Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.
En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða. Lúk.18:9-14
Þegar karlinn kom heim úr kirkjunni spurði konan hans: „Um hvað talaði presturinn í dag?“ „Hann talaði um syndina“ svaraði karlinn. „Og hvað sagði hann um hana?“ spurði konan þá. „Hann er á móti henni“ svaraði karlinn.
Þessi ágæta saga er prýðilegur inngangur að umhugsunarefni dagsins í kirkjunni því allir ritningarlestrarnir fjalla á einhvern hátt um syndina og afleiðingar hennar. Hugtakið synd er ekki vinsælt umræðuefni á mannamótum þótt oft sé verið að ræða syndina og afleiðingar hennar í lífi fólks. Því syndin er óþægilega nærri þótt við notum önnur heiti.
Er það t. d. ekki synd þegar mörg börn eru vanrækt, afgangs-stærð í lífsgæðakapphlaupi foreldranna og eftirsókn eftir frama, stöðu eða hægindum? Við Íslendingar erum nýrík þjóð og höfum ekki fyllilega náð að fóta okkur í umgengni við auðlindir og náttúru. Stundum skopumst við að nýtni annarra þjóða en er óábyrg nýting auðlinda og sóun gæða ekki synd? Það er synd að fara illa með umhverfið. Í Biblíunni er iðulega varað við því að koma illa fram við útlendinga eins og aðra minnihlutahópa. Segir ekki reynsla annarra þjóða að það hefni sín að gera innflytjendur að annars flokks þegnum? Við megum gæta okkar í þeirri þróun að flytja inn erlent vinnuafl til að sinna þeim störfum sem okkur hugnast ekki. Hvað svo með kynferðismálin, lauslæti, kynlíf unglinga, klám og aðra misnotkun á þeirri góðu gjöf sem kynlíf er; verðum við ekki að átta okkur á því að hér er vikið gróflega frá vilja Guðs? Allt er þetta synd því synd er hvaðeina sem er andstætt góðum og uppbyggjandi vilja Guðs. Flóknara er það ekki.
Synd í þeim skilningi er víða áberandi í okkar góða þjóðfélagi. En hún væri þar ekki, nema af því að hún er í okkur, öllum! Hún er samofin okkar innri manni og þar er uppspretta ófriðar og togstreitu og árekstra sem við þekkjum öll alltof vel. Samt þráum við innri frið og sátt, öryggi og vissu. Það er öllu mannkyni sameiginlegt.
Þeir sóttust einmitt eftir því, ólíku mennirnir tveir í sögu Jesú sem báðust fyrir í musterinu þennan dag, svo ólíkir að milli þeirra var óbrúanlegt bil. Farísear voru til slíkrar fyrirmyndar í trúrækni að ekkert okkar kæmist með tærnar þar sem þeir höfðu hælana. Líferni þeirra var fullkomið. Þeir voru fáir en virtust útvaldir. Lögmálið var þeim heilagt. Þeir voru sérfræðingar í vilja Guðs.
Tollheimtumenn á dögum Jesú voru hins vegar í hópi allra svörtustu sauða samfélagsins, gjörsamlega með allt niður um sig. Ekki nóg með að þeir ynnu gegn sinni eigin þjóð með því að innheimta af henni skatta í þágu erlends stórveldis, heldur var líka opinbert leyndarmál að þeir misnotuðu aðstöðu sína, létu fólkið greiða meira en því bar og hirtu mismuninn. Tollheimtumenn voru því álitnir fégráðugir föðurlandssvikarar og verstu syndarar. Almennt var vitað að farísei og tollheimtumaður gætu ekki átt neina samleið. Farísearnir sniðgengu pakk eins og tollheimtumenn, gættu þess að saurga sig ekki af samskiptum við þá.
Dæmisaga um farísea og tollheimtumann - ef allt var með felldu hlaut sú saga að upphefja fyrirmyndarbreytni faríseans og benda á vonleysi tollheimtumannsins. Að auki kemur fram í sögunni að hér var um að ræða einstaklega göfugan farísea. Hann fastaði tvo daga í viku þótt lögmálið segði að einn dagur á ári nægði. Hann gaf tíund af öllu sem hann eignaðist þótt frá því væru undanþágur.
Við þurfum ekki að efast um að faríseinn hafi sagt satt þegar hann útmálaði eigi fullkomna líferni. Ekkert af því var rangt eða aðfinnsluvert. Það er ekki vegna þess sem Jesús hefur endaskipti á hlutunum í sögulok. Það getur aldrei verið neikvætt að leggja meira á sig en skyldan býður. Það er ekki hægt að gera of mikið gott! Tollheimtumaðurinn á hins vegar tæpast heima í návist hins heilaga, í musterinu. Hann kann ekki einu sinni rétta siði heldur stendur álengdar og fer klaufalega að við bænagjörð sína.
Jesús sagði allar dæmisögur sínar til þess að benda okkur á einhvern tiltekinn sannleika. Hann tók dæmi úr samtíðinni en oft felst boðskapurinn í því sem virðist fjarri raunveruleikanum.
Í þessari sögu er það niðurlagið. Það er fullkomlega á skjön við almennt viðhorf að tollheimtumaðurinn, sem kemur í musterið alsekur og óöruggur, fari þaðan réttlættur, að bæn hans hafi verið heyrð - en faríseinn sé í sömu sporum eftir sem áður. Jesús hefur skýringu á því. Faríseinn kunni að útmála eigið ágæti en bað í sjálfu sér ekki um neitt og fékk því ekki neitt.
Hér kemur Jesús að kjarna málsins, kjarna fagnaðarerindisins: Enginn, alls enginn, réttlætist af eigin verkum af neinu tagi! Ekkert í okkur sjálfum eða hjá okkur sjálfum knýr Guð til að meðtaka okkur eða samþykkja. Það gerist eingöngu af náð og náðin er gjöf, gefin þeim sem reiða sig alfarið á miskunn Guðs.
Hugarfar faríseans er alltaf til. Hver skyldi þá vera faríseinn í samtíð okkar og hvernig birtist hann? Er hann valdsmennirnir sem vilja helst ekki láta trufla sig með gagnrýni eða óþægilegum spurningum heldur sitja sem fastast í fílabeinsturni stöðu sinnar? Eða ætli hann sé sjálfskipaðir talsmenn náttúrunnar sem fljúga í hópum til Íslands í álþotum til að mótmæla álframleiðslu?
Skyldi faríseinn vera hin sjálfhverfa fjölmiðlaelíta sem finnur til valds síns og álítur skyldu sína að eira engu - nema sjálfri sér? Eða hóparnir sem krefjast þess í nafni tjáningarfrelsis að fá að tjá eigin skoðanir og viðhorf hvar og hvenær og hvernig sem er en vilja þagga niður í þeim sem eru á annarri skoðun? Er faríseinn bankaprinsarnir á ofurlaununum, úr öllu samhengi við líf fólksins í landinu? Eða er hann kannski þau sem hneykslast svo ógurlega á ofurlaununum að úr verður meiri áhersla á að lækka laun þeirra hæst launuðu en að hækka laun þeirra lægst launuðu?
Nei, faríseinn er ég sem gagnrýni aðra og reyni að koma vel út í samanburði. Faríseinn er ég sem sé svo auðveldlega tvöfeldni og hræsni og bresti náungans. Faríseinn ert þú sem hugsar með þér: „Þau hafa gott af að heyra þetta, þessi.....eða hin.....“ Faríseinn er rödd sjálfsréttlætingar og samanburðar sem býr í okkur öllum. Umfram allt er hann sá hluti okkar sem afneitar eigin göllum og löstum eða réttlætir þá og afsakar þótt við dæmum aðra harðlega fyrir jafnvel minni sakir.
Í sögu Jesú voru faríseinn og syndarinn í musterinu á sama tíma. Þeir eru nefnilega báðir hluti af okkur öllum. Við erum öll í sporum faríseans en líka öll í sporum hins sem á enga aðra bæn en „Guð, vertu mér syndugum líknsamur.“
Skoðum nánar muninn á faríseanum og tollheimtumanninum þegar þeir standa frammi fyrir Drottni í musterinu. Í þeim sporum erum við ein með sjálfum okkur og þannig er tollheimtumaðurinn. Hann beinir huganum að eigin óverðugleika og miskunn Guðs er hann segir: „Guð, vertu mér syndugum líknsamur“. Í þessari bæn felst enginn samanburður, engin sjálfsréttlæting, engin afsökun. Hún er í senn syndajátning og miskunnarbæn.
Slík bæn nægði - og slík bæn nægir alltaf. Guð tekur við öllum sem til hans leita. Hann hvorki yfirheyrir okkur um fortíðina né krefst loforða um framtíðina. Hann tekur við okkur eins og við erum þá og þegar, án allra skilyrða og skilmála. Það er náðin og náðin er sérkenni kristinnar trúar.
Flest trúarbrögð byggjast á lögmálshyggju af einhverju tagi. Lífið sjálft er líka oft þannig. Endurgjaldslögmálið er mjög sterkt. Þú færð það sem þú hefur unnið til og átt skilið. Jesús kom hins vegar í heiminn með náð og miskunn og endalausan kærleika Guðs sem tekur alltaf við okkur öllum eins og við erum. Gagnvart Guði erum við öll jöfn og eini mælikvarðinn er sá sem Guð hefur sett.
Faríseinn í dæmisögu Jesú fellur hins vegar í þá algengu gryfju að bera sig saman við aðra. Hann lætur ekki nægja að gleðjast yfir velgengni og góðu lífi, heldur þakkar Guði fyrir að vera ekki eins og aðrir menn - ræningjar, ranglátir, hórkarlar - „eða þá eins og þessi tollheimtumaður!“
Faríseinn hefði mátt vita að gagnvart Guði gildir ekki að geta upphafið sig á kostnað annarra. Samanburður við líf annarra er einskis virði - hversu vel sem við komum út að eigin áliti. „Enginn verður hvítari þótt annan sverti.“
Sjálfsagt geta mörg okkar fundið ýmis dæmi um fólk sem er mun ver statt á vegi dyggðarinnar en við sjálf - en málið snýst einfaldlega ekki um það! Gagnvart Guði getum við valið að koma eins og faríseinn - eða eins og tollheimtumaðurinn. Við getum komið uppfull af eigin ágæti og réttlæti og spjallað við Guð um það hvað við stöndum okkur vel í samanburði við aðra. Við getum líka komið eins og við þekkjum okkur sjálf bak við allar grímur - þegar við hættum að bera okkur vel og komum einfaldlega eins og við erum innst inni, án þess að fegra ástandið eða sýnast.
Sovéski rithöfundurinn Alexander Solzhenitsyn var dæmdur í þrælkunarbúðir fyrir skoðanir sínar. Hann fékk svo sannarlega að kenna á kommúnismanum. Samt segist hann viss um að skilin milli góðs og ills liggi ekki milli ríkja, stétta né stjórnmálaflokka, heldur þvert gegnum sérhvert mannlegt hjarta.
Þar hittir hinn lífsreyndi rithöfundur naglann á höfuðið. Við getum endalaust kallast á milli heimshluta og hugmyndakerfa og uppnefnt meint óvinaríki „heimsveldi hins illa“ og „öxulveldi hins illa“ en staðreyndin er sú að hið illa kemur ekki utan frá, heldur að innan, sprettur upp í hugskotum fólksins, okkar.
Við erum öll syndug en það merkir ekki að við séum öll eitthvert afbrotafólk. Synd er ekki eingöngu ljót afbrot eða einhver grófur verknaður sem við köllum syndir. Synd er í eðli sínu óhlýðni, uppreisn, fráhvarf - sem kemur fyrst fram í því hve sjálfmiðuð við erum og setjum okkur á háan hest gagnvart öðrum.
Þannig býr faríseinn í okkur. Hann er röddin hið innra sem segir: Þökk fyrir að ég er ekki eins og þessi... Þökk fyrir að ég er betri en þau hin... Afleiðing þessa viðhorfs er oftast hroki, harka, firring og kuldi eins og kom fram í fyrirlitningu faríseans á tollheimtumanninum.
Það þarf hugrekki til að horfast í augu við eigin synd, rétt eins og það er kveifarskapur að afneita henni. Það er heilbrigt að skoða sig í ljósi sannleikans þótt það geti líka verið sársaukafullt.
Þú ert sjálfsagt enginn stórsyndari miðað við ýmsa aðra sem koma upp í hugann en það er enginn mælikvarði. Mælikvarðinn er fullkomleiki Guðs og miðað við þann mælikvarða erum við öll brotleg og flekkuð. Það er kannski ekki svo erfitt að viðurkenna almennt syndina í samfélaginu en getum við litið í eigin barm og horfst í augu við eigin synd? Hver er hún þá?
Í sumum tilvikum er það, eins og hjá tollheimtumanninum, óheiðarleiki í fjármálum. Það er rangt að taka til sín meira en okkur ber, hvort sem það er gert með beinum þjófnaði af einstaklingi, svikum við fyrirtæki eða undanskoti frá sköttum. Lausung og virðingarleysi á kynlífssviðinu er því miður líka ótrúlega algengt mein sem brýtur niður traust og skilur eftir sig ólæknandi sár. Stærsta synd sumra er hart hjarta gagnvart náunganum, jafnvel algert skeytingarleysi gagnvart þeim sem minna mega sín. Þannig mætti lengi telja en kannski er algengasta synd okkar sú að finna ekki neina synd. Það er synd faríseans, hrokinn. Þá fyrst erum við í vondum málum.
Páll postuli var farísei og þekkti vel hugarheim þeirra. Hann segir afdráttarlaust í pistli dagsins: „Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð...“ (Róm. 3:23). Við erum öll á sama báti í því efni. Syndin býr innra með okkur öllum og ef við göngumst ekki við henni, er tilgangslaust að leita til Krists! Hann tekur við okkur eins og við erum innst inni og við eigum aldrei að sýnast gagnvart honum.
Hjá Guði mætum við hreinni náð. Af náðinni sprettur kærleikur, traust og gleði. Það fylgir ekki sögunni hvernig var hjá tollheimtumanninum þegar hann hélt heimleiðis úr musterinu og eftir að hann kom heim. Kannski breyttist allt líf hans. En kannski kom hann aftur viku síðar, í sömu sporum, með sömu bæn. Þá getum við verið handviss um að hann mætti aftur sömu náð. Hún er óendanleg.
Verið getur að sýnileg breyting hafi orðið á lífi hans eftir bænina í musterinu. Eins getur verið að ekkert hafi breyst í hinu ytra. Hins vegar vitum við að sátt og fyrirgefning hefur lífgandi og græðandi áhrif á sálarlíf okkar og samskipti. Það sjáum við iðulega. Það skiptir samt ekki máli hvað við sjáum í lífi annarra heldur að við sjálf horfumst í augu við eigin takmarkanir og leitum í kærleiksfaðm Guðs.
Auðvitað megum við gleðjast yfir því sem vel gengur og þakka alla vernd og varðveislu í lífinu. Vissulega er gott ef okkur vegnar vel en það færir okkur ekki hænufet nær Guði. Gagnvart honum erum við öll jöfn, öll syndug en öll getum við þegið náð Guðs, skilyrðislausa fyrirgefningu og endurreisn. Fagnaðarerindi kristinnar trúar er svo einfalt og ekkert hindrar okkur í að þiggja það - nema hugsanlega við sjálf, eigið stolt.
Við getum ekki verið of týnd til að Guð leiti okkar, of djúpt sokkin til að hönd Guðs nái til okkar, of fjarri til að Guð finni okkur. Hvar sem við erum stödd og hvernig sem komið er fyrir okkur heyrir Guð þegar við biðjum um miskunn og líkn. Öll þráum við innri frið og sátt, öryggi og vissu. Það eignumst við með því einu móti að biðja: „Guð, vertu mér syndugum líknsamur“.
Tollheimtumaðurinn fór réttlættur heim af því að hann kom hvorki fram fyrir Guð með hroka né afsakanir, heldur aðeins þessa einföldu miskunnarbæn. Boðskapur guðspjallsins er: Fyrst jafnvel tollheimtumaðurinn, verstur og aumastur allra, var ekki vonlaus, þá er alltaf von fyrir okkur! Lifum í þeirri von, lifum í náðinni! Það er svo aftur efni í aðra prédikun hvernig náðin breytir lífi okkar og lætur okkur þrá að þjóna Guði og gera vilja hans.