Efstu dagar

Efstu dagar

Sjóndeildarhringurinn umhverfist í kringum hvert og eitt okkar, bæði það sem skynjun okkar nemur og svo ekki síður hitt sem brýst um í huga okkar og sálu. Hversu endalausar eru þær víddir? Já, þar er að finna heilan alheim af myndum, frásögum, hugrenningum, minningum, vonum og upplifun. Heimsendir, er það okkar dauðans óvissi tími?

Heimsendir er sannarlega ekkert smáorð. Svo víðfemt er það og yfirgripsmikið að við getum vel reiknað með því að merking þess sé margvísleg og margslungin.


Heimur líður undir lok

Jú, vissulega hefur uggurinn blundað í mannkyni sennilega allar götur frá upphafi að hinn raunverulegi heimur eigi eftir að líða undir lok. Á okkar dögum hafa fræðimenn dregið upp ýmsar sviðsmyndir um það hvernig endalok alls geti orðið og horfa þá út í ómælisvíddir geimsins með öllum þeim ógnarkröftum sem þar leynast.

 

Kynslóðin sem ég tilheyri ólst upp á tímum kjarnorkuógnar. Þegar ég sat við heimilissímann á þeim árum og beið kannske eftir að einhver vinurinn svaraði þá blaðaði ég gjarnan í símaskránni. Þar á fremstu síðum voru leiðbeiningar um viðbrögð ef atómsprengja spryngi yfir byggð á Íslandi. Þetta voru einfaldar skýringarmyndir ekki ósvipaðar þeim sem við fáum með IKEA mublunum – og þetta gaf hinum ógnvænlega dómsdegi tja eiginlega hálf hversdagslegt yfirbragð. Maður fletti í þessar myndir og velti því e.t.v. fyrir sér hvort raunverulegt skjól væri í kjallarageymslu ef ósköpin dyndu yfir.

 

En þótt kalda stríðið hafi runnið sitt skeið er efsti dagur alltaf handan við hornið. Við þekkjum lýsingar á því hvernig hinn þekkti heimur geti liðið undir lok, hvort heldur það er af náttúrunnar völdum eða okkar mannnanna. Hið síðarnefnda er vissulega ógnvekjandi sama hvernig á það er litið. Það er sannarlega áfellisdómur um það mikla vit sem við höfum þróað með okkur að svo margt sem af því hefur sprottið skuli raunverulega getað tortímt öllu því fagra og góða sem plánetan hefur getið af sér.

 

Og á þeim stað mætast jú hin nútímalega hugsun og boðskapur Biblíunnar. Já, Biblían vísar tíðum í hina efstu daga þegar heimurinn mun líða undir lok og hér í guðspjalli dagsins heyrðum við orð Jesú þar sem hann varar við því sem er framundan. Og já, þarna sjáum við tengsl á milli því í þessu samhengi er horft til þess hvernig lífi okkar hefur verið háttað. Heimsendir í því samhengi fær þess vegna jafnvel enn þrungnara nafn: Dómsdagur.


Dómsdagur

 

Því endirinn helst í hendur við dóminn. Hann er eins og úrskurður og þar er ekki könnuð þekking eða færni eins og í skólakerfinu. Nei, hér eru það hugtökin réttur og réttlæti sem skipta sköpum. Jesús brýnir okkur um að halda vöku okkar, leggjast ekki í sinnuleysi vanans þar sem við skeytum engu um það sem ætti að varða okkur mestu. Hugleiðingin um endalokin verður í raun að brýningu til okkar um að lifa sæmandi lífi. Það sjáum við þegar í upphafssetningunni: „Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.“

 

Hér er líka orðum beint til einstaklinga, fólks af holdi og blóði sem tókst á við stórar spurningar og viðfangsefni. Þegar Jesús talar um hinn óvissa tíma dómsins og setur í samhengi við hin miklu endalok – þá getur það ekki síður vísað til þess þegar dagar okkar sjálfra eru að baki.

 

Í raun erum við hvert og eitt okkar eins og heill heimur. Sjóndeildarhringurinn umhverfist í kringum hvert og eitt okkar, bæði það sem skynjun okkar nemur og svo ekki síður hitt sem brýst um í huga okkar og sálu. Hversu endalausar eru þær víddir? Já, þar er að finna heilan alheim af myndum, frásögum, hugrenningum, minningum, vonum og upplifun. Heimsendir, er það okkar dauðans óvissi tími?

 

Í Biblíunni erum við í sífellu minnt á þann dómsdag sem mætir okkur, hverju og einu í lífinu. Ákallið um að við stígum sjálfviljug skref til nýrra siða og breyttrar háttu verður æ meira aðkallandi. Þar skynjum við hvað hugmyndin um endalokin hefur í raun sterkan siðferðilegan boðskap. Já, dagur dómsins er í raun sú stund þar sem við leggjum líf okkar á vogarskálarnar.


Siðferðilegur dómur

 

Þegar Biblían talar um dómsdag þá felur það alltaf í sér ákveðið próf. En það er þó aldrei sett svo fram að vonin sé þar ekki alltaf nærri. Aldrei megum við missa vonina og ekki skulum við vanmeta það góða sem í hverju okkar býr. Í hjörtum okkar er ljós kærleika og réttlætis sem getur skinið skærar og þá batnar heimurinn. Vistkreppan kann að leiða til þess að ný tækifæri verði til. Mögulega færist sama kapp í hugveitur og tæknismiðjur heimsins eins og gerist á ófriðartímum – en nú verði það ekki gert til að styrkja eitt ríki á kostnað annars, heldur verði það allt unnið þágu móður jarðar og framtíðar mannkyns.

 

Til þess að svo megi verða þarf samt eitthvað miklu meira en tæknikunnáttu og fræðilega þekkingu. Við þekkjum of mörg dæmi um það hvernig guðsgáfan sú sem skynsemin er verður misnotuð og leiðir til af sér eyðileggingu og skaða. Jesús ávarpar okkur sem siðferðisverur, talar inn í sálu okkar: ,,Orð mín munu aldrei líða undir lok segir hann – og vísar til þess að hugsjónin um bættan heim, um alúðina í garð þeirra sem standa höllum fæti – er að endingu það sem skilur á milli feigs og ófeigs í þessum efnum."

 

Að endingu verður þessi dómsdagur ekki tilefni örvæntingar og uppgjafar – heldur þvert á móti. Hann verður okkur hvatning til að lifa því lífi sem er okkur samboðið, okkur sem eigum þá köllun að geta lifað lífi sem er ríkt að tilgangi og merkingu.

 

Og þar tala aðrir textar dagsins til okkar. ,,Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið."


Hulin framtíð

 

Við stöndum í tímamótum hins liðna og þess sem bíður. Allt lífið göngum við í gegnum slíkar krossgötur. Sumt af því sem mætir okkur er ekki á okkar valdi en annað er það sannarlega. Sjálf getum við túlkað og metið aðstæður, við ráðum því hvernig við breytum og hvaða fjársjóðir það eru í hjarta okkar sem við kjósum að varðveita. Framtíðin er hulin en ef við leggjum traust á Guð og fylgjum boðum hans mun okkur farnast vel.