Sálarþrif og iðrun

Sálarþrif og iðrun

Guðspjallið varðar ekki Ajax, Þrif eða brúnsápu. Nú er komið að sálarhreinsun. Skúrum sálina, er boðskapur skírarans, gerum hana skínandi skýra. Iðrumst! Berum ávexti samboðna iðruninni.

Iðrunarferli Árna Johnsen “Ég braut af mér og iðrast í dýpstu rótum hjarta míns” skrifaði Árni Johnsen í blaðagrein í lok nóvember. Hann hafði sagt í sjónvarpsviðtali, að hann hefði gert tæknileg mistök, sem hefðu síðan leitt til þess að hann var ákærður og dæmdur. Tæknileg mistök væru sakarefni. Heitu pottarnir bulluðu af umræðu. Ferlið allt var rifjað upp, dómsmálið og fyrri viðtöl.

Svo var farið að dusta rykið af hugtakinu iðrun. Gamalt orð um breytingu, úthverfingu var sett í endurvinnslu. Hvenær á maður að iðrast? Hvað er að iðrast? Hvenær iðrast maður nóg? Árni gerði sér grein fyrir, að hann hafði tekið “óheppilega” til orða og í kjölfarið töldu margir, að hann hefði gert þau tæknilegu mistök að tala um tæknileg mistök í stað afbrota. Árni gerði Morgunblaðið að skriftastól: “Það er fullkomlega eðlilegt og skylt að menn biðjist fyrirgefningar þegar þeir brjóta af sér, og iðrist af einlægni, það geri ég” (Mbl. 23.11. 2006).

Árni hlaut dóm og var refsað. Hvorki dómar hins opinbera né dómar heitu pottanna verða ræddir hér frekar. Prestur í stól gegnir ekki dómarahlutverki, heldur gengur erinda hugvekjunnar. Prédikunarstóll er ekki heldur refsingarstaður. Hlutverk prédikunar er að hvetja og styðja fólk til trúarlegrar greindar og visku. Ég dæmi því ekki í málum Árna Johnsen né annarra. En þessi iðrunarmál eru íhugunarefni á aðventu og raunar mikilvæg í lífi okkar allra, sem erum ekki fullkomin.  

Málfar trúarinnar Hin trúarlegu orð eru mismikið notuð. Um tíma detta þau úr tísku og hverfa úr eldhúskrókunum. Svo verða einhver tilefni til að þau ganga í endurnýjun lífdaga. En þessi hugtök og atferlið þeim tengd varða mikilvæga þætti, tjá víddir í lífsbaráttu fólks og opna lausnarleiðir. Þrátt fyrir ólík ytri kjör er fólk allra alda líkt. Áfram spyr fólk sig stóru spurninganna og notar til þess trúarlegt orðfæri og atferli. Iðrun er mikilvæg og er meira að segja sakramenti í kaþólsku kirkjunni og það merkir heilagt fyrirbæri til stuðnings lífi og heilbrigði.

Jóhannes Á aðventunni sprettur svo fram þessi Jóhannes skírari. Hann var víst heldur rosalegur, girtur úlfaldahárskápu og með belti um sig miðjan. Hann borðaði engisprettur og fór í villibýflugnabúin til að ná sér í hunang. Maður sér í huganum flugnasveiminn í kringum hann þegar hann var að afla sér fæðunnar. Við yrðum smeyk að mæta slíkum manni á Ægisíðunni. En hvaða hlutverki þjónar þessi dómharði siðapostuli? “Berið ávexti samboðna iðruninni” segir hann. Gefið, hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki eða svikum - er boðskapur hans. Látið ykkur nægja það sem ykkar er.

Þessari áminningu er skotið inn í textaröð aðventunnar til að við stöldrum við. Við undirbúum komu Guðsbarnsins. Við skúrum íbúðir okkar og reynum að hreinsa til fyrir jólin. Guðspjallstextinn um Jóhannes skírara varðar ekki Ajax, Þrif og brúnsápu. Nú er komið að sálarhreinsun, mín kæru. Skúrum sálina, er boðskapur skírarans, gerum hana skínandi skýra. Iðrumst! Berum ávexti samboðna iðruninni. Vinnum í þágu samfélags, gerum gott, ræktum réttlætið, verum heil gagnvart eigin húshaldi og göngum ekki á rétt annarra. Jólatrúin er siðferðistengd.Við sjáum ekki barnið vel í Betlehem ef sálarsjónir okkar eru illa hreinsaðar. Því kemur þessi kyrtilklæddi óþægindaprédikari til okkar, svo við förum yfir sálarmál okkar, göngum í okkur, iðrumst og losum okkur við það, sem vont er.

Opinber iðrun Iðrun getur verið opinber eða á einkasviðinu. Þjóðir og hreyfingar reyna að gera upp hræðileg mál, forystumenn hafa tjáð iðrun, beðist afsökunar eða fyrirgefningar. Forsætisráðherra Breta baðst t.d. afsökunar á, að Bretar hefðu ekki staðið sig þegar kartöflufár herjaði á Írland á sínum tíma. Bandaríkjaforseti viðurkenndi, að svartir menn hefðu verið misnotaðir í opinberri rannsókn á sífilis. Hann baðst afsökunar á athæfninu. Norska kirkjan, sem á sínum tíma var tillitslítil gagnvart Sömum, hafði síðar manndóm til að viðurkenna brot sín og baðst fyrirgefningar vegna afstöðu sinnar.

Opinberar persónur biðjast oft opinberrar afsökunar þegar illa hefur farið. Aðalleikarar í skemmtiiðnaðinum hafa t.d. margir iðrast drykkju og dópgerðir sínar. Sumar þessara afsökunarbeiðna eiga sér rót í raunverulegri iðrun og tjá vilja til betrunar. Um aðrar er kannski meiri vafi.

Er svo gaman Svo eru einkajátningarnar, sem við prestarnir heyrum þegar fólk kemur til að létta á sér og reyna að rísa upp að nýju. Oftast er fólk að vinna vel í sínum málum og viljinn til yfirbóta er raunverulegur. En hvatir, minningar og eftirsjá blandast auðvitað inn í. Ungum prestum í rússnesku kirkjunni eru gjarnan sagðar kennslusögur og þessi er ein þeirra:

Öldruð kona kom oft í kirkju og fór stundum til prestsins til að skrifta. Hún sagði gjarnan sögu af blóðríku ástarævintýri frá unglingsárunum, sem hafði ekki verið samkvæmt siðareglunum. Presturinn hlustaði þolinmóður meðan hún talaði. Svo bað hún, að henni yrði fyrirgefið. Hún fékk sína signingu og fór heim brosandi út að eyrum. Svo kom nýr, ungur, prestur, sem hlustaði á söguna með athygli og veitti aflausn. Konan kom svo aftur skömmu síðar og fór að segja nákvæmlega sömu söguna af sama funheita ástarævintýrinu. Presturinn varð óþolinmóður, stoppaði konuna af áður en kom að hápunkti sögunnar og benti henni á, að hún hefði áður farið yfir þetta mál. Það væri búið að fyrirgefa henni. En þá sagði konan: “En það er svo gaman að tala um þetta!”  

Af hverju “fyrirgefðu”? Sem sé, ástæður skrifta eru margvíslegar. Einar Jónsson, myndhöggvari, gerði sláandi mynd af manni með samviskubit. Verur glenna upp glyrnur, hvísla í eyra og vesalings maðurinn er sem frávita. Samviska heilbrigðs fólks slær. Sem betur fer eru flestir svo heillyndir og skynugir að vilja gera upp sín mál og draga ekkert undan. Aðrir eru fastir og ófærir um annað en kattaþvott. Yfirborðsmennsku iðka margir í samfélaginu og halda að hún skili arði. Margir telja það lakasta og síðasta úrræði, að viðurkenna eitthvað rangt, jafnvel þó illa hafi verið breytt. Þegar fyrirtæki eru ber að því forsóma öryggismál eða farið á svig við lög og gott siðvit er margt gert til að lágmarka þann skaða, sem slæm pressa gæti leitt til. Ráðnir eru orðslungnir spunameistarar til að draga athygli frá hinu ranga og lappa upp á ímyndina. Margir telja sér skylt, óháð kostnaði, að vernda hagsmuni, stjórnmálafl, hreyfingu, félagsskap eða fjölskyldu með því að tjalda tiltækum sýndartjöldum strax og reyna að lágmarka skaðann. Þegar svo er komið hafa menn hætt að skilja, að rangt er rangt, að allir lenda í einhverju misjöfnu og enginn er undanskilinn. Þegar menn hafa brotið af sér eiga menn að taka sinnaskiptum og biðjast afsökunar. Það eigum við að gera í tengslum við ástvini okkar og fjölskyldu, vini, vinnufélaga og samfélag. Óhreinindi safnast í lífi allra, hreinsun þarf að fara fram í lífi okkar allra, aðventan er upplögð að gera upp brotin.  

Inn, út og upp - iðrunarþrennan Stór hluti þjóðarinnar hefur farið í meðferð vegna einhverrar fíknar. Sá hópur og öll þau er vilja vinna með sinn innri mann eru meðvituð um að sálarskúringar eru mikilvægar. Það er hollt að muna eftir að iðrun á sér margar víddir. Ein er hvernig við játum út á við, gagnvart öðru fólki, félögum þjóð, veröldinni. Þetta er úthlið iðrunar.

Önnur er hvernig við játum afbrot okkar gagnvart sjálfum okkur. Það er innhliðin. Engin iðrun gengur upp nema einstaklingurinn vilji horfa á misgerðir sínar. Margir eru svo sjálfhverfir, að raunveruleg brot geta þeir ekki viðurkennt heldur reiða fram skýringar á aðstæðum sem ollu, reyna að forðast að axla ábyrgð og kenna alltaf öðru eða öðrum um. Þetta er fólkið sem ber sár í sálardjúpum, hefur oft farið á mis við djúpa elsku í bernsku, orðið fyrir ofbeldi eða harðræði og eiga því ekki traust og styrk í djúpi eigin lífs. Það þarf sálarstyrk til að viðurkenna afbrot og biðjast afsökunar. Það er auðvelt að segja, en ekki auðvelt að gera.

Svo er þriðja víddin og hún varðar Guð. Trúlaus maður hefur ekki þetta algera viðmið, en trúmenn reyna að rækta með sér þá vitund að varajátning og sýndariðrun séu einskis virði. Guð sér og er hið endanlega viðmið. Þetta er iðrunarþrennan, inn, út og upp! Síðan er reyndar fjórða víddin, sem er hin starfandi iðrun, að láta gott af sér leiða, bæta skaðann, gera upp, veita kærleika inn í æðar umhverfisins.

Styrkur og úthverfing Margir halda, að iðrun geri menn aumingjalega, að lúkkið sé ekki nægilega gott. Iðrun er mál vaxtar. Að iðrast er alls ekki það að gera lítið úr sjálfum sér, heldur þvert á móti að vera svo mikill maður að þora að horfast í augu við bresti sína, viðurkenna athæfi sem er rangt, vera maður til að færa í orð það sem rangt hefur verið gert og fara að hegða sér betur.

Á málum Vesturlanda eru ýmis hugtök um það að iðrast, orð sem merkja eftirsjá, sorg, einhvers konar eftirádepurð. Ég held, að íslenska orðið iðrun sé það myndrænasta og besta af öllum þessum orðum. Það er tengt orðinu iður, innyfli, það sem er innan í þér. Að iðrast er að fara inn á við og úthverfa, að leyfa öllu sem er þarna innra að koma í ljós. Hinu illa er þá ælt út, komið út í dagsljós sannleikans. Þegar búið er að kasta því upp er það nefnt og þeir, sem hafa orðið fyrir barðinu eru beðnir fyrirgefningar, beðnir afsökunar. Þá er hægt að fyrirgefa þegar búið er að vinna svo vel að málum.

Trúarvíddin Jóhannes skírari vildi fá menn til að skilja, að Guð horfir á hjarta mannsins. Guð vill, að menn séu meira en tæki í leikriti samfélagsins, leppar í valdapoti, málaliðar í sýndarveruleika. Jesús horfði aldrei á útlit manna, heldur í djúp augna, leit á innræti að baki varnarháttum. Trúin setur innri mann, heiðarleika í forsæti. Maðurinn getur engst svo í neti samfélagsdóma, að hann slíti sig lausan og nái að synda út í strauminn að nýju, en maðurinn flýr aldrei kærleiksdóm Guðs. Menn geta með brelluviti lengt leikinn í samfélagsleikritinu, en aldrei aukið hamingju sína né unnið að eilífðargróða sínum með prettakúnst gagnvart Guði.

Aðventan er hreinsunartími. Við reynum að ná blettunum. Ekkert þrifafyrirtæki tekur að sér að þrífa sál þína, engir sálfræðingar, ekki AA hreyfingin, ekki kirkjan. Við þurfum öll að staldra við. Aðeins þú, með hjálp Guðs góða anda, getur þrifið, frammi fyrir spegli sálar þinnar og frammi fyrir augliti Guðs. Þar erum við komin að kjarna iðrunar. Notaðu tímann í syndajátningunni. Iðrun er fólgin í að sjá að sér, hverfa frá villu síns vegar og hefja nýtt líf. Það er á þínu valdi og Guð mun hjálpa þér. Guðsbarnið er á leiðinni til þín.  

Amen

Prédikunin var flutt í Neskirkju, þriðja sd. í aðventu, 17. desember, 2006.

Lexía Jes.40. 9-11 Stíg upp á hátt fjall, þú Síon fagnaðarboði! Hef upp raust þína kröftuglega, þú Jerúsalem fagnaðarboði! Hef upp raustina, óttast eigi, seg borgunum í Júda: Sjá, Guð yðar kemur! Sjá, hinn alvaldi Drottinn kemur sem hetja, og armleggur hans aflar honum yfirráða. Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum. Eins og hirðir mun hann halda hjörð sinni til haga, taka unglömbin í faðm sér og bera þau í fangi sínu, en leiða mæðurnar.

Pistill 2. Pét. 1. 19-21 Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar. Vitið það umfram allt, að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda

Guðspjall Lk.3.1-9 (10-14) 15-18. Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni. Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans. Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur. Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs. Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði? Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: Vér eigum Abraham að föður. Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum. Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Mannfjöldinn spurði hann: Hvað eigum vér þá að gjöra? En hann svaraði þeim: Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur. Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: Meistari, hvað eigum vér að gjöra? En hann sagði við þá: Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt. Hermenn spurðu hann einnig: En hvað eigum vér að gjöra? Hann sagði við þá: Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar. Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. En Jóhannes svaraði öllum og sagði: Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi. Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.