Það hefur stundum gerst að prestur fyrir altari í kirkju grípur í tómt og finnur enga Biblíu þegar lesa skal. Hvað á klerkur að gera? Snarráður prestur í kirkju hér í Reykjavík á seinni hluta síðustu aldar sagði hátt og ákveðið þegar hann gerði sér grein fyrir Biblíuskortinum: “Og nú er komið að þeirri hátíðlegu stund í athöfninni, þegar meðhjálparinn ber inn Biblíuna og leggur á altarið.” Meðhjálparinn heyrði fullkomlega hið upphafna og skýrt orðaða neyðaróp prestsins og brást snarlega við og bar inn Biblíu. Biblían er nauðsynleg í kirkjunni!
Biblíudagur og biblíunotkun Í dag er Biblíudagur og ráð að við íhugum hlutverk hennar og hvað hún hefur að geyma. Og við megum gjarnan spyrja okkur hvaða erindi hún eigi við okkur og samferðafólk okkar. Biblían skiptir kirkjuna máli, hún er ritasafn kirkjunnar, hefur haft áhrif á menningarsögu heimsins og umbreytt lífi milljóna. Gyðingar um allan heim nota stóran hluta hennar og múslimar virða biblíuefnið mikils. Meira segja nútímamenning okkar verður ekki skilin vel nema kunna nokkuð fyrir sér í biblíunni.
En túlkunin er mismunandi og þarf ekki að fara langt til að heyra ólíka nálgun og útleggingu á textum Biblíunnar. Aðventistar túlka með sínum hætti, hvítasunnumenn öðru vísi og svo fræðimaður í Biblíufræðum í Hásiólanum með enn öðru móti. Síðan eru einstaklingsnálganir fólks harla mismunandi. Og ég heyri á samtölum við ykkur, kæri söfnuður, að þið hafið líka mismunandi aðferðir við að skýra Biblíuna. Hvað ræður afstöðu okkar til biblíunnar, já hvaða gleraugu notum við? Eru þau til hjálpar eða henta þau kannski bara illa?
Bókstafshyggja Þá fyrst um bókstafshyggju, sem breiðst hefur allt of víða með sinni þungu áherslu á einfaldan og svart/hvítan skilning á málum trúar og Biblíu. Bókstafshyggjan hefur lítinn áhuga á táknrænum boðskap og leitar fremur að óskeikulli leiðsögn. Bókstafshyggjan hefur ekki mikið umburðarlyndi gagnvart því að samfélag og gildi hafi breyst og vill sjá í siðfræði fornaldar boð um líferni og skyldur kristins manns í nútíma. Sem sé að fortíðarhugmyndir eigi að ráða og stýra. Bókstafshyggjumenn halda oftast fram ákveðnum hugmyndum, siðalögmálum, náttúrufræði og reglum, sem þeir segja vera boðskap Biblíunnar. Þetta fólk telur að Biblían sé óskeikul, ef ekki í öllu þá hafi hún verið það áður en menn fóru að brengla henni. Þegar einhver dregur slíkt í efa taka bókstafstrúarmennirnir það sem árás á trú og jafnvel Guð.
En bókstafstrúin er aldrei einföld eða augljós. Það er ekki nóg að sýna eða skýra út fyrir fólki að það hafi rangt fyrir sér og eigi að breyta um nálgun og skoðun. Það er ekki nóg að rökræða við bókstafshyggjufólk. Að baki bókstafshyggju er stundum sálarmótun sem skýrir af hverju fólk leitar í svart-hvíta túlkun. Oft er hræðsla að baki: Hræðsla við þekkingu og rannsóknir; hræðsla við að einhver ógni leiðtoga eða stefnu samfélags; hræðsla við fjölbreytni, ólíkar skoðanir og hugmyndir; hræðsla við útlendinga; við lýðræði, samræður, ósættanlegar kenningar og breytingar.
Það sem bókstafstrúarmenn leggja til grundvallar túlkun Biblíunnar eru einhver grunnatriði, sem á enskumælandi tungum er nefnt fundamentals, sem er oftast einhverjar trúarkenningar, t.d. ákveðin skýring á upprisunni eða að Biblían sé líka vísindarit um sköpun heimsins o.s.frv.
Hvað veruleikatúlkun gefur bókstafshyggjan? Jú, það er mynd eða sjón hinna gráu tóna. Hún er einföld, gjarnan einstaklingsbundin, þröngt menningarskilyrt og á kostnað fjölbreytni í mannlífi. Bókstafshyggjan er litblind í biblíutúlkuninni - sér bara svart og hvítt.
Sérfræðinálgun Algerlega ólík og á hinum væng biblíutúlkunar er nálgun fræðimanna. Hægt er að lesa Biblíuna með hjálp flestra greina vísinda, s.s. trúarbragðafræði, félagsfræði eða málfræði. Einu sinni var Biblían túlkuð anda gamaldags náttúrufræði. Eftir að raunvísindi efldust kom t.d. í ljós, að kenningin um að jörðin sé í miðju heimsins stenst ekki og er úrelt heimsmynd. En þó heimsmynd breytist úreldist þó ekki hið trúarlega inntak. Hið trúarlega hrynur ekki þótt þekking breytist.
Biblían er náma fyrir húmanísk fræði. En þegar fræðimennirnir skoða út frá sjónarhóli sínum er sjaldan hugað að hinu trúarlega eða stóra samhengi. Sérnálgunin verður aldrei annað sértækur of oft einhæfur uppskurður. Trúmaðurinn leitar að öðru, sem er “meira” en fræðileg staðreynd. Það er persónan, sem lætur sig boðskapinn skipta og gengur honum á hönd.
Steflestur biblíunnar Á milli bókstafshyggju og sértækrar fræðinálgunar er síðan fjöldi aðferða og nálgana við Biblíulesturinn. Margir fara leið stefjalesturs, lesa Biblíuna með því að leita að einhverju leiðarhnoði eða túlkunarsamnefnara í veigamiklum trúarefnum eða siðaboðaskap. Reyndar er þessi samnefnari gjarnan eitthver trúarkenning, sem þegar hefur mikilvægu hlutverki að gegna í einhverju trúfræðikerfi.
Þetta er dæmigerð biblíulestraraðferð stóru kirkjudeildanna, sem hafa alið hafa mikla guðfræðinga og öflug túlkunarkerfi. Kaþólikkarnir hafa, auk þykkrar sögu og fjölbreytilegar hefðar, páfann til að leiðbeina í túlkuninni. Kalvínistarnir eiga sína Biblíuskýringu og við Lútheranar höfum gjarnan notað aðferðina:, “Was Christum treibt!” þ.e. hvað eflir Krist í lífi kirkju og einstaklings. Hvítasunnumennirnir leggja áherslu á gjafir Heilags anda. Túlkunarlyklarnir, stóru stefin, ráða – ef þessi leið er farin - hvernig biblíuatriðum er raðað. Það sem ekki er í samræmi við stórstefið – eða meginkenningu viðkomandi kirkju - er þá víkjandi og annars flokks, hvort sem það er nú ákvæði um slátrun fórnardýra, ákvörðun um meðferð stríðsfanga eða glíma vina Jobs.
Þekkingarfræðilegar breytingar Það er staðreynd, sem allir ættu að virða, að sögurýni, vísindagagnrýni af ýmsu tagi hefur breytt lestri og lestraráhuga. Vegna Biblíufræða síðustu alda höfum við nú mun betri skýringar á flestu í heimi Biblíunnar en formæður og forfeður okkar höfðu fyrir 150 árum. Við vitum mun meira um gerð textanna og merkingarsvið þeirra, mun meira um félagslegar forsendur frumkristninnar og úr hvaða samhengi Davíðssálmar spruttu. Meira er vitað um menningarlegt og trúarlegt samhengi Jesú Krists. Rannsóknirnar hafa flísað niður einfeldningslegar hugmyndir um að bókasafnið Biblían sé rit sem eigi að trúa á bókstaflegan hátt, trúa á einn máta, og túlka á einn veg.
Gagnrýn biblíunálgun Mörgum biblíulesurum ógna háskólafræði og biblíurannsóknir. En ég held þó að Guð, kirkja og kristindómur eigi alls ekki að óttast góð vísindi og gangrýna hugsun. Trúmaður þarf ekki að hneykslast þótt sögulegar rannsóknir sýni mennska aðkomu að ritun Biblíunnar. Guð er ekki í hættu staddur vegna fræðimanna og rannsókna þeirra. Guði er ekki ógnað - heldur kannski aðeins ímyndum okkar um Guð og okkar eigin sjálfsmynd. Og við þurfum að muna, að trú kristins manns beinist að Guði en ekki bók eða bókasafni Biblíunnar. Við ættum aldrei að gera Biblíuna að trúarefni. Guð er markmið trúar en ekki Biblían. En Biblían er náðarmeðal, farvegur anda Guðs, meðal en ekki markmið.
Fólk, sem horfir með augum trúarinnar, þarf að spyrja um rök eigin skoðana, eigin kirkju, eigin trúfræði – að eigin sýn. Það er margt í arfinum, sem veldur sjóntruflun í málum trúarinnar.
Hvernig getum við lesið Biblíuna? Biblían hefur þjónað miklu menningarhlutverki í nærri tvö þúsund ár og hlutar hennar í enn lengri tíma. Einstaklingar og þjóðir hafa lesið sögu sína í baráttu fólks í biblíunni og fengið hjálp við að finna lausn á eigin vanda. Biblíufólk hefur orðið til aðstoðar og fyrirmyndir. Biblíuhugsun hefur túlkað drauma, vonir og vonbrigði. Og sem slík er Biblían fullgild í dag.
Saga Jesú verður það sem fólk getur séð sem erkisögu heims og manns. Í Jesú kemur Guð og skýrir bæði sig, túlkar heim og okkur menn. Saga Jesú varðar okkur öll, túlkar líf okkar á þessum tíma sem öðrum. Í trúnni verða smásögur okkar hluti af stórsögu Jesú og sögu Guðs í heimi. Fólk, sem les Biblíuna veit að hún á meiri dýptir, víddir og fleiri myndir en við gerum okkur í hugarlund við fyrstu kynni. Það er þessi merkingarlega aukageta hennar sem kemur stöðugt á óvart. Hún er Biblíubónusinn.
Hvernig er biblíuafstaða þín? Það var einhvern tíma prestsonur, sem var að horfa á pabba sinn skrifa prédikun, og spurði hann. “Hvernig veistu hvað þú átt að skrifa og tala í kirkjunni?” Pabbinn svaraði að bragði: “Heilagur Andi segir mér það.” Strákurinn spurði þá að nýju: “En af hverju ertu alltaf að strika út það sem þú ert búinn að skrifa?!”
En þannig starfar nú Guðs góði andi með dómgreind okkar og í bland við allt í þessum heimi. Við þurfum stöðugt að skoða og endurskoða trúarefni og sjónarhól okkar. Við þurfum að spyrja okkur hvernig við sjáum og hvort eitthvað sé misskilningur. Biblían er heillandi heimur, sem á í safni sínu mynd af þér og hinu góða lífi sem þín bíður. Ef langt er síðan þú settist niður með Biblíuna er kannski ráð að þú staldrir við. Kannski er sá hátíðlegi tími kominn að Biblían verði borin inn í líf þitt. Tak og les.
Amen.
Hugleiðing á biblíudeginum 2012.