„Á kommóðunni lá bók. Hann hafði séð hana í hvert skipti sem hann gekk þar hjá; nú tók hann hana upp og leit á hana. Þetta var Nýja testamentið í rússneskri þýðingu. Bókin var gömul og snjáð, í leðurbandi“. Með þessari lýsingu Dostojevskís á Nýja testamenti Sonju í skáldsögunni Glæpur og refsing – sem þýdd var snilldarlega af Ingibjörgu Haraldsdóttur – hefst grein eftir Harald Hreinsson guðfræðing í nýjasta fréttabréfi Hins íslenska biblíufélags (B+, febrúar 2011). Þar er að finna greinargott yfirlit yfir biblíunotkun hins heimsfræga skálds, bæði mikilvægi hinnar helgu bókar í lífi Dostojevskí og hvernig hann nýtir hin sígildu stef Biblíunnar í skáldsögum sínum.
Dostojevskí og Nýja testamentið Sagt er frá eigin eintaki skáldsins, sem varðveitt er í Rússneska ríkisbókasafninu, „ógn lúið, undið af raka og nagað af meindýrum“, segir Haraldur og heldur áfram: „Bókin er enda margþvæld af lestri. Síðurnar eru rifnar og gauðslitnar, og eigandinn hefur verið óhræddur við að merkja við eitt og annað í textanum og strika undir það sem honum þótti mikilvægt“. Því er lýst hvernig Dostojevskí fletti upp í Nýja testamentinu sínu „þegar hann var efins, stóð frammi fyrir erfiðum ákvörðunum eða kvíðinn því sem framundan var. Þá opnaði hann bókina einhvers staðar af handahófi og las það vers og íhugaði sem hann sá fyrst á vinstri síðu opnunnar“, segir Haraldur, en lokaorð greinarinnar eru á þessa leið:
Nýja testamentið hans Dostojevskís varð ekki safngripur fyrr en að honum látnum. Sem betur fer. Það ber nefnilega ekki ávöxt ef það er meðhöndlað sem stofustáss. Um það vitnar snjáð eintak hins rússneska stórskálds.
Um leið og ég hvet ykkur til að lesa þessa frábæru grein og annað gott efni í B+ langar mig að draga fram þann lærdóm sem við hvert og eitt getum dregið af Nýja testamentinu hans Dostojevskí, óháð okkar skáldlegu hæfileikum! Það er einkum þetta með notkunina, sem Haraldur leggur svo mikla áherslu á. Fín Biblía í hátíðarútgáfu uppi í hillu gerir okkur ekkert gagn í daglega lífinu. Svo vill til að á mínu heimili eru til margir hillumetrar af Biblíum og mismunandi biblíuútgáfum á ýmsum tungumálum og frá ýmsum tímum. Enginn þeirra gerir okkur heimilisfólkinu þó hið minnsta gagn ef þær fá að vera um kyrrt uppi í hillu. Það er ekki fyrr en þær eru lesnar sem gagnsemin verður ljós.
Orð Guðs vors varir Í lestrum Biblíudagins er orði Guðs lýst á margvíslegan hátt. Hjá Jesaja spámanni (40.6-8) segir:
Einhver segir: „Kalla þú,“ og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“ „Allt hold er gras og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins. Grasið visnar, blómin fölna þegar Drottinn andar á þau. Sannlega eru mennirnir gras. Grasið visnar, blómin fölna en orð Guðs vors varir að eilífu.“
Í samanburði við hverfulleika manneskjunnar, sem líkt er við gras sem visnar og blóm sem fölna, er bent á varanleika orðs Guðs. Í fyrsta kafla Biblíunnar er lýst þeim krafti sem orð Guðs býr yfir: „Þá sagði Guð: „Verði ljós.“ Og það varð ljós“ (1Mós 1.3). Tilurð heimsins er rakin til þessa orðs. Og í guðspjöllunum segir Jesús: „Sannlega segi ég yður: Þar til himinn og jörð líða undir lok mun ekki einn smástafur eða stafkrókur falla úr lögmálinu uns allt er komið fram“ (Matt 5.17-19). Orðið sem var í upphafi (sbr. Jóh 1.1) nær út fyrir þennan heim, já er handan tíma og rúms. Það var áður en nokkuð annað var til – og það varir að eilífu. Í því býr sjálfur lífskrafturinn.
Orð Guðs er lifandi og kröftugt Í Hebreabréfinu er að finna orð sem oft er vitnað til í tengslum við Biblíuna (Heb 4.12-13):
Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans. Enginn skapaður hlutur er Guði hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.
Mörg höfum við þá reynslu sem hér er lýst, að við það að lesa í Biblíunni – sem birtir hið lífgefandi og áminnandi orð Guðs – finnst okkur eins og lífi okkar sé lokið upp. Við finnum til þar sem okkur er ábótavant, er stillt upp augliti til auglitis við mistök okkar. Stundum veldur það sársauka á sál og anda, já jafnvel líkamlegri kvöl. En það að gera reikningsskil orkar til heilbrigðis, eins og t.d. AA-fólkið veit. Við þurfum að gera hreint í lífi okkar, helst daglega. Höfum við vanrækt það safnast vandinn upp og verður oft illviðráðanlegur. En í afhjúpandi kærleika sínum gefur Guð kjarkinn til uppgjörsins og hjálpar okkur að horfast í augu við okkur sjálf og umhverfi okkar. Þannig er orð Guðs inn í líf okkar lífandi og kröftugt, máttarorð til lækningar.
Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt Í guðspjallinu, Mark 4.26-32, er lýst því ferli sem á sér stað frá því að fræi er sáð í jörð og fullvaxin jurt sprettur fram sem ber ýmist ber ávöxt eða ljær hinum frjálsu fuglum himins skjól.
Þá sagði Jesús: „Svo er Guðs ríki sem maður sái sæði í jörð. Hann sefur síðan og vakir, nætur og daga, en sæðið grær og vex, hann veit ekki með hverjum hætti. Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt, fyrst stráið, þá axið og síðan fullvaxið hveiti í axinu. En þá er ávöxturinn er fullþroska lætur hann þegar bera út sigðina því að uppskeran er komin.“ Og Jesús sagði: „Við hvað eigum við að líkja Guðs ríki? Með hvaða dæmi eigum við að lýsa því? Líkt er það mustarðskorni. Þegar því er sáð í mold er það smærra hverju sáðkorni á jörðu. En eftir að því er sáð tekur það að spretta, það verður öllum jurtum meira og fær svo stórar greinar að fuglar himins geta hreiðrað sig í skugga þess.“
Þarna heyrum við um hvernig „frækornið smáa varð feiknarstórt tré“ (úr sálmi eftir Valdimar Briem, nr. 302 í sálmabók þjóðkirkjunnar). Tökum eftir því á hvaða hátt þetta gerist. Vöxturinn og gróandinn er innifalinn í ferlinu. „Sjálfkrafa ber jörðin ávöxt“. Auðvitað þurfa réttu skilyrðin að vera fyrir hendi eins og lýst er í annarri dæmisögu Jesú sem annað hvert ár er lesin á Biblíudaginn og er að finna í sama kafla hjá Markúsi guðspjallamanni (Mark 4.3-20). Jarðvegurinn þarf að vera nægilega djúpur og veita rótfestu, gæta þarf að illgresinu sem kæft geti jurtina og bægja burtu fuglunum sem geti étið litlu fræin upp. En sé jarðvegurinn sem skyldi og jurtinni hlíft við hvers konar óværu ber jörðin sjálfkrafa ávöxtinn sem til er sáð.
Orðið framkvæmir það sem Guð felur því Þannig er því einnig farið með Guðs orð, „orð mitt sem kemur af munni mínum“, eins og Drottinn segir hjá Jesaja spámanni (Jes 55.11), „það hverfur ekki aftur til mín við svo búið heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast og framkvæmir það sem ég fel því“. Í fyrra Korintubréfi erum við minnt á hver það er sem gefur vöxtinn, það er vöxt trúarinnar: „Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn. Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar. Það er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn“, segir Páll (1Kor 3.6-7).
Við getum öll á okkar hátt verið „samverkamenn Guðs“ eins og þeir Páll og Apollós (1Kor 3.9) með því að sá inn í líf samferðafólks okkar þeim lífskrafti sem við höfum þegið frá orði Guðs. Öll erum við „Guðs akurlendi, Guðs hús“, sú frjóa jörð sem Guð sáir fræjum trúarinnar í, steinar í þeirri byggingu sem er ríki Guðs á jörðu.
Einn er þó öðrum framar sendiboði orðs Guðs, hann sem sjálfur er holdtekning orðsins, það Orð sem varð hold, „hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika“ (Jóh 1.14). Um Jesú Krist segir Jóhannes guðspjallamaður (Jóh 3.34): „Sá sem Guð sendi talar Guðs orð því ómælt gefur Guð andann“. Því segir Jesús: „Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða“ (Matt 24.35). Orð Jesú eru orð Föðurins, upprunnin úr þeim skapandi mætti orðsins sem öllu kom af stað og alltaf verður til.
Aftur á byrjunarreit Og þá erum við aftur komin að upphafinu. Dostojevskí las sitt Nýja testamenti nánast upp til agna. Heima hjá mér eru til margir hillumetrar af Biblíum en bara þær sem eru lesnar hafa áhrif á heimilisfólkið. Textar Biblíudagsins gefa okkur tilefni til að taka fram Biblíurnar okkar og skoða hvaða erindi Guð á við okkur. Við finnum til smæðar okkar og hverfulleika mannlífsins. Allt mun líða undir lok. Allt – nema skapandi Orð Guðs. Þetta orð er að finna í Biblíunni.
Og orðið er vissulega áminnandi en einnig lífgefandi. Ef við gerum eins og Dostojevskí – flettum upp af handahófi og lítum á versið sem við sjáum fyrst á vinstri síðu opnunnar – munum við áreiðanlega komast að ýmsu um okkur sjálf og aðstæður okkar. Í gömlu messubæninni báðum við um að við mættum komast að því hverju við ættum að trúa, hvernig við ættum að breyta og hvers við mættum vona. Þannig er líka farið því guðsorði sem kemur til okkar í búningi Biblíunnar. Þar lesum við okkur til trúarstyrkningar, betri breytni og meiri vongleði.
Og hvort sem við lesum mest eins og lýst er lesningu Dostojevskís – þegar á reynir í lífinu – eða á reglubundinn hátt, t.d. daglega samkvæmt biblíulestrarskrá Hins íslenska biblíufélags, mun lesturinn móta okkur og styrkja í lífsins ólgusjó. Við getum tæpast ræktað okkar kristnu trú án þess að sækjast eftir því að þekkja þann skrifaða grunn sem hún hvílir á, Heilaga ritningu.
Það er líka þess vegna sem við viljum leggja okkar að mörkum til að þjóðir og þjóðarbrot sem ekki eiga Biblíuna á sínu eigin tungumáli geti eignast þann fjársjóð sem þar er að finna. Þetta vorið rennur söfnunarfé His íslenska biblíufélags til útgáfur Biblíunnar á tungumáli Jamaíka-þjóðarinnar, patois. Fjármagn vantar til að halda áfram þýðingu Biblíunnar og því hafa biblíufélög annarra þjóða sameinast um að styðja verkefnið. Það mun ekki aðeins miðla hinu heilnæma guðsorði til Jamaíka-búa heldur einnig efla lestrarkennslu og sjálfstraust fólksins sem þarfnast rita á sínu eigin móðurmáli.
Verum með í þessari sáningu í trausti þess að „sjálfkrafa beri jörðin ávöxt“ þess sem til hefur verið sáð, því Guð gefur vöxtinn.
Á www.biblían.is er að finna nánari upplýsingar um söfnunina.