Lúk. 8. 4-15
Sáðmaður gekk út að sá. Hann hét Oddur Gottskálksson. Ungur, fjölmenntamaður, laumumótmælandi í þjónustu kaþólsks biskups í Skálholti, laumast til að þýða Nýja testamentið á móðurmál sitt. Hann hafði hrifist af áherslu hinnar nýju hreyfingar sem hinn þýski Lúther hafði hrundið af stað: Guðs orð til fólksins á máli fólksins. Hann tók áhættu; starfsframi hans gat verið í hættu. Þýðing Nýja testamentisins sem kom út á íslensku í Kaupmannahöfn árið 1540 er einn merkasti atburður í sögu íslenskrar tungu, trúar og menningar.
Sáðmaður gekk út að sá. Hann hét Guðbrandur Þorláksson, biskup á Hólum. Biskup í siðbættri kirkju, lútherskur biskup. Hafði sótt sér víðtæka menntun m.a. til Þýskalands. Guðbrandur settist niður að þýða Biblíuna á Íslensku. Nýja testamenti Odds hafði hann reyndar þegar. Hagur á orð, hagur í höndum. Flutti prentsmiðju heim að Hólum, réð fagmenn í prentun og bókbandi. Lét prenta og gaf út í fögru og vönduðu bandi á afbragðs góðri íslensku. Allt unnið á biskupssetrinu, Hólum. Árið var 1584. Eitt stærsta menningarafrek allra tíma á Íslandi. Þyngsta lóð sem lagt hefur verið til varðveislu íslenskrar tungu og trúar. Tímamót í kristnisögu Íslendinga. Dvergþjóð á norðurhjara, nokkrir tugir þúsunda manna, hafði fengið Biblíuna á eigin tungu. Sú tunga er í hópi 20 fyrstu tungumála heims sem Biblían er þýdd á. Gefum því gaum.
Sáðmaður gekk út að sá. Hann hét Jón Þorkelsson. Hafði áhyggjur af mennta- og menningarstigi þjóðar sinnar og getuleysi prestastéttarinnar. Fékk kónginn í Kaupmannahöfn til að senda hingað Ludvig Harboe, til að kynna sér málin. Afleiðing: Strangar tilskipanir um að kenna öllum íslenskum börnum að lesa, háum sem lágum. Þau þurftu að verða læs á guðsorðið og barnalærdóminn. Á skömmum tíma verður læsi almenningseign á Íslandi.
Sáðmaður gekk út að sá. Hann hét Ebenezer Henderson, tæplega þrítugur maður, staddur í Kaupmannahöfn, hvatamaður að stofnun danska biblíufélagsins. Erindreki Breska- og erlenda biblíufélagsins. Það hafði ákveðið að senda Biblíur og Nýja testamenti að gjöf til Íslands. Höfðu frétt að mikill skortur væri á slíku hérlendis, jafnvel meðal presta. Ungi maðurinn, Ebebeser, var beðinn að fara með gjöfina til Íslands. Alls 4055 eintök af Biblíum og 6634 eintök af Nýja testamentinu auk kristilegra smárita, og dreifa þessu um landið. Árið er 1814. Bækurnar voru sendar með skipum á ýmsar hafnir umhverfis landið. Hingað kominn leigir Ebenezer sér hesta (óvíst að hann hafi nokkurn tíma á hestbak komið) og fór þrjár ferðir sem spönnuðu nánast allt landið. Árið eftir, 1815, gengst hann fyrir stofnun Hins íslenska biblíufélags sem verður 200 ára eftir þrjú ár. Elsta starfandi félag á Íslandi. Hlutverk: Að sjá til þess að Biblían sé ætíð fáanleg á aðgengilegri íslensku á viðráðanlegu verði, og stuðla að lestri hennar.
Sáðmaður gekk út að sá. Hann hét Haraldur Ólafsson. Í haust lagði Hið íslenska Biblíufélag fram fé til að hægt yrði að gefa út Nýja testamentið á tungumáli Boranamanna í Suður Eþíópíu, sem Haraldur hafði lengi starfað á meðal og ásamt öðrum unnið áratugum saman að þýðingu þess. Haraldur fór suður eftir ásamt börnum sínum, til að afhenda infæddum Nýja testamentið. Í þann mund er hann ber kassana með bókunum upp á pallinn sem hann ætlaði að standa á og ávarpa fólkið, tók að hellirigna, en miklir þurrkar höfðu gengið yfir svæðið með tilheyrandi fæðuskorti. Fólkið fórnaði höndum í fögnuði. Tvöföld blessun fæða fyrir bæði líkama og sál.
Sáðmaður gekk út að sá. Tungumál heimsins eru u.þ.b. 6.600. Biblían öll hefur nú verið þýdd 469 tungumál, Nýja testamentið á 1231 tungumál hlutar Biblíunnar á um 827 tungmál. Það þýðir að Biblían eða einhverjir hlutar hennar hafa verið þýddir á 2527 tungumál. Unnið er nú að þýðingum á um 400 tungumál á vegum Sameinuðu Biblíufélaganna sem Hið íslenska biblíufélag er aðili að, sem ná munu til 2/3 hluta alls mannskyns. Oftar en ekki búa biblíuþýðendur jafnframt til ritmál fyrir umrædd tungumál, sem ekkert eiga fyrir.
Sáðmaður gekk út að sá. Biblían, óumdeilanlega útbreiddasta og áhrifamesta rit allra tíma. Hvers vegna eru mannréttindi lengst komin í löndum þar sem áhrifa Biblíunnar hefur gætt í ríkum mæli? Hvers vegna er umhyggja fyrir lítilmagnanum að jafnaði meiri í þeim ríkjum en öðrum? Hvers vegna er menntunarstig hærra þar en annars staðar? Hvaðan koma þau áhrif sem hæst hefur borið í listsköpun hvers konar í vestrænni menningu? Þannig mætti lengi telja. Gagnrýnisraddir myndu segja: Heyrðu góði, gleymdu ekki glæpunum sem framdir hafa verið af mönnum sem veifuðu Biblíunni. Nei, ég gleymi þeim ekki. Þeir voru með Biblíuna í höndunum og á vörunum en ekki í hjartanu. Eiturnaðran úr aldingarðinum Eden leikur enn lausum hala, bítur og eitrar.
Við lifum á örlagatímum. Hver er staða kristni í Evrópu samtímans? Hver er staða kristni á Íslandi? Íslensk kristni stendur að margra mati á tímamótum nú í upphafi nýrrar aldar. Að henni er sótt úr öllum áttum. Þjóðkirkjufólki hefur t.d. fækkað úr 90% í 77% prósent síðan um aldamót. Tiltölulega fámennur en áhrifamikill hópur guðleysingja er ötull við að sá sáðkornum guðleysis og kirkjufjandskapar og leitast við að tína upp af kostgæfni hið góða sæði Guðs orðs svo það beri ekki ávöxt. Þeir eru frjálsir að því. Tökum okkur þá til fyrirmyndar hvað varðar brennandi áhuga á að breiða út eigin sannfæringu. Samband ríkis og kirkju verður án efa endurskoðað við gerð nýrrar stjórnarskrár. Til hvers mun það leiða? Trúarbragðafræðsla í skólum er í endurskoðun. Margt bendir til að hlutur kristindómsfræðslunnar minnki verulega. Það verður trúarlegt og menningarlegt slys. Þannig mætti lengi telja. Og kirkjan hefur sótt að sjálfri sér innan frá með margskonar sundurlyndi. Hvað er til bragðs að taka?
Sáðmaður gekk út að sá. Sáðkornið er í höndum okkar. Hvað gerum við við það. Og hvers vegna skyldum við svo sem fara af stað?
Biblían, Guðs orð. Biblían, orð lífsins. Hvað þýðir það? Biblían, vitnisburðurinn um Jesú Krist. Lúther lagði áherslu á að kristnir menn skyldu lesa Biblíuna þannig að þeir tækju til sín og tækju alvarlega allt það sem benti til Jesú Krists. Það væri Guðs orð. Hver var hann? Hvað er vona merkilegt við það að vera Jesús Kristur. Hvað olli því að þau lögðu af stað, sáðmennirnir fyrstu, sem hann sagði við: Farið út um allan heim og gjörið allar þjóðir að lærisveinum. Og hver voru þau?
Það er ekkert hetjusagnayfirbragð yfir fylgjendum Jesú Krists og viðbrögðum þeirra á föstudaginn langa og dagana sem á eftir fylgdu. Það er ekkert karlmennskuyfirbragð á leiðtoganum Pétri, þar sem hann læðist út úr hallargarði æðstaprestsins grátandi brigður sínar - og hinir lærisveinarnir eru flestir svo fjarri í skelfingu sinni að þeir eru ekki einu sinni nefndir í sumum frásögnunum af upprisu Jesú. Frásagnirnar af atburðum páskadagsins segja hins vegar frá einhverjum vandræðagangi í nokkrum konum sem varla vissu hvað þær voru að vilja á fætur svona snemma á fyrsta degi vikunnar til að smyrja lík látins vinar, án þess að vita hvort þær kæmust nokkuð að þessum líkama þar sem hann lá lokaður inni í hellisskúta. Hvílíkt upphaf á alheimnshreyfingu. Hvílíkt upphaf á útbreiddustu trúarbrögðum heims. Dauður leiðtogi, skelfdir lærisveinar og ráðvilltar konur.
Hvernig stóð á því að þessi rislitli og ráðvillti hópur breyttist í hóp djarfra votta sem voru þess albúnir að láta lífið fyrir þennan vitnisburð sinn: „Kristur er upprisinn. Kristur er sannarlega upprisinn!“ Hvað hafði komið fyrir þetta fólk? Þau mættu honum, heyrðu hann, snertu hann, og öðluðust fullvissu um að upprisa hans var jafn raunveruleg og dauði hans hafði verið, að hann lifði og væri sá sem hann sagðist vera, Guð í heiminn kominn með erindi til mannanna. Erindi um elsku Guðs og fyrirgefningu, boð um upprisu og eilíft líf. Og enn er þessu trúað, enn er þessum boðskap trúað og við honum tekið af mörgum sem mæta honum sem lifandi staðreynd. Þess vegna fóru þau af stað.
Ástæða þess að dauði og upprisa Jesú Krists er kjarninn í prédikun frumkirkjunnar og æ síðan er sú að þessi atburður er ekki aðeins skilinn sem þungamiðjan í tilvist Jesú Krists, heldur þungamiðjan í tilvist sérhvers manns. Að heyra um dauða og upprisu Jesú Krists er að sjá allt, - ekki aðeins veru hans, heldur veru sjálfs sín - í ljósi dauða hans og upprisu. Þá fyrst hefur þessi vitnisburður verið heyrður eins og frá honum er sagt, þegar hann snýst um sjálfan mann, vegna þess að Nýja testamentið kannast ekki við neinn Jesú annan en þann sem lét lífið fyrir alla og reis upp fyrir alla. Þess vegna kemur dauði hans mér við jafnt og eigin dauði, jafnvel meira en eigin dauði. Og þannig verður fagnaðarerindið um upprisu Jesú jafnframt fagnaðarerindið um upprisu mína. Ég er upprisan og lífið, hver sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi, segir Jesús. Í upphafi var orðið, og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. – Og orðið varð hold. – Ég er hið lifandi orð, segir Jesús. Orð sköpunarinnar. Orð endurlausnarinnar. Orð dómsins. Orð náðar og fyrirgefningar.
Hvernig á kirkjan aða bregðast við þ egar boðskapurinn um Krist á í vök að verjast? Hún á að tygja sáðmenn til að fara út að sá. Ekki til að blaðra um dægurmál. Heldur til að ræða við samtímann, - ekki á forsendum samtímans, heldur á forsendum kirkjunnar, forsendum orða Krists. Kristur var ekki þjóðfélagslegur umbótamaður. Kirkjan er ekki þjóðfélagsleg umbótahreyfing. Hún er kirkja Krists, sem boðar orð Krists, sem er þess megnugt að umskapa manninn. Með slíkri umsköpun breytist samfélag manna í grundvallaratriðum.
Og munum að kirkjan birtist ekki í hempuklæddri skrúðgöngu prestastéttarinnar á synodus, sem blaðaljósmyndarar hafa yndi af að ljósmynda á hverju ári. Þessi skrúðganga er fámennur hópur fólks sem ráðið hefur verið til tiltekinnar þjónustu. En kirkja Krists birtist hér á kirkjubekkjunum. Skilaboðin eru því þessi: Far þú út til að sá. Far þú til að hafa áhrif sem kristin manneskja. Sæðið er Guðs orð. Þér er trúað fyrir því. Það er ekkert náttúrulögmál að íslenskt þjóðfélag afkristnist. Það gerist því aðeins ef sáðmennirnir sitja heima og maula kornið sjálfra sín vegna. Vissulega eiga þeir að nærast af því, en í þeim tilgangi að öðlast kraft til að standa upp og fara út á akurinn. – Sæðið er Guðs orð. Ég er orð lífsins, segir Jesús. Allir geta sáð. Stóran hluta starfsævi minnar hef ég með einum eða öðrum hætti unnið að kristinni fræðslu barna og ungmenna. Þess vegna fyrirgefst mér vonandi þótt ég ljúki orðum mínum með því að segja: Auk þess legg ég til að íslenska þjóðkirkjan og söfnuðir hennar geri barna, unglinga og foreldrastarf að algjöru forgangsverkefni næstu tvo áratugi, og þá meina ég algjöru forgangsverkefni. Þar er jarðvegurinn frjór. Sáðmenn, farið út að sá!