Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Herrann þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:
Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.
Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn. Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum! Matt 21.1-9
Það var einu sinni þjóð sem bjó í fjarlægu landi. Þjóð sem hafði verið kúguð, kúguð af erlendu herliði, erlendri valdastétt og jafnvel sínu eigin fólki í ára og aldaraðir. Það ríkti svartnætti á meðal þessarar þjóðar en mitt í þessu svartnætti var samt örlítið vonarljós, örlítil vonarglæta. Von sem fólst í því að á leiðinni væri einhver sem myndi frelsa þjóðina. Þessi óþekkti leiðtogi myndi steypa ógnarstjórninni af stóli, hann myndi koma reglu á óregluna, og koma á friði, friði sem fólkið þráði um fram allt.
Landið sem talað er um er hvorki Afganistan né Írak og frelsarinn er ekki Bush, Sadam Hussein eða Osama Bin Laden og dagurinn er ekki dagurinn í dag. Nei landið er Landið helga fyrir tæpum tvöþúsund árum og fólkið það beið eftir frelsaranum, það beið eftir Messíasi.
Þau höfðu heyrt talað um mann frá Nasaret, mann sem gæti læknað fólk, rekið út illa anda og jafnvel breytt vatni í vín, mann sem gæti frelsað þau undan áþján hinna erlendu valdhafa og endurreist ríki þeirra. Og þessi maður var núna á leiðinni til Jerúsalem! Fólkið þusti út á göturnar og fagnaði komu hans, sum þeirra lögðu klæði sín á veginn og önnur hjuggu niður pálmagreinar en þau hrópuðu öll; ,,Hósanna syni Davíðs. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins”
Þetta var langt frá því að vera í fyrsta sinn sem Jesús fór þessa leið, og leiðin var honum og lærisveinum hans vel kunnug. En þetta var í síðasta sinn sem leið hans lá um þessara götur og lærisveinar hans þekktu leiðina en Jesús var þó sá eini sem þekkti veginn.
Og hann sendi tvo af lærisveinum sínum aðeins á undan og sagði; ,,Farið í þorpið hér framundan ykkur og jafnskótt munið þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: ,,Herrann þarf þeirra við”. Og allt gekk þetta eftir, rétt eins og að farið væri eftir fyrirfram skrifuðu handriti og þeir komu með folann, lögðu klæði sín á hann og Jesús steig á bak. Jesús reið inn í Jerúsalem á asnabaki. Ekki beint konungleg innkoma . Hefði nú ekki verið tilkomumeira að sjá hann koma ríðandi inn í borgina á hvítum hesti í fullum herklæðum eins og honum er lýst í Opinberunarbókinni? Ef til vill, en þetta hafði allt saman tilgang því spádómar voru að rætast; ,, Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna.” Og fólkið það hrópaði; Hósanna syni Davíðs! Og þau hrópuðu einnig ,,Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins.” Fólkið var fullvisst um að Jesús væri kominn til að færa þeim veraldlegt konungsríki, endurreist konungsríki Davíðs, þau trúðu því að hann væri Messías eða frelsarinn en Hósanna merkir einmitt, frelsaðu okkur.
Lærisveinarnir og Jesús þekktu leiðina en Jesús var sá sem þekkti veginn, hann vissi hvað beið hans en hann hélt þó ótrauður áfram. Þeir gátu ómögulega skilið hvað hann var að gera og fólkið sem hafði tekið fagnandi á móti honum og vildu fá hann sem foringja, snéri baki við honum þegar þau áttuðu sig á því að þeirra eigin hugmyndir um veginn áttu ekki við þann sem sagði; ,,Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið”.Þau höfðu hingað til fylgt honum í blindni eins og konan sem var á leið frá Hveragerði til Reykjavíkur. Það rigndi eins og hellt væri úr fötu og hún rétt sá glitta í bílljós í fjarska. Hún ákvað að elta þessi bílljós því henni virtist sem þau væru á réttri leið. Eftir nokkurn spöl þá stoppar bíllinn fyrir framan hana skyndilega og hún nauðhemlar. Henni bregður illilega og veltir því fyrir sér hvað bílstjórinn meini eiginlega með þessu að stoppa svona uppi á miðri heiði og hún fer að hafa áhyggjur af umferðinni sem gæti verið fyrir aftan hana. Síðan slökkna ljósin á bílnum fyrir framan og nú hættir konan að vera hrædd, nú verður hún reið. Eins og það sé ekki nóg að stoppa bílinn hér uppi á miðri heiði heldur er bílstjórinn nú búinn að slökkva ljósin líka. Hún hrekkur í kút þegar bankað er í rúðunna hjá henni og eldri kona bendir henni að skrúfa hana niður. Hún skrúfar niður rúðuna og spyr með þjósti: Er eitthvað að, áttu í einhverjum vandræðum? Fullorðna konan brosir örlítið og segir svo; Ég ætlaði einmitt að spyrja þig að því sama, sjáðu til ég var nú bara að leggja bílnum mínum hérna í bílastæðið fyrir framan húsið mitt.
Jesús þekkti bæði leiðina og veginn en hann var ekki hinn veraldlegi stríðsherra og konungur sem fólkið beið eftir. Bara það að hann kom ríðandi á asna hefði nú átt að fá einhver til að átta sig á því að hér var ekki allt sem sýndist, því sá sem kom ríðandi asna var sá sem kom með friði en ekki hernaði. En fólk hélt kannski að Jesús myndi á undraverðan hátt, þrátt fyrir allt takast að brjóta aftur hið erlenda vald og frelsa þjóðina, hann hafði jú læknað fólk, rekið út illa anda og breytt vatni í vín.
Árið 1918 hafði íslenska þjóðin beðið lengi eftir frelsi og fjöldi fólks hafði leynt og ljóst barist fyrir fullveldi landsins og hinn 1. desember árið 1918 varð Ísland frjálst og fullvalda ríki en þó áfram í konungssambandi við Danmörku. Gleðin yfir þessum merka áfanga í sögu þjóðarinnar var blendin, miklar hörmungar höfðu gengið yfir hana en mitt í svartnættinu þá sá hún ljós og eigði von, von sem fólst í því að vera laus undan yfirráðum erlendrar þjóðar. Von og gleði ríkti yfir því að fá nú loks aftur frelsi til að ráða eigin málum.
Nokkrum árum síðar gerðu stúdentar þennan dag að sínum degi og minntust fullveldisins og hvöttu til sjálfstæðisbaráttu í mennta- og nenningarmálum. Og enn halda stúdentar áfram að minnast fullveldisins og enn halda stúdentar áfram að berjast fyrir hinum ýmsu málefnum. Þessa dagana er það umræðan um fjárhagsvanda Háskóla Íslands sem hefur brunnið hvað mest á stúdentum og síðustu misseri hafa heyrst háværar raddir sem halda því fram að tími sé kominn til að taka upp skólagjöld við Háskólann. Fram til þessa hefur öllum verið kleift að mennta sig við Háskólann án þess að greiða sérstök skólagjöld. Hvernig á að tryggja jafnrétti til náms ef aðeins þau efnameiri koma til með hafa aðgang að háskólamenntun í landinu því sú mun raunin verða ef skólagjöld verða tekin upp. Fjárhagsvandi Háskólans verður varla leystur með því einu að setja á skólagjöld, fleira verður að koma til og stúdentar leyfa sér að efast um að skólagjöld séu rétta leiðin. En stúdentar bíða rétt eins og fólkið sem beið forðum, bíða eftir lausnara, bíða eftir lausn og við verðum að vona að sú lausn verði farsæl fyrir alla nemendur,kennara og deildir Háskólans. Við skulum biðja fyrir þessu málefni í upphafi jólaföstu, biðja og vona að íslensk þjóð geti áfram boðið komandi kynslóðum frelsi og jafnrétti til náms.
Jólaljósin hafa verið kveikt fyrir löngu þó aðventa hafi ekki byrjað fyrr en í gær. Eigum við að vera eitthvað að rífast og skammast yfir því þó ljósin séu kveikt á hér um bil á haustmánuðum? Eigum við ekki frekar bara að kveikja jólaljósin okkar, kveikja þau í hjörtum okkar og á heimilum okkar og hafa það notalegt? Nota aðventuna til þessa að taka til í hjarta okkar og rýma til fyrir boðskap jólanna, rýma fyrir friði jólanna.
En það er til fólk sem á erfitt með þetta, það er til fólk sem kvíðir jólunum. Fólk sem hefur orðið fyrir áföllum, orðið fyrir ásvinamissi, misst atvinnuna, gengið í gegnum hjónaskilnað eða hefur orðið fyrir annars konar áföllum og fyrir þau er tími aðventunnar og jólanna erfiður. Jólalögin sem áður hljómuðu svo skemmtilega hljóma nú ef til vill á allt annan hátt og ilmur aðventunnar fer fyrir brjóstið á mörgum. En mitt í þessu öllu þá er fagnaðarerindið og nærvera Guðs, nærvera Guðs sem umlykur okkur öll og heldur okkur í fangi sér þar til við getum staðið aftur á eigin fótum. Okkur er alveg óhætt að gefast upp við og við og missa kjarkinn en við skulum umfram allt ekki setjast að í vanlíðan okkar heldur ganga út úr henni og leyfa okkur að gleðjast yfir komu frelsarans.
Við skulum leyfa okkur að njóta aðventunnar, fara á kaffihús, finna ilminn af mandarínunum og piparkökunum og við skulum njóta samvista við fólkið okkar. Og þó okkur kenni ef til vill til í hjartanu þá skulum við leyfa friðnum sem fylgir aðventunni að umvefja okkur. Jesús sagði okkur aldrei að lífið myndi verða sársaukalaust en hann sagði að hann gæfi okkur samt frið, sinn frið, frið sem Biblían segir okkur að sé æðri öllum skilningi.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.