Breivik og brauðið sem gefur heiminum líf

Breivik og brauðið sem gefur heiminum líf

Þó Breivik vilji að staðinn sé vörður um kristindóminn og ýmis önnur hugmyndakerfi, sem hann aðhyllist, þá yfirsést honum það kjarnaatriði, að þegar við erum farin að setja hugmyndakerfin á stall og tilbiðja mannasetningarnar á kostnað náungakærleika og elsku, þá erum við komin í bland við tröllin.

Allsnægtir og örbirgð

Það eru að mörgu leyti skrítnir en um leið áhugaverðir tímar sem við lifum þessi misserin. Í aðra röndina er eins og við höfum allt til alls en í hina er eins og okkur skorti allt og að örbirgðin sé algjör. Allsnægtirnar, sem ég vísa hérna til og virðast standa okkur langflestum til boða eru auðvitað fyrst og fremst veraldlegar og birtast m.a. í óendanlegum möguleikum okkar til að afla okkur upplýsinga og verða okkur út um afþreyingu - og hrunið svokallaða virðist ekki hafa haft nein áhrif þar á. En þrátt fyrir alla þessa möguleika okkar er samt eins og tómleiki sé til staðar í lífi margra því það er eins og óvissa ríki um allt siðferði og skortur sé til staðar þegar kemur að gildismati og hverju því sem gefur lífinu innihald og merkingu. Og ástæðu þessa er kannski ekki langt að leita, því við lifum sannarlega á tímum margvíslegra átaka og umbrota, og einhverjir kynnu jafnvel að segja upplausnar, þar sem margar og ólíkar hugmyndir um gott og illt, rétt og rangt, hvað sé fagurt og hvað fullkomið, eiga sér marga ólíka en kröftuga málsvara. Það var hins vegar einmitt við þessar aðstæður óvissu og hugmyndafræðilegrar upplausnar sem ódæðismaðurinn Andres Behring Breivik, sem varð 77 manns að bana með sprengjutilræði sínu í miðborg Osló og fjöldamorðum á varnarlausu fólki á Úteyju, kom fram á sjónarsviðið fullskapaður, ef svo má að orði komast.

Vagga vísinda, kapítal og kristni Þegar litið er til 1500 síðna “Yfirlýsingar” hans - Manifesto - sem birst hefur í heild á netinu, verður ekki betur séð en að fjölmenningin, sem Breivik sá fara vaxandi allt í kringum sig, hafi orðið þess valdandi að hann varð óttasleginn og ákvað að taka í sínar hendur það sem hann taldi réttlæti – en var það vitaskuld ekki. Það sem fyrst og fremst virðist hafa verið eitur í hans beinum voru stefnur eins og marxismi og femínismi, undanlátssemi við múslima og hvers konar hugmyndir um fjölhyggju og jafnrétti. Allt virðist þetta hafa verið ógn við vestræna menningu í hans huga. Í stað þess að þessar hugmyndir hlytu brautargengi vildi hann að okkar vestræni heimur fengi að standa nánast óáreittur og ósmitaður af fólki af fjarlægum uppruna með framandi trúarbrögð og gildismat í farteskinu. Hann vildi m.ö.o. að vesturlönd og vesturlandabúar fengju að vera í friði með sína hvítu húð, ljósa háralit og bláu augu. Og hann vildi að þau yrðu áfram vagga vísinda eins og hann sagði þau áður hafa verið, kapítalismi yrði grundvöllur hagkerfisins og allra efnahagsframfara og kristindómur undirstaða siðferðis og gildismats. Það er hins vegar athyglisvert, að í huga Breiviks er ekki alveg sama hvaða kristindómur það er, sem byggja skal siðferði og gildismat á á vesturlöndum, því að hans hyggju er frjálslyndur kristindómur ekkert annað en svik við það sem honum finnst vera sannur og réttur kristindómur oen sá birtist einna helst að hans mati í kaþólskum sið og íhaldssömum rétttrúnaði.

Einnig er rétt að benda á, að í “Yfirlýsingu” Breiviks kemur skýrt fram, að hann lítur ekki á sig sem trúmann, og í rauninni má færa fyrir því rök að hann sé ekki kristinn en telji sig fyrst og fremst vísindahyggjumann og einhverskonar rökhyggjumann, því hann segir einfaldlega, að það sé algjört grundvallaratriði í sínum huga, að vísindin hafi skilyrðislausan forgang fram yfir kenningar Biblíunnar. Um samband sitt við Guð segir Breivik svo í sama kafla, að það samband sé ekki mikið heldur sé hann fyrst og fremst maður rökhugsunar en segist hins vegar vilja sjá Evrópu sem álfu grundvallaða á kristinni menningu.

Fjölhyggja

Það er ljóst af samhenginu í yfirlýsingu Breiviks, að áhugi hans á kristindómi er fyrst og fremst sprottinn af menningarsögulegum ástæðum en ekki því að hann vilji lúta Kristi eða gera hann að leiðtoga lífs síns, enda hvernig má það vera, að maður sem með köldu blóði myrðir meðbræður sína og samborgara án nokkurrar hluttekningar geti kallað sig kristin án þess að vera stóralvarlega skaddaður á sálinni? Þegar “Yfirlýsing” Breiviks er skoðuð verður ekki hjá því komist að veita því athygli, hve upptekinn hann er af straumum og stefnum í bæði sögu og samtíð, og eins og við vitum þá var hann með ódæði sínu að leggja áherslu á tilteknar hugmyndir og hugsjónir á kostnað annara hugmynda og annarra hugsjóna. Það er augljóst að ekkert er honum eins mikið eitur í beinum eins og fjölhyggja nútímans, en í ljósi þess hvað fólk af ólíkum uppruna, trúarbrögðum og menningu lifir orðið í nánu samfélagi í mörgum löndum hins vestræna heims, þá hefur orðið til sú áhersla fjölhyggjunnar, að svo sé um hnútana búið í samfélögunum, að allir hafi jöfn tækifæri og fái notið hæfileika sinna, og að enginn þurfi að skammast sín fyrir trú sína, uppruna eða menningu. Breivik vill hins vegar berjast gegn öllum hugmyndum af þessu tagi og í því skyni elur hann á þjóðernisöfgum, sem oftast eru kenndar við nasisma, þó hann reyndar vilji ekki kenna sig við þá stefnu, einfaldlega vegna þess að honum finnst sá stimpill ekki nothæfur sem vörumerki lengur.

Réttlæti heimsins Breivik vill m.ö.o. tefla fram einni hyggjunni gegn annarri og einum “ismanum” gegn öðrum í pólitísku og hugmyndafræðilegu hagsmunastríði. Og í þeim tilgangi að ná settum markmiðum finnst honum fullkomlega eðlilegt og réttmætt að ráðast að saklausum borgurum, sem ekki eiga sér neins ills von, og stráfella þá í því skyni að vekja athygli á málstað sínum. Þarna er réttlæti hans að finna og þegar allt kemur til alls þá er þetta réttlæti hans ekkert mjög frábrugðið því réttlæti heimsins, sem við erum áhorfendur að nánast daglega í fjölmiðlum og það stundum allt að því í beinni útsendingu. Þegar kemur að réttlæti heimsins er það tilgangurinn, sem alltaf er látinn helga meðalið og þar eru það hinir efnislegu og veraldlegu hagsmunir, sem eru settir ofar öllu öðru, hvað sem allt annars kann að kosta. Þeirri spurningu var t.d. varpað fram í útvarpsþætti á dögunum hvers vegna Sameinuðu þjóðirnar væru ekki búnar að grípa til samskonar aðgerða gegn Sýrlandi og gegn Lýbíu, en í báðum löndum hafa yfirvöld sigað her sínum á óbreytta borgara. Og svarið kom um hæl; jú sjáiði til, í Sýrlandi er enga olíu að finna eins og í Lýbíu. Við sjáum á þessu hvernig hinn veraldlegi ávinningur er oftar en ekki látinn ráða för þegar réttlæti mannsis er annars vegar. Maðurinn hagar sér nefnilega öðruvísi þegar hann heldur sig einungis standa coram hominibus og coram mundi, þ.e. frammi fyrir manninum og heiminum, en gleymir því að hann stendur líka coram deo eða frammi fyrir Guði.

Réttlæti Guðs Ég held t.d. að Breivik hafi með öllu gleymt því, að hann stendur ekki bara frammi fyrir manni og heimi með ódæðisverk sín, heldur þarf hann einnig – eins og við öll - að standa skil á gjörðum sínum frammi fyrir Guði. Staðreyndin er nefnilega sú, að þó Breivik vilji að staðinn sé vörður um kristindóminn og ýmis önnur hugmyndakerfi, sem hann aðhyllist, þá yfirsást honum það kjarnaatriði, að þegar við erum farin að setja hugmyndakerfin á stall og tilbiðja mannasetningarnar á kostnað náungakærleika og elsku, þá erum við komin í bland við tröllin. Þá þolir líf okkar ekki lengur dagsljósið og okkur dagar uppi. Þá bera verk okkar dauðanum vitni en ekki sannleikanum og lífinu, og það er í þessu samhengi sem ég myndi gjarnan vilja að við horfðum til guðspjallsins í dag, þar sem Jesús segir: Brauð Guðs er sá sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf. Anders Behring Breivik birtist okkur, sem búum hér á hinum tiltölulega friðsömu Norðurlöndum, sem þruma úr allt að því heiðskíru lofti, en í stað þess að gefa heiminum birtu, von og líf, eins og sá sem stígur niður af himni, þá fylgdi honum dauði og hatur, sorg og vonleysi, örvilnan og ráðaleysi. “Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá,” segir Jesús í guðspjöllunum og þetta voru ávextir Breiviks. Allt var þetta vegna þess, að hann kaus að setja hugmyndafræði um hreinleika, einsleitni og yfirburði ofar öllu öðru og gera að lífsgrundvelli sínum. Hann gleymdi því hins vegar að lífið er sjaldnast alveg hreint og einsleitni felur alltaf fyrr eða síðar í sér úrkynjun. Og þegar kemur að hugmyndum um yfirburði, þá vitum við, að þær geta verið fljótar að breytast, og það sem á einum tíma þykir vera til vitnis um mikla burði getur verið til marks um veikleika á öðrum. Veruleikinn er nefnilega alltaf að taka breytingum, og sá sem festir sig í viðjar hugmyndakerfa og mannasetninga á á hættu að skynja lífið og tilveruna á einsleitinn hátt, því hann fer að sjá allt og túlka út frá afmörkuðum fyrirfram gefnum hugmyndum og forsendum. Og þá er hætt við að útkoman verði hungur en ekki næring; dauði en ekki líf.

Hrun hugmyndakerfanna Við þessu vill Kristur hins vegar vara og hvað eftir annað gerist það í guðspjöllunum, að hann bendir á, hvernig kenningakerfi og trúarsetningar geta orðið til að drepa í dróma í stað þess að gefa líf. Í þessu sambandi má t.d. rifja upp þegar Jesú læknaði mann með visna hönd á hvíldardegi og eins þegar lærisveinar hans tíndu kornöx þann sama dag til að nærast. Allt var þetta æðstu prestum gyðinganna og faríseunum til mikillar ásteytingar, en Jesús benti þeim á, að maðurinn væri ekki orðinn til hvíldardagsins vegna, heldur væri það hvíldardagurinn sem væri til mannsins vegna og ætti því að þjóna manninum. Með þessum hætti kemur Kristur fram með nýja hugsun og nýtt orsakasamhengi, sem gjörbreytir sýn manna á hið trúarlega og undirstrikar að það er lífið og kærleikurinn, sem á að hafa forgang en ekki kenningar og kreddur. Breivik ákvað hins vegar að láta lífið og kærleikann víkja fyrir kreddunum og þannig ruddi hann líka úr vegi öllu því sem Kristur og trúin á Krist stendur fyrir. Kannski hefur Breivik séð trúarsetningar, sem honum voru kærar, fótum troðnar, og kannski hefur honum fundist allt réttlæti í heiminum á undanhaldi? Sennilega var ekki ólíkur okkur flestum að því leytinu til, að hann hefur hungrað og þyrst eftir réttlætinu. Það sem aðskildi hann hins vegar frá flestum öðrum var að hann fann augljóslega ekki frið hið innra með sér, því hann hafði einungis lært að horfa á heiminn út frá forsendum hugans og rökhugsunarinnar en ekki út frá forsendum hjartans og kærleikans. (Skyldi menntastefna síðustu áratuga eiga hlut þarna að máli?)

Brauð lífsins. Kristur, sem er brauðið sem niður stígur af himni og gefur heiminum líf, felur hins vegar í sér þá næringu, sem gerir það að verkum, að skynja má með nýjum hætti. Og þegar það gerist förum við að sjá með dýpri hætti en áður að ekkert hugmyndakerfi og engin rökhugsun nær lengra en forsendurnar leyfa. Það má því alltaf einu gilda hversu gild rökin eru, sem telft er fram hverju sinni, eða hversu hátimbruð hugmyndakerfin kunna að verða, að ef ekki er byggt á forsendum velvilja og virðingar, mildi og miskunnsemi, umhyggju og kærleika, þá verða ávextirnir í samræmi við það, þ.e. dauði en ekki líf og myrkur en ekki ljós. Verum því óhrædd við að opna hjarta okkar fyrir því brauði Guðs, sem niður stígur frá himni, og gefur heiminum ljós og líf og okkur mönnunum von. Amen!

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen!

Textar: Lexía: Jóel 2.21-27 Pistill: Post 2.41-47 Guðspjall: Jóh 6.30-35 Þeir spurðu hann þá: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur svo að við trúum? Hvað afrekar þú? Feður okkar átu manna í eyðimörkinni eins og ritað er: Brauð af himni gaf hann þeim að eta.“
Jesús sagði við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni. Brauð Guðs er sá sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf.“
Þá sögðu þeir við hann: „Drottinn, gef okkur ætíð þetta brauð.“
Jesús sagði þeim: „Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra sem til mín kemur og þann aldrei þyrsta sem á mig trúir.