„Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá. “
Við Íslendingar eigum hina fögru kveðju: „Komdu sæl og blessuð, og vertu sæll.“ Þar biðjum við hvert öðru blessunar er við hittumst eða kveðjumst. Jesús blessaði lærisveina sína og veitti þeim af náð sinni, kærleika og friði. Hann tók börnin sér í faðm og blessaði þau. Upprisinn blessaði hann með friðarkveðju kirkjunnar: Friður sé með þér. Í honum fékk blessunin enn dýpri merkingu, því hann var hinn blessaði Guðs.
Uppstigningardagur er kirkjudagur aldraðra í þjóðkirkjunni. Eldri borgarar eru stór hópur fólks. Ellin er ekki eitt æviskeið, heldur nokkur tímabil. Það er mikill munur á þeim sem er rétt nýbúinn að ná eftirlaunaaldri eða þeim sem kominn er fast að tíræðu. Það er við hæfi að helga öldruðum einn helgidag kirkjuársins af ýmsum ástæðum. Aldraðir eiga þakkir skyldar fyrir þjónustu sína við kirkjuna. Við viljum votta þeim virðingu fyrir reynslu og þroska, sem árin hafa veitt þeim. Og við viljum biðja fyrir þeim vegna þeirra byrða sem ellin færir mörgum. Þess vegna er ljúft og skylt að blessa aldraða á þessum degi.
Kirkjustarf meðal aldraðra er mjög mikilvægur þáttur í starfi safnaðanna. Einhver munur er á starfinu í dreifbýli og þéttbýli. Í dreifbýlinu er allt samofnara og starfið ekki skipt á sama hátt og í þéttbýlinu fjöldans vegna. En í stærri söfnuðum t.d. í prófastsdæmunum sem ná yfir Reykjavík og Kópavog er kirkjulegt starf með eldri borgurum reglulega allan veturinn, víða vikulega. Dagskrá er fjölbreytt, bæði föndur, spil, leikfimi og samsöngur. Heimsóknir af ýmsu tagi gleðja þátttakendur. Má þar nefna listamenn, rithöfunda og aðra sem hafa frá ýmsu fróðlegu að segja. Farið er í styttri og lengri ferðir s.s heimsóknir í aðra söfnuði, skoðunarferðir og dagsferðir út á land. Það sem er að sjálf sögðu sameiginlegt í öllu kirkjulegu starfi eru helgistundir. Kirkjulegt samfélag aldraðra inniheldur eins og annað starf safnaðarins söng, Guðs orð og bænina. Og ekki má gleyma samfélaginu yfir kaffibolla eða góðri súpu. Söfnuðir kirkjunnar vilja starfrækja gott og heilbrigt samfélag, sem þjónar þeim öldruðu er það sækja.
Börn Guðs
Páskar eru nýliðnir, gleði upprisunnar er stef þessa tímabils. Er líður að hvítasunnu byggist upp eftirvænting vegna andans sem kemur og fyllir allt. En tíu dögum fyr, á uppstigningardegi, segir frá því er Jesús tekur lærisveina sína, karla og konur, með sér á óbyggðan stað. Þar opnar hann huga þeirra, gefur þeim skilning á ritningunum, brýnir þau með kristniboðsskipun og blessar þau. Á meðan hann var að blessa þau skildist hann frá þeim. Það er ljóst af orðum Jesú víða í ritningunum, að hann fór til föðurins, að búa fylgjendum sínum stað, en einnig til að senda andann heilaga. Steig upp til himna. Þannig er það orðað í trúarjátningunni. Viðbrögð lærisveinanna voru tilbeiðsla og lofgjörð.
Páll segir í pistli dagsins, að hann biðji Guð að upplýsa sjón hjartans, svo áheyrendur fái að sjá þá von sem hann hafi kallað þá til, og hve dýrlega arfleifð hann ætlar þeim meðal hinna heilögu. Vonin er að eignast eilíft líf í samfélagi við Guð föður og Drottin Jesú. Það varð fullkomin bylting hjá lærisveinum Jesú er þau mættu honum upprisnum og lifandi. Hann borðaði með þeim, leyfði þeim að snerta sig og ræddi við þau. Þau upplifðu nærveru hans. Þegar heilögum anda var síðan úthellt, fengu þau að reyna nærveru Guðs á annan hátt. Nærveru, sem var jafn raunveruleg. Vonin og ósýnileg nærvera Heilags anda eru samofin. Eilífðin er nærri. Arfleifðin, sem Páll vitnar um að hann biðji Guð að upplýsa lesendur um, var ekki einhver smá arfur heldur Guðs ríki allt. Guðs ríki var komið til þeirra í Jesú, en það var samt svo miklu meira. Það sem gladdi lesendur bréfa Páls, og gerir enn í dag, var fullyrðing hans að þau sem tryðu væru hin heilögu. Þau væru börn Guðs, systkin Jesú. Að eiga Guðs ríki og vera barn Guðs. Það er hin dýrlega arfleifð. Í slíkri von og arfleifð er mikil blessun fólgin.
Heiðurskóróna
Sú kynslóð sem nú er komin á efri ár, hefur upplifað gríðarlegar breytingar á íslensku samfélagi. Á lífi eru karlar og konur sem þekktu afleiðingar kreppunnar miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Þá kreppti virkilega að hér á landi með miklu atvinnuleysi og fátækt. Aldraður kennari og skólastjóri bað mig að skila því til unga fólksins eftir hrunið 2008, að vera ekki óttaslegið. Hann sagði að aðstæður hefðu verið margfalt verri og erfiðari í hruni heimskreppunnar en nú og Íslendingar hefðu náð sér út úr því. Við hljótum að taka undir þakkir til undangenginna kynslóða, sem byggt hafa upp landið okkar hörðum höndum og skilað því svo vel af sér. Í Orðskviðum Salómons segir: Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana. (Ok 16.31)
Í Síraksbók stendur: Vanvirtu ekki neinn sem elli beygir, ýmsir af oss munu einnig eldast. (Sír 8.6)
Við gætum umorðað síðustu setninguna í gullnu regluna: „Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ Við þurfum að spyrja okkur hvort nægilega vel sé búið að öldruðum, hvort við sjálf værum sátt ef við værum í þeirra sporum. Það er víða vel staðið að málum aldraðra, en sums staðar því miður ekki nógu vel.
Okkar er að biðja hvert fyrir öðru og bera byrðarnar hvert með öðru, styðja og styrkja hvert annað. Kristin trú á að vera drifkraftur til góðra verka. Kærleiksboð frelsarans um elsku til náungans er og á að vera mótandi fyrir líf kristinnar kirkju. Sú elska á að móta þjóðlífið. Hafa umbreytandi áhrif til góðs fyrir alla. Þegar Drottinn blessaði lærisveina sína, gaf hann þeim náð sína, kærleika og frið. Það er blessun sem tilheyrir hverjum manni og kristnir menn eiga að miðla blessuninni áfram með orðum sínum og gjörðum.
Enginn kemst undan áföllum og erfiðleikum í lífinu. Við fáum öll okkar skerf. Stundum virðast sumir þurfa að bera meira en aðrir. Hvers vegna svo er farið er ekki einfalt að svara. Vandamál þjáningarinnar er glíma sem maðurinn er stöðugt að fást við. Við þráum að aldraðir foreldrar okkar eða ættingjar njóti heilbrigðis og góðs lífs. Svo er því miður ekki alltaf. Hvað getur veitt okkur styrk og þolgæði þegar sjúkdómar og erfiðir tímar herja á? Eftir því sem árin líða er það meir og meir mín sannfæring að Guð umfaðmi allt í kærleika sínum og sé nærri hverjum manni, sérstaklega í þjáningu og erfiðleikum. Kristur gekk sjálfur í gegnum erfiðleika og dauða. Í anda sínum er hann nærri þegar sjúkdómar, neyð og sorg knýja dyra. Hallgrímur Pétursson leiðbeindi okkur:
Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmislig, þá líf og sál er lúð og þjáð, lykill er hún að Drottins náð.
Uppstigningardagur er dagur blessunarinnar. Megi blessun Guðs hvíla yfir þér og þínum. Náð Guðs sé með þér. Kærleikur hans fylli þig. Megi friður Guðs varðveita og umlykja þig og þína.
Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda um aldir alda. Amen.
Pistill: Ef 1.17-23 Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa ykkur anda speki og opinberunar svo að þið fáið þekkt hann. Ég bið hann að upplýsa sjón hjartans svo að þið sjáið hver sú von er sem hann hefur kallað okkur til, hve ríkulega og dýrlega arfleifð hann ætlar okkur meðal hinna heilögu og hve kröftuglega hann verkar í okkur sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn sem hann lét koma fram í Kristi er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar á himnum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld heldur og í hinni komandi. Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum sem sjálfur fyllir allt í öllu.
17Ég bið Guð Drottins vors Jesú Krists, föður dýrðarinnar, að gefa yður anda speki og opinberunar, svo að þér fáið þekkt hann. 18Ég bið hann að upplýsa sálarsjón yðar, svo að þér skiljið, hver sú von er, sem hann hefur kallað oss til, hver ríkdómur hans dýrlegu arfleifðar er, sem hann ætlar oss meðal hinna heilögu, 19og hver hinn yfirgnæfandi máttur hans við oss, sem trúum. En þetta er sami áhrifamikli, kröftugi mátturinn, 20sem hann lét koma fram í Kristi, er hann vakti hann frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar í himinhæðum, 21ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni, sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld, heldur og í hinni komandi. 22Allt hefur hann lagt undir fætur honum og gefið hann kirkjunni sem höfuðið yfir öllu. 23En kirkjan er líkami hans og fyllist af honum, sem sjálfur fyllir allt í öllu. (þýðing frá 1981)