Kvikusvæði kristninnar

Kvikusvæði kristninnar

Það hefur nefnilega sýnt sig hversu vandasamt það er að byggja upp valdakerfi á grundvelli þess boðskapar sem Jesús flutti. Þar má taka kunnuglega líkingu af því þegar byggð er reist á flekamótum jarðskorpunnar – sprungusvæði. Jú, hrammur valdsins er samur við sig og sú hugsun hefur meðal annars mengað einstaka rit í Biblíunni. En undir yfirborðinu leynist sú kvika sem getur svo stigið upp með miklum látum og breytt gangi sögunnar.

 Nú þegar við nudduðum stýrurnar í morgun þá blasti gosið við okkur. Já, enn er farið að gjósa og enn finnum við fyrir því hversu óskapleg þau eru þessi öfl sem leynast undir yfirborðinu.


Kvikan fer upp á yfirborðið

 

Þegar þau brjóta sér svo leið upp, þá er ekki um annað að ræða en að laga sig að aðstæðum. Í þessu tilviki er blessunarlega búið að gera ráðstafanir en við þekkjum auðvitað dæmi úr sögunni þar sem sú hefur ekki verið raunin og miklar hörmungar hafa dunið á fólki, jafnvel allri heimsbyggðinni. Þetta er þó sama orkan og við nýtum til að kynda heimili okkar með og einhvern tíma brann það berg sem við stöndum nú á.

 

Mannkynssagan er kaflaskipt, ekki síður en jarðsagan. Við lesum um einstaka atburði sem breyta miklu. Völd færast á milli einstaklinga og þjóða. Uppgötvanir leiða til þess að fólk lítur sig sjálft öðrum augum og þann heim sem það tilheyrir. Ný tækni færir líf fólks í annan farveg. Nú um áramótin skemmtu þau okkur í skaupinu með því hvernig gervigreindin getur búið til myndskeið af fólki og atburðum sem eiga sér enga stoð í veruleikanum. Þess er ekki langt að bíða að við drögum allt það í efa sem birtist okkur á skjánum.

 

Svo víkja viðurkennd gildi og nýjar hugmyndir taka við. Langt mál væri að rekja dæmi um þáttaskil en ég deili þeirri hugsun með ykkur að í mörgum tilvikum var fólk grunlaust um einhver þau tímamót sem gerðust fyrir framan augu þeirra.


Að opna augu

 

Augun já. Þau eru umfjöllunarefnið í guðspjalli dagsins. Löngum hafa kristnir menn lesið texta sem þennan með það í huga að hann lýsi ekki afmörkuðum atburði í fortíð, heldur miklu fremur megi skoða hann í samhengi við þann boðskap sem Jesús flutti. Þar urðu jú heldur betur breytingar. Mitt í samfélagi þar sem réttur hinna sterku og voldugu var ótvíræður, birtist fyrir sjónum okkar sú afstaða að þau sem standa höllum fæti séu jafndýrmæt hinum þótt heimurinn hafi snúið við þeim bakinu.

 

Í menningu sem hafði boðað að tilgangur hverrar manneskju væri að hafa aðra undir, drottna yfir fólki og þjóðum, tilbiðja keisara sem guði kom sá boðskapur að markmið okkar væri þvert á móti að hlúa að hinum veiku og undirokuðu. „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu systkina það hafið þið gert mér“ segir dómarinn á efsta degi – það er hann sem vegur og metur gjörðir fólks og líferni.

 

Mér varð hugsað til þessa nú í vikunni þegar fregnir bárust af því að Guðrún Jónsdóttir baráttukona fyrir jafnfrétti og kvenfrelsi hefði látist. Hún er dæmi um einstakling sem hafði næmt auga fyrir því sem þurfti að breyta. Konur nutu ekki eingöngu lakari kjara á vinnumarkaði, þær voru kúgaðar og beittar ofbeldi án þess að við því væri brugðist. Guðrún beitti ýmsum aðferðum til að opna augu fólks fyrir þessum veruleika meðal annars húmornum sem getur verið mjög beitt vopn í höndum þeirra sem kunna með hann að fara.

 

Sjálf lýsti hún í viðtölum, framkomu einstakra ráðamanna við sig. Frásagnir hennar af þeim yfirgangi eru slíkar að mann setur hljóðan. Í þessu samhengi getum við sagt að þarna hafi hin gamla menning sýnt andlit sitt – eða jafnvel megi líkja áreitni þessari við ónæmiskerfi þar sem ráðist er gegn hverju því sem ógnar ríkjandi ástandi.

 

Já, urðum við einhvers vör? Voru fyrirsagnir helgaðar þessari þöglu breytingu? Og þó lýsa atburðir þessir slíkum umskiptum sem hér er rætt um.


Siðbætur

 

Við á þessum vettvangi – í samhengi kristni og kirkju getum sagt margar samsvarandi sögur. Við eigum meira að segja nafn yfir þær. Við köllum þær siðbót. Það er þegar einhverjum blöskrar það hvernig valdhafar stýra, hvernig þeir fara með verðmæti, beita órétti og skaða það samfélag sem á að byggja á hugsjónum Krists um gott og uppbyggilegt mannlíf.

 

Það hefur nefnilega sýnt sig hversu vandasamt það er að byggja upp valdakerfi á grundvelli þess boðskapar sem Jesús flutti. Þar má taka kunnuglega líkingu af því þegar byggð er reist á flekamótum jarðskorpunnar – sprungusvæði. Jú, hrammur valdsins er samur við sig og sú hugsun hefur meðal annars mengað einstaka rit í Biblíunni. En undir yfirborðinu leynist sú kvika sem getur svo stigið upp með miklum látum og breytt gangi sögunnar.

 

Og jafnvel þótt fólk hafi ekki nafn Jesú á vörunum, jafnvel þótt það í orði kveðnu telji sig ekki fylgja kristinni kenningu er afar sennilegt að baráttumálin megi rekja til þessara áhrifaríku orða Jesú sem áttu sér enga hliðstæðu í sögunni. Þau má jú draga saman með þeim orðum sem margir þekkja: „Hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu, fyrstir.“


Ólgusvæði kristninnar

 

Kristnin hefst með því að hinn æðsti og mesti birtist okkur sem varnarlaus hvítvoðungur og hún nær ákveðinum hápunkti þar sem hinn sami er negldur á kross og deyr í niðurægingu fyrir augum nærstaddra. Slíkur dauðadagi átti að marka endalok sérhverrar uppreisnar í hinu gamla Rómaveldi. En með upprisunni lærum við að hin hrjáðu eiga sér alltaf von, geta risið upp um síðir.

 

Hvað þýðir það? Jú, tilgangur kirkjunnar og allra kristinna safnaða er ekki að byggja múra og varðturna í kringum valdhafana sjálfa, heldur að bæta hag þeirra sem standa höllum fæti. Þess vegna hafa kristnir einstaklingar risið upp þegar þeim ofbýður óréttlætið og sóunin sem þeir telja eigi sér stað efst í valdapíramídanum. Og kalla á siðbót.

 

Við þekkjum sjálfsagt mörg þessa áhrifaríku siðbót sem varð á 16. öld þegar Lúther hóf baráttu sína gegn spilltri kirkjustjórn. En dæmin eru miklu fleiri.

 

Við báðum fermingarbörnin um að setja á blað nokkur dæmi um það hvernig við getum í stóru og smáu breytt sýn okkar á náunga okkar og okkur sjálf:

 

·      Ekki dæma fólk áður en þú hefur kynnst því.

·      Ekki draga fólk niður bara til að þér geti liðið betur.

·      Ekki ákveða eitthvða án þess að hafa farið og séð það sjálf.

·      Ekki dæma fólk eftir útiliti.

·      Það er vont hversu illa er tekið á móti fólki sem flýr stríðshrjáð lönd. Við þurfum að taka betur á móti því og leyfa því að búa í samfélaginu okkar.

·      Ofbeldismaður sér eitthvað í fórnarlambi sínu sem minnir á hann sjálfan.

·      Við getum unnið gegn fordómum með því að leita eftir sátt og bættum skilningi.

·      Finnum ljósið.

 

Þetta eru allt góðar ábendingar.


Ég er til að mynda farinn að hallast að því að breytt afstaða þjóðkirkjunnar til hjúskapar samkynheigðra sé annað og meira en ,,viðhorfsbreyting". Við höfum sennilega orðið vitni að einhverju því sem helst mætti kalla ,,siðbót" á okkar dögum. Átökin um túlkunina, hefðina, helgihaldið og siðferðið, leiddu til slíkra þáttaskila sem ég vil tengja við margvíslega siðbót í gegnum aldirnar. Og nú kannast engin við það að hafa staðið gegn þeim breytingum. Nú þykir okkur vonandi öllum sjálfsagt að fólk njóti jafnra kjara óháð kynhneigð. En svo var þó ekki hér áður.

 

Ólgandi orkan


Þessi boðskapur minnir á ólgandi orku sem dvelur undir fótum okkar. Langur tími getur liðið án þess að fólk verði hennar vart í reynd. En það heyrir boðskapinn, listamenn leggja út af honum á svo margvíslegan hátt – svo þegar fólki ofbýður það hvernig komið er fram við hópa sem standa höllum fæti þá brýst þessi orka upp á yfirborðið. Við sem tilheyrum kristinni kirkju erum meðvituð um það hvaðan þessar hugsjónir koma.

 

Sagan af því þegar hulunni var svipt frá augum mannnanna í guðspjallinu á sér margar hliðstæður í kaflaskiptri mannkynssögunni. Og þegar augu okkar opnast fyrir neyð náungans, fyrir óréttlæti og misbeitingu valds, þá verður þeim ekki lokað að nýju.