitin að hamingjunni

Leitin að hamingjunni

Rólegt og hógvært líf veitir meiri hamingju en leitin að velgengni sem einkennist af stöðugu eirðarleysi.
fullname - andlitsmynd Arnaldur Arnold Bárðarson
25. desember 2022
Flokkar

Gleðilega hátíð. Við fögnum nú helgum jólum. Enginn viðburður er stærri en sá er við nú fögnum. Allt gerðist það þó svo hógvært og hljótt. Barn fæddist í litlu þorpi á afskekktum stað. Það var ekki á heimili foreldra barnsins, heldur fjárhúsi gisthúseiganda í Betlehem. Foreldrarnir voru þar aðeins fátækir gestir.  Sannarlega er það undur þegar barn fæðist. Þó minnkar undrið er fram líða stundir og barnið verður eitt hinna mörgu milljarða er fylla jörðina. Sumir verða þar fátækir og án möguleika til nokkurs á meðan öðrum býðst auðlegð sem engu er lík. Hér liggur óréttlæti heimsins. Það er ekki á valdi Guðs, óréttlætið er á ábyrgð mannkynsins. Það er á ábyrgð okkar sem höfum flest ef ekki allt að huga að skorti og fátækt annarra.

Þó atburðurinn í Betlehem hafi um flest verið hógvær þá gerðust þar þau undur að himnarnir opnuðust með söng englanna og þeirri yfirlýsingu að sonur Guðs sé þar borinn í heiminn.  Vitringar og fjárhirðar fengu að sjá og heyra að þarna var eitthvað stærra og meira á ferð en nokkur gæti skilið. Þessi atburður er okkur enn undur. Þó er búið að segja söguna oftar en nokkra sögu. Búið að rannsaka atburðinn meira en nokkuð annað. Færustu hugsuðir hafa brotið heilann um fæðingu Jesú í meir en 2000 ár og þeir eru enn að. Atburður þessi hefur markað stærri spor í sögu mannkyns en nokkur annar. Um þennan atburð vitum við af því að heimildir um hann í handritum hafa verið varðveitt. Sagan hefur verið sögð ótal sinnum.

Það er til saga um lítinn miða en hún er svona. Það gerðist á Hóteli í Tókyo í Japan árið 1922 að vísindamaðurinn Albert Einstein dvaldi þar. Þegar Einstein hugðist venju samkvæmt gefa   þjórfé til dyravarðar á hótelsins þá voru engir peningar í vösum hans. Þá voru góð ráð dýr.  Brá hann á það ráð að skrifa nokkur orð á miða og rétta dyraverðinum.  Á miðanum stóðu þessi orð: “Rólegt og hógvært líf veitir meiri hamingju en leitin að velgengni sem einkennist af stöðugu eirðarleysi.”  Undir þessum orðum var nafn vísindamannsins. Þetta var niðurstaða spekings.  „Gættu að þessum miða, hann gæti verið mikils virði í framtíðinni,“ sagði vísindamaðurinn í léttum tón um leið og hann lagði miðann í hönd dyravarðarins. 95 árum síðar var miðinn seldur á 1,5 milljónir dollara á uppboði en það jafngildir rúmlega 200 milljónum íslenskra króna.

Sannarlega var verðmætið ekki tilkomið vegna þess sem stóð á miðanum heldur vegna þess hver skrifaði á hann. Það er hin einkennilega þverstæða. Því vissulega er merking orðanna miklu merkilegri en undirskrift Einsteins. Orðin vitna um snilli og speki. Miðinn var bara blað með bleki á.  En heimurinn verðmetur oft hluti vitlaust, þar verður form oft meira virði en innihald.  Sumt sem er svo ósköp hversdagslegt og lítils virði kann að verða að miklum verðmætum í framtíðinni. Þess vegna kann að vera hyggilegt að geyma margt og henda helst engu. Hver veit nefnilega nema að hið ómerkilegasta pappírssnifsi verði  að fundnu fé síðar.

Þannig var líka um fæðingu Jesú í Betlehem. Atburður sem á sínum tíma var ekki svo ýkja stór og ljóst að fáir vissu um. Hann er orðinn að einhverju sem er öllu stærra. Hátíð þar sem hjörtun opnast í kærleika. Við gefum gjafir. Ekki bara miða og jólakort með góðum orðum og frómum óskum,  heldur líka óendanlega ást og hlýju hvert til annars. Vegna Jesúbarnsins er svo margt gott til í veröldinni. En vissulega hefur jólaatburðurinn ekki útrýmt allri illsku og hatri. Þar er enn verk að vinna. 

Frægð felur í sér peninga oft á tíðum. Að eiga undirskrift íþróttahetju og mikilmennis og jafnvel mynd af sér með viðkomandi er sumum dýrmætt. Að koma á stað þar sem einhver frægur hefur verið er líka of ákjósanlegt. Poppstjarnan Justin Biber lét mynda sig á flugvélarflakinu á Sólheimasandi. Sú auglýsing hefur reynst ómetanleg og þangað rennur stöðugur straumur fólks að berja flakið augum og helst að ganga á væng þess. Margir hafa lagt leið sína til Betlehem og borið augum fæðingarstað frelsarans, vellina þar sem fjárhirðar gættu hjarðar og englarnir sungu og vitringar fetuðu slóð. Þar eiga margir vitnisburð um trúarlega upplifun.

En talandi um miðann sem Einstein gaf frá sér. Það er rétt að minna á að fjöldi handrita hefur fundist sem segja frá fæðingu Jesú, lífi hans og starfi. Allt það er ómetanlegt í sjálfu sér. Ekki bara vegna þess hve gamalt það er heldur líka miklu fremur vegna þeirrar visku og speki sem orðin lýsa.

Söfnunarárátta er annars merkilegt fyrirbæri. Þau eru mörg sem safna ýmsum hlutum. Frímerki og bækur hafa lengi heillað, pennar og merki af ýmsu tagi sem og veifur og fánar ásamt með ýmsum íþróttvarningi. Það eru líklega engin takmörk fyrir hverju fólk getur safnað. Marga dreymir um að safna peningum, hlutabréfum og líka fasteignum og þar tekst sumum bærilega. Það er munur á hóflegri söfnun sem dægradvöl og hreinni græði sem rekur fólk áfram miskunnarlaust í að reyna að eignast sem flest og mest. Græðgin er nefnilega harður húsbóndi, þrælahaldari beinlínis. Þau sem ganga græði á vald líta varla glaðan dag frá þeirri stundu. Gleði manns yfir fyrstu íbúðinni vill viðkomandi upplifa með kaupum á íbúð 2 og 3 en jafnvel þó íbúðirnar verði 1100 líkt og hjá frægu íbúðafélagi er líklegt að gleðin yfir þeim sé lítil og áhyggjan meiri af ávöxtun og arðsemi. Þannig er nefnilega leitin að velgengni sem Einstein ritaði um að hún rekur mann áfram eins og þræl, sú leit verður mörkuð endalausu eirðarleysi og óhamingju.

Einu sinni hitti Jesús ungan en auðugan mann, sá spurði hvað maður ætti að gera til að öðlast hið eilífa líf. Jesús benti honum á boðorðin og að fara að siðareglum samfélagsins. Það sagðist maðurinn gera. Jesús bað hann þá að selja allar eigur sínar og fylgja sér. Ungi ríki maðurinn gat það ekki. Hann var allt of bundinn af því sem hann átti, hann gat  ekki hugsað sér að láta neitt frá sér til að fylgja Jesú.

Ég las á dögunum frásögn af manni í Noregi. Hann átti ótrúlega lífssögu. Hann erfði gríðarlega mikla peninga eftir foreldra sína. Sjálfum gekk honum líka vel í viðskiptum og var það sem kalla má moldríkur. Lífsstíll hans var líka hreint út sagt brjálæðislegur. Hann var með einkabílstjóra og Rolls Royce bifreið og þegar hann fór erlendis þá var það í einkaþotu. Hann átti snekkju og glæsihús í útlöndum. Matur og drykkur var ætíð af dýrustu gerð og á flottustu veitingastöðum sem völ er á. Ekkert af þessu veitti honum hamingju eða sanna gleði.

Maðurinn leiddist út í meiri áfengisneyslu og síðar komu kókaín og önnur efni og áður en varði var hann djúpt sokkinn í neyslu. Þetta leiddi til slæmra ákvarðana í viðskiptum og einn dag voru fjármunir hans búnir, hann var lýstur gjaldþrota.  Við tók langt ferli í neyslu þar sem maðurinn var bókstaflega útigangsmaður í Osló. Fyrir tilstilli Hjálpræðishersins komst líf hans í betra stand. Hann fór í fíknimeðferð og gerðist sjálfboðaliði hjá Hjálpræðishernum. Hann starfar einnig í dag í hlutastarfi hjá Oslóarborg við að hreinsa rusl af gangstéttum. Það sem var merkilegt við frásögn mannsins var að hann sagðist í dag vera hamingjusamur. Hann væri að vinna við eitthvað sem hefði tilgang og líf hans væri því ekki eins innantómt og áður. En það sem mestu skipti þó er að í dag ætti hann góða vini sem honum þætti vænt um og þeir sýndu honum umhyggju líka. Þessi maður fann hamingjuna í hinu rólega og hógværa lífi og það sem ekki var svo lítils vert, hann eignaðist góða vini.

Þessi ótrúlega frásögn er sönn. Hún er líka nánast eins og sagan sem Jesús sagði um glataða soninn. Þar er sonur sem vildi fá arfinn sinn og fór út í heim og eyddi þar öllu og kemur aftur heim allslaus. Vinirnir hurfu með fjármununum. Heima er honum hins vegar fagnað og þar mætir hann kærleika og umhyggju. Sonurinn kom heim í öryggi fjölskyldunnar þar sem allt var í föstum og einföldum skorðum.

Hvað sagði ekki Einstein?

“Rólegt og hógvært líf veitir meiri hamingju en leitin að velgengni sem einkennist af stöðugu eirðarleysi.” 

Ég held við ættum að hugleiða þau orð vel. Er ekki margt sem við gætum hætt að eltast við og einmitt þá gætum við orðið hamingjusamari?

Fæðing Jesú er stór atburður.  Inn í myrkur haturs og vansældar sendi Guð son sinn til að fæðast sem ungabarn undir skini stjörnu í Betlehem. Þá skein ljós yfir myrkrið skærast og það heldur áfram að lýsa í atburðum jólanna. Það ljós er kærleikurinn til allra manna. Líf Jesú, orð hans og athafnir birta ljós sem er ekki af þessum heimi. Það ljós hefur mörgum reynst vel í baráttunni við myrkrið og óreiðuna sem víða sækir að.

 

Jesús svarar, í guðspjöllunum, mörgum knýjandi spurningum um tilgang lífsins, um kærleika og ást. Spurningum um sátt og frið, umhyggju og umburðarlyndi og siðgæði er öllu tekur fram. Þar er að finna lykil að innihaldsríka og hamingjusamara lífi.

 

Guð gefi þér og þínum gleðilega hátíð ljóss og friðar og megi birta jólanna lýsa þér á nýju ári.