Sjálfhverf veröld

Sjálfhverf veröld

Mikið er það óþægilegt þegar manns eigin orð og athafnir hitta mann fyrir svo harkalega að undan verkjar. Það er ekki nóg að verða “marin-er aður” og síðan “grillaður” með eigin orðum og verkum heldur þarf maður sjálfur að kokgleypa það sem sagt var og gert og melta það eftir eigin getu og vilja.

Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra: Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.Lúk.18:9-14

“Marin-er-ing”

Mikið er það óþægilegt þegar manns eigin orð og athafnir hitta mann fyrir svo harkalega að undan verkjar. Það er ekki nóg að verða “marin-er aður” og síðan “grillaður” með eigin orðum og verkum heldur þarf maður sjálfur að kokgleypa það sem sagt var og gert og melta það eftir eigin getu og vilja. Getan og viljinn eiga sjaldnast samleið þannig að útkoman er sitt lítið af hvoru, kannski eilítið meira af getu, en viljan vantar eins og áður er sagt. Myndir

Viljan vantar ekki þegar skal dæma og benda á náungan þegar eitthvað hefur farið aflaga hjá honum. Mennska okkar hvíslar að laskaðri eigin vitund að þar er tækifæri til að fylla upp í það sem á vantar að okkur finnst. Það er ætíð svo að alltaf vantar eitthvað á að við erum fyllilega sátt við okkur sjálf-það sem við látum frá okkur fara í orðum og verkum okkar. Okkur finnst við vera undir og allt að því vanhæf í svo mörgu því sem við tökum okkur fyrir hendur og við erum tilbúin að hlusta – jafnvel að gerast þátttakendur í því að rægja einhvern eða einhverja vegna þess að það veitir okkur stundar “vald” og “vellíðan” að það er einhver annar/önnur en ég sem þá stundina er undir. Sagan segir að sjáfsvitund heilla þjóða byggist á þessu viðhorfi.

Mynd veruleikans hefur ekki og stendur ekki ein og óstudd. Hún verður ekki til af neinu. Hún er ekki getin í tómarúmi og hengd upp á vegg lífs okkar. Mynd veruleikans hefur stuðning okkar í hverjum þeim aðstæðum sem við finnum okkur í að vera. Mynd veruleikans er ekki ein á vegg. Þær eru margar-málaðar ýmsum litum og rammaðar inn í allavega ramma-trausta, veglega og eða pasturslega og allt þar á milli og út fyrir. Snemma tökum við til við að finna okkar mynd og veljum ramma utan um þannig að ekki of margir safnist þar saman og líka til að finna okkur stað í tilverunni. Það er nauðsynlegt hverri manneskju að finna sér stað til að vera á bæði landfræðilega og hugarfarslega ekki síður. Á veggjum lífs okkar eru myndir raunveruleikans, myndir vonbrigða okkar, órammaðar myndir framtíðar málaðar með björtum litum og eða dökkum litum væntingar um það sem koma skal.

Það er gott að eiga sér mynd af lífinu og tilverunni eins og við vildum að hún væri. En það versta er að ramminn utan um þá tilveru nær sjaldnast saman. Eða kannski er réttara að segja að þetta tvennt vill ekki loða saman svo vel fari. Litirnir vilja dofna og jafnvel renna saman svo úr verði ein allsherjar upplausn sem leiðir til einhvers sem við höfum ekki tök á að hafa áhrif á til framvindu. Okkur finnst við vera óréttlæti beitt og verðum bitur út í samfélagið og náungann því að hlutirnir eru ekki eins og við ætlum að þeir verði. Því við ætlum að tilveran verði samkvæmt okkar eigin vilja en ekki þeim vilja sem okkur er fengin í hendur og gera okkar besta úr henni. Tærasta birtingamynd þessa viðhorfs er að finna hjá börnum frá 0-7 ára. Tilveran er nafli barnsins og allt þar fyrir utan er ekki til. Börn eru sjálfhverf sem síðan með auknum þroska skilja og skynja að tilveran og samfélagið er stærra en svo að hægt sé að ná utan um svo vel fari. Sá þroski og aukin vitneskja um samfélagið í kring þarf ekki endilega leiða til skilnings um að hana ber að umganganst með virðingu.

Sjálhverf veröld

Samfélag okkar í dag er að stórum hluta haldið þessari sjálfhverfu. Ef eitthvað - virðist vera að samfélagið sé að leita meira og meira inn á við í ótta við það sem stendur fyrir utan og bankar á dyr samfélagsins. Það læðist að mér sú hugsun að þetta ætti að vera öfugt farið. Sú vitneskja sem við höfum um okkur og samfélag þjóða ætti að hjálpa til að ölast kyrrð í hjarta og skilning á viðhorfum annarra. Hleypa að kjarki til sjálfsrýni. Kannski og eflaust í þessu samhengi gildir eins og felst á bak við hugsunina “Því meira sem þú veist þess minna veistu.” Þessa ótta gætir víða í samfélaginu sem leiðir af sér tortryggni gagnvart náunganum, þjóðfélagshópum og heilum þjóðum. Sem í framhaldinu af því elur af sér dramb og vissu um eigið ágæti fram yfir annað sem eins og sagan hefur kennt okkur að um síðir leiðir til falls. Við sjáum dæmi þessa í alþjóðlegu samhengi þessa dagana og síðustu misseri þar sem sá sterki í drambsemi og ótta veður yfir þann sem “veikari” er í nafni réttlætis sem á móti beitir brögðum lítilmagnans til þess að geta sagt sjálfum sér og öðrum að þetta getum við!

Skilgetið afkvæmi þessarar hugsunar er ekkert annað en andvana fædd von um að eitthvað gott hljótist af. Sú von er tálsýn þess sem veit betur að svo hefur ekki verið og svo mun ekki verða. Sá einstaklingur eða sú þjóð sem lætur til leiðast að ætla sér að ganga fram með þessum hætti veit innst inni að það er ekki gengið fram í réttlæti hugans þó svo að sannfæringin um annað verði ofaná.

“fötluð” mynd

Okkur er tamt að tala um réttlæti. Við tölum um réttláta reiði þegar okkur finnst á okkur vera brotið við tölum um réttláta meðferð, réttláta úrlausn mála okkar. Höfum við í einhverri alvöru hugsað út í merkingu þessa orðs-réttlæti. Réttlæti eins getur verið óréttlæti annars! Við tölum um réttlát stríð hinna staðföstu vegna einhvers óskilgreinds orðróms um eitthvað og við framkvæmum og tölum við aðra klyfjuð bak og fyrir með réttlætishugsun óaðvitandi að annar og myrkur veruleiki fyrirlitningar skuli ætíð standa nærri og næra hugann með sínum dimmu og eigingjörnu “fötluðu” mynd sem sýnir aðeins það sem við viljum sjá en ekki það sem hún hefur í nekt sinni að sýna.

Réttlætið felur oftar en ekki í sér faldan veruleika sem við í dagsins önn höfum ekki forsendur eða gefum okkur ekki tíma til að skoða allar hliðar mála. Fyrirlitningin glepur sýn á raunveruleikann. Raunveruleikinn fæðist nakinn og við klæðum hann í föt eftir eigin smekk og skapi og þeirri menningu sem við höfum alist upp í hvort heldur þau klæða hann eða ekki. Hann þarf ekki alltaf vera eins og við vildum helst að hann væri eða við erum sannfærð um að hann sé eins segir frá í guðspjallinu um farisean og tollheimtumanninn. Þegar við berum okkur saman við einstaklinga og eða þjóðir hættir okkur til að hugsa eins og farisein-“góði Guð takk fyrir að vera ekki eins og…” þetta gerum við vegna eigin vanmáttar, vegna brotinnar sjálfsmyndar, til þess að upphefja okkur á kostnað náungans og eða þjóða og þjóðabrota. Þetta er oftar en ekki gert ómeðvitað.

Réttlátur – réttlættur

Ég hef stundum talað um að það sé til ferkantað réttlæti. Þá á ég við að réttlætið sé meðvituð ákvörðun í eina átt og vitað er hvar hana er að finna innan ferkantaðar tilveru, greypt í mynd og römmuð inn í eigin vitund og ekkert kemst þaðan út vegna ótta við að nálgast eða uppgvöta hroða eigin hugmynda um sig sjálfa. Það sem verra er að ekkert kemst þangað inn sem ætti að koma inn og hleypa að endurnýjaðri hugsun sem gæti leitt til endurskoðunar eigin hugsana sem gætu umbreytt “súrri” hugsun vegna loftleysis í ferska hugsun djörfungar – lítilætis og auðmýktar. En það gerist ekki vegna þess að ég óttast að missa stöðu mína.

Hugsun og álit fariseians er gallsúr-sem óhjákvæmilega bendir á hvert og eitt okkar. Það er freistandi að beygja hjá svo bendinginn hitt mann ekki en það er ekki til neins. Hún mun um síðir hitta mann fyrir. Við sem erum hér gætum nefnilega freisast til að hugsa sem svo-gott að ég er ekki eins og hann-farisein.

Hvort er betra að vera réttlátur eða réttlættur? Hvort sem við vildum viðhafa af þessu þá er því til að svara að það er ekki hægt að vera annaðhvort. Réttlæting er afurð réttláts verks eða hugsunar sem vex upp úr mold auðmýktar. Það er freistandi að hugsa sem svo – Hvað er það fyrir mig í mínu daglega lífi og streði að vera réttlættur af Guði? Það borgar ekki reikninga mína. Það kemur ekki í veg fyrir að ég fari yfir á ljósrauðu ljósi. Hvað er það fyrir mig þótt að ég fyrir sjálfan mig og Guð hugsi sem farisein og þakka fyrir að vera ekki ofvirkur eins og nágranni minn? Ég fæ það til baka svo undan svíður því þegar ég kynni mér málin betur er nágranni minn aðeins að vinna það verk sem vinna þarf og vill ekkert annað en að eiga frið við allt og alla út frá sínum eigin forsendum. Forsenda þess að eiga samskipti við náungan hlýtur í upphafi vera sú að við komum inn með okkar eigin hugmyndir um okkur sjálf og þann sem samskiptin beinist að. Fljótlega komumst við að því að þær forsendur sem við höfum þurfa ekki endilega eiga við stað og stund. Þá viljum við oftar en ekki grípa til þess að gera lítið úr þeim sem við eigum samskiptin við.

Vestræn menning er gegnsósa af þessum hugsunarhætti og hefur svo verið um aldir. Við tölum um þær þjóðir sem skemur eru komin á braut lýðræðis eða velmegunar, sem þjóðir þriðja heimsins. Á síðustu öld og á öldunum á undan var talað um “villimenn” vegna þess að menning þeirra var öðruvísi og við gerðum allt til þess að kippa því í liðinn bara til þess að menning þessara þjóða fór úr liðnum. Við þurfum ekki leita langt til að sjá að svo hafi farið. Við þurfum ekki líta lengra en yfir sundið til Grænlands hvernig menning þeirra var eyðilögð því að við börðum okkur á brjóst og þökkuðum fyrir að við værum ekki eins og þau. Vegna þess að við vorum ekki eins og þau urðum við að aðlaga þau okkur okkar menningu. Því auðvitað var og er okkar hugsun æðri og framsæknari. Það að vera kristinn manneskja í daglegu lífi er að vera það sem náunginn er – hverjar sem aðstæðurnar eru, hvert sem viðhorfið er þá er það að við eigum að standa við hlið hverjum þeim sem við mætum ekki fremri í hugsun eða verkum – allt sem við eigum og allt sem við þiggjum er af Guði.