Á fermingardegi

Á fermingardegi

Frásögur dymbilvikunnar, af lærisveinunum eru mjög mannlegar. Þeir minna mig oft á hóp fermingarbarna! Þeir fögnuðu eins og fjöldinn, en þegar óveðrið skall á, erfiðleikar, skelfing föstudagsins langa, þá reyndust þeir sem blaktandi strá í vindi. Sjálfur Pétur, kletturinn af lærisveinunum, afneitaði Jesú þrisvar. Er það ekki svo mannlegt að efast?
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Víðisson
09. apríl 2006
Flokkar

Pálmasunnudagur í dag og við tökum á móti Drottni Jesú.

Ja, líkt og samfélagið tók á móti Jesú er hann kom í hógværð, ríðandi á asna til páskahátíðar í Jerúsalem.

Þá líkt og í dag var fögnuður í hópnum, þónokkur spenna og mikið framundan, og hátíð vegna þess að Jesús Kristur var nú að koma á helgasta stað samfélagsins, til Jerúsalem til musterisins.

Til hamingju með fermingardaginn ykkar kæru fermingarbörn, og til hamingju með þennan fríða hóp kæri söfnuður, og þakka ykkur öllum fyrir góðan vetur fræðslu og samfélags.

Á pálmasunnudegi var Jesú fagnað sem konungi. Hann hafði pálmann í höndunum, má segja, sigurtáknið, og allur heimurinn elti hann á þessum vegi til Jerúsalem, eins og farísear sögðu sín á milli, í guðspjalli dagsins.

Allur heimur elti, og Jesús Kristur vill að við fylgjum honum á þessum vegi. Hann vill ryðja brautina svo við, þú og ég, öðlumst sigurtáknið, fáum pálmann í hendurnar.

En hvert liggur sá vegur sem Jesús fer á undan? Hvað var það sem beið hans?

Ekki var það nú eintómur leikur eða skemmtun. Öll þekkjum við frásögur dymbilvikunnar og páskanna, sem framundan er. Þá daga sem fyrr, boðaði Jesú líf og lækningu, hann boðaði samfélag og kærleika, vináttu og frið.

Sannleikurinn sem býr í þeim frásögum er einmitt sá að vegferðin með Jesú er vegferð til réttlætis og lífs, vegferð til upprisu.

Sannleikur páskanna er sá að lífið hefur eilífðar gildi. Lífið ykkar kæru fermingarbörn, og hvers lifandi manns, hefur eilífðar gildi.

Þið eruð hvert og eitt óendanlega mikilvæg í augum Guðs. Það skuluð þið aldrei láta taka frá ykkur. Þið skuluð aldrei láta neinn líta smáum augum á æsku ykkar. Leyfið ykkur að vera ung og saklaus, það þarf ekki að prófa allt. Sumt er hættulegt, sumt er bannað og óæskilegt.

Frásögur dymbilvikunnar, af lærisveinunum eru mjög mannlegar. Þeir minna mig oft á hóp fermingarbarna!

Þeir fögnuðu eins og fjöldinn, en þegar óveðrið skall á, erfiðleikar, skelfing föstudagsins langa, þá reyndust þeir sem blaktandi strá í vindi. Sjálfur Pétur, kletturinn af lærisveinunum, afneitaði Jesú þrisvar.

Er það ekki svo mannlegt að efast?

Á fermingardegi standið þið kæru fermingarbörn á ákveðnum tímamótum. Tilboð heimsins eru mörg, og mikilvægt að gera sér grein fyrir því að sum þeirra tilboða, vilja loka Jesú úti. Sum þau tilboð eru andstæð þeirri lífssýn sem Jesús Kristur boðar.

Að fermast er skref í átt að fullorðins árum, en munið að þið eigið langan veg í það að verða fullorðin.

Ég man það sjálfur er ég gekk til fermingarfræðslu hjá sr. Árna Pálssyni í Kópavogi. Það er nú ekki svo langt síðan, en þó að verða tuttugu ár bráðum!!

Mér fannst ég nú nokkuð stór karl, klæddist leðurjakka á fermingardaginn, ég vissi margt, og átti fátt eftir ólært, sem lýsir kannski ekki mikilli hógværð. Ætli ég hafi ekki verið fátækur í anda, og er það kannski að einhverju leyti enn.

En Jesús kom í auðmýkt og hógværð á Pálmasunnudegi.

Áhuginn var kannski ekki svo einbeittur í fræðslunni. Einmitt á þeim tíma hafði ég meiri áhuga á því að elta tuðru og sparka í mark, en að læra utanaf sálma, bænarvers og ritningarorð.

En eitthvað síaðist inn. Góðu fræi var sáð, sem hefur reynst mér vel í lífinu. Ég vil hvetja ykkur til að varðveita ykkar góða trúarfræ sem við höfum í sameiningu reynt að vökva og næra í vetur.

Þið hafið lagt ykkar að mörkum í vetur, með verkefnaskilum, samtali, þátttöku í kirkjunni, utanbókarlærdómi og samfélagi, hér í Landakirkju sem og sumir á erlendri grundu á sínum heimaslóðum.

Það er góður grunnur að eiga þegar við höldum áfram lífsins veg, þegar við höldum áfram Drottins veg.

Drottinn vill að þið eignist hamingju í þessum heimi, lærið að þekkja lífið og njóta dásemda þess. Njóta þess að vera lifandi og þess að vera til.

Heimurinn er fullur af góðum tækifærum og vettvangur er ávallt til fyrir vel unnin störf og góð verk, þótt áhugamálin geti verið ólík. Ég veit að í hópnum hér í dag, fermingarhóp og söfnuði, eigum við misjöfn áhugamál, og eru þau óteljandi.

Sumir og margir hér í Eyjum, hafa tuðruspark að áhugamáli, og stendur það mér nærri. Aðrir vilja henda tuðrunni, og margir hér í Eyjum hafa safnast í lið með góðum árangri, í þeim erindagjörðum og unnið sigra, og stúlkurnar okkar fremstar í flokki þar, og stóðu nú með pálmann í höndunum eftir erfiði vetursins.

Margir rækta sig í Hressó, og sumir í skorpum eftir veislutímabil og kökuboð! En aðrir að jafnaði og nokkrum sinnum í viku árið um kring, og vinna persónulega sigra.

Íþróttirnar eru margar sem í boði eru, fimleikar, frjálsar, karfa, hokkí, og sumar svona í harðari kantinum amerískur fótbolti, box, skylmingar og fleira, eða bara göngutúrinn í Guðsgrænni náttúrunni.

Tónlistin er mikil gjöf, og höfum við Eyjamenn náð góðum árangri þar, nú helgi eftir helgi. Síðast í gærkvöldi, þar sem Arndís Ósk úr Framhaldsskóla Vestmannaeyja komst á pall, í söngvakeppni Framhaldsskólanna.

Heimurinn er fullur af góðum tækifærum, til að gera sér glaðan dag og njóta þess að vera til.

Á þeim vegi finnum við okkar leið til að láta hendur standa fram úr ermum, til að finna vettvang til að læra, lifa og njóta.

Til kirkjunnar söfnumst við svo saman og erum öll á sama báti hér í kirkjuskipinu. Við tilheyrum þeim arfi kynslóðanna sem játar trú á Jesú Krist, og eigum því dýrmæta von eilífs lífs.

Við sameinumst hér af áhuga á því að láta orð Jesús Krists okkur varða í lífi okkar hér og nú.

Það er ekki bara áhugamál, heldur er það lífsafstaða, að vilja taka við því orði Ritningarinnar, og leyfa því að lifa með sér. Hér fylgjum við orðinu, meðtökum það sem og heilög sakramenti, og erum sem ein stór fjölskylda í kirkjunni hér í dag, sem og í kirkju Krists í heiminum. Sú fjölskylda safnast saman við Guðs orð og Guðs borð.

Kirkjan er fólkið sem tilheyrir söfnuðinum. Til þess að kirkjan sé lifandi og Guðsorðið virkt, þá skulum við sækja kirkju og leyfa orðinu að hafa áhrif á okkar líf.

Það vill á stundum verða þannig að við sækjum kirkjuna líkt og margir fara í Hressó, við sækjum kirkjuna í skorpum. Þegar mikið stendur til. En best er með trúarlífið, eins og heilsuræktina, að stunda það reglulega, gera það hluta af lífsstílnum.

Fermingarveturinn er hápunkturinn á þeirri skírnarfræðslu sem aðstandendur ykkar, kæru fermingarbörn, og söfnuður allur tók að sér er þið voruð skírð. Þið munið kannski ekki sjálf eftir þeirri stundu, en margir í dag minnast skírnarstundar ykkar með gleði.

Fermingin er staðfesting þess að skírnarfræðsla hefur farið fram og þið hafið staðist þá þolraun.

Fermingin er einnig staðfesting þess að þið viljið eiga hlutdeild í kirkjunni. Þið viljið taka þátt, vera kirkjunnar megin, og þá er ég að tala um kirkju Krists í heiminum.

Þið eruð búin að læra frásögurnar um Jesú. Þið eruð búin að læra frásögur bæði úr gamla og nýja testamentinu, orð lögmálsins og fagnaðarerindisins. Gott er að lesa meira, leyfa orðinu að búa með sér. Davíðssálmar og Guðspjöllin eru góðir staðir til að lesa, og sálmabókin er líka gullkista sálma og bæna.

Orð og verk Jesú eru grundvöllur kristinnar lífsskoðunar. Kristin lífsskoðun er umburðarlynd. Þeir sem aðhyllast kristna lífsskoðun standa fast á sínu, en um leið virða önnur trúarbrögð og menningarheima. Kristin lífsskoðun byggir ávallt upp tengsl og verndar allt sem lifir.

Við sem trúum á Jesú, við leggjum traust okkar á orð hans, líkt og hinir fyrstu lærisveinar.

Og eins og þeir erum við ólík, með ólík áhugamál, en eigum þessa sameiginlegu trú, von og þannig lifum við saman í kærleika.

Ekkert getur gert okkur viðskila við þann kærleika Guðs. Í þeim anda skulum við ávallt biðja fyrir hvert öðru, bænarvers sem og bænir frá eigin brjósti.

En um veginn sem við göngum á Pálmasunnudegi, þá segir Jesús Kristur: ,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið...!” Jesús Kristur er vegurinn til gleði og hamingju, vegurinn þar sem þið öðlist sigurpálmann, og það skulum við muna og sérstaklega nú á þessum fallega hátíðardegi.

Það stendur í orðum sr. Hallgríms:

,Ungum er það allra best að óttast Guð, sinn herra. Þeim mun viskan veitast mest og virðing aldrei þverra.

Líttillátur, ljúfur og kátur, leik þér ei úr máta. Varast spjátur, hæðni, hlátur, heimskir menn sig státa.

Víst ávallt þeim vana halt vinna, lesa iðja, umfram allt þó ætíð skalt elska Guð og biðja.

Í Jesú nafni. Amen.