Á
Uppstgningardag var sungin falleg útvarpsmessa hér í Breiðholtskirkju. Auk
sóknarprestsins þá komu djáknar og tveir
ernir að messunni ásamt kirkjukórnum. Örn organisti lék listavel á orgelið og
sr Örn Bárður Jónsson emeritus flutti prédikun sem vakti athygli en minnst var
á hana í fréttatíma útvarps síðar um daginn.
Messunni
var streymt til viðtækja af ýmsu tagi hérlendis og erlendis, jafnvel til
snjallsíma. Unga fólkið tileinkar sér
tækninýjungarnar eins og hendi sé veifað á ýmsum streymisveitum. Margt ungt
fólk hlustar á tónlist á spotify veitunni. Afsakið að ég skuli bera fyrir mig
ensku slettu í prédikuninni. Margt fólk hefur
sennilega hlustað á streymandi helgistundir hjólandi meðfram strandlengjunni
við Ægissíðu eða skokkandi í Heiðmörkinni eða Elliðaárdal. Hvað er betra en að
anda að sér fersku sjávarloftinu eða ilmandi skógarkjarri í bland við þann góða
ilm sem fylgir guðs orði þegar það leitar okkar og tekur sér bústað í hjörtum
okkar? Þetta er bara yndislegt í alla
staði því að það er svo mikil og falleg heilun í guðs orði.
Það gefur okkur svo mikla gleði að fá að vera börn Guðs og ganga á hans vegum á degi hverjum, ekki síst á þessum gleðidögum eftir Páska. Og það er kannski tvöföld ástæða til að gleðjast fyrir okkur íslendinga því að tekist hefur nánast að útrýma covid veirunni hér á landi. Allur er þó varinn góður. Þegar covid veiran fór að láta á sér kræla hér á landi þá brugðust yfirvöld sóttvarna við með því að setja á samkomubann og hvöttu landsmenn til að halda sig heima og þvo hendurnar með sápu sem aldrei fyrr. Okkur var gert ljóst þegar í upphafi að við værum öll almannavarnir. Tveggja metra reglan gerði það að verkum að við máttum og megum ekki heilsast með handabandi eða knúsa hvert annað. En við megum hneigja okkur djúpt fyrir hvert öðru í virðingarskyni að hætti Japana. Það finnst mér fallegur siður sem við ættum kannski að taka upp á mannamótum. En mér leið ekkert rosalega vel þegar íslendingar fóru að deyja af völdum veirunnar. Þa gerði ég mér grein fyrir því að ég væri viðkvæmur og varnarlaus í sjálfu sér og gæti jafnvel tekið sóttina og dáið Drottni mínum eins og aðrir. Já, ég varð var við mína eigin mennsku og mér fannst vont að geta ekki þegið eitt eða tvö knús frá mínum nánustu á þeim tíma. Ég hygg að þetta sé sammannleg reynsla okkar sem hér erum saman komin í kirkjunni í dag.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvernig lærisveinunum leið þegar Jesús var krossfestur, dáinn og grafinn fyrir þeim í huga og hjarta. Þeir voru búnir að vera með Jesú i þrjú ár og höfðu tengst Jesú nánum böndum.
Sjálfur ávarpaði Jesú þá sem vini sína. Og nú var vinur þeirra dáinn og þeir myndu aldrei hitta hann aftur. Ótti og ofboð kom yfir þá. Þeir voru mjög hræddir. Það var búið að loka hellismunnanum með gíðarlega miklu fargi. Það var ekki nokkur leið að hnika því fargi til en nokkrar konur í þeirra hópi höfðu talað um að vilja fara og smyrja líkið hinstu smurningu. Kvíði og ótti hlaut að hafa búið um sig í hugum lærisveinanna, hræðsla gagnvart því sem kynni að henda þá. Þeir fóru í felur í fyrstu en komu svo saman og héldu hópinn Það var eins og þeir væru með helgrímur fyrir vitum sér. Það var eins og þeir hefðu lagst á sóttarsæng. Þeir voru svo sorgmæddir.
Skyndilega gekk Jesús upprisinn í gegnum lokaðar dyrnar til þeirra og sagði við þá: ,,Friður sé með ykkur.“ Þeir misstu andlitiin af undrun og lærisveinninn Tómas neitaði að trúa því að Jesús stæði þarna upprisinn hjá þeim, nema hann fengi að koma við sáramerkin með fingrunum. Þegar hann gerði það þá þekkti hann Jesú. Hann felldi helgrímu sína og einskær gleði gagntók huga hans og hjarta. Jesús var þarna hjá honum. Hann var ekki dáinn. Hann var upprisinn.
Jesús hafði oftsinnis rætt við lærisviena sína um það að hann myndi fara í burtu frá þeim en hann myndi koma aftur. En þeir skildu ekki hvað hann var að tala um. Jóhannes guðspjallamaður birtir þessar ræður, svo kallaðar kveðjuræður í köflum 14-17 í guðspjalli sínu. Kirkjan hefur undanfarna sunnudaga fjallað um boðskapinn í þessum kveðjuræðum. Guðspjall dagsins er tekið úr 15 kafla Jóhannesarguðspjalls. Þar gefur Jesús loforð um nærveru andans. Hann talar um hjálparann sem er sannleiksandinn sem kemur til með að vitna um sig. Hann fullvissar lærisveina sína um að það sé hægt að treysta þessum anda því að hann sé frá föður sínum kominn og vitni ekki um sjálfan sig heldur um son Guðs sem var krossfestur saklaus en reis upp frá dauðum.
Hjálparinn talar um orðið sem leitar okkar og tekur sér bústað í hjörtum okkar. Jesús hvetur lærisveina sína til að bera vitni um sig í orði og verki því að þeir hafi verið með sér frá upphafi starfs hans Jesús átti svo eftir að hvetja þá til að fara til að safnast saman í Jerúsalem á Hvítasunnudegi því að þá myndi hann úthella heilögum anda yfir þá. En í þeim stóra atburði væri fólginn stærsta fyrirheiti upprisunnar um óendanlega elsku Guðs sem er með lærsveinunum á öllum tímum í lífi og í dauða. Hjálparanum svo kallaða er ætlað að hugga og hughreysta lærisveinana og taka frá þeim allan ótta um að þeir yrðu yfirgefnir. Þess í stað væru þeir hvattir til að gerast erindrekar Krists í þeim heimi sem þeiri lífðu og hrærðust í
Á Hvítasunnudag forðum var kirkjan stofnuð og fleiri en fimm þúsund komust á þeim degi til lifandi trúar á Jesú Krist Við sem lifum í dag og trúum á Jesú Krist erum mikilvægir hlekkir í lærisveinakeðjunni sem varð til þegar Jesús kallað lærisveinana til að yfirgefa allt og fylgja sér. Og lærisveinakeðjan átti bara eftir að lengjast. Stöðugt bættust nýir hlekkir í hana og hún hefur aldrei rofnað. Líkt og fyrstu lærisveinarnir forðum þá erum við líka hvött til að vera erindrekar Krists í þessum fallvalta heimi. Við erum líka send út með heilnæman boðskap Jesú til samferðafólks okkar.
Andinn er tákn og trygging hins góða lífs með Guði nú þegar dýrð sonarins eingetna hefur verið opinberuð á krossinum og í upprisunni. Andinn er beinlínis lykill að hjálpræðisáætlun Guðs sem vill að allt fólk á jörðinni komist til lifandi trúar á frelsarann Jesú Krist. En við sem trúum á hann erum öll kölluð,valin og send til að taka þátt í því verkefni til lífstíðar.
Andinn mun leiða fólki fyrir sjónir veruleika syndar, réttlætis og dóms. Hann mun afhjúpa þeim sem ekki trúa, villu vantrúar þeirra. Syndin heldur fólki utan samfélagsins. Andinn hefur því það hlutverk að vitna um Jesú fyrir fólki sem ekki trúir til að laða það að samfélagi þeirra sem trúa á Jesú
Það sem mér finnst vera spennandi við heilagan anda er sú staðreynd á hverjum tíma frá einni kynslóð til annarar þá mun hann færa kenningar Jesú í spennandi búning fyrir nýja tíma. Sjáið þið bara hvað hefur gerst hjá þjóðkirkjunni hér á landi og annars staðar í kirkjulegu samhengi á norðurlöndum og víðar á þessum veirutíma. Í stað þess að fólkið færi til kirkju þá fór kirkjan til fólksins með boðskap sinn og nýtti sér nýjustu tækni í því skyni á netinu sem féll í góðan jarðveg ekki síst hjá unga fólkinu. Kirkjan bauð upp á streymis bæna og helgistundir af ýmsu tagi og börnin fengu sunnudagaskólann í viðtækin sín heima. Þetta er nú komið til að vera tel ég. Nú er hægt að lesa biblíuna í snjalllsímanum og leikarar tóku að sér að lesa allt Nýja testamentið þannig að unnt er að hlusta á lesturinn á netinu. Allt er þetta mikilvægur liður í því að breiða út fagnaðarerindið til fólks. Hér er heilagur andi að verki sem gefur visku og vísdóm til að orðið megi bera sem víðast ávöxt.
Það sem mér finnst vera spennandi við heilagan anda er sú staðreynd á hverjum tíma frá einni kynslóð til annarar þá mun hann færa kenningar Jesú í spennandi búning fyrir nýja tíma. Sjáið þið bara hvað hefur gerst hjá þjóðkirkjunni hér á landi og annars staðar í kirkjulegu samhengi á norðurlöndum og víðar á þessum veirutíma. Í stað þess að fólkið færi til kirkju þá fór kirkjan til fólksins með boðskap sinn og nýtti sér nýjustu tækni í því skyni á netinu sem féll í góðan jarðveg ekki síst hjá unga fólkinu. Kirkjan bauð upp á streymis bæna og helgistundir af ýmsu tagi og börnin fengu sunnudagaskólann í viðtækin sín heima. Þetta er nú komið til að vera tel ég. Nú er hægt að lesa biblíuna í snjalllsímanum og leikarar tóku að sér að lesa allt Nýja testamentið þannig að unnt er að hlusta á lesturinn á netinu. Allt er þetta mikilvægur liður í því að breiða út fagnaðarerindið til fólks. Hér er heilagur andi að verki sem gefur visku og vísdóm til að orðið megi bera sem víðast ávöxt.
Heilagur
andi ber vitni um tvennt. Í fyrsta lagi
þá segir Heilagur andi frá því að
hjálpræðisáætlun föðurins og sonarins
hafi náð fram að ganga. Krossinn var ekki tákn um ósigur heldur sigur. Fyrir orð Guðs varð heimurinn til. Og þetta orð
varð hold og bjó meðal okkar. Hyldjúp elska Guðs föður til heimsins birtist
þegar Jesús lýsti því yfir á krossinum að verkefni föður síns á himnum væri
lokið, þegar hann sagði:,,Það er fullkomnað.“
Í öðru lagi ber Heilagur andi vitni um einingu sína við föðurinn og soninn. Heilagur andi framkvæmir þannig vilja föðurins á himnum fyrir son sinn Jesú Krist sem er að sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að heimurinn trúði ekki að Guð hafi gefið heiminum son sinn Jesú Krist. Réttlætið er fólgið í því að sonurinn eingetni fer aftur til föður síns á himnum og gheimurinn sér hann ekki lengur. Dómurinn er fólginn í því að höfðingi þessa heims er dæmdur. Heilagur andi mun leiða heiminn í sannleikann um þetta.
Í skírninni endurfæðumst við fyrir vatn og heilagan anda. Guð tekur okkur í ríki síns elskaða sonar þar sem er fyrirgefning syndanna, líf og sáluhjálp. Það er að sönnu stórkostlega gleðilegt að fá að vera barn Guðs í þessum víðsjárverða heimi þar sem margir stígar eru hálir. Sem betur fer eru þó flestir stígarnir þurrir og heiðríkja er yfirleitt yfir höfðum okkar. En þegar syrtir að þá er gott að finna sig umvafinn örmum Guðs sem huggar okkur fyrir orð sitt og gefur okkur styrk til að takast á við verkefnin framundan.
Maðurinn er ekki eyland. Við erum tengslaverur. Við hugsum til hvers annars og ræktum tengslin við hvert með ýmsu móti þótt ólík séum. Við sinnum þeim sem sjúkir eru til líkama og sálar. Við komum fátækum til hjálpar með ýmsu móti innan lands og utan. Við hjálpum flóttafólki og hælsileitendum í anda frelsarans frá Nazaret. Við fögnum fjölbreytninni í mannlífinu sem gefur því gildi. Þar er heilagur andi líka að verki sem gefur þessu yndislega lífi fallega litaflóru sem við erum hluti af. Heilagur andi er líka valdeflandi og kennir okkur að standa með okkur sjálfum, kennir okkur að halda okkur við það sem er rétt og heilnæmt og hafna því sem er rangt og dregur okkur niður.
Ég hef lifað mörg tímamótin í starfi mínu sem prestur. Biskup Íslands bauð mér í fyrra að leysa héraðsprestinn í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra af í námsleyfi hans frá 1 september til 31 maí með aðsetur í Breiðholtskirkju. Ég hef nú sagt starfi mínu sem sóknarprestur á Húsavík lausu. Þar hef ég þjónað í nærfellt 34 ár. Ég hverf nú um mánaðamótin til starfa sem Sérþjónustuprestur Biskupsstofu með aðsetur fyrst um sinn í Hafnarfjarðarkirkju í Kjalarnesprófastsdæmi. Ég þakka ykkur kæru vinir innilega fyrir samverustundirnar í Breiðholtskirkju í vetur og óska söfnuðinum guðs blessunar í bráð og lengd. Ég á nú eftir að líta við öðru hvoru. Hér er allur viðgjörningur mjög góður og samfélagið eftir því yndislegt og eflandi á allan hátt. Takk fyrir mig.