Hver er þinn Guð?

Hver er þinn Guð?

Það er komið að úrslitaspurningunni hver er þinn Guð? Ég ætla ekki að svara henni fyrir þig en við getum velt henni fyrir okkur saman. Kannski væri best að ég segði sem minnst en að þið fengjuð tíma til að horfa inn á við og svöruðu hvert fyrir sig.

1. Inngangur

Það er komið að úrslitaspurningunni hver er þinn Guð? Ég ætla ekki að svara henni fyrir þig en við getum velt henni fyrir okkur saman. Kannski væri best að ég segði sem minnst en að þið fengjuð tíma til að horfa inn á við og svöruðu hvert fyrir sig.

Um leið og ég spyr sjálfa mig hver er minn Guð hrannast upp fleiri spurningar eins og o Hvað er Guð? o Hver er Guð? o Er Guð eitthvert það eða er Guð hann eða hún o eða bara gamli, skeggjaði maðurinn í bleiku fötunum í lofti Sixtínsku kapellunnar í Róm? En fyrst langar mig að við veltum fyrir okkur: Hvernig Guð var kynntur fyrir okkur þegar við vorum börn.

2. Bernskan

Ef þú horfir til baka koma kannski upp frásögur um Guð sem þú manst eftir og hafa mótað þig. Hvað var það sem þú heyrðir um Guð? Heyrðirðu að Guð væri strangur og vildi að þú hlýddir honum? Eða voru frásögurnar þannig að þær nærðu barnssálina og tjáðu kærleika Guðs og að honum þætti vænt um alla, líka óþekku krakkana. Hvað passar best við þinn Guð?

Ein af þeim myndum sem ég fékk í sunnudagaskóla var að Guð væri sterkur og voldugur. Sagan sem sannfærði mig um það var frásagna úr Daníelsbók þegar konungurinn Neb-úk-ad-nesar lét setja nokkra Ísraelsmenn í eldsofn af því að þeir trúði ekki á hann heldur á sinn eigin Guð. Mennina sakaði ekki og eldurinn gerði þeim ekki mein því Guð verndaði þá. Konungurinn lét sækja mennina og féll fram og tilbað Guð þeirra. Þessi saga gaf mér mynd af sterkum Guði sem gat allt. Stundum hef ég hugsað hvers vegna ég fékk ekki þá mynd af Guði að hann hafi verið strangur og ógurlegur eins og víða má sjá í Gamla testamentinu. Sagan af skulduga þjóninum í Matteusar guðspjalli er kannski ein þeirra mynda sem fékk mig til að hugsa um refsandi Guð. En þá mynd hafa margir fengið með sér og verið hrædd við Guð sem hefnir og refsar.

Ertu sáttur við þá mynd sem þér var kynnt af Guði í bernsku þinni ?

3. Vilji Guðs

Vilji Guðs er oft sérkennilegur í hugum okkar og mér virðist stundum að hann sé notaður á niðurbrjótandi hátt. T.d. eins og að Guð vilji að þú gerir einmitt það sem þú villt alls ekki? Voru ekki bæði Jónas í Hvalnum og Jeremía slíkir menn? Það getur verið auðvelt að trúa að Guð vilji sér ekki vel úr því að hann lætur einhverja fá ömurleg verkefni gegn vilja þeirra. Um skeið var ég viss um að Guð mundi kalla mig til einhvers sem ég vildi ekki en að ég yrði að hlýða. Þessi hugsun hefði getað þróast á mjög taugaveiklaðan hátt og brotið mig niður og gerði það að vissu leyti. Ég vil frekar halla mér að kærleiksríkri mynd af Guði og Jesús sem elskar mig og tekur mig í faðm sér. Hvers vegna ætti hann að vilja mér eitthvað sem ég vildi ekki. Hann skapaði mig með kostum og göllum og þeir nýtast í þjónustu hans mínum á vegferðinni með Guði. Það er ekki þar með sagt að leit að vilja Guðs sé ekki barátta en hún þarf ekki að vera neikvæð.

4. Merkingarleit

Sérhver manneskja lendir í margvíslegum vanda á leið lífsins og þá leitar hún gjarnan að merkingu eða tilgangi. Oft valda erfiðleikar því að endurmat fer fram. Spurningar vakna eins og :

o hver er ég o hvað er ég að gera hér? o Hvað á líf mitt og þjáning að þýða? o Hvar ertu Guð? o Eða er Guð ekki til?

Guðshugmyndin og leitin að Guði er nátengd merkingarleitinni, hvernig við fellum líf okkar og reynslu í merkingarbært samhengi.

Þessir erfiðleikar eða áföll eru t.d.dauði, missir, vonbrigði eða mistök. Sálgæsla getur verið mikilvæg hjálp í slíkum aðstæðum. Reynslan hefur sýnt að guðsmyndin hefur áhrif á hvernig við vinnum úr áföllum og að áföllin hafa jafnframt áhrif á guðsmynd okkar.

Það er talað um að guðsmynd geti verið skaðleg en að hún geti líka verið uppbyggileg og hjálpleg. Þess vegna skulum við virða fyrir okkur hvernig Guð er í okkar lífi. Í Skaðlegri Guðsmynd hefur Guð verið gerður ósanngjarn, hefnigjarn og illur. Slíkar niðurrífandi Guðsmyndir birtast stundum og þær geta verið skaðlegar andlegri heilsu okkar af því að við erum hrædd við Guð.

Myndin af Guði sem er andstæða þessarar neikvæðu myndar er uppbyggileg og felur í sér nánd, samstöðu og öryggi. Guð sem er nálægur þér, er hjá þér, styður þig, hlustar á þig og veitir þér vissu um að þú sért örugg(ur) og þurfir ekkert að óttast.

Uppbyggileg Guðsmynd getur gert leiðina til huggunar og bata auðveldari.

Er Guðsmynd þín hjálpleg í þroskakrísum trúarinnar? Er hún mynd Guðs sem hlustar og styður, dæmir ekki og veitir þér öryggi og stuðlar að trausti.

Er þetta þinn Guð?

(ÞÖGN)

Trúarleg glíma í erfiðum aðstæðum getur leitt til góðs. Guðsmyndin getur þróast og þroskast. Við getum endurmetið hana svo hún dýpki og verði okkur stuðningur í lífi og dauða.

5. Textar dagsins

Fyrsti textinn sem var lesinn áðan var tímaskekkja því hann á að lesa á aðfangadag og jóladag. Textinn er úr spádómsbók Jesaja og er lýsing á Guði. Guð er ljós yfir myrkvuðu landi og nýir og betri tímar eru að renna upp. Guð er barnið sem fæðist, sonur Guðs. Hann er leiðtogi, góður ráðgjafi, hugrakkur, eilífur faðir og friðelskandi. Þessi guðsmynd hefur áhrif á líf okkar og er fyrirmynd í lífi margra. Getur þessi Guð verið leiðtogi lífs okkar?

Þegar þú heyrir þennan texta á jólunum skaltu hlusta og íhuga þessa lýsingu á Guði. Passar hún við þá hugmynd sem þú gerir þér af Guði? Er þarna eitthvert svar við spurningunni: Hver er þinn Guð? Getur þessi lýsing verið fyrirmynd að þeim Guði sem er Guð í lífi þínu?

Guðspjallið í kvöld segir frá játningu Símonar Péturs. Honum hefur skilist –eða öllu heldur verið opinberað- að Jesús væri Kristur, Messías, sonur hins lifanda guðs. Ekki spámaður heldur miklu meira en það; sonur Guðs. Hvatvísi Péturs er styrkleiki hans á þessari játningarstundu. Hann lét allt vaða. Jesús sagði hann vera þann klett sem hægt væri að byggja á. Segir þetta þér eitthvað um hver þinn Guð er? Kannski Guð sem kann að meta styrkleika og veikleika þína?

Er þinn Guð þannig?

6. Lokaorð

Þegar spurt er í nálægð aðventunnar hver sé þinn Guð skulum við draga sterkt fram þann sem við viljum hafa sem okkar Guð. Guð sem ekki hefur vald yfir okkur og otar að okkur einhverju innihaldslausu heldur Guð sem er náðugur og miskunnsamur, fullríkur fyrir alla. Eða eins og sagt var í öðrum ritningarlestri: Hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann 13því að „hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn“. AMEN