Klassík

Klassík

Biblían er ekki google-græja fyrir þau, sem leita þekkingar um uppruna heimsins eða genamengi manna. En hún er leiðarvísir fyrir þau sem leita að nýju og betra lífi. Biblían er ekki lögbók eða sniðmát um leyfilegar hugsanir og lágmarks siðferði. Biblían er um Guð, líf, leið og hamingju. Biblían er alltaf á leið út úr skápnum og inn í lífið.

Hvað er dýrmætt? Hvernig á meta dýrmæti og í ljósi hvers og hvaða samhengis? Nú er biblíudagurinn og þá íhugum við mál biblíunnar. Öll eigum við sjálfsagt minningar um biblíu, notkun hennar og afdrif. Einhverjir hafa jafnvel glímt við hvort maður eigi að meðhöndla ónýta biblíu eins og þjóðfána, brenna en henda.

Saga var sögð af manni nokkrum, sem ákvað að taka ærlega til hjá sér. Í atinu rakst hann á gamla og svo illa farna bók, að hann sá ekki ástæðu til að varðveita hana heldur skellti henni í gáminn með hinu draslinu. Skömmu síðar hitti hann bókhneigðan kunningja sinn. Vinurinn í tiltektinni sagði: “Heyrðu mig, ég var að henda gamalli og illa farinni skræðu.” “Það er ólán” sagði bókakarlinn. “Þú hefðir nú átt að koma með hana til mín og leyfa mér að fá hana frekar. En hvers konar bók var þetta?” “Æ, það stóð á forsíðunni eitthvað gut, líklega guten eitthvað.” Og bókasafnarinn spurði: “Heldurðu að það geti hafa verið Gutenberg, þessi sem prentaði fyrstu Biblíuna? “Já, ég held að það hafi staðið á forsíðunni. En bókin var alger ræfill. Þar að auki búið að krota bókina svo illa að hún var alveg ónýt. Það var einhver Mart. Luth. sem var búinn að fylla út allar spássíur með athugasemdum.” Þá æpti bókavinurinn upp yfir sig. “Það hefur verið Marteinn Lúther og þetta hefði orðið dýrasta bók heimsins!

Biblíudagur og bækur Það væri auðvitað skemmtilegt að eiga vinnueintak siðbótarmannsins af þýsku Biblíunni, sem var svo mikilvæg, ekki aðeins fyrir trú og kirkju heldur líka fyrir þróun þýskrar og vestrænnar menningar. Þó Gutenbergbiblían hafi verið mikilvæg skiptir þó kristnina engu máli hvort eintak Lúthers fór á haugana eða ekki – eða hvað? Fágætar bækur eru dýrmæti en skipta þó sjaldan sköpum um lífshamingju eða lífsstefnu fólks. Bækur skipta fólk fyrst algeru máli þegar fólk breytist við lestur þerra. Það er innihaldið í bókum, sem er megingildi þeirra.

Sígildi Við tölum stundum um sígildar bókmenntir. Þó gullaldarbókmenntir Íslendinga séu merkilegar eru þó ekki mörg rit, sem hafa mikið gildi fyrir nútímafólk eða heimsbyggðina. Það er mikið búið að skrifa á Íslandi síðustu tvö hundruð árin, en aðeins lítill hluti þess hefur varanlegt gildi nema fyrir fræðimenn og í safnasamhengi. Milljónir rita hafa verið gefin út síðustu aldirnar en aðeins nokkur hafa svo mikla þýðingu að þau eru klassík, hafa gildi handan upprunalesendahóps. Þetta eru bækurnar sem hafa djúptæk áhrif, fjalla um sammensk mál með þeim krafti að þær lifa af flóð tímans og hafa áhrif óháð menningu. Þetta eru hin eiginlegu sígildu rit. Þau eru klassík vegna þess að þau megna að hrífa lesendur svo að líf þeirra fær merkingu og nýja vídd. Það er einkenni hins sígilda að varpa upp kostum fyrir lesendur um eigið líf óháð hvenær fólk lifir. Hin sígilda bók hrífur, opnar líf fólks með því að opna nýjar gáttir. Hin sígilda bók er sem lykill að nýju lífi, nýjum möguleikum, nýrri lífssýn og lífsháttum. Klassík opnar sjóndeildarhringa.

Klassík Fyrir mörgum árum las ég bækur guðfræðingsins David Tracy. Sá merki maður kenndi guðfræði í háskóla í Chicago í Bandaríkjunum á síðari hluta 20. aldar og er um þessar mundir – eftir því sem ég best veit – að skrifa bók um Guð. Bækur hans eru skemmtilegar, fjalla um mál lista og flestra greina mannvísinda, já allt þetta sem háskólakennari í húmanískum fræðum lætur sig varða. Í einni bóka hans, the Analogical Imagination, fjallar hann um hvað hefur áhrif á fólk og hvernig líf manna breytist – hvað megnar að opna líf okkar – stækka sjóndeildarhringinn.

Meðal þess sem hann bendir á í þessari bók eru áhrif klassikera, hins sígilda. Klassískir höfundar eru enn lesnir því fólk finnur sjálft sig í sögunum. Klassík hefur þennan mikilvæga plús, merkingarauka, sem höndlar fólk óháð tíma - höndlar en breytir líka. Fólk nemur gildi fyrir sjálft sig en tengist þar með einnig við hið stóra og mesta. Að tengjast mennsku sinni er jafnframt það að tengjast hinu stórfenglega, það sem trúmenn kalla Guð. Hið mennska og himneska faðmast þegar fólk gengst við sjálfu sér.

Stórbækur heimsins hafa áhrif, trúarbækur, ljóð, stóru skáldsögurnar, þessar bækur sem ná til eða höfða til dýpta, tilfinninga með þeim hætti að fólk verður ekki samt heldur tekur nýja stefnu.

Klassík knýr á dyr okkar hið innra, höfðar til dýptanna í okkur, kallar okkur til lífs og tengsla. Og þegar dýpst er skyngst – kallar okkur til að lesa eða túlka okkur í tengslum við Guð. Hvernig væri að þú færir að íhuga það sem mest höfðar til þín í listum, sögu, samtíð og íhugaðir hvað í þér bregst við, hvað í þér bifast. Hvað er að lifna og af hverju? Klassík kallar alltaf fram líf og tengir við líf heimsins, annars er engin klassík á ferð.

Klassík er fyrir lífið. Þegar tortímandinn með ljáinn fer um á akri tímans fellur léttmetið en klassíkin lifir af. Í öllum listum, öllum greinum mannlífs eru til sígild verk, sem hafa svo mikil áhrif að við heillumst, hrífumst og breytumst af þeim óháð tíma. Og persónur sem hafa áhrif á heimssöguna eru líka klassík.

Biblíuklassíker Biblían lifir í veröldinni því hún fæst við stóru mál mannanna, hvernig lífið getur snúist frá myrkri til ljóss, sorg til gleði, dauða til lífs. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af að hún hverfi í mistur tímans, því hún er klassík. Hún er auk þess að vera trúarrit kristinna líka sígildar bókmenntir. Hugmyndaheimur Biblíunnar hefur haft svo víðtæk mótunaráhrif, að ekki hægt að skilja vestræna sögu, menningarsögu heimsins, nema með því að vita talsvert um efni þessa mikla bókasafns. Það er illa menntaður maður sem ekki kann einhver skil á Biblíunni.

Hvort sem horft er frá sjónarhóli manna eða Biblíunnar er ekki aðalatriðið að geta þulið staðreyndir frá Palestínu, vita hvaða ár hebrar voru herleiddir, hvar Hinnomsdalur var, hvenær síðasti hluti Jesajabókarinnar, trító-jesaja var skrifaður. Skilningur er mikilvægari en staðreyndaskil. Menn kunna jafnan meira en þeir skilja. Skólinn sér um eða á að sjá um staðreyndir og fræðslu þeirra, en hlutverk kirkjunnar er að miðla skilningi, visku og trú.

Tengist lífi manna Mesta gildi Biblíunnar er inntak hennar, en ekki fræði hennar. Þegar menn rata í háska og voða er hægt að eiga samleið með Job í kröminni, eiga í orðum hans túlkunarhjálp og samlíðun. Þegar mönnum blöskrar vitleysa og óréttlæti þjóðfélagsins er vert að leita til spámanna Gamla testamentisins og leyfa þeim að túlka réttlæti í samfélaginu, rétt þolenda, ekkjunnar, útlendingsins og annrra líðenda gerða samfélagsdólga.

Þegar við lendum í stórmálum lífs okkar getum við fundið samfellur í upplifunum og átakasögum hinnar helgu bókar. Þegar andi okkar er sundurknosaður eru engin rit veraldar næmari og nákvæmari túlkar tilfinninga og líðunar en Davíðssálmar. Þeir fanga allar tilfinningar manna á öllum öldum. Þegar orða er vant eru Orðskviðirnir heillandi fjársjóðir til að ganga í. Og ástin og unaðurinn er tjáður í Ljóðaljóðum.

Þegar glíma þarf við stærstu mál tíma og eilífðar verður ekki fram hjá guðspjöllunum gengið. Þar er Jesús Kristur, þessi sem er á öllum krossgötum allra manna á öllum tímum. Guðspjöllin eru klassík, sígildi sem varða tíma og eilífð, sið og ósið, trú og trúleysi, merkingu og merkingarleysi. Þegar unnið er með krísur, líka í kirkju og menningu, er að finna gullnámu í bréfum Nýja testamentisins. Og heimsslitabókmenntir, heimsslitakvikmyndir líka, eru litaðar af Opinberun Jóhannesar. Biblían er túlkunarvettvangur fyrir lífsmöguleika og endurnýjun.

Erindi Biblíunnar Biblían er ekki google-græja fyrir þau, sem leita að fræðslu um uppruna heimsins eða genamengi manna, heldur leiðarvísir fyrir þau sem leita að nýju og betra lífi. Biblían er ekki lögbók, ekki sniðmát um leyfilegar hugsanir, ekki handbók um lágmarks siðferði. Biblían er bók um Guð, líf, leið og hamingju. Biblían hentar illa til að hanga í bókaskáp eða á bak við gler á safni. Biblían er alltaf á leið út úr skápnum og inn í lífið. Biblían er eiginlega innan í prentgripum, sem fólk hefur milli handa og les. Innan í Biblíunni er Guð og fólk, skapari og heimur, Guð að tala og gera lífið betra og skemmtilegra. Í Biblíunni er þráður sem er rauður og birtist greinilegast í Jesú Kristi. Þegar fólk tekur Biblíuna og les með áfergju verður undur. Flestir þrá og leita andlegrar fullnægju. Á hverjum degi bylja á fólki öldur upplýsinga og alls konar staðreynda. Á sama tíma líður það fyrir skerandi fátækt hvað varðar djúpa og merkingarbæra reynslu. Við búum við ofgnótt fræðslu en fátækt merkingar. Fólk kallar á guðsreynslu. Reynslan af Guði er persónuleg reynsla. Biblían þjónar fólki í þeim efnum af því Biblían er klassík sem virkar.

Taktu og lestu Staldraðu við náðu þér í Biblíu. Sestu niður og lestu, berðu tilfinningar þínar, þitt eigið sjálf, með þér í lesturinn. Fylgstu með fólki á ferð í þessum heimi Ritningarinnar, fundaðu með höfundi kristninnar, opnaðu tilveru þína gagnvart undrinu. Þá hættir Biblían að verða þér slitin bók eða bögglað roð og breytir þér, lífi þínu og viðhorfum. Klassíkerinn nær þá að verða þér sígildi. Gildi Biblíunnar varðar hið einstaka – þig – og hið altæka - Guð. Tolle lege var sagt við Ágústínus á sínum tíma. Taktu og lestu er ávarp Biblíunnar.

Amen.

Hugleiðing í Neskirkju á biblíudegi, 27. febrúar, 2011.