Jóhannes skírari var vinsæll og átti marga áhangendur þegar hann skírði við ánna Jórdán. Smátt og smátt fór þeim að fækka sem leituðu til hans og þau færðu sig til Jesú og fylgdu honum. Hvernig tók Jóhannes þessum stakkaskiptum? Hann fagnaði þeim! Hvernig fór hann að því? Hann þekkti sitt hlutverk, vissi að Guð ætlaði honum að bera vitni um þann sem kæmi. Vitni er aldei aðalpersónan, heldur er vitni kallað til að segja eitthvað um aðalpersónuna. Í guðspjalli dagsins er búið að setja Jóhannes í fangelsi og hann vill vera alveg viss um að Jesús sé konungurinn og frelsarinn sem beðið hafði verið eftir. Hann sendir vini sína að spyrja og Jesús segir þeim að skila til Jóhannesar því sem þeir höfðu orðið vitni að , heyrt og séð: „Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra“. Þeir höfðu orðið vitni að kraftaverkum og Jóhannes fékk staðfest að sú vinna sem hann hafði lagt í að greiða veginn hafði sannarlega verið mikilvæg.
Hlutverk Jóhannesar var að segja frá Jesú, og hann gladdist yfir því. Með því að benda á Jesú var hann að sinna því sem Guð hafði ætlað honum. Vitnisburðurinn heldur áfram. Skírn litla drengsins, Tómasar Huga, í dag ber vitni um kærleika Guðs. Jóhannes skírði með vatni, svo kom Jesús og skírði með heilögum anda. Hann sagði lærisveinum sínum að fara um allan heiminn og skíra í nafni Guðs föður sonar og heilags anda. Því boði fylgjum við í hvert skipti sem við berum börnin okkar til skírnar. Hvað er það sem gerist? Við skiljum það ekki en við finnum og skynjum að það er mikilvægt, gott og fallegt. Nálægð Jesú er nánast áþreyfanleg en leyndardómurinn felst í því að við sjáum hann ekki.
Ljósin sem við tendrum á aðventukransinum eru þrjú í dag og minna okkur á að það er nokkuð liðið á tíma undirbúnings en um leið að við eigum enn tíma til stefnu. Notum þennan tíma. Njótum tímans. Sunnudagur gleðinnar færir okkur fallega texta bæði frá gamla og nýja testamentinu. „Greiðið Drottni veg um eyðimörkina, ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni, sérhver dalur skal hækka, hvert fjall og háls lækka.“
Sjáum fyrir okkur lífið okkar. Dalina dimmu, hæðri, hóla og fjöll sem stundum þarf að klífa í ýmsum merkingum. Þetta er tími sem gott er að fara yfir í einrúmi eða með þeim sem við treystum, hvernig líf okkar og líðan er. Þökkum fyrir það sem vel gengur. Biðjum um hjálp við það sem er erfitt. Gleðjumst yfir eigin velgengni og annarra.
Páll postuli hvetur okkur til þess að láta af dómhörku. Við skulum hvíla í því að Guð mun leiða það í ljós sem myrkrinu er hulið. Hugrenningatengslin sem ég fæ við lestur þessara orða er hversu svart/hvít og jafnvel grimm umræðan getur orðið. Það sem við héldum að myndi auka víðsýni og hvetja fleiri til þess að tjá sig á opinberum vettvangi hefur á stundum snúist í andhverfu sína. Þannig er talað um einelti á netinu. Fólk missir æruna og það sem komið er í loftið er eftitt að leiðrétta. Þessu þurfum við að breyta og það er raunar skylda okkar að stuðla að því. Það er hægt að nota samskipta vefi til þess að breiða út uppbyggilegan boðskap, hvetjandi heilbrigt gangrýnið samtal getur átt sér stað en til þess að svo megi verða þurfum við að vanda okkur. Virðing, víðsýni og viska eru góð orð til leiðsagnar.
Það hefur verið mikið umrót í þjóðkirkjunni. Þar hafa verið gerð mistök. Fólk hefur mótmælt og sagt sig úr kirkjunni. Það hafa verið hrakspár um framtíð kirkjunnar. Það er ekkert nýtt, það er saga fortíðar, nútíðar og líklega framtíðar líka. Kirkjan er svo margt. Kirkjan er hreyfing, kirkjan er stofnun, kirkjan er bygging. Kirkjan er söfnuður fólks sem sameinast um trú.
Jesaja spámaður segir: „Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna þegar Drottinn andar á þau. Sannlega eru mennirnir gras. Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu“. Sjáið þessar myndir: grasið visnar, blómin fölna, þetta eru myndir haustsis sem við þekkjum. Náttúran fer í dvala, ríki vetrar tekur við. En við vitum að vetrinum fylgir vor og blóm og grös gæjast upp úr moldinni á ný. Þetta getur einnig átt við um kirkjuna þar fölna blóm og grös visna með röngum ákvörðunum, mistökum og atburðum sem hefðu betur aldrei átt sér stað. En orð Guðs varir. Orð Guðs varir að eilífu. Hvernig sem misvitrum manneskjum tekst eða mistekst að leiða kirkjuna þá finnst það orð sem stendur af sér fölnandi blóm og jafnvel frosthörku vetrarríksins. Guðs orð boðar trú von og kærleika og þeirra er kærleikurinn mestur.