Drottinn Guð, vilji þinn og vegur þinn er
okkur einatt ókunnugur. Því að þú ert órannsakanlegur. Þú gerir okkur oft
erfitt fyrir þegar við leitum sannleikans. Gefðu okkur skíra sjón og skarpan
skilning til þekkja það sem er rétt og kjark til að hafna því sem er rangt og
falskt. Þú sendir son þinn í heiminn til að sigra vald hins illa. Láttu ekki
viðgangast að við forðumst að taka ákvarðanir og afstöðu. Leiðbeindu okkur á
þinum vegi að takmarkinu sem þú setur. Lofaður sért þú að eilífu.
,,Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á, hlýðið á hann.” Þessi himnesku orð bárust þeim sem urðu vitni að skírn Jesú í ánni Jórdan. En Jóhannes skírari skírði þá frænda sinn. Að loknu reynsluprófi Jesú í eyðimörkinni komu englar og þjónuðu sárþjáðum syni Guðs til að gefa til kynna hversu mikið Guð elskaði son sinn.
Jesús er leiddur af heilögum anda út í eyðimörkina. Það átti ekki að skilja hann þar einan eftir í refsingarskyni. Það átti hins vegar að leggja fyrir hann reynslupróf. Í ritningunum tákna óbyggðirnar undirbúningsstað þar sem fólk bíður eftir næsta skrefi Guðs og lærir að treysta á miskunn hans. Í fjörtíu daga og nætur er Jesús áfram í óbyggðinni án matar. Hann virðist vera andlega sem líkamlega undirbúinn fyrir það sem kemur næst Hann er æðrulaus og lætur hvern dag nægja sína þjáningu.
Talan
40 kemur mjög við sögu í sögu Ísraelsþjóðarinnar.
Nói
og fjölskylda hans voru 40 daga og nætur um borð í örkinni eftir að flóðið kom.
Eftir það gerði Guð sáttmála við þau um að hann myndi aldrei tortíma jörðinni
aftur í flóði.
Móse fastaði fjörtíu daga og nætur uppi á Sínaífjalli áður en hann fékk boðorðin 10 frá Guði í hendur.
Ísraelsþjóðin ráfaði um eyðimörkina í 40 ár áður en þeir fóru til fyrirheitna landsins sem Guð hafði lofað að gefa þeim. Þannig refsaði og tyftaði Guð þjóð sína fyrir að að treysta sér ekki.
Jesús var líka 40 daga í eyðimörkinni. Þar voru þrjú reynslupróf lögð fyrir hann til að kanna hvort hann treysti Guði eða ekki. Og hann stóðst þessi reynslupróf. Þessi sviðsmynd tengir Jesú við fortíð forfeðra sinna. Hún varpar líka ljósi á Jesú sem í skírn sinni var kröftuglega auglýstur fyrir að vera sonur Guðs. Guð vill að hann leiði sína útvöldu þjóð inn í framtíðina.
Sjöviknafastan eða langafastan hefst með öskudegi. Þá eru 40 dagar til páska. Þeir minna á dagana fjörtíu er Jesús fastaði í eyðimörkinni.
Askan er tákn forgengileika lífsins. Öskudagur dregur nafn sitt af því að þá var og er sums staðar enn ritað krossmark úr ösku á enni kirkjugesta með þessum orðum: ,,Minnstu þess að þú er mold og að moldu skaltu aftur verða.” Við dirfumst að tjá okkur um forgengileikann með þessum hætti vegna þess að við treystum því að Guði skapi nýtt líf úr dauða og ösku. Vonin hjálpar okkur að mæta sorgum og þjáningum lífsins. Guð vekur líf af dauða, hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum því að Kristur er upprisinn, sá hinn sami og var skírður í ánni Jórdan og var þar kröftuglega auglýstur fyrir það að vera sonur Guðs. Já, Guði er ekkert um megn.
Þrátt fyrir að vísbending skírnar Jesú um sögu Ísraels sé mikilvægur farvegur fyrir sögu Matteusar um Jesú, bendir lexían á annað biblíulegt bergmál við freistingarfrásöguna en það er freisting og fall Adam og Evu. Að sumu leyti er þetta áhugaverð tenging þar sem sú saga kemst að kjarna þess hvað það þýðir að vera mannlegur. Adam og Eva eru bæði þátttakendur í sögunni.. Höggormurinn dregur í efa trúverðugleika Guðs með því að gefa í skyn að það sé meira í sögunni en Guð vill vera láta. Þannig sáir höggormurinn fræi vantrausts og býður Adam og Evu að uppfylla þá djúpu þörf sem er kjarninn í því að vera manneskja sem þarf ekki að vera í tengslum við Guð. Það er freistingin að vera sjálfum sér nægjanleg, þurfa ekki á æðri mætti að halda, sem tælir Adam og Evu til falls.
Með því að freista Jesú í eyðimörkinni þá víkur Satan að persónuleika Jesú og reynir að sá efasemdum í brjóst hans. Hann segir þrisvar sinnum. ,,Ef þú ert sonur Guðs,, Með öðrum orðum. ,,Hvernig veistu að þú ert sonur Guðs?” Viltu ekki vita það fyrir víst? Breyttu þessum steinum í brauð, kastaðu þér af musterisbrúninni, dýrkaðu mig, - og þú munt aldrei verða í vafa aftur. Og þú munt uppgötva að þú getur verið sjálfum þér nægur og þarft ekki á Guði þinum að halda. Jesús svarar með því að afneita þessari mynd sem Satan dregur upp af sér vegna þess að hann man þrátt fyrir allar erfiðleikana og þjáningarnar sem hann upplifði í eyðimörkinni hverjum hann tilheyrir.
Það sem kom fyrir Jesú í óbyggðunum speglast aftur og aftur í lífi og þjónustu hans í framhaldinu við mismunandi tækifæri.
Jesús neitar að breyta steinum í brauð til að seðja eigið hungur. Áður en langt um líður fæðir hann þúsundir í eyðimörkinni með örfáum brauðum og nokkrum fiskum. Og hann kennir lærisveinum sínum að biðja Guð, föður um að gefa sér daglegt brauð.
Jesús neitar að notfæra sér samband sitt við Guð með því að henda sjjálfum sér niður frá musterisbrúninni. Í lok jarðneskrar þjónustu sinnar þolir Jesú háðung annarra. Þá kaus hann framar öllu að treysta Guði allt til dauðans á rómverskum krossi.
Satan sagði Jesú að ef hann kastaði sér ofan af þakbrún musterisins þá myndi allur heimurinn trúa. Það er að segja ef Jesús kæmist lífs af. En auðvitað, sagði Satan, mun englar stöðva fallið og bera hann til jarðar. Jesús yrði þannig frægur á stundinni. Hinn fullkomni frelsari, sem allir myndu sjá og trúa. En Jesús valdi aðra leið.
Við biðjum Guð föður að gefa okkur daglegt brauð í faðir vorinu. Þá biðjum við Guð að gefa okkur það sem við þörfnumst til að komast í gegnum hvern einasta dag, þ.e. fæði, klæði og húsaskjól. Og viðgleymum ekki að þakka Guði fyrir þessar mikils verðu gjafir. En vegna þess að við erum ófullkomin og erum sífellt að bera okkur saman við aðra, þá finnum við fyrir eirðarleysi og rótleysi. Þó að við teljum okkur trú um að við séum sjálfum okkur næg þá er það bara ekki rétt.
Freistingarnar eru stöðugt að mæta okkur í hinum ólíklegustu myndum á hverjum degi. Hjá einum kann það að vera flaska af brennivíni sem hann tæmir nær daglega á snöggu augabragði. Hjá öðrum kann það að vera hagræðing í bókhaldinu sér í vil, hjá hinum þriðja heillandi vinur eða vinkona sem hægt er að hitta án þess að makinn viti. Margur hefur magann fyrir sinn Guð. Annar lifir fyrir tóbakið sitt eða kókaínskammtinn, Enn aðrir skoða fyllingu tilveru sinnar eftir ávöxtun fjármuna sinna. Freistingarnar eru eins ólíkar og mennirnir eru margir. En allar eiga þær eitt sameiginlegt, að þær eru löngun til syndar, þær draga okkur niður, fjarlægja okkur frá vilja Guðs, hinu góða, fagra og fullkomna, ef við föllum fyrir þeim.
Freistingarnar gera það að verkum að við finnum fyrir tómleika innra með okkur og við reynum stöðugt að fylla upp í tómarúmið með ýmsum hætti. Eftir sem áður er tómarúmið áfram þarna. Tómarúmið gæti verið í lagiinu eins og nýr bill, tölva eða betra hús, eða hinn fullkomni maki. Adam og Eva sáu ávöxtinn. Þeim var talin trú um að þau þyrftu að eta hann til að fylla upp í tómarúmið í sínu lífi. Það er ekki hægt að fylla upp í þessa holu nema í gegnum sanband okkar við Guð. Kirkjufaðirinn Ágústínus sagði að mennirnir yrðu ætíð eirðarlausir þar til þeir hvíldust í Guði.
Í faðir vorinu biðjum við Guð einnig að leiða okkur ekki í freistni heldur frelsa okkur frá illu. Það er mikilvægt fyrir okkur kristið fólk að hafna valdi Satans í lífi okkar. Guð leggur ekki fyrir okkur freistingar heldur leggur sig fram um að forða okkur frá því að verða fyrir freistingum. Þess vegna gaf Guð okkur boðorðin 10 sem við getum speglað okkur í á hverjum degi ásamt tvíþætta kærleiksboðorðinu en Jesús dró boðorðin 10 saman í þessu boðorði. Það er reynslupróf í því fólgið að spegla sig í boðorðum Guðs. Við göngum í gegnum margvísleg reynslupróf á vegferð okkar í gegnum lífið. Þá þurfum við á skírri sjón og skörpum skilningi að halda til að þekkja það sem er rétt og kjark til að hafna því sem er rangt og falskt. Það er stundum talað um það að við eigum að taka fréttaflutningi í fjölmiðlum með varúð vegna þess að sumir sjái sér hag í því að halda að okkur fölskum fréttum svo undarlegt sem það er. Þar er Satan á ferð að mínum dómi sem reynir að snúa öllum góðum gildum við og reynir að telja okkur trú um að rangt sé rétt, sannleikurinn sé lygi, og að það sé í lagi að komast upp með margvísleg siðferðisbrot ef þau uppgötvist ekki.
Því hefur verið haldið fram að Satan sé ekki til heldur sé hann hugarfóstur guðhrædds fólks. Ef það er einhver sem hlær út af þessu þá er það Satan sjálfur því að hann er mjög sáttur við það að fólk telji að hann sé ekki til.
Sumir vilja líka meina að Guð sé ekki til en við kristið fólk sem þekkjum kraft krossins og upprisu Jesú Krists frá dauðum vitum betur. Jesús er hjá okkur í anda og sannleikur hans mun gera okkur frjálsen lygi heimsins mun færa okkur í fjötra. Við skulum því biðja Jesú að frelsa okkur frá valdi Satans yfir lífum okkar.
Enginn staður er svo eyðilegur, svo fjarlægur eða svo krefjandi að Jesús hafi ekki þegar verið þar; ekkert reynslupróf er svo mikið eða freisting svo mikil að Jesús hafi ekki þegar borið sigur úr býtum.
Jesús lofaði að vera með okkur alltaf, allar stundir, alla daga, allt til enda veraldar. hann lofaði jafnframt að sú nærvera yrði dagleg og augljós. Beint fyrir framan augum okkar, ekki bara í því stórfenglega og merkilega. Heldur umfram allt í hinu smæsta og hinu lítilmótlegasta. Hversdags fyrirbæri eins og mustarðskorn, börn og brauð og glas af köldu vatni minna á návist hans. Og hann sagði að við myndum öll sjá hann í lífi sérhverrar særðrar manneskju, þurfandi manneskju sem á vegi okkar verður. Nærvera Guðs í Jesú Kristi, beint fyrir framan augun á okkur, hverja stund, alla daga, sérhvert andartak.
Hvers vegna tekur Guð ekki hið illa frá okkur?
Sagan um Adam og Evu, um syndafallið og sagan um Jesú í eyðimörkinni sem við íhugum í dag segir að hið hið góða eigi í stríði við hið illa í heiminum. Jesús kynntist hinu illa af eigin raun og þjáningunni sem er fylgifiskur hins illa.
Þar sem Kristur þekkir þjáningu mannanna af eigin raun þá getur hann sett sig í spor mannanna sem þjást af ýmsum orsökum. Krossinn staðfestir illskuna í heiminum og sýnir jafnframt að styrkur Guðs lítur út sem veikleiki í augum heimsins. Fyrir vikið er krossinn hneykslunarhella. Guðfræði krossinss leggur ekki áherslu á þjáninguna heldur miklu fremur sigurinn. Upprisuboðskapurinn birtir að þjáningin hefur ekki síðasta orðið.
Hinn þjáði Kristur gefur til kynna að kristindómurinn getur orðið uppspretta styrks sem gerir fólki kleift að lifa þjáninguna af og berjast gegn henni.
Þýski guðfræðingurinn Dorothy Soelle fjallar um guðfræði krossins í bók sinni Suffering. Þar lítur hún ekki einungis á þjáningu Krists sem einangrað sögulegt fyrirbrigði heldur telur hún að þjáning Krists hafi ekki tekið enda. Hún segir að hann þjáist þar sem fólki er misþyrmt um allan heim. Það að manneskjan skuli vera sköpuð í mynd Guðs felur í sér að við erum einnig sköpuð í mynd Krists. Það að vera í mynd Krists felst í því að standa með þeim kúguðu og þeim sem minna mega sín. Ef viö tökum undir með Soelle ætti föstutíminn í kirkjunni að vera öðrum þræði helgaður öllum þjáðum. Við speglum þjáningar heimsins í þjáningum Krists. En um leið og við beinum huga og sjónum að þjáningunni vaknar spurningin.Hvað get ég lagt af mörkum?
Ferðalag okkar með Jesú og lærisveinunum til Jerúsalem getur þannig orðið innlifun og virk þátttaka í þjáningu Krists sem einkennist af umhyggju og kærleika og lætur sig varða hina þjáðu. Það er nauðsynlegt að kirkjan gefi fólki tækifæri til að tjá líðan sina, vonbrigði og þrár, líka mitt í þjáningunni. Þess vegna er fastan og sá tími þegar við fylgjumst með ferð Jesú og lærisveinanna til Jerúsalem gagnlegur fyrir sérhverja kristna manneskju. Amen ( eftir efninu)
Flutt í Grafarvogskirkju 01.03.2020.