Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu að hugga þær eftir bróðurmissinn.Þegar Marta frétti, að Jesús væri að koma, fór hún á móti honum, en María sat heima. Marta sagði við Jesú: Herra, ef þú hefðir verið hér, væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég, að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.
Jesús segir við hana: Bróðir þinn mun upp rísa. Marta segir: Ég veit, að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.
Jesús mælti: Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?
Hún segir við hann: Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn. Jóh. 11. 19-27
Inngangur „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“ Orð sem einu sinni voru sögð, orð sem rötuðu í bók, orð sem enn hljóma yfir hverjum látnum einstaklingi sem borinn er til grafar í okkar kirkju: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“
Margir eiga um sárt að binda um þessar mundir vegna ástvinamissis af völdum slysa eða sjúkdóma. Í þeim sporum sækja á fólk erfiðar tilvistarspurningar: Hver er merking lífsins? Er einhver tilgangur í þessu öllu saman? Hver er ég? Til hvers er ég? Hvað verður um mig?
Sagt er að margt nútímafólk í hinum tæknivædda heimi telji sig ekki þurfa á Guði að halda. Sé það rétt að tækni og framfarir á sviði vísinda dragi úr þörfinni fyrir Guð, hvers vegna er þá umræða um trú og trúarbrögð enn svo mikil á meðal fólks sem raun ber vitni og birtist m.a. í fjölmiðlum bæði austan- og vestanhafs.
Skáldskapur? „Ég er upprisan og lífið.“ Orð á bók, máttug orð sem lifa um aldir. Eru þau skáldskapur eða raunveruleiki? Nú stendur fyrir dyrum bókmenntahátíð þar sem margir athygliverðir höfundar lesa úr verkum sínum. Hlutverk skálda er stórt og mikið og hefur ávallt verið. Glíma mannsins við tilvist sína birtist meðal annars í skrifum skálda. Skáld gegna mikilvægu hlutverki í tilverunni og í raun allir sem tjá sig um veruleikann hvort sem það ratar á prent eða ekki. Í skáldskap leitast menn við að ráða í rúnir tilverunnar. Lítum snöggvast á texta sem birtist í Lesbók Morgunblaðsins í gær þar sem fjallað er um hlutverk skálda:
„Eftir að raunvísindin ruddu burt þeim stoðum sem heimsmynd trúarbragðanna hvíldu á, og boðskapur kirkjunnar um líf handan hins jarðneska var komin í mótsögn við flest það sem vísindin hafa leitt í ljós, hefur mannkynið orðið fyrir . . . missi . . . Við höfum glatað hugmyndinni um eilíft líf og við blasir hið ægilega tóm dauðans. Sagan sem trúin sagði okkur um upprisuna og sigurinn yfir dauðanum huggar okkur ekki lengur. Til að breiða merkingu og mennsku yfir hina ægilegu ómennsku dauðans þurfum við nýja sögu, eða sögur . . . Raunar má segja að allt frá dögum rómantísku stefnunnar hafi skáldin verið að reyna að fylla upp í þessa eyðu. Ímynd rithöfundarins eins og hún hefur birst okkur Vesturlandabúum undanfarnar tvær aldir hefur orðið til vegna þess að það vantaða einhvern til að fylla upp í það tóm sem trúin skildi eftir þegar guð yfirgaf hjörtu okkar. Skáld eins og Victor Hugo, Dostojevskí, Tolstoj, jafnvel Halldór Laxness, leituðust við að gæða heiminn merkingu í stað þeirrar sem við höfum glatað.“ (Torfi H. Tulinius, prófessor í frönsku og miðaldafræðum um rithöfundinn Paul Auster, í Lesbók Mbl. 10.9. 2005 s. 1).
Hér er talað um missi sem mannkynið hefur orðið fyrir. Erum við vaxin upp úr frásögum bókar bókanna? Er hér verið að vísa til glataðrar heimsmyndar eða bara gleymdrar? Hvað getur prestur, sem hefur þá köllun að að leita merkingar lífsins í ljósi orða Krist, sagt við þessari þróun? Á hann að segja upp starfi sínu og berjast fyrir því að kirkjan hætti starfsemi sinni og vísa fólki til skáldanna eins og hjörð er vísað á betri haga?
Er trúin kannski ekki lengur í tísku? Er hún úrelt, gengin sér til húðar? Erum við vaxin upp úr því að trúa?
Sveiflur í trúarefnum eru ekki nýjar af nálinni. Evrópa hefur smátt og smátt fjarlægst trú á liðnum öldum og áratugum. Veraldarhyggja – sekúlarismi – hefur sótt á og því er haldið fram að trúin skipti minna máli í lífi fólks en oft áður. En er það rétt? Evrópska gildakönnunin sem framkvæmd hefur verið með reglubundnum hætti s.l. 30 ár sýnir að 74% íbúa Evrópu segjast trúa á „Guð, anda eða lífskraft“.
Hver er lífsgrundvöllurinn? Margt er það í samtíðinni sem knýr okkur til að leita svara um hinstu rök. Umræðan í fjölmiðlum um vaxandi áhrif múslima í álfunni hefur t.d. leitt margt Evrópufólk til endurmats á eigin lífsviðhorfum og trú. Hver er lífsgrundvöllurinn? Til skamms tíma stóð styrinn á milli kristinna viðhorfa annars vegar og veraldarhyggju hins vegar. En í framtíðinni kunna pólarnir að verða þessir: hefðbundin trúarbrögð annars vegar og veraldarhyggja hins vegar. Þróunin kann ennfremur að hníga í þá átt að trúhneigð (sama hver trúin er) takist á við trúleysi veraldarhyggjunnar, að Gyðingdómur, islam og kristni og jafnvel fleiri trúarbrögð myndi saman heild andspænis veraldarhyggju eða trúleysi.
„Andlegar öldur í veraldlegu hafi“ Trúarbrögðin eru komin á kortið á meira áberandi hátt en oft áður í Evrópu. Framganga islamskra öfgamanna hefur skekið tilvistargrunn fólks víða um heim. Slíkir skelfilegir atburðir kalla ekki aðeins á öfgafull viðbrögð. Þeir kalla einnig fram mild og hljóðlát viðbrögð sem birtast í því að fólk hugsar meir um andleg málefni en oft áður. „Guð er aftur á meðal menntamanna“, segir Aleksander Smolar, leiðandi hugsuður í Evrópu, sem stýrir Stefan Batori Stofnuninni í Varsjá og kennir við Sorbonne háskóla í París. Hann segir að hægt sé að greina vissa sálarkreppu í Evrópu. Fólk er sér þess betur meðvitandi að tómarúm hefur myndast og að veraldarhyggjan hefur siglt í strand. Á vissum sviðum er meira að segja talað um vakningu t.d. meðal hreyfingar innan kaþólsku kirkjunnar sem kennir sig við nýjan veg (New Path Community). Og segja má að nýjar andlegar öldur, byltist nú í hinu veraldlega hafi.
Stefnur og straumar úti í hinum stóra heimi hafa e.t.v. lítil sem engin áhrif á okkur. Gengi trúarinnar fer upp og niður í álfunni. Og gengi kristinnar trúar er á margan hátt sterkt hér á landi á eins og krónan.
Hvað sem líður skoðunum annarra erum við hér saman komin til samfélags við Guð og hvert annað. Hér heyrum við enn á ný máttugustu orð sem mælt hafa verið yfir látnum einstaklingi, orð sem enn eru mælt við hverja útför í okkar kirkju:
„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi.“
Eru þessi orð úrelt? Erum við vaxin upp úr huggunarorðum Krists? Eru þau aðeins bergmál gamalla gilda, úreltra lífsviðhorfa, horfin speki, gamaldags og þar með best geymd í bókinni sem ekki er lengur bók bókanna, rykfallinni í hillu þar sem hún er til skrauts meðal annarra gullbryddaðra kjala? Úrelt skraut í híbýlum deyjandi fólks.
„Ég er upprisan og lífið.“ Jesús Kristur segist sjálfur vera lausnin á vanda mannsins. Í forgengilegum heimi er persóna hans sem krossfestur var á Golgata eina lausnin andspænis dauðans grimmum greipum. Þess vegna er krossinn hér á kórvegg og altari. Þetta hræðilega aftökutól er orðið að sigurtákni vegna þess að kynslóðirnar hafa fest traust sitt á hinum upprisna frelsara sem gefur lífið.
Skáld og menntamenn halda áfram glímu sinni við lífið og tilveruna og þannig verður það og á að vera. En jafnframt lifir trúin í hjörtum einhvers hluta íbúa þessa lands og landanna í kringum okkur og líka í hjörtum skálda. Gengi trúarinnar sveiflast en gufar aldrei alveg upp. Túin í fyrrum Sovétríkjunum lifði af ofsóknir og gríðarlega áróðursvél guðleysis. Þegar við stöndum yfir gröf ástvinar þýðir lítið að þylja hagtölur og vísitölur og enn síður að boða guðlausa veraldarhyggju eða bjarma morgundagsins sem vísindi og stjórnmál boða gjarnan. Andspænis grimmum örlögum sjúkdóma, slysa og dauða eru svörin við uppruna okkar, þjáningu og dauða, að finna í orðum hins upprisna, í orðum hans sem birtist fylgjendum sínum lifandi eftir grimmilegan krossdauða.
Í heimi samtímans er margt sem ógnar manninum og mennskunni. Þrátt fyrir tækniframfarir er maðurinn örsmár andspænis öflum náttúrunnar eins og sannast aftur og aftur. En maðurinn er ekki aðeins smár andspænis náttúruöflunum. Hann er líka varnarlaus á margan hátt fyrir andlegum fellibyljum og eitraðri hugmyndafræði sem birtist m.a. í áróðri afþreyingariðnaðarins og í þeirri fölsku trú á að allt sé leyfilegt og að ekkert geti skaðað manninn í taumlausri skemmtun og upplausn allra góðra gilda.
Við stöndum ávallt á mærum tveggja heima. Annars vegar lifum við í þessum undursamlega og fallega heimi sem um leið er heimur böls og þjáningar og hins vegar bíður okkar betri tíð, betri heimur, endurskapaður fyrir tilstilli Guðs, með tilkostnaði þjáningar og dauða. Allt var það unnið vegna þess að Guð sleppir ekki hendi af sköpun sinni. Og enn hljóma orð hins upprisna til okkar, mitt inn í glímu okkar við eigin tilvist:
„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa, þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“
Og svo bætti hann við þessari spurningu til Mörtu og þeirri spurningu er einnig beint til okkar:
„Trúir þú þessu?“
Og hún svaraði:
„Já, herra. Ég trúi, að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“
Er það ekki svarið okkar líka? Er hann ekki lausnin? Og er það ekki undursamlegt að finna hlýja, andlega bylgju hins upprisna, berast til sín í hafi veraldarhyggjunnar?
Þess vegna getum við sagt:
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Við ritun prédikunarinnar var m.a. stuðst við grein úr The Christian Science Monitor: What place for God in Europe? eftir Peter Ford.