Það var góður prestur sem fléttaði ávallt veðrinu inn í minningarorð sín við útfarir. „Það haustar!“ byrjaði hann eitt sinn minningarorð og eiga þau orð vel við á þessum tíma. Haustið læðist yfir okkur og sjáum við það á laufum trjánna sem eru hægt og rólega farin að gulna og falla til jarðar. Líf þeirra endar líkt og líf þess sem góði presturinn fjallaði um í minningarorðum sínum.
Í Guðspjalli dagsins kemur fyrir andlát. Jesú er á ferð með lærisveinum sínum og þegar hann nálgast borgina Nain sér hann mikinn mannfjölda ganga í gegnum borgarhliðið og var þar verið að bera út látinn mann. Með í för var móðir mannsins sem var ekkja og var maðurinn einkasonur hennar. Jesús fann til með henni, gekk til hennar og sagði: „Grát þú eigi!“ Því næst gekk hann að börunum þar sem maðurinn lá og lagði hendur á þær og mælti: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að tala.
Já Jesús framkvæmdi mörg kraftaverkin og var þetta eitt þeirra. Sorgin var yfir og allt um kring við dánarbörur mannsins og móðurin grét við fætur hans. Jesús gaf manninum líf og þó það komi ekki fram þá varð eflaust mikil gleði og hamingja, sér í lagi hjá móðurinni þar sem hún gat sameinast syni sínum á ný. Maðurinn lifði á ný fyrir verkan Jesú Krists og enn þann dag í dag lifa hinir dánu. Þeir lifa, en þó ekki á sama hátt og maðurinn í Guðspjallinu. Í Jóhannesarguðspjalli segir Jesús: „Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ Já við munum lifa áfram því Jesús, ásamt Guði föður vorum, mun taka á móti okkur þegar okkar tími kemur. Eilífa lífið lifum við með Jesú Kristi, í náð hans og kærleika. Í faðmi föðurins munum við lifa og bíða eftir að sameinast okkar nánustu þegar þeirra tími kemur.
Já, það haustar. Allt frá því síðari hluta síðasta vetrar, vor, sumar og fram á haustið hafa skörð myndast í samfélagið okkar hér í Austur – Skaftafellssýslu. Í herbeginu hér fyrir neðan mig hafa alls 20 manns hvílt á þessum tíma. Það er óhætt að segja að það sé vel yfir meðallagi enda eru allajafna ekki nema um 10 manns sem hvíla þar á einhverjum tímapunkti á ári hverju.
Við fráfall fylgir alltaf söknuður. Það er sama hversu vel við teljum okkur undirbúin en þegar að því kemur að kveðja myndast alltaf söknuður og sorg. Sú tilfinning er eðlileg enda er fátt eðlilegra en að syrgja þá sem okkur þykir vænt um og eru horfnir á braut. Við útfarir er fluttur boðskapur sem boðaður hefur verið allt frá tímum Jesú. Dauðinn er ekki endalokin. Hið jarðneska líf endar en hinir látnu munu lifa áfram. Þeir lifa með Jesú Kristi og Guði föður vorum á himnum og kemur það fram við moldun þegar prestur les áðurnefndan texta úr Jóhannesarguðspjalli þar sem haft er eftir Jesú „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa, þótt hann deyi.“ Einnig eru orð Jesú úr sama guðspjalli oft flutt þar sem Jesús segir „Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“ Í þessum orðum Jesú fyrirfinnst hughreysting, hinn látni stendur ekki einn, Jesús er honum við hlið og fylgir honum til föðurins.
Við erum ekki eyland, þó að sú tilfinning geti stundum blossað upp. Nei við erum ekki eyland, hvort í jarðneska lífinu né hinu næsta. Hér á jörðu er alltaf einhver sem er tilbúinn að veita okkur hjálparhönd í neyð, já eða samgleðjast okkur þegar vel gengur. En við megum heldur ekki gleyma bæninni. Það er alltaf gott að geta leitað í bænina, leitað til Jesú Krists. Hann hjálpar, hann syrgir og hann samgleðst með okkur. Það sama á við þegar hinu jarðneska lífi lýkur. Jesús mun leiða okkur áfram og halda okkur á hinum góða vegi sem liggur til föðurins.
Það haustar og haustinu fylgir meira en fallandi laufblöð, rigning og hvassir vindar. Á haustin fyllast skólarnir á ný af börnum og unglingum. Ég ætla að segja flest öll börnin skundi glöð í skólann eftir sumarfrí og geta ekki beðið eftir að hitta bekkjarfélaga og aðra vini. Á hverju hausti eru það þó börn í einum bekk sem eru í annarri stöðu en önnur börn. Krakkarnir sem eru að byrja í 8. bekk, þau sem verða 14 ára á næsta ári eiga fyrir höndum skemmtilegan en eflaust langan vetur því að þessi hópur mun fermast á næsta ári. Fylgifiskur ferminga er fermingarfræðslan og mun biðin frá fyrsta tíma fræðslunnar til þess síðasta vera eflaust hálf óbærileg, sér í lagi þegar stóri dagurinn nálgast. Það er gaman að segja frá því að niðurtalning fermingarbarnanna mun hefjast nú á þriðjudaginn þegar einmitt fræðslan byrjar.
Fyrir mér er þetta visst upphaf á vetrarstarfinu. Það er gaman að fylgjast með þegar væntanleg fermingarbörn streyma til kirkjunnar í fyrsta skiptið. Hvorki ég né þau vita hvernig veturinn á eftir að þróast. Við þurfum að læra að treysta hvort öðru og virða. Í fræðslunni eru hin ýmsu málefni tekin til skoðunar og jafnvel málefni líðandi stundar ef svo ber undir. Fermingarfræðslan undirbýr börnin að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs síns en í grunninn er þetta fræðsla um lífið sjálft. Já lífið og allt sem því fylgir: ástina, sorgina, gleðina, dauðan, umburðarlyndi og margt fleira. Við ræðum hvernig sé hægt að hjálpa náunga okkar og um leið rætt um hver sé þessi náungi. Sú umræða endar svo með því að í byrjun nóvember munu börnin ganga í hús hér á Höfn og safna pening fyrir vatnsverkefni í Afríku.
Já það er margt sem við fermingarbörnin ætlum að gera í haust og vetur, og allt er þetta gert í krafti þess sem kenndi í brjósti um ekkjuna sem syrgði einkason sinn í Nain. Jesús Kristur mun vera með okkur í fræðslunni í vetur, hann mun fylgja börnunum í söfnuninni og samgleðjast þeim þegar þau munu játa því að gera hann að leiðtoga síns lífs.
Það haustar og það er tilhlökkun!
Amen.
Guðspjall: Lúk 7.11-17