Sl. 32:1-7 1.Jh 1:5-10 Lk. 7:36-50 Biðjum: Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesús Kristi. Amen. Í dag ætla ég að tala um fyrirgefninguna. Ég ætla að tala um fyrirgefningu Guðs og einnig fyrirgefningu okkar hvert gagnvart öðru. Þögnin – þöggunin Við þekkjum það hvert á sinn máta hvað þöggun og afneitun geta verið erfið viðfangs. Afneitun: Þegar ekki má tala um erfiða reynslu, sjúkdóma, breyskleika hverskonar, syndir og brot okkar hvert gagnvart öðru. Þöggun: Þegar ofbeldi hefur viðgengist, andlegt, líkamlegt. Þegar ekki má ræða um erfið mál í fjölskyldum, lofta út, gera upp, koma hlutum á hreint. Eins þar sem sorgin hvílir þungt á fólki eftir ástvinamissi og ekki má ræða um hinn látna, rifja upp góðar stundir og einnig slæmar.
Í þessum aðstæðum og fleirum getur þögnin verið æpandi og sár. ,,Meðan ég þagði tærðust bein mín” segir sálmaskáldið í Davíðssálmi 32. Mannlegt líf Mannlegt líf er svo oft frásaga af misgjörðum hverskonar en einnig oft frásaga af því er fólk leitar sátta, nær að sættast við náunga sinn, sjálfan sig og Guð. Skrefin þar á milli, misgjörðar og sáttagjörðar, geta hins vegar verið allmörg.
Að fyrirgefa er grundvöllur sáttagjörðar.
Fyrirgefningin er stundum misskilin eins og það sé nóg að segja bara ,,fyrirgefðu!” Að fyrirgefa felur ekki í sér að fyrirgefa aftur og aftur sama hlutinn og gleyma bara þar á milli því slæma og halda áfram í blindni heldur er nauðsynlegt að læra af reynslunni og lofa að hið slæma komi ekki fyrir aftur.
Til að fyrirgefning sé möguleg er þörf á viðurkenningu, játningu á því hvar sökin liggur. Hvers er sökin, ef hún er einhvers? Hinn seki þarf að sjá eftir sínu athæfi, játa, iðrast, og lofa að bæta sig, leggja sig fram um að laga það sem brotnað hefur og jafnvel taka út sína refsingu þar sem það á við.
En sumir atburðir og ofbeldisverk eru hins vegar ekki á færi þolanda að fyrirgefa. Þá er hægt að biðja Guð, fela Guði það allt, reyna að sleppa tökunum. Iðrunin er mikilvægt skref í átt að sáttargjörðinni. Davíðssálmur 32 Davíðssálmurinn fjallar um þetta. ,,Sæll er sá sem afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin”. Sálmurinn fjallar um mannlega reynslu þess sem er fullur sektarkenndar og iðrunar, en finnur frið í trúnni, skjól og björgun hjá Guði. Finnur fyrirgefningu, svölun og líkn. Í textanum er talað um synd. Gríska orðið ,,hamartía” sem við þýðum sem synd er fengið úr íþróttunum og merkir skot sem geigar. Einhver orðaði það þannig að synd væri gjáin milli Guðs og manns. Sú gjá sem myndast þegar maðurinn hafnar Guði, eða reiknar ekki með honum í sínu lífi.
Orð sálmaskáldsins í Davíðssálmi 32 eru reynslusaga þess sem leitar til Guðs með syndir sínar, játar afbrotin og finnur skjól, björgun og fögnuð.
Sálmaskáldið vill hvetja alla menn til að treysta hinum miskunnsama, náðuga Guði sem allt vill gefa, jafnvel sinn einkason, því leiðin til ljóssins er öllum opin, öllum fær.
Að ganga í ljósinu
Það var einhver sem orðaði það þannig að dýrlingar eru ekki þeir menn sem aldrei syndga eða hafa gert neitt af sér, heldur einmitt þeir sem eiga slíka reynslu og hafa jafnvel gert ýmislegt af sér, en hafa lært af reynslunni, beðist fyrirgefningar, iðrast, leitað sáttagjörðar og valið að vera ljóssins megin.
Postulinn talar einmitt um ljósið og myrkrið, syndina og fyrirgefninguna.
Syndin er hluti af okkar lífi, við þurfum öll á því að halda að biðjast fyrirgefningar, iðrast, leita sátta. Postulinn hvetur viðmælendur sína einmitt til að játa syndir sínar, gera upp hlutina, hreinsa til og lofta út.
Það er óhætt að treysta Guði, því Drottinn er trúr og réttlátur, hann fyrirgefur syndirnar og hreinsar hinn trúaða af öllu ranglæti, eins og segir í textanum.
Þar sem þögnin tærir beinin þar ríkir myrkur. En þar sem sannleikurinn leikur um varir, hug og hjarta þar er ljós. Guð er ljós og þar sem menn eru sannleikans megin er Guð með í för.
Hvað einkennir gönguna á ljóssins vegi? Þar eru lögmál Drottins virt og einnig rétturinn, réttur allra manna, heiðarleikinn er við völd, góðvild í samskiptum og auðmýkt, hógværð í öllum hlutum og langlyndi. Kærleikurinn er þar yfir og allt um kring í hugsun, orði og gerð. Slík vegferð er ljósum prýdd friðarleið.
Svo er það dæmið
Guðspjallið geymir dæmisögu um einmitt það sem lexían og pistillinn fjalla um. Dæmisagan fjallar um fyrirgefninguna, fyrirgefningu Guðs.
Blessaðir farísearnir eru alltaf í þessu leiðindarhlutverki að gagnrýna Jesú.
Farísearnir fóru eftir ströngum reglum. Þeir máttu ekki að tala við hvern sem var, sumir voru óhreinir, til dæmis þeir sem þeir flokkuðu sem hina syndugu.
Það er svolítið skemmtileg þversögn í þessum textum. Lexían og pistillinn hvetja fólk til að játa syndir sínar. Konan í guðspjallinu er kölluð bersyndug, sem þýðir að fólk vissu hvað hún hafði gert rangt. Hennar syndir voru opinberar, afleiðingar þess voru að farísearnir töluðu ekki við hana. Þar var enga auðmýkt eða fyrirgefningu að finna, aðeins hroka, hörku og dóm.
Jesús Kristur tók henni hins vegar blíðlega. Hún grét við fætur hans og ekki nóg með það, heldur þerraði fætur hans með hári sínu og bar síðan á fæturna smyrsl og hann tók við þeim bliðuhótum.
Það getur verið erfitt að fyrirgefa, erfitt að taka við fyrirgefningu, ef einhver hefur gert á hlut manns. Jesús leyfir henni að sýna sér sitt rétt andlit og þar með gefur henni færi á því að ganga frá myrkrinu til ljóssin.
Auðvitað er þetta táknrænt, konan er þarna að gera upp sakirnar, játa, iðrast, leita sátta, sýna auðmýkt, sýna elsku og umhyggju.
Henni mætir skilningur, skilningur á einmitt því að allir menn eru syndugir og skortir Guðs dýrð.
Hann segir við hana: ,,Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði!”
Þetta eru einmitt orð Guðs til þeirra sem játa, iðrast í raun, leita sátta og fyrirgefningar. Orðin sem Guð vill gefa eru þessi: ,,Trú þín hefur frelsað þig, far þú í friði!”
Ef þögnin tærir beinin þá er játningin og iðrunin eins og kalk og steinefni fyrir beinin, byggir þau upp. Byggir lífið upp, reisir við og gerir heilt.
En hver er þessi Jesús?
Dæmisagan sem Jesús segir um skuldarana tvo er skýr. Annar skuldaði meira en hinn, en báðir fengu skuldir sínar afskrifaðar, það er augljóst og auðskilið hvað Jesús á við. Auðvitað er sá feignari sem skuldaði meira, sem hafði syndgað meira, sem meira er fyrirgefið.
Drottinn er Guð miskunnsemdanna og Guð allrar huggunar. Hann fyrirgefur misgjörðir.
En hvers er að fyrirgefa syndir, spyr faríseinn í textanum. Er það ekki bara Guð sem getur fyrirgefið syndir?
Það er bara Guðs að fyrirgefa syndir. Hver er þá þessi Jesús að hann setji sig í þessi spor?
Jesús er ekki bara smiðssonurinn frá Nazaret heldur er hann Kristur, sonur hins lifandi Guðs.
Eins og segir í litlu biblíunni: ,,Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.” (Jh. 3:16)
Jesús Kristur var og er og verður. Hann frelsaði konuna frá syndum sínum, hann frelsar þig einnig frá syndum þínum og hvetur þig að fyrirgefa náunga þínum, leita sátta.
Efnahagshrun
Talað hefur verið um það að samfélag okkar nú þurfi á sáttargjörð að halda eftir efnahagshrunið og erfiðleikana sem að steðja vegna þess.
Sú sáttargjörð getur aldrei orðið nema réttlætið, réttvísin og kærleikurinn haldist hönd í hönd. Hinir seku, eða réttara sagt þeir sem bera meiri ábyrgð en aðrir þurfa að játa ábyrgð sína, sekt sína. Játningin er forsenda þess sem á eftir kemur. Iðrunar, fjárhagslegs og réttarfarslegs uppgjörs, fyrirgefningar og þess að ný sátt verði byggð til framtíðar, samhliða endurreisn allri.
Öll erum við börn Guðs. Guð skapari, frelsari og helgari er Guð okkar allra og elskar sérhvers mann. Guð elskar syndarann og hatar syndina, eins og segir.
Skírnarkjóllinn minnir okkur á þetta, hann er hvítur og barnssálin tær, þannig sér Drottinn lærisveina sína.
Játum syndir vorar
Við heilagt borð eigum við samfélag við hann, sem fyrirgefur. Og áður en við göngum þangað förum við saman með syndajátningu og segjum eitthvað á þessa leið: ,,Ég játa fyrir þér almáttugi Guð, skapari minn og lausnari að ég hef margvíslega syndgað í hugsunum orðum og gerðum. Fyrirgef mér sakir miskunnar þinnar og leið mig til eilífs lífs til dýrðar nafni þínu”.
Þau orð eru ekki bara orð, heldur játning, og hvert og eitt okkar eigum hugsanir um atburði, aðstæður, einstaklinga og annað sem okkur tengist. Drottinn veit það og þekkir það allt og vill rétta hlutinn, létta byrgðunum, frelsa þig og veita þér frið í dag og alla daga. Þar sem sannleikurinn ríkir þar ríkir friðurinn.
Jesús Kristur sagði við lærisveina sína er hann blessaði bikarinn og braut brauðið: ,,Gerið þetta svo oft sem þér etið og drekkið í mína minningu!”. Á sunnudögum endurtökum við gönguna að altarinu, sakramenti altarisgöngunna, vegna þess að við þurfum stöðugt á því að halda að minna okkur á, hreinsa hug og hjarta, snúa okkur til Guðs, leita sátta í okkar lífi, finna frið.
Hitt sakramentið, skírnin, er framkvæmt einu sinni á ævigöngu hvers og eins. Í skírninni er skírnarþegi markaður tákni lífsins að eilífu, og Drottinn tekur við þeim einstakling í sinn söfnuð, sem er söfnuður lífsins og hefur ritað nafn barnsins í sína eilífu lífsins bók.
Eins og foreldrarnir elska barnið sitt, þannig elskar Drottinn alla menn, og þar með þig og mig. Eins og Drottinn fyrirgefur okkur syndirnar skulum við vera fús að fyrirgefa hvert öðru.
Fyrir miskunn sína og eilífa trúfesti sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.