,,Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð?” Svona spyr Kristur í guðspjalli dagsins og rödd hans er ströng og fordæmandi. En hvað? eigum við að reyna að setja okkur í spor þess sem býsnast yfir hnignun kynslóðanna - á fyrstu öld? Eru kynslóðirnar ekki hver annarri líkar? Líklega þó fyrst og fremst í því að finnast sem heimur versnandi fari og að æskumenn á hverjum tíma hafi ekki sama dug og siðvit og fyrri kynslóðir höfðu. Og þá verður gagnrýnin ekki á eina kynslóð heldur á mennina sem slíka. Áminning Jesú birtist okkur á þessum ágústdegi og hann varpar þar ljósi á sitthvað það sem miður kann að fara í fari okkar. Textar þessa sunnudags eru sannarlega óvægnir í gagnrýni sinni, ekki bara á þær kynslóðir sem á hlýddu þegar orðin voru flutt, heldur til okkar allra sem höfum lifað á öllum tímum í sögu mannsins.
Reiði og dómur
Já, stef þessa daga er reiðin og dómurinn. Ekki er það nú endilega það skemmtilegasta að hlýða á, þegar auglýst er messa á síðsumardegi og svo kaffi og sætabrauð á eftir. Hver vill hlýða á slíka neikvæðni? Áður en lengra er haldið er rétt að hugleiða það að Biblían birtir okkur kenndir sem rúma allt litróf tilfinninganna. Þar kynnumst við gleði, kærleika, leitina að tilgangi, eftirvæntingu, þrá, djúpri sorg og dauða og svo hér er það sjálf reiðin, vonbrigðin og dómurinn sem einkenna samskipti Guðs við manninn. Guð Biblíunnar er að sama skapi margbreytilegur og ríkur að tilfinningum.
Hin kristna Guðsmynd er ekki sú sama og heimspekingarnir boðuðu um þann Guð sem ríkti hátt í fjarskanum, óbreytanlegur og stöðugur í alveldi sínu. Slíkur Guð er auðvitað svo fullkominn, að þar breytist ekki. Allar breytingar á því sem er algott hljóta jú að vera til óþurftar. En hinn tilfinningaríki Guð Biblíunnar er þvert á móti kærleikurinn uppmálaður og kærleikurinn er ekki alltaf ljúfur og mildur. Nei, enginn reiðist meira en sá sem elskar, aldrei nísta vonbrigðin meira en í sálu þess sem horfir upp á ástvini sína fara villur vega og engar sorgir eru dýpti ástarsorgir. Hvergi skynjum við þetta sterkar en á lokaskeiðinu í hjálpræðissögunni þegar vinir Jesú, lærisveinarnir svíkja hann og bregðast honum hver af öðrum. Þeir sem útvaldir höfðu verið, gerast hvikulir og þeir verða um leið eins og fulltrúar mannkyns. Þeir birta okkur ekki myndina af Júdasi og Pétri, heldur okkur sjálfum, hverju og einu okkar sem villast oft af veginum.
Borgir brenna Vei þér Kórasín! Kapernáum mun steypast í dýpstu myrkur! Jesús telur upp borgirnar í dómi sínum, og það gerum við líka þessa dagana. Nú minnumst við þeirra atburða er áttu sér stað fyrir sjötíu árum þegar tvær borgir voru brenndar til grunna austur í Japan. Á þessum degi féll einmitt sú síðari. Þetta voru tímar ófriðar þar sem eins og allar siðareglur og öll lögmál létu undan fyrir grimmd og skefjalausri baráttu upp á líf og dauða. Áður en sveppaskýin lýstu upp himininn yfir Hírósíma og Nagasaki höfðu margar aðrar borgir verið brenndar til grunna og dugði þó ekki til, baráttan hélt áfram í Kyrrahafi þótt Þýskaland nazismans væri sigrað. Eftir sprengjurnar tvær, sem báru þau saklausu nöfn, Litli strákur og Feiti strákur, lýstu Japanir því yfir að þeir myndu ekki berjast framar. Þetta voru óhreinar sprengjur sögðu þeir, og drógu upp hinn hvíta fána uppgjafar.
Já, sprengjurnar voru óhreinar - þetta var eitthvað nýtt og frábrugðið og heimurinn varð ekki samur eins og við vitum. Oppenheimer, einn þeirra sem tók þátt í smíði þessara vítisvéla spáði því einmitt að þær myndu gera hefðbundnar styrjaldir óframkvæmanlegar. Nú væri mannkynið komið yfir síðasta hjallann á fjallgöngu sinni og þar fyrir handan blöstu við nýjar lendur.
Þetta var upphaf nýrrar aldar - atómaldar, þar sem yfirvofandi dómur um tortímingu alls lífs á þessari plánetu skóp grunninn fyrir eitt lengsta friðartímabil mannkynssögunnar. Sú er einmitt raunin. Á þessum áratugum sem liðið hafa frá eyðileggingu borganna tveggja, hafa færri látið lífið í styrjöldum en dæmi eru um í sögu mannkyns. Það er í raun dapurlegt til þess að hugsa að þrátt fyrir góðan vilja og alla viðleitni til að skapa frið á meðal manna verður raunin samt sú að óhreinu sprengjurnar urðu til þess að hindra önnur allsherjarátök á milli stórveldanna.
Ástarkvæði um víngarð
Í textum dagsins er einmitt fjallað um brostnar vonir til mannsins. Ástarkvæðið um víngarð ástvinarins, er texti Jesaja: ,,Hann vonaði að garðurinn bæri vínber en hann bar muðlinga”. Í reiði sinni, reif hann allt til grunna. Hann skyldi verða troðinn niður. ,,Hann vænti réttlætis en sá blóði úthellt, vænti réttvísi en neyðaróp kváðu við.” Þetta ljóð er um hinn útvalda lýð, Ísraelsmenn og dómur Drottins er harður, heiftin sem hann sýnir er reiði þess sem hefur ekki fengið endurgolda ást sína. Boðskapurinn er óvæginn en hann samræmist engu að síður vel þeirri mynd sem við höfum af mannkyni og sögu þess.
Dómur byggir alltaf á einhverri forsendu. Hún kann að vera skráð í lögbækur, réttarkerfi, siðareglur. Þar eru orðaðar þær hugsjónir sem mannlegt samfélag á að lifa eftir. Sá er einmitt útgangspunkturinn í því áfelli sem hér er flutt. Að baki býr vissulega myrk sín á verk mannsins og afrakstur hans, en sá dimmi tónn er grundvallaður á stórum væntingum. Já, að baki þeim myrka tóni sem einkennir texta þessa dags er björt sýn á eðli mannsins og þau tækifæri sem honum eru búin.
Þeim boðskap megum við ekki gleyma. Óðurinn í Jesaja heitir einmitt, Ástarkvæði um víngarðinn og þótt það leiði til eyðileggingar er engu að síður kvæði um það sem stendur hjartanu nærri. Að baki hinni ströngu áminningu býr fögur hugsjón um þá möguleika sem í okkur búa.
Kirkja á ferð Breytingin er svo hlutskipti þeirrar kirkju sem kennir sig við Krist og fagnaðarerindið sem frá honum kemur. Kirkjan þarf að sama skapi að taka til sín þær áminningar sem berast um lakan ávöxt og brostnar væntingar. Um leið þurfum við sem tilheyrum kirkjunni og erum hluti hennar, að láta hið fagra og góða brýna okkur áfram og hugleiða þann kærleika sem býr að baki dómi og fordæmingu. Jú, við erum ekki óbreytanleg fremur en sá Guð sem við játum trú á. Við erum á sífelldri vegferð þar sem við endurskoðum breytni okkar og boðun frá einum tíma til annars. Þessi sjálfsrýni er innbyggð í störf kirkjunnar. Lúther sagði á 16. öld að kirkjuna þyrfti stöðugt að siðbæta og gaf þar tóninn fyrir þá sífelldu innri endurskoðun sem þar skyldi eiga sér stað.
Við sáum einn afrakstur hennar í gleðigöngunni í gær. Það var lítið dæmi um það hvernig samfélag tekur stakkaskiptum - fer frá einum stað til annars, lítur í eigin barm og skynjar að rétt hefði verið, og já í anda kærleikans, að breyta á annan hátt en gert hefur verið. Þjóðkirkjan flykkir sér nú að baki þeim sem hún hafði áður snúið bakinu við. Það gerist ekki í kjölfar þeirrar viðhorfsbreytingar sem hefur orðið í samfélaginu á síðustu árum. Nei, í nokkra átatugi hafa prestar og guðfræðingar unnið að því að efla tengslin við samkynhneigða og breyta þankagangi á því sviði innan sinna vébanda.
,,Við hvað á ég að líkja þessari kynslóð?” svona spyr Kristur og furðar sig á því hversu grýttur jarðvegurinn er fyrir fagnaðarerindið hvort heldur það kemur frá Jóhannesi skírara eða honum sjálfum. Síðan er langur tími liðinn og ótal blóðug spor hafa verið stigin. Á síðustu áratugum hefur ógnin við gereyðingu alls lífs komið í veg fyrir aðra allsherjarstyrjöld. Mikið verk er óunnið við að rækta það góða sem í okkur býr og efla þau tengsl sem leiða til friðar og farsældar. Á okkur hvílir sú skylda að beina kastljósinu að okkur sjálfum. Leggja okkur sjálf undir þann dóm sem Kristur fellir og minnast þess þá um leið hversu mikið gott býr í brjóstum okkar og hversu mikils virði það er að það fái notið sín. Guð til dýrðar og okkur öllum til heilla.