Kenn mér Jesús þér að þakka, þína trú og bænargjörð. Yfir mér og í mér vaki, elskan þín á himni og jörð. Amen.
Kenn mér Jesús þér að þakka. Þannig yrkir sálmaskáldið sr. Birgir Ásgeirsson. Þarf að læra að þakka? Ég minnist þess úr bernsku minni, að móðir mínn lagði ríkt á það við okkur systkinin að þakka fyrir matinn, þegar við stóðum upp frá matarborði. Það var talsverð áminning um, að ekki er allt sjálfgefið, eins og mörgum finnst á meðan leikur lyndi nú á dögum. En sálmaskáldið biður Jesús um að kenna sér að þakka honum, trúfesti hans og bænagjörð. Oftast nær nú þakkklætið ekki lengra en að þakka fyrir sjálfan sig, en að þakka fyrir mannkosti og gæði í annarra fari er óvenjulegra, nema þegar börnin okkar eiga í hlut og nánustu ástvinir.
Sálmaskáldið vitnar um einlægt og persónulegt traust á frelsara sínum, Jesú Kristi, að Guð er hjá oss allar stundir í blíðu og stríðu. Táknræn um það er þessi persónulega saga í guðspjalli dagsins. Ekkja var að fylgja einkasyni sínum til grafar. Drottinn sá hana, kenndi í brjóst um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi“. Jesús gekk síðan að líkbörunum og reisti unga manninn upp frá dauðum. Svo óma þessi einföldu, en innhaldsríku orð: „Og Jesús gaf hann móður hans“.
Hvers konar saga er þetta eiginlega og er hægt að ætlast til að nokkur trúi þessu? Að látinn maður geti risið upp af líkbörum til lífsins á leið til grafar. Ekki nema að sannað yrði, að hann hafi í raun aldrei verið dáinn? Sögur eru til um það. Nú er enginn til frásagnar um það sem gerðist, nema sagan sjálf, og er sannarlega ekki í takt við hefbundið lögmál um jarðneskt líf og dauða. Reis ungi maðurinn upp frá dauðum eða var þetta hugarburður eða í besta falli óskhyggja? Er það kjarni málsins og veltur trúverðugleiki Biblíunnar á sannleiksgildi slíkra frásagna?
En sagan er falleg, vitnar um ástríka umhyggju í sárri sorg, að samlíða og rétta syrgjanda hjálparhönd. Það er ekki síður sorg ekkjunnar sem er aðalefni sögunnar eins og dauði unga mannsins. Það er sorgin sem vekur Jesús til verka. Þau eru fleyg orðin sem Jesús sagði við ekkjuna: „Grát þú eigi“. Og hann breytir djúpri sorg í fagnandi gleði. Ég hef séð, hvernig ástin og umhyggjan í sárri sorg hefur grætt og reist dauðans angist til vonar, og þau sem ekki hafa reynt, gætu ekki komið til hugar að væri mögulegt.
Sömuleiðis geta engin náttúruvísndi skýrt út til hlítar hvernig freðin jörð á vetri getur umbreyst í blómgandi grósku sumarsins. Vísindin eru góð í að lýsa því sem gerist og fyrir augu ber í lífi manns og náttúru, en vefst tunga um tönn þegar spurt er af bókstaflegri einlægni: Afhverju, hvernig.
Eitt er að velta fyrir sér sannleiksgildi fornra frásagna um undrin í lífinu, og eðlilegt að veki efasemdir, a.m.k. ærlega umhugsun. Öðru máli gegnir um undrin og kraftaverkin sem blasa við hér og nú, og við lifum með og teljum náttúrulögmál á meðan allt gengur sinn vanagang og ekkert sérstakt útaf bregður, af því að það virðist svo sjálfsagt og eðlilegt.
Fæðing barns er í raun mikið undur og engum dettur í hug að samfagna á slíkri hamingjustund með lífræðilegum útskýringum. Nýfætt barnið grætur, af því að því finnst sárt að fæðast, en foreldrar og ástvinir brosa sínu skærasta brosi og fagna innilega.
Það er svo ótalmargt sem er og gerist og maðurinn hefur ekki á valdi sínu. Stendur þar að baki æðri máttur, sem við nefnum Guð? Stundum er sagt að trúin flytji fjöll, og margar frasagnir eru til af reynslu fólks um bænheyrslu sem eru þvert á náttúrlögmálin og það sem við mætti búast. Eða er lífið allt ein tilviljun eða þróun sem umbyltist stjórnlaust áfram og þá efst í huga og einasta í boði að beita vísindum til að greina og skýra út atburðarásir og flokka til lögmála? Er það nóg til að glæða von og auðga fagurt mannlíf? Er það nóg í sorginni að skýra út með líffræðinni eða öðrum vísndum andlát ástvinar og láta þar við sitja?
Ég gleymi aldrei móður við kirkjudyrnar, þegar kista ungs sonar hennar var borin í kirkjuna til útfarar, þar sem hún stóð með eiginmanni sínum og barnsföður sem brast í grát. Hún tók utan um hann innilegu faðmlagi og sagði: „Verum þakklát fyrir dásamlegu árin sem hann gaf okkur“. Mikið æðruleysi þar sem þakkkæti nærði ástina og tendraði von. Átti Guð hlut að máli í syrgjandi hjörtum í andyri helgidómsins við afar sárar aðstæður? Og nú er haustið að ganga í garð. Fallegt sumar senn að baki. Tókum við eftir því, hve sumarið var yndislegt, gjöfult og fagurt? Að hafa fengið að njóta þess eru mikil gæði. Hver gaf okkur sumarið og kraftaverkin sem þar blómguðust? Metum við að verðleikum gildi sumarsins fyrir lífið, farsældina og búsetuna í landinu? Verður sú uppskera heilladrjúg og til sældar, nema þakkkætið breiði ljóma sinn yfir það allt?
Gróska sumarsins er grundvöllur búsetu í okkar fagra landi. Gerir þjóðin sér grein fyrir því? Seint á 18. öld gengu hamfarir yfir landið af þeim toga, að íslenskt nútímafólk myndi ekki hafast við í landinu, ekki einvörðungu vegna uppskerubrests um hásumar, heldur vegna þess að þjóðin hefði tæpast þekkingu til að lifa við harðindin, komast af og þrátt fyrir alla tækni og vísindi sem í boði eru.
Fallegt sumar, mildi til lofts og jarðar með öllum sínum gæðum, er ekki sjálfgefið lögmál, heldur tilefni til að þakka og njóta, - og kannski einhver spyrji af einlægni: Hvernig gat þetta eiginlega gerst?
Það er þakklætið sem verður efst í huga, að þakka það allt heilshugar, eins og sálmaskáldið sem þakkar Guði trúfesti og bænagjörðina, og móðirin sem þakkar frá innstu hjartans rótum fyrir son sinn og árin sem hún fékk að njóta með honum, þrátt fyrir að þau yrðu langtum færri en við teljum eðlilegt og ætti að vera sjálfgefið, en er og verður aldrei víst og öruggt. Það þekkjum við í reynslunni af lífinu, að ekkert er sjálfgefið samkvæmt óhagganlegu lögmáli. Það hafa vísindin sannað líka.
Þegar lærisveinarnir spurðu Jesús hver væri hólpinn og gæti komist í himnaríki, þá svaraði Jesús: „Fyrir mönnum eru engin ráð til þess, en Guð megnar allt“. Og við sorgmætt fólkið sagði Jesús: „Óttast ekki, trú þú aðeins“, og engillinn sem sagði frá þungun Elísabetar í elli sinni af Jóhannesi skírara: „Guði er enginn hlutur um megn“.
Hvernig ungi maðurinn reis upp frá dauðum af líkbörunum verður aldrei sannað né útskýrt með aðferðum vísindanna. En við vitum þó afhverju sem er kjarni málsins. Af því að Drottinn kom að verki, þráði að græða sár og tendra von. Lifandi trú treystir Guði, að honum er enginn hlutur um megn, að Guð megnar allt, ekki af óraunsæi eða falskri óskhyggju, heldur af opnu hjarta sem leyfir Guði í ástríki sínu að faðma sig. Það er vonin frá dauða til lífs hér og nú, innan og handan jarðneskrar tilveru, von frá angist til farsældar, von sem áræðir að treysta: „Óttast ekki, trú þú aðeins“.
Þetta heitir kærleikur og umfaðmar lífið, af því að það er svo óendanlega dýrmætt, kraftaverk í gjöf frá Guði, lífsréttur hvers einasta manns, og öll gæði lífsins, sköpun Guðs og verkin hans, sólin og auðlindir jarðar og hafs, þú og við saman og þráum að rækta ástina sem elskar lífið og velfarnað þess. Um þetta fjallar menningin sem á sér þá hugsjón æðsta að auðga fagurt mannlíf. Óvíða rís hún hærra en einmitt í trúarlífinu þar sem kærleikurinn er í öndvegi. Um það vitnar t.d. tónlistin og myndlistin í kirkjunni og náð hafa hæstu hæðum í sögu mannsandans og geirir enn. Er það kraftaverki líkast?
Það finnum við í helgihaldinu hér í kirkjunni okkar í fallegum söngnum og í þjónustunni sem sjálfboðið starfsfólkið innir af hendi. Starfandi hendur af einlægum huga sem umvefja fólk í fórnfúsri þjónustu. Mikill er máttur í þeim verkum öllum. Og söngfólkið sem leggur svo mikið að mörkum við að hugga í sárri sorg með nærveru sinni og fögrum söng sem glæðir lifandi von á fagurt mannlíf og auðgar líka gleðina á hamingjustundum. Þetta virðist allt svo sjálfsagt og sjálfgefið, en er ekki, af því það er trúin sem nærir verkin og menninguna í kirkjunni, trú á Guð sem getur sagt: „Grát þú eigi. Guð megnar allt“. Verða slík verk einhvern tíma talin kraftaverkum líkust, ef trúarafneitun nútímans tekst að ryðja öllu burt sem minnir á Guð og kristinn kærleika í þjóðlífinu? „Kenn mér Jesús þér að þakka, þína trú og bænargjörð. Yfir mér og í mér vaki, elskan þín á himni og jörð“. Söguna um upprisu einskasonar ekkjunnar til lífsins af líkbörunum vefjum við inn þessa einlægu trúarjátingu. Dæmum ekki, en vonum og treystum Guði sem ekkert er um megn og látum verða að hvatningu og leiðarljósi til góðra verka. Þess vegna umvefjum við lífið í þakklæti vonar. Því nú varir trú, von og kærleikur og þeirra er kærleikurinn mestur. Amen.
Lexía: Job 19.25-27 Pistill: Ef 3.13-21 Guðspjall: Lúk 7.11-17