Prédikun 5. sd. í föstu í Dómkirkjunni
Lexía: Sl 43; Pistill: Róm 5.12-21; Guðspjall: Jóh 18.28-19.5 (Þriðja textaröð 5. sd. í föstu 2021)
Ég heilsa ykkur með kveðju postulans: Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Þótt víða væri leitað í heimsbókmenntunum væri fáar senur að finna sem eru jafndramatískar og yfirheyrsla Pílatusar yfir Jesú og fáar setningar jafneftirminnilegar og þessi spurning landstjórans: „Hvað er sannleikur?“
Þetta er góð spurning. Og það er merkilegt að Jóhannes lætur einmitt þessa spurningu Pílatusar vera endahnútinn á rauðum þræði, sem liggur allt frá upphafi guðspjallsins og tengir Jesú og hans verk við „sannleikann“.
Spurning Pílatusar endurspeglar reyndar ákveðið ómótmælanlegt einkenni mannlegs samfélags: Viðhorf fólks til hlutanna hljóta alltaf að vera afstæð að e-u leyti, því hvert og eitt okkar stendur á sínum einstaka sjónarhóli sem gefur sérstakt sjónarhorn á þá. En væri rétt að tala um afstæðan sannleika í þessu sambandi? Viðhorf fólks byggja jú vissulega á því sem það telur vera satt og rétt – eða hvað? En það er eitt að hafa ólíkar skoðanir á bestu leiðinni til að bæta samgöngur eða bestu aðferðinni við bólsetningar en annað að afneita helförinni svo dæmi sé tekið. Hið fyrrnefnda snýst um ólík viðhorf, hið síðarnefnda um staðreyndir.
Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að því hvernig pólitísk orðræða um „valkvæðan sannleika“ eða alternative truth hefur beinlínis vegið að merkingarbærni hugtaksins sem slíks. Nákvæmlega eins og spurning Pílatusar gerir óhjákvæmilega.
Þrátt fyrir að finna enga sök hjá Jesú hikar Pílatus ekki við að dæma hann til dauða að kröfu múgsins því það þjónar hagsmunum hans að ekki kvikni í þeirri púðurtunnu sem stirt sambandið á milli gyðinga og Rómverja í Júdeu var. Það hefur löngum reynst áhrifarík leið til þess að ná fram markmiðum sínum að hagræða sannleikanum eftir hentugleik hverju sinni. Spurning Pílatusar beinir þannig sjónum okkar að vanmætti mannsins andspænis spurningunni um sannleikann, vanmætti sem birtist t.d. í því að ekkert okkar er undanskilið þeirri freistingu að hagræða sannleikanum ef það hentar okkur. Þó ekki væri nema bara aðeins, pínulítið. Við köllum það „hvíta lygi“. En hvenær er lygin orðin gráleit? Og hvenær verður hún kolsvört? Og hvað um þær aðstæður þegar blekkingar og þar með lygi er eina leiðin til þess að bjarga saklausum mannslífum? Við getum ímyndað okkur fólk á flótta úr lífshættulegum aðstæðum stríðsátaka svo dæmi sé tekið.
Spurning Pílatusar getur því í raunveruleika daglegs lífs beinst að mjög svo ólíkum og misflóknum aðstæðum og oft þarf sannleikurinn að lúta í lægra haldi fyrir annarlegum hagsmunum.
Við könnumst við að sagt er að hálfsannleikur sé verri en lygi og það má til sanns vegar færa því hálfsannleikann er ekki hægt að afhjúpa sem lygi því engu er logið – en lygin getur falist í því sem látið er ósagt. Hreina lygi má hins vegar afhjúpa sem slíka en ekki alltaf. Stundum er lygin framreidd sem sannleikur í krafti einhvers valds, valds sem þeim, sem verður fyrir lyginni, er ofviða að verjast. Nærtækt dæmi er mál sexmenninganna frá Birmingham.
Höfundur 43. Davíðssálms, sem lesinn var sem lexía dagsins, hefur verið hrakinn frá Jerúsalem og musterinu og sendur í útlegð. Þessar kringumstæður koma skýrt fram í fyrri hluta sálmsins sem í Biblíunni er númer 42. Hann telur sig hafa orðið fyrir órétti og biður Drottinn um að ljá sér lið fyrir dómi og augljóslega telur hann sig hafa orðið fórnarlamb sviksemi og lyga þegar hann ákallar Drottinn með svohljóðandi orðum: „Lát mig ná rétti mínum, Guð, sæktu mál mitt gegn miskunnarlausri þjóð, bjarga mér frá svikulum og ranglátum mönnum.“ Sálmaskáldið upplifir fjandsemi ranglátra manna í mynd blekkinga og illgirni. Að eiga óvini, einhverja sem vilja manni ekki vel – vilja manni jafnvel illt, er veruleiki mannlegs lífs, og orðræða G.t. um óvini er þannig raunsönn lýsing. Óvinátta getur birst á ýmsan hátt en einmitt oft sem baktal og undirferli kryddað lygum og hálfsannleik.
Í guðspjallinu er það Jesús sem verður fyrir barðinu á fjandsemi ráðamanna sem birtist í undirferli og upplognum sökum í þeim tilgangi að koma honum fyrir kattarnef. Í huga Jesú leikur ekki vafi á því á hvers vegum andstæðingar hans eru því þeir hafna honum sem boðbera sannleikans og beita sjálfir lyginni sem vopni. Þess vegna segir Jesús við þá: „Þið eigið djöfulinn að föður og viljið gera það, sem faðir ykkar girnist. Hann var manndrápari frá upphafi og aldrei í sannleikanum, því í honum finnst enginn sannleikur. Þegar hann lýgur fer hann að eðli sínu, því hann er lygari og lyginnar faðir.“ Jesús lýsir djöflinum á þrenns konar hátt: Hann er manndrápari, í honum finnst enginn sannleikur og hann er lygari. Í raun er Jesús einnig að lýsa viðmælendum sínum með þessum orðum, sem hann veit að ætla að drepa hann og beita til þess lygum. Og hann bætir við þessum hárbeittu og mótsagnakenndu orðum: „En af því að ég segi sannleikann, trúið þér mér ekki.“ Sem er rökrétt þar sem þeir eru börn lyginnar. Þessi orðræða, þar sem manndráp og lygi eru tengd saman annars vegar en verk Jesú, sem snúast um að gefa líf og rétta við hið beygða, og sannleikurinn hins vegar, sýnir að í notkun Jóhannesar guðspjallamanns hefur orðið „sannleikur“ víðtækari merkingu en svo að það snúist bara um áþreifanlegar staðreyndir, hvort eitthvað sé hvítt eða svart, kringlótt eða ferkantað. Það má færa rök fyrir því að í orðinu „sannleikur“, eins og Jóhannes notar það, sé öll hugsun ritningarinnar um hið góða dregin saman í eitt orð, um réttlætið, sem stuðlar að framgangi lífsins mannlegri reisn, í stuttu máli allt það sem vinnur með og styður við markmið Guðs með sinni góðu sköpun. Ég á mér uppáhaldsvers úr Speki Salómons sem lýsir í einni setningu þessu markmiði: Guð skapaði allt til þess að það lifði. Og við sjáum þá að markmið Djöfulsins, manndráparans, er einmitt hið gagnstæða.
Í guðfræðilegri hugsun hans er Jesús holdgervingur Orðsins, Speki Guðs, einnig eins og hún birtist í helgum ritum þeirra. Það er því boðskapur og verk Jesú sem birtir sannleika Guðs og er þ.a.l. hin endanlega, rétta túlkun ritningarinnar, sem hann sjálfur setur fram í tvöfalda kærleiksboðorðinu. Það verður ekki skilið nema í ljósi gyðinglegs bakgrunns guðspjallanna og spurningarinnar um að fylgja helgisiða- og hreinleikalöggjöf G.t. út í ystu æsar. Afstaða Jesú, Páls og guðspjallamannanna er skýr: Lögmálshyggjan, eins og hún var orðin, gerði það að verkum að lögmálið var ekki lengur lífgefandi leiðsögn Drottins heldur var orðin að helsi. „Líf“ í þessu samhengi verður að skiljast í merkingunni líf sem er fyllt tilgangi og merkingu. Í Jóhannesarguðspjalli einkennist slíkt líf ekki af veraldlegum gæðum heldur andlegum.
„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ segir Jesús; í þessari þríþættu mynd má líta á veginn sem „leiðina, sem ber að ganga,“ sannleikann sem fordæmi Jesú um það „í hvaða anda maður skuli ganga“ og lífið sem takmarkið sem stefnt er að. Jesús gefur þannig ekki nákvæmar leiðbeiningar um það hvað við eigum að gera eða megum ekki gera en hann sýnir okkur með orðum sínum og sínu eigin fordæmi hvaða markmiði líf okkar skuli þjóna.
Jesús lætur spurningu Pílatusar ósvarað en þannig knýr hann okkur í raun hvert og eitt til þess að svara henni fyrir okkar leyti, andspænis aðstæðum eigin lífs. Megi andi sannleikans, heilagur andi, sem Kristur lofaði að senda í sinn stað, hjálpa okkur að komast að niðurstöðu sem þjónar vilja Guðs.
Dýrð sé Guði: Föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er enn og verða mun um aldir alda. Amen.
Takið postullegri blessun: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum. Amen.