Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni og sagði: Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu.Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: Ritað er:
Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli.
Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum, en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann. Lúk 19.41-48
Á Ólympíuleikum í Grikklandi til forna ríkti ekki sami ólympíuandi og oft er nefndur í kringum nútíma Ólympíuleika. Þar skipti með öðrum orðum ekki öllu máli að vera með heldur að sigra. Og það voru engin silfurverðlaun og engin bronsverðlaun. Verðlaunin voru aðeins ein og þau komu í hlut sigurvegarans.
Í dag er annar blær yfir samkomunni. Rík áhersla er lögð á að aðalatriðið sé að vera með og víst er að íþróttamenn sem enga möguleika eiga á sigri fagna því samt að hafa tekið þátt í ólympíuleikum. En engu að síður fara flestir ef ekki allir þangað með eitt að markmiði: Að koma fyrstir í mark, að bera sigurorð af andstæðingi sínum. Ólympíuleikarnir eru keppni og í þeirri keppni fá ekki allir að taka þátt, þeir einir sem ná ólympíulágmörkum mega vera með.
• • •
Í miðju guðspjalli þessa sunnudags segir frá því þegar Jesús gengur í helgidóminn í Jerúsalem til að taka þar á málum sem eru komin í óefni. Frásögnin er knöpp:
“Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: ‘Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli.” (Lúk 19.45-46)
Vandinn sem Jesús tók á var tvíþættur og laut annars vegar að musterisskatti sem greiða þurfti árlega og hins vegar að fórnardýrum sem var fórnað í musterinu.
Musterisskattinn mátti ekki greiða í hvaða gjaldmiðli sem er og margir þurftu því að skipta peningum. Þá nutu þeir þjónustu svonefndra víxlara sem veittu mikilvæga þjónustu en tóku háa þóknun fyrir greiðann, allt að þrjátíu prósent. Í dag myndu það teljast nokkuð há þjónustugjöld.
Og svo voru það fórnardýrin. Til að fórna mætti þeim í musterinu urðu þau að standast skoðun matsmanna. Hægt var að kaupa dúfnapar fyrir utan musterið fyrir lítið fé, en ekki var tryggt að þær þær stæðust skoðunina; svo var hægt að kaupa dúfur innan veggja musterisins sem tryggt var að stæðust skoðun, en þær voru nokkuð dýrari, gátu raunar kostað allt að mánaðarlaunum verkamanns. Það eru nokkuð há þjónustugjöld að inna af hendi til þess eins að fá að iðka trú sína.
Það hafði semsagt skapast blómlegur iðnaður kringum greiðslu opinberra gjalda og iðkun trúarinnar. Og þessi iðnaður tengdist raunar yfirvöldum nokkuð því verslunin með fórnardýr inni í musterinu var í eigu fjölskyldu æðstaprestsins.
• • •
Í útlagningu sinni á þessu guðspjalli lagði siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther áherslu á að Jesús hefði verið að bregðast við vanda í musterinu sem væri hliðstæður þeim vanda sem hann var sjálfur að bregðast við. Vandinn var í því fólginn að áherslan í musterinu og kirkjunni hafði færst frá því að vera á rétta prédikun ogt tilbeiðslu yfir á fórnir og verk manna. Hindranir höfðu verið settar upp - ólympíulágmörk - á milli Guðs og manns.
Lúther segir í prédikun á þessum degi:
“Musterið og prestsdómurinn var innsettur vegna prédikunar Orðs Guðs, til að lofa náð hans og miskunn […] en þeir kenndu hvorki lofgjörð né þakkargjörð til Guðs heldur höfðu þeir afmyndað þetta í kenningu um munka og verk [hér er hann að vísa ástandsins í eigin samtíma] þannig að sá [einn] sem bar fram rétta fórn verðskuldaði náð Guðs.”
Með öðrum orðum: Það sem er boðið fram sem skilyrðislaus gjöf af hálfu Guðs - náðin - var orðið að söluvöru. Andspænis þessu lagði Lúther áherslu á að engin verk gætu gert okkur þóknanleg frammi fyrir Guði, að náðin væri ekki til sölu. Þannig er samband Guðs og manns að okkar skilningi hvorki grundvallað á verkum manna né dýrafórnum heldur á trú og á orði Guðs.
Við þurfum ekki að réttalæta okkur frammi fyrir Guði til að geta nálgast hann, þurfum ekki að greiða musterisskattinn, ekki að fórna dýrum, ekki að vera fullkomin því Guð sér beint í hjörtu okkar og mætir okkur eins og við erum og elskar okkur eins og við erum.
• • •
Á nútíma ólympíuleikum er það vissulega grundvallaratriði að vera með, en ekki geta allir tekið þátt í leikunum. Það eru aðeins þeir bestu sem fá að vera með. Og ef við horfum yfir sviðið þá verður það fljótt ljóst að mesta athygli fá þeir bestu, sigurvegararnir. Og einn stendur alltaf upp úr þótt aðrir fái líka verðlaun.
Stundum er okkur talin trú um að lífið sé eins og Ólympíuleikar: Að vissulega skipti miklu máli að vera með - en að megintakmarkið sé að vinna, að vera fyrstur í mark, vera betri en aðrir. Og að þeir sem standast tiltekin lágmörk (eiga mikla peninga, öðlast tiltekin metorð og annað slíkt) séu eitthvað betri en hinir.
Og þegar við sjáum merki um eitthvað af þessu þá er kannski hollt að líta til Jesú í musterinu og taka sig til og andæfa - hrinda um borðum víxlaranna og reka út þá sem níðast á öðrum.
Og það sama gildir um sambandi við Guð. Gagnvart Guði gilda engin ólympíulágmörk og engin takmörk eru á fjölda þátttakenda. Allir eru velkomnir sem vilja vera með.
Og það sem meira er: Það eru engir sigurvegarar - eða kannski eru allir sigurvegarar - því markmiðið er ekki að vera á undan öðrum eða vera meiri honum, heldur að hjálpa honum og þjóna. Að tryggja að allir komist í mark frekar en að vera fyrst/ur sjálf/ur. Það er hið rétta hugarfar á ólympíuleikum sköpunar Guðs.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Árni Svanur Daníelsson er guðfræðingur og vefstjóri á Biskupsstofu. Þessi prédikun var flutt í Þingvallakirkju á 10. sunnudegi eftir þrenningarhátíð, þann 15. ágúst 2004. Lexía: Jer 18.1-10, pistill: Rm 9.1-5, guðspjall: Lúk 19.41-48.